Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Haghpat-klaustrið var byggt skömmu fyrir árið 1000.
Haghpat-klaustrið var byggt skömmu fyrir árið 1000.
Mynd / VH
Á faglegum nótum 28. desember 2021

Fyrsta kristna landið

Höfundur: Vilmundur Hansen

Armenía er landlukt ríki í Kákasus sem á landamæri að Georgíu, Aserbaídsjan, Íran og Tyrklandi. Flatarmál Armeníu er um 1/3 af flatarmáli Íslands og íbúar landsins eru um þrjár milljónir og þar af býr um ein milljón í höfuðborginni Jerevan.


Austurhluti landsins var á nítjándu öld hluti af rússneska keisaradæminu en vestari hlutinn undir stjórn Tyrkja. Armenía var eitt af stofnríkjum Sovétríkjanna en lýsti yfir sjálfstæði árið 1991 þegar sovéska ríkjasambandið liðaðist í sundur.


Af selebum sem eiga ættir sínar að rekja til Armeníu er Kardashian-slektið, söngkonan Cher, Garry Kasparov, einn besti skákmaður allra tíma, og listamaðurinn Rabo Karabekian, sem er abstrakt expressionisti og skáldsagnapersóna í bókunum Breakfast of Champions og Bluebeard eftir Kurt Vonnegut.

Mary Mirzakhanyan, staðaleiðsögumaður, Michaela Krejčová, fararstjóri, Gréta Björgvinsdóttir, Ingunn Ósk Sturludóttir, Ingibjörg Sigvaldadóttir, Þórður Geir Þorsteinsson, Þórdís Þorgeirsdóttir, Guðjón Gústafsson og Hovhannes bílstjóri.

Rík trúarhefð

Fyrr á öldum var armenska veldið mun stærra en það er í dag og var fjallið Ararat innan landamæra þess. Samkvæmt 8. kafla Fyrstu Mósebókar sigldi örkin hans Nóa í strand á Ararat og þar var dýrunum sleppt frá borði. Nóa leyst vel á sig við rætur Ararat enda landið frjósamt og „Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð. Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu.“

Khachkar eða armenski steinkrossinn.


Armenar eru stoltir af trúarlegum uppruna sínum sem nær til fyrstu aldar eftir Krist og telja margir Armeníu vera fyrsta landið í heimi sem gerði kristni að ríkistrú árið 301. Í dag teljast 93% þjóðarinnar til Armensku postulakirkjunnar sem er hluti Austurkirkjunnar. Ólík kirkjum víða er lítið sem ekkert um skraut í armenskum kirkjum og þær látlausar.

Víða er kirkjunum skipt í tvo sali. Inn í forsalinn mættu allir, meira að segja heiðingjar, til að hlýða á messur og söng en í innri salinn eða skipið þar sem messan fór fram máttu einungis þeir sem skírðir voru stíga. Bæði utan við og inni í kirkjunum eru grafir presta og heilagra manna en ólíkt því sem tíðkast víða þykir sjálfsagt í Armeníu að ganga á gröfunum og losa sig þannig við hluta syndabaggans sem sogast niður í grafirnar.

Falleg náttúra

Náttúra Armeníu er fjölbreytt og myndræn. Landið er fjöllótt og hæsti tindur þess, Gyamish, er í 3.724 metra hæð. Í dölum og sums staðar upp á fjallsbrún vaxa skógar með eik, beyki og ávaxtatrjám og meðal villtra dýra eru geitur, dádýr og svín.

Gróðursæld er víða mikil og landið frjósamt.

Austanvert í landinu, skammt frá landamærum Aserbaídsjan, er Sevan-vatn. Árið 1933 var stærð vatnsins 1.360 ferkílómetrar og dýpt þess 95 metrar og líffræðileg fjölbreytni þess mikil. Á fjórða áratug síðustu aldar, undir stjórn Sovétríkjanna, var ákveðið að lækka yfirborð vatnsins með því að nota vatnið úr því í áveitur og til raforkuframleiðslu. Valhnetutrjám og eikum var plantað á nýjum lendum við bakka vatnsins og stórfellt eldi á framandi fisktegundum hafin. Ekki liðu mörg ár þar til íhlutun mannsins í vistkerfi vatnsins leiddi til hruns í lífkerfi þess. Frá 1953 hefur verið unnið markvisst að endurheimt vistkerfis Sevan-vatns, sem í dag er um 1.240 ferkílómetrar að flatarmáli.

Þjóðarmorð

Einn af hörmulegustu atburðum 20. aldar var skipuleg tilraun Ottóman-veldisins til að útrýma Armenum í Tyrklandi. Ríflega milljón Armenar voru drepnir á árunum 1915 til 1918 meðal annars með því að láta þá ganga allslausa í eyðimörkinni í Sýrlandi þar til þeir dóu úr hungri og þorsta. Skipum með armenskum flóttamönnum var sökkt og konur og börn voru neydd til að taka íslamska trú.

Talið er að af tveimur milljónum Armena í Tyrklandi hafi sex hundruð þúsund lifað af.

Samkvæmt einni sögu lét nítjándu aldar munkurinn Ter Karapet Hovhanesi-Hovakimyan grafa sig lifandi í Noratus kirkjugarðinum.

Klaustur frá því árið eitt þúsund

Haghpat-klaustrið klaustrið var byggt skömmu fyrir árið 1000. Sagan segir að Sanahin-munkar sem helguðu sig trú, vísindum, listum og bókum hafi reist klaustrið á gullöld menningar Lori-konungsveldisins.

Klaustrið var lengi ríkt og munkar þar frægið fyrir uppskriftir sínar á helgum bókum auk þess sem þar var lögð áhersla á stjörnufræði, lækningalist og tónlist. Með tímanum stækkaði bókasafnið í Haghpat og til að vernda dýrmætustu ritin voru grafnar bókageymslur í gólf klausturkirkjunnar og lagðar hellur yfir.

Stuðlabergið á Azat

Um 40 kílómetra frá Jerevan er gil sem kallast Azat og í því er að finna einhverjar þær fallegustu stuðlabergmyndanir sem ég hef séð. Bergið líkist einna helst pípuorgeli með steinpípum sem teygja sig um 100 metra til himins enda kalla Armenar kalla fyrirbærið sinfóníska steina eða basaltorgelið.

Bergið líkist einna helst pípuorgeli með steinpípum sem teygja sig um 100 metra til himins.

Zorats Karer

Í Armeníu er að finna, að talið vera frá um 3.500 fyrir Krist. Í þyrpingunni eru 223 steinar sem hefur verið raðað skipulega upp þannig að þeir mynda hring með krosslaga örmum til höfuðáttanna fjögurra. Steinarnir, sem í dag eru þaktir skófum, sem enn eru uppréttir eru frá hálfum og að þriggja metra háir og allt að tíu tonn að þyngd. Í um áttatíu af steinunum hefur verið gert hringlaga gat og án þess að vitað sé fyrir víst hver tilgangur steinagerðisins er hafa verið leiddar að því líkur að staðurinn hafi verið ætlaður til að skoða gang himintunglanna.

Selim karavanserai

Í Armeníu er karavanserai áningarstaður þar sem kaupmenn til forna áðu til að hvíla sig og burðardýr sín. Selin áningastaðurinn var byggður skömmu eftir 1330 og er í 2300 metra hæð frá sjávarmáli og liggur við eina af Silkileiðunum. Byggingin skiptist í tvennt, eins konar móttöku og aðalsal sem er 13 metra breiður og 26 metra langur. Eftir aðalsalnum miðjum er flór og sitt hvoru megin við hann voru básar fyrir burðadýrin, oftast úlfalda. Innan við básana voru jötur og út til veggja svefnaðstaða fyrir fólk.

Selin karavanserai, áningarstaður þar sem kaupmenn til forna áðu til að hvíla sig og burðardýr sín.

Noratus kirkjugarðurinn

Skammt frá þorpin sem kallast Noratus er kirkjugarður með miklum fjölda legsteina úr grjóti. Elsti legsteinninn er talinn vera frá því seint á tíundi öld. Á marga steinana er búið að höggva krossgerð sem kallast khachkar eða armenski steinkrossinn og í kringum hann skreytingar, blóm og rósettur.

Satt best að segja er ótrúlegt þegar gengið er innan um steinana á stórgrýtu yfirborðinu að ímynda sér að um kirkjugarð sé að ræða og að yfirleitt hafi verið hægt að hola fólki þar niður. Allstaðar er grjót bæði grjót sem er í sínu náttúrulega umhverfi og aðflutta steina.

Samkvæmt einni sögu lét nítjándu aldar munkurinn Ter Karapet Hovhanesi-Hovakimyan grafa sig lifandi í garðinum. Hovakimyan sem var níræður þegar kviksetning hans átti sér stað það síðasta sem hann sagði var að hann væri búin að fá nóg og hræddist ekki dauðan og að aðrir ættu ekki að gera það heldur. Í dag er siður að brjóta flöskur með vatni eða vín við leiði munksins til að öðlast blessun.

Hobbitarnir í Khndzoresk

Af mannvistaleifum hellabúanna í Khndzoresk mætti ætla að frum Hobbitarnir hefðu búið í Armeníu. Í dag er hægt að heimsækja hellabyggðina Khndzoresk með því að fara eftir 160 metra langri hengibrú og er ganga eftir henni ekki fyrir lofthrædda.

Hellabyggðin í Khndzoresk. Þegar mest var bjuggu um 15.000 manns í hellunum.

Þegar mest var er talið að um 1500 manns hafi búið í hellum í við Khndzoresk en við upphaf tuttugustu alda var íbúafjöldinn um 1300 og síðust íbúarnir yfirgáfu hellan skömmu eftir miðja síðustu öld.

Húsnæðisskiptan var oftar en ekki þannig að loft eins hellis var gólfið hjá annarri fjölskyldu. Í samfélaginu sem lifði að mestu á búfjáreldi voru tvær kirkjur, skólar og að minnstakosti ein verslum.

Matur og vín

Auk fallegrar náttúru og áhugaverðra sögu er matur og vín í Armeníu gott í munn og maga. Dolma er til dæmis gómsætur réttur sem samanstendur af hökkuðu kjöti, lauk, hrísgrjónum og kryddi sem vafið er inn í vínviðarblöð. Topik eru hveitibögglar sem fylltir eru með kjúklingabaunum, kartöflum og sesamfræjamauki og dassi af salti og sykri.

Kryddmarkaður í Jerevan.

Rauð- og hvítvín í Armeníu er gerjuð í leirkrukkum sem grafin eru í jörð og vegna aðferðarinnar öll þurr og þau sem ég smakkaði mjög góð. Armenar brugga gott koníak og eina landið í heimi utan Frakkland sem má kalla koníak koníak.

Á bjargi aldanna

Árið 1976 sendi sér Árelíus Níelsson frá sér bók sem ber heitið Á bjargi aldanna og fjallar um armensku kirkjuna. Í bókinni er rakin saga armensku kirkjunnar og þjóðarinnar, sagt frá deilum um eðli Krists, helgivenjum og hjátrú Armena og þjóðarmorðinu 1915.

Í bókinni settur höfundur fram þá kenningu að mögulegt sé að armenskir flóttabiskupar, Pétur, Abraham og Stefán, hafi stundað trúboð á Íslandi 50 árum eftir kristnitöku og áhrif armensku kirkjunnar því snemma hér á landi.

Til að vernda dýrmætustu rit Haghpat-klaustursins fyrir þjófum voru grafnar bókageymslur í gólf klausturkirkjunnar og lagðar hellur yfir.

Skylt efni: Armenía

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...