Ódýrari pallbíll vandfundinn
Bændablaðið fékk til prufu nýjan KGM Musso, sem er að öllum líkindum ódýrasti nýi pallbíllinn með þessu lagi sem fæst á landinu. Bíllinn, sem tekinn er fyrir hér, er af Ultimate útgáfu, sem er með ríkulegasta staðalbúnaðinn.
KGM er nýtt heiti kóresks bílaframleiðanda sem áður hét SsangYong. Musso er hefðbundinn pallbíll sem fellur í sama flokk og Toyota Hilux, Isuzu D-Max, Volkswagen Amarok og fleiri. Ytra útlit Musso er býsna smekklegt, sérstaklega að framan. Sami metnaður virðist ekki hafa verið lagður í bakhliðina og falla afturljósin ekki í heildarmyndina. Framan við B-bogann er varla hægt að sjá mun á Musso og Rexton frá KGM, enda eru þessir tveir bílar afar skyldir.
Innrétting svipuð Rexton
Þeir sem eru kunnugir Rexton verða sennilega ekki fyrir neinum viðbrigðum við að setjast í Musso, því líkindin eru ekki minni þegar inn er komið. Innréttingin í kringum mælaborðið er klædd mjúku gúmmíi og leðurlíki. Hurðaspjöldin eru að mestu úr hörðu plasti, fyrir utan armhvíluna sem er með fóðri.
Hanskahólfið er rúmgott og á milli sætanna er djúp lokuð geymsla. Í miðjustokknum eru jafnframt glasahaldarar og bakki sem passar fyrir síma. Þar er ekki þráðlaus hleðsla, en nóg er af USB tengjum. Gírstöngin fyrir sjálfskiptinguna kemur upp úr miðjustokknum. Aftan við hana er snúningstakki til þess að velja á milli afturhjóladrifs og fjórhjóladrifs og skipta niður í lága drifið.
Á stýrinu er mjúkt áklæði úr leðurlíki og nytsamlegir takkar. Vinstra megin er hægt að stjórna útvarpinu, síma og hita í stýri. Hægra megin eru takkar fyrir hraðastilli, akstursaðstoð og til þess að fletta í gegnum aksturstölvuna. Framan við bílstjórann er skjár sem er mælaborð og aksturstölva og geta notendur valið á milli nokkurra ólíkra birtingarmynda hans.
Upp úr miðju mælaborðinu stendur snertiskjár. Hann er af einfaldri gerð og ekki leiftursnöggur. Neðan við hann eru snertihnappar í stjórnborði fyrir miðstöðina og snertiskjárinn ekki notaður mikið. Til þess að hækka og lækka í útvarpinu getur bílstjórinn notað takka í stýrinu, en farþegann vantar augljósa leið og þarf að fara í gegnum tvö skref í snertiskjánum.

Ýmis viðvörunarhljóð
Til þess að slökkva á hámarkshraðapípinu þarf að fletta í gegnum aksturstölvuna með takka í stýrinu og taldi undirritaður níu þrep á leiðinni. Eins og á flestum nýjum ökutækjum fer þetta svo í sama horfið þegar slökkt er á bílnum. Blessunarlega er viðvörunarhljóðið ekki mjög ágengt, en heyrist þó alltaf þegar rétt er skriðið yfir hámarkshraða.
Þá eru önnur viðvörunarhljóð sem heyrast stundum án þess að þeim fylgi augljós skýring. Blaðamaður telur sennilegt að yfirleitt sé bíllinn að láta vita af breyttum hámarkshraða, en bíllinn pípir líka þegar beygt er í nýja götu og hann áætlar að hámarkshraðinn sé breyttur. Því heyrast þau viðvörunarhljóð býsna oft ef ekið er í gegnum þéttari byggðir höfuðborgarsvæðisins. Sé farið úr öryggisbelti á meðan bíllinn er í gangi heyrist alltaf viðvörunarhljóð í smástund, jafnvel þó svo að bíllinn sé í P.
Afar þægileg sæti
Vélin er mátulega kraftmikil, eða 202 hestöfl og 441 Newton metri, og þökk sé góðri hljóðeinangrun heyrist lítið í henni. Skynvæddi hraðastillirinn virkar vel og kemur sér vel bæði í langkeyrslu sem og þéttri morgunumferð.
Sætin fremst eru afar þægileg og klædd leðri. Á ódýrari útgáfum en Ultimate eru sætin með gervileðri eða taui. Allar stillingar eru gerðar með handafli, nema fyrir mjóbaksstuðning. Í aftursætunum er ágætt pláss, en þeir hávöxnustu munu eflaust ekki vilja sitja þar lengi. Í miðjunni er armhvíla sem er hægt að draga niður og er hún með tvo glasahaldara. Hægt er að leggja sætisbakið niður, en það er ekki hægt að lyfta sessunni upp með auðveldu móti.
Í akstri er bíllinn aldrei alveg laus við smá titring, jafnvel þó svo að yfirborðið sé slétt, og veldur það auknu álagi á ökumanninn. Titringinn má rekja til demparanna, en þegar þeim er skipt út geta þessir bílar verið lungamjúkir. Musso er byggður á hefðbundinni grind, en slík farartæki eru oftar en ekki afar sterkbyggð, en fórnarkostnaðurinn eru lakari aksturseiginleikar. Það sama á við hvort bíllinn heitir Toyota eða KGM. Ekki gafst færi á að aka bílnum með hlassi á pallinum, en lestaðir pallbílar liggja oft betur á veginum en tómir. Pallurinn fæst í tveimur lengdum og var bíllinn í þessum prufuakstri með styttri gerðinni. Í þröngum aðstæðum reyndist bíllinn óvenju lipur miðað við að vera pallbíll.
Musso er með hátt og lágt drif og eru tvær dýrustu útfærslurnar með driflæsingu að aftan. Hann kemur því til greina fyrir þá sem þurfa að fara út fyrir hina troðnu slóð. Stuðarinn er hins vegar nokkuð síður sem þýðir að varkárni er nauðsynleg á grófustu slóðunum. Auðvelt er að breyta Musso fyrir stærri dekk.
Að lokum
Ódýrasta útgáfa Musso er á 7.590.000 krónur, en dráttargeta þess bíls er þó ekki nema 2,6 tonn. Til þess að fá fulla 3,5 tonna dráttargetu þarf að kaupa bílinn með sjálfskiptingu og er verð þeirra bíla frá 8.390.000 krónum. Til þess að fá skynvæddan hraðastilli, ekta leður á sæti, blindpunktsviðvörun og fleira þarf að kaupa Ultimate útgáfuna, sem kostar samkvæmt verðlista 9.990.000 krónur.
Þeir sem vilja sjálfskiptan, fjórhjóladrifinn pallbíl með þriggja og hálfs tonna dráttargetu og hátt og lágt drif, geta ekki fundið neitt ódýrara en KGM Musso, nema með því að kaupa notað. Þó svo að hann skorti sömu fágun og t.d. í Volkswagen Amarok er hægt að fyrirgefa ýmislegt vegna hagstæðs verðs. Nánari upplýsingar fást hjá Bílabúð Benna.