Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Mynd 1. Kynbótamatið fyrir „lifun kálfa“ og „gang burðar“ skiptist í átta undireinkunnir. Útbúnar hafa verið tvær samsettar einkunnir úr undireinkunnunum: Burður feðraáhrif og burður mæðraáhrif.
Mynd 1. Kynbótamatið fyrir „lifun kálfa“ og „gang burðar“ skiptist í átta undireinkunnir. Útbúnar hafa verið tvær samsettar einkunnir úr undireinkunnunum: Burður feðraáhrif og burður mæðraáhrif.
Á faglegum nótum 3. janúar 2024

Kynbótamat fyrir „lifun kálfa“ og „gang burðar“

Höfundur: Þórdís Þórarinsdóttir og Guðmundur Jóhannesson, ráðunautar á búfjárræktar- og þjónustusviði.

Kynbótamat fyrir tvo nýja eiginleika hefur nú litið dagsins ljós í skýrsluhaldskerfi nautgriparæktarinnar, Huppa.is, og á nautaskrá.is.

Eiginleikarnir sem um ræðir kallast „lifun kálfa“ og „gangur burðar“ og er matið þróað af Agli Gautasyni, lektor hjá LbhÍ. Við vonumst til að birting þessa kynbótamats geti hjálpað okkur í baráttunni gegn allt of miklum kálfadauða í íslenska kúastofninum.

Mat fyrir lifun kálfa (LK) byggir á gögnum sem ná aftur til 2004 og flokkast mælingar í tvo flokka; dauðfæddir kálfar og kálfar sem fæðast lifandi. Í mati fyrir gang burðar (GB) eru til gögn frá árinu 2018 þegar byrjað var að safna upplýsingum um burðarerfiðleika í burðarskráningum gripa í Huppu og skiptist burðarerfiðleikaskráningin í fjóra flokka. Mat fyrir LK og GB skiptist í einkunnir fyrir 1) burð hjá 1. kálfs kvígum og 2) burði hjá eldri kúm. Að auki skiptist matið í einkunnir fyrir mæðraáhrif og feðraáhrif/bein áhrif. Ástæða þess er sú að við hvern burð fá tveir einstaklingar mælingu: Móðir kálfsins og kálfurinn sjálfur. Mæðraáhrif eru áhrif móður á burðinn en feðraáhrif/bein áhrif eru áhrif kálfsins á eigin fæðingu. Mat fyrir LK og GB skipist því í átta undireinkunnir: LK 1 feðraáhrif, LK 2 feðraáhrif, LK 1 mæðraáhrif, LK 2 mæðraáhrif, GB 1 feðraáhrif, GB 2 feðraáhrif, GB 1 mæðraáhrif og GB 2 mæðraáhrif.

Til þess að gera matið skýrara í framsetningu, meðal annars, eru auk þess birtar tvær samsettar einkunnir: Burður feðraáhrif (BFA) og burður mæðraáhrif (BMA) (sjá mynd 1). Samsettu einkunnirnar eru birtar á nautaskra.is en í Huppu má sjá allar einkunnir með því að velja grip, flipann kynbótamat og svo allar einkunnir. Ef litið er til þessara einkunna hjá sæðinganautum lýsir BFA getu afkvæma nautanna til að fæðast lifandi og auðveldlega. Því hærri einkunn, því meiri líkur á að kálfar undan viðkomandi nauti fæðist vandkvæðalaust og lifandi. Ef horft er á þessar einkunnir hjá kúm gildir í raun það sama, hærri einkunn þýðir meiri líkur á að kálfar sem kýrin eignast fæðist lifandi og án átaka vegna áhrifa kálfsins á eigin burð. Einkunn fyrir BMA lýsir getu dætra nautanna til að eignast lifandi kálfa á auðveldan hátt. Því hærri einkunn, því meiri líkur á að dætur viðkomandi nauts muni bera lifandi kálfum án vandkvæða. Ef verið er að horfa á þessa einkunn hjá kúm þýðir hærri einkunn meiri líkur á að kýrin beri lifandi kálfum vandkvæðalaust vegna eigin áhrifa á burðinn.

Mikilvægt er að hafa í huga að mat fyrir þessa eiginleika er spá fyrir gripi sem ekki hafa reynslu, eins og er raunin með allt kynbótamat ungra gripa. Hátt mat þýðir ekki að allir kálfar fæðist lifandi né heldur að lágt mat segi til um að allir kálfar fæðist dauðir. Matið segir til um ákveðnar líkur og lág einkunn þýðir þá meiri líkur á dauðfæddum kálfum og hátt mat minni líkur.

Nýju einkunnirnar eru ekki hluti af heildarkynbótaeinkunn gripa.

Nýting við bústjórn

Kynbótamat þessara eiginleika er hægt að hagnýta sér sem bústjórnartæki. Naut sem fá lágt mat fyrir BFA ætti sem dæmi að forðast að nota á kvígur og nota þau frekar á eldri kýr sem hafa borið einu sinni eða oftar. Á sama hátt er hægt að horfa á matið fyrir BMA á þann hátt að dætur nauta með hátt mat fyrir þann eiginleika eiga auðvelt með að fæða lifandi kálfa.

Þannig er hægt að vega og meta eiginleikana saman til þess að minnka líkur á dauðfæddum kálfum. Kynbótamatið á því að geta hjálpað okkur til þess að draga úr tíðni dauðfæddra kálfa.

Kálfadauði á Íslandi

Of mikill kálfadauði, sér í lagi hjá 1. kálfs kvígum, hefur verið viðvarandi vandamál í íslenska kúastofninum. Í gagnaskrá kynbótamatsins, sem nú spannar 20 ára tímabil aftur í tímann, fæðast eingöngu 74% kálfa undan 1. kálfs kvígum lifandi. Í tilfelli kálfa sem fæðast við annan og þriðja burð er hlutfallið 91%. Engin ein skýring er á þessu vandamáli en ýmis umhverfisáhrif, s.s. bústjórn, virðast eiga stóran þátt. Árið 2021 birti RML skýrslu um þessi mál: „Kálfadauði hjá fyrsta kálfs kvígum“ en hana má finna á þessari vefsíðu https://www.rml. is/is/kynbotastarf/nautgriparaekt/ fagrad-i-nautgriparaekt/verkefni.

Einhver hluti virðist þó vera erfðatengdur en arfgengi fyrir „lifun kálfa“ hjá 1. kálfs kvígum (LK 1) er 7-9%. Þá er erfðaþróun LK 1 feðraáhrif neikvæð sem þýðir að aukning á kálfadauða er ekki einungis vegna umhverfisáhrifa heldur einnig erfðaþátta. Vegna þessa vega LK 1 feðraáhrif og LK 1 mæðraáhrif 70% í samsettum einkunnum fyrir burð feðraáhrif (BFA) og burð mæðraáhrif (BMA).

Dæmi um naut með reynslu

Í meðfylgjandi töflu má sjá nokkur naut með reynslu og einkunnir þeirra fyrir samsettu einkunnirnar, BFA og BMA. Bolti 09021 og Dropi 10077 fá lágar einkunnir fyrir BFA en hlutfall lifandi fæddra kálfa undan þeim og 1. kálfs kvígum er undir meðallagi. Loki 12071, Ýmir 13051, Risi 15014 og Jötunn 17026 fá hins vegar góðar einkunnir fyrir BFA þar sem hlutfall lifandi kálfa undan þeim og 1. kálfs kvígum er yfir meðaltali.

Ef litið er á einkunn fyrir BMA fá Bolti 09021, Loki 12071 og Ýmir 13051 lágar einkunnir enda er hlutfall dætra þeirra sem eignast lifandi kálf við fyrsta burð undir meðaltali. Í tilviki Dropa 10077, Risa 15014 og Jötuns 17026 snýst dæmið við og hærra hlutfall dætra þeirra eignast lifandi kálfa við 1. burð. Einkunnir þeirra eru því hærri.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...