Smart #3 er rafmagnsbíll fyrir þá sem vilja vandaða hönnun og mikinn búnað. Líkindin er mikil með smart og bílum frá Mercedes Benz.
Smart #3 er rafmagnsbíll fyrir þá sem vilja vandaða hönnun og mikinn búnað. Líkindin er mikil með smart og bílum frá Mercedes Benz.
Mynd / ál
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýmsa góða kosti þýskrar iðnhönnunar og kínverskrar framleiðslu.

Þessi bíll deilir mörgu með minni bíl frá sama framleiðanda, smart #1, sem skrifað var um í þessum pistli fyrir ári síðan. Eins og kom fram þar er smart samstarfsverkefni Mercedes-Benz frá Þýskalandi og Geely frá Kína. Þeir þýsku sjá um hönnun á öllu ytra og innra byrði, á meðan þeir kínversku eiga heiðurinn af undirvagninum og sjálfri framleiðslunni.

Svipurinn með þessum tveimur bílum frá smart er sérstaklega sterkur. Sá sem er tekinn fyrir að þessu sinni er eins og hinn bíllinn hafi verið flattur aðeins út, en smart #3 er ögn lægri ásamt því að vera breiðari og lengri en smart #1.

Sterkustu einkenni smart #3 eru meðal annars framljósin sem tengjast með mjúkri línu og þakið sem er látið líta út fyrir að vera aðskilið frá restinni af bílnum. Bíllinn er allur rennilegur og hvergi skörp horn að finna. Þá er útlitið ekki langan veg frá Mercedes Benz rafmagnsbílum.

Mjúkar línur að innan sem utan

Þegar sest er um borð tekur á móti manni innrétting sem er greinilega innblásin af því sem finnst hjá þeim þýsku. Mjúkar og aflíðandi línur eru hvert sem litið er og umvefur mælaborðið og miðjustokkurinn ökumann og farþega.

Rétt eins og margir rafmagnsbílar, þá er þessi sérstaklega snarpur. Þyngdarpunkturinn er jafnframt lágur og dekkin ná miklu gripi. Gæti ökumenn ekki að sér geta þeir leiðst óafvitandi í rallakstur, enda næstum óþarft að slá af þegar ekið er inn í hringtorg eða teknar krappar beygjur og bíllinn snöggur að ná upp hraða. Aksturinn á smart #3 getur hins vegar verið ljúfur og einfaldur, enda fjöðrunin prýðilega þægileg og ökutækið almennt hljóðlátt á lægri hraða.

Ýmis geymsluhólf má finna hér og þar í innréttingunni. Hanskahólfið er stórt. Á milli sætanna er djúpt hólf með kælingu. Undir miðjustokknum er opið trog. Undir margmiðlunarskjánum er lítið lokað hólf sem er líka með þráðlausri hleðslu fyrir farsíma. Á milli sætanna eru glasahaldarar og við þá er lítil rauf til að geyma farsíma á hlið. Hurðavasarnir að framan og aftan eru djúpir og ættu að rúma drykkjarflösku hver.

Smart #3 er lægri, breiðari og lengri en smart #1, sem gerir hann mun sportlegri en þann síðarnefnda.

Stýrikerfi hraðvirkt og fallegt

Ökumaðurinn er með lítinn skjá fyrir framan sig sem sýnir grunnupplýsingar um aksturinn. Á sjónlínuskjánum sem varpað er upp í framrúðuna má sjá mikið af sömu upplýsingunum. Stýrið er með takka fyrir hraðastilli, útvarp og fleira. 

Í miðju innréttingarinnar er stór snertiskjár með fallegt og hraðvirkt stýrikerfi. Gallinn er hins vegar sá að möguleikarnir eru margir og úrlausnir hinna og þessara vandamála eru ekki endilega þar sem búast má við þeim. Til að nefna eitthvað dæmi var undirritaður á stuttu ferðalagi og þurfti að fylla á batteríið í leiðinni. Til stóð að hita rafhlöðuna svo hún tæki hraðar á móti hleðslu en sá sem þetta skrifar fór í allar valmyndir og undirvalmyndir þar sem hann taldi líklegt að stillingin leyndist og fann lausnina ekki fyrr en rétt áður en komið var að hleðslustöðinni.

Í bílum eins og Tesla er hægt að velja hleðslustöð í innbyggða leiðsögukerfinu og bíllinn sér sjálfur um að hita rafhlöðuna. Undirritaður gerði nokkrar atrennur að því í þessum bíl, en stýrikerfið fraus í hvert skipti.

Fastir höfuðpúðar spilltu akstursánægjunni þar sem þeir rákust í háls og herðar. Þetta atriði er persónubundið og hefur ekki áhrif á alla.

Stillanleiki skertur í sætum

Þeir smart #3 bílar sem eru fáanlegir eru með hálfgerða körfustóla að framan. Á þessum sætum er hnakkapúði með hvössum brúnum sem er ekki hægt að stilla.

Þeir sem eru vel yfir meðalhæð munu því sennilega eiga erfitt með að koma sér þægilega fyrir þar sem brúnin á hnakkapúðanum stingst í hálsinn eða herðarnar. Auðvitað er þetta persónubundið, en sætin spilltu akstursánægju undirritaðs og þurfa kaupendur yfir 190 cm að hafa þetta í huga. Til samanburðar má benda á að sætin í smart #1 eru með lungamjúkan og stillanlegan hnakkapúða.

Þökk sé stóru glerþaki, sem er staðalbúnaður í afmælisútgáfunni, kemur mikil birta inn í bílinn sem aftursætisfarþegarnir njóta sérstaklega góðs af. Þeir hafa gott rými fyrir herðar og fætur. Höfuðplássið er mátulegt, svo lengi sem ekki eru ferjaðir meðlimir körfuboltaliðs.

Skottið er sambærilegt því sem búast má við af bílum af þessari stærð, en þar sem þakið er aflíðandi skerðist plássið að einhverju leyti. Til að opna hlerann þarf að ýta á lítinn takka sem er falinn í „a-inu“ í smart merkinu. Gólfið flúttar ekki alveg við opnunina, en undir gólfplötunum er rými fyrir hleðslukapla og smáhluti.

Skottið er sambærilegt því sem gerist í þessum stærðarflokki.

Að lokum

Afmælisútgáfan sem rætt var um í þessum pistli er ekki fáanleg lengur, en flest af því sem kemur fram á við um þær útgáfur sem eru til sölu, sem heita Pulse og Brabus. Sú fyrrnefnda er grunnútfærsla, á meðan sú síðarnefnda er kraftmeiri sportútgáfa. Stærsti munurinn er sá að afmælisútgáfan er eingöngu með afturhjóladrifi og 272 hestöfl, á meðan hinar tvær eru bæði öflugri og með fjórhjóladrifi.

Pulse kostar frá 7.390.000 krónur með vsk. og að frádregnum orkustyrk. Sá bíll er með 360 hestöfl og drægni allt að 415 kílómetra. Brabus kostar 7.990.000 krónur með vsk. og að fráregnum orkustyrk. Hann hefur að geyma 429 hestöfl og kemst allt að 415 kílómetra á hleðslunni.

Í þessum verðflokki er fjöldi góðra bíla sem kaupendur ættu að kynna sér samhliða sem þeir skoða þennan. Þá er ekki verra að líta á ódýrustu útgáfuna af smart #1, sem er með mikið af sama búnaðinum, en á hagstæðara verði og búinn betri sætum. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Öskju, söluaðila smart á Íslandi.

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...

Algjör jaxl utan vega
Vélabásinn 8. ágúst 2024

Algjör jaxl utan vega

Bændablaðið fékk til prufu þriðju kynslóð af Can-Am Outlander fjórhjólinu. Það e...

Fyrir fágaða iðnaðarmenn
Vélabásinn 19. júní 2024

Fyrir fágaða iðnaðarmenn

Bændablaðið fékk til prufu minnsta sendibílinn frá Mercedes Benz í Business Pro ...

Sænskættaði töffarinn
Vélabásinn 9. maí 2024

Sænskættaði töffarinn

Bændablaðið fékk til prufu hinn nýja Volvo EX30 í Ultra útfærslu. Umrætt ökutæki...

Nýstárleg íhaldssemi
Vélabásinn 17. apríl 2024

Nýstárleg íhaldssemi

Bændablaðið fékk til prufu hinn nýja Toyota C-HR. Þetta er fágaður smájepplingur...