Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Peugeot E-5008 er einn af örfáum rafbílum sem eru með sjö sæti, góða akstursdrægni og á skikkanlegu verði. Útlit og hönnun bílsins er áhugaverð og vel heppnuð.
Peugeot E-5008 er einn af örfáum rafbílum sem eru með sjö sæti, góða akstursdrægni og á skikkanlegu verði. Útlit og hönnun bílsins er áhugaverð og vel heppnuð.
Mynd / ál
Vélabásinn 7. maí 2025

Einstakur sjö sæta rafbíll

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu rafmagnsbílinn Peugeot E-5008 sem hefur þann kost helstan að vera sjö sæta.

Viðfangsefni þessa pistils er af svokallaðri GT útgáfu með 73 kílóvattstunda rafhlöðu og á að komast allt að 502 kílómetra á einni hleðslu við bestu aðstæður. Kaupendur geta líka valið útgáfu með stærri 97 kílóvattstunda rafhlöðu og bætist þá skammstöfunin LR við heiti bílsins og er auglýst drægni þá allt að 668 kílómetrar. Samkvæmt orkunotkuninni þá köldu vetrardaga sem blaðamaður hafði afnot af bílnum hefði fullhlaðin 73 kílóvatta rafhlaða átt að duga í kringum 300 kílómetra og var ekki ekinn sparakstur.

Bíllinn er með mjög afgerandi útlit eins og Peugeot er von og vísa. Sé horft beint framan á bílinn er hann hins vegar óþekkjanlegur frá Peugeot E-3008, sem er í raun styttri útgáfan af sama bíl. Neðan við aðalljósin að framan eru þrjár ljósrendur beggja vegna sem eiga að minna á klórför eftir ljón. Mismikill þéttleiki milli möskvanna í grillinu gefur því nokkra dýpt. Fyrsta kynslóð þessara bíla var hreinræktaður strumpastrætó (smárúta), en þegar kom að annarri kynslóð var bílnum gefið jeppalegt útlit sem höfðar frekar til kaupenda og hefur framleiðandinn haldið áfram á þeirri braut í þriðju kynslóðinni sem er til umræðu hér. Eins og áður segir getur Peugeot E-5008 rúmað sjö farþega sem skapar honum mikla sérstöðu meðal rafmagnsbíla, því einungis örfáir slíkir standa kaupendum til boða og flestir þeirra eru með talsvert minni akstursdrægni eða nokkrum milljónum dýrari.

Stærra skott skilur þennan bíl frá hinum minni E-3008.

Snertiskjárinn framarlega

Innréttingin er meðal þeirra smekklegustu sem standa til boða í dag. Hér og þar má sjá skörp horn og áhugaverð form sem eru í stíl við ytra útlitið. Innréttingin er ýmist með gráu textíláklæði eða dökku leðurlíki. Ofarlega á mælaborðinu er stemningslýsing sem er felld inn í rauf.

Eitt af einkennum Peugeot er lítið stýrishjól og horfir ökumaðurinn yfir það til að sjá hraðamælinn. Það er gott að halda í svona lítið stýri, en það er bæði vel formað og klætt mjúku leðri. Í stýrinu eru takkar fyrir flestar skipanir, eins og fjarlægðartengda hraðastillinn, útvarp og síma. Aftan við það eru þessar hefðbundnu stangir fyrir rúðuþurrkur og ljós. Bak við stýrið eru jafnframt flipar til að stilla hversu öflug mótorbremsan er.

Snertiskjáirnir í bílnum eru tveir. Rétt ofan við miðjustokkinn er lítill skjáborði með helstu flýtilyklum, eins og fyrir hita í stýri og sætum, ásamt því sem hægt er að velja hvort aðalskjárinn sýni útvarp, miðstöð, síma og fleira. Stærri snertiskjárinn er talsvert notaður í þessum bíl þar sem hefðbundnir takkar eru í lágmarki.

Hann er hins vegar staðsettur uppi á mælaborðinu í nokkurri fjarlægð þannig að ökumaðurinn þarf að teygja sig sérstaklega til að ná í hann. Hafi bílstjórinn fært sætið aftarlega verður fjarlægðin ankannalega mikil. Blessunarlega er skrunhjól í miðjustokknum til þess að hækka og lækka í útvarpinu ásamt tökkum til að fýra upp í blæstri á rúðurnar og setja á inniloftið.

Á snertiskjánum birtist skýr mynd af því sem er aftan við bílinn þegar farið er í bakkgír. Hún kemur sér afar vel, því þetta er nokkuð langur bíll og útsýnið um afturrúðuna ekki hið mesta. Hið þráðlausa Android-Auto tengist alltaf hratt og örugglega um leið og bíllinn er ræstur, en Apple CarPlay er líka staðalbúnaður.

Innréttingin er smekkleg en aðalsnertiskjárinn er langt frá ökumanninum.

Skott jafnast á við sendibíl

Lyklalausa aðgengið er áreiðanlegt og fer bíllinn alltaf í og úr lás á réttum tíma ef notandinn er með lykilinn í vasanum. Gott er að setjast inn í bílinn þar sem sætin eru í mátulegri hæð frá jörðinni. Sætin eru býsna þægileg og eru stillt handvirkt. Þau eru klædd efni með rúskinnsáferð sem lítur vel út en er nokkuð stamt, sem getur verið ókostur fyrir þá sem þurfa að geta rennt sér í sætið.

Í annarri sætaröð er mikið pláss í allar áttir og geta fullorðnir verið sáttir í sætunum þremur. Ef farþegarnir eru tveir er hægt að setja niður armpúða í miðjunni sem er með tveimur glasahöldurum. Í afturhurðunum eru innbyggðar gardínur sem er hægt að draga fyrir rúðurnar.

Í þriðju sætaröð eru tvö sæti sem eru ekki hugsuð til mikillar notkunar af fullorðnum, enda plássið lítið. Það er hægt að færa aðra sætaröð aðeins fram á sleða, en þá þrengist að farþegunum þar nema þeir fremstu gefi líka eftir af sínu plássi. Þegar öll sætin eru í notkun er skottið á stærð við þau sem eru í smábílum. Sé þriðja sætaröð felld niður er skottið eins og í stórum jeppa en jafnast á við sendibíl ef önnur sætaröð er líka lögð niður. Til þess að opna afturhlerann þarf að stinga hendinni inn um rauf milli hlerans og stuðarans þar sem hnappurinn er falinn. Þar sem raufin er þröng er nánast ómögulegt að opna skottið íklæddur hönskum.

Bíllinn er ræstur með hnappi við hlið stýrisins og er gír valinn með veltirofa rétt ofan við miðjustokkinn. Akstur bílsins er áreynslulaus, mótorinn er mátulega kraftmikill og er bíllinn nokkuð hljóðlátur. Útsýnið er ágætt, þökk sé stórum rúðum og hárri sætisstöðu. Veghæð bílsins er góð, en hann fæst eingöngu framhjóladrifinn sem stendur, en fjórhjóladrifnir bílar koma síðar á árinu.

Þriðja sætaröð hentar helst börnum.

Að lokum

Peugeot E-5008 fæst í Allure og GT útfærslum þar sem sú síðarnefnda er með aukinn staðalbúnað. Eftirsóknarverðasti aukahluturinn í GT bílunum er skynvæddi hraðastillirinn, sem heldur alltaf hæfilegri fjarlægð frá næsta bíl. Báðar gerðirnar fást með minni eða stærri rafhlöðunni. LR bílarnir eru með 230 hestöfl, en mótorinn í bílunum með minni rafhlöðunni er 20 hestöflum kraftminni. Ódýrastur fæst Peugeot E-5008 Allure á 7.070.000 krónur með rafbílastyrk á meðan dýrasta útgáfan er GT LR og kostar 8.370.000 krónur með styrk. Viðfangsefni þessa pistils var GT með minni rafhlöðunni og kostar sá bíll 7.660.000 krónur með 900.000 króna styrk frá Orkusjóði. Nánari upplýsingar fást hjá Brimborg, söluaðila Peugeot á Íslandi.

Skylt efni: prufuakstur

Ódýrari pallbíll vandfundinn
Vélabásinn 22. maí 2025

Ódýrari pallbíll vandfundinn

Bændablaðið fékk til prufu nýjan KGM Musso, sem er að öllum líkindum ódýrasti ný...

Einstakur sjö sæta rafbíll
Vélabásinn 7. maí 2025

Einstakur sjö sæta rafbíll

Bændablaðið fékk til prufu rafmagnsbílinn Peugeot E-5008 sem hefur þann kost hel...

Gerir út af við drægnikvíða
Vélabásinn 24. apríl 2025

Gerir út af við drægnikvíða

Hér er einblínt sérstaklega á hvernig Tesla Model 3 Long Range reynist í landsho...

Tékkarnir klikka ekki
Vélabásinn 27. mars 2025

Tékkarnir klikka ekki

Bændablaðið fékk til prufu nýja kynslóð af hinum vinsælu Skoda Kodiaq, sem er st...

Góður í dreifbýli og borg
Vélabásinn 13. mars 2025

Góður í dreifbýli og borg

Bændablaðið fékk til prufu nýjan rafmagnsbíl af gerðinni Polestar 3. Þessi bílat...

Áður óþekkt tegund fundin
Vélabásinn 13. febrúar 2025

Áður óþekkt tegund fundin

Bændablaðið fékk til prufu dýrustu útgáfu Xpeng G9 sem nefnist Performance. Hér ...

Alvöru fjallajeppi
Vélabásinn 30. janúar 2025

Alvöru fjallajeppi

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu kynslóð hinna vinsælu Land Cruiser-jeppa frá ...

Eftirminnilegustu tæki ársins
Vélabásinn 16. janúar 2025

Eftirminnilegustu tæki ársins

Á síðasta ári voru 22 tæki tekin fyrir í Vélabásnum hjá Bændablaðinu. Hérna verð...