Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Feðgarnir Hildibrandur Bjarnason og Guðjón Hildibrandsson við sexæringinn Síldina í safninu í Bjarnarhöfn.
Feðgarnir Hildibrandur Bjarnason og Guðjón Hildibrandsson við sexæringinn Síldina í safninu í Bjarnarhöfn.
Mynd / HKr.
Viðtal 21. mars 2016

Úr hefðbundnum búskap í að rækta vinskap við ferðamenn

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Bjarnarhöfn er bær og kirkjustaður í Hraunsvík, vestan Stykkishólms í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Hún var landnámsstaður Bjarnar austræna. Þar býr nú Hildibrandur Bjarnason og fjölskylda, en hann er löngu landsþekktur fyrir hákarlaverkun sína og rekstur eigin minjasafns á staðnum. 
 
Er þetta einn elsti einkarekni sýningarstaðurinn af þessum toga á landinu. Voru ferðamenn farnir að venja komur sínar þangað fyrir árið 1980. Þar lýsir Hildibrandur Bjarnason sýningargripum og hákarlsverkun ásamt syni sínum, Guðjóni.  
 
Mikill fjöldi gesta heimsækir staðinn allt árið um kring og hefur aðsóknin verið mjög vaxandi yfir harðasta vetrartímann. Auk þess að skoða safnið geta gestir komist í tæri við hunda, endur og hænur sem vekur ekki síst kátínu barna sem þarna koma. Hjallurinn þar sem Hildibrandur hengir hákarl upp til þurrkunar vekur líka forvitni og þá ekki síður meðal útlendinga en Íslendinga.  
 
„Maður verður að hafa eitthvað fyrir alla,“ sagði Hildibrandur þegar tíðindamaður Bændablaðsins kíkti þar í heimsókn fyrir skömmu. Minjasafnið hefur verið í núverandi byggingu í Bjarnarhöfn síðan 2001. Áður var það, auk hákarlsverkunarinnar, kirkjan og umhverfið sem dró fólk einkum að staðnum. Núverandi kirkjan, sem byggð var árið 1857, hefur verið í einkaeign. Þar hafði áður staðið bændakirkja, eða frá 1286 sem líka var lengst af í einkaeign, eða frá því prestar hættu að nota hana við reglubundið messuhald árið 1694. Hildibrandur segist þó hafa áhuga á að auka fjölbreytnina enn frekar fyrir gestina sem þangað koma. 
 
„Það væri líka gaman að vera með geitur, það eru skemmtilegar skepnur.“ Hann segir þó vandann varðandi geiturnar hversu skyldleikaræktunin er mikil. Því hafi hann áhuga á að flytja geitur úr öðrum landshlutum á svæðið, en til þess hafi ekki enn fengist leyfi. Ástæðan er einkum sú að þá þyrfti að flytja dýrin milli hólfa og yfir varnarlínur sem markaðar hafa verið vegna sauðfjársjúkdómavarna. Hann segist þó ekki vita til að sömu sjúkdómar hafi hrjáð geitastofninn, en rannsóknir virðist þó skorta til að Matvælastofnun leggi í að heimila slíkan flutning. Segir Hildibrandur að undanfarin ár hafi verið talað um að slíkt leyfi væri alveg að koma. 
 
„Annars er nær allt hér á safninu úr búrekstrinum í Bjarnarhöfn og munir af okkar heimili. Meira að segja steinasafnið sem hér er er allt úr okkar landareign.“ 
 
Með sexróinn Bolvíking inni á gólfi
 
Á safninu getur að líta sexæringinn Síldina sem smíðaður var í Jökulfjörðum árið 1860, en skipslagið er kallað Bolvíkingur. Var skipinu m.a. róið úr Ósvör í Bolungarvík áratugum saman. Hildibrandur segist hafa þekkt mann sem var háseti á skipinu þegar gert var út frá Ósvör um 1890. Það var Jónmundur Torfason frá Asparvík í Kaldraðarneshreppi í Strandasýslu, bróðir Torfhildar Torfadóttur á Ísafirði. Hún lést 2011, þá 107 ára að aldri, þá elst Íslendinga. Hún var yngst ellefu systkina, en eitt þeirra, Ásgeir, náði því líka að verða 100 ára. 
 
„Ég kynntist manninum hennar, Einari Jóelssyni, áður sjómanni á Ísafirði, sem nú er látinn. Það var þegar við lágum báðir á spítala árið 1977.“  
 
Í þeim töluðu orðum gengur asískur ferðamaður út úr sýningarsalnum brosandi út að eyrum og Hildibrandur faðmar hann að skilnaði.
 
„Við hér á safninu erum ánægð þegar fólkið er ánægt sem frá okkur fer.“ 
 
Snýst um upplifun og fræðslu
 
Guðjón Hildibrandsson sinnir safninu með föður sínum og fræðir ferðamenn um hlutina sem þar eru, hákarlaveiðar og verkun samhliða því sem verkferlið er kynnt á kvikmynd í safninu. Hann segir að þeir feðgar reyni alltaf að vera brosandi og kátir við gestina, enda stoltir af safninu sínu. 
 
„Hér erum við að búa til upplifun og fræðslu.“ Hafa vísindamenn einnig nýtt sér aðstöðuna í Bjarnarhöfn til rannsókna á hákarli.      
 
 
Veruleg fjölgun ferðamanna
 
„Við höfum verið með opið allt árið en umferðin er að aukast mjög mikið yfir vetrartímann,“ segir Hildibrandur.
 
„Þá erum við jafnvel eini staðurinn á stóru svæði sem býður upp á slíka afþreyingu. Því er mikilvægt að standa sig. Ég vona þó að fleiri staðir fari að sjá tækifæri í því að hafa opið yfir vetrartímann.“ 
 
Var um aldir eldsneytisauðlind Íslendinga
 
Hákarlinn sem verkaður er í Bjarnarhöfn kemur víða að. Margir sjómenn vita af verkun feðganna og jafnvel eru grænlenskir togarar að koma með hákarla sem ánetjast í troll. Mikinn fróðleik er hægt að sækja til Hildibrands um hákarlinn, hárkarlsveiðar og verkun. 
 
Á 18. og 19. öld var trúlega blómatími hákarlaveiða við Ísland. Árið 1867 fengust t.d. yfir 12.000 tunnur af lifur úr hákarli við Norður- og Austurland. Var síðan unnið úr lifrinni lýsi sem notað var til að lýsa upp borgir í Evrópu. Segir Hildibrandur að Hamborg í Þýskalandi hafi t.d. verið lýst upp með hákarlalýsi frá Íslandi um áratuga skeið. Hvalveiðar Spánverja (Baska), Bandaríkjamanna og Norðmanna hér við land þjónuðu m.a. sama tilgangi varðandi lýsisöflun og yfirgnæfðu hvalveiðarnar fljótlega hákarlaveiðarnar.  
 
Einokunarverslun Dana dró úr getu Íslendinga til fiskveiða
 
Hákarlaveiðar á 17. öld voru fremur litlar hér á landi og þá aðallega fyrir tilstilli Dana sem stjórnuðu versluninni, þar sem þeir lækkuðu verð á íslenskum útflutningsvörum en seldu sinn varning á okurverði til Íslendinga. Þessi einokun leiddi til fjárskorts og voru því veiðarfæri landsmanna léleg og framfarir í öllum greinum mjög litlar. Í kringum 1800 fer þó einokunarverslun Dana að hnigna og Íslendingar fara að stunda hákarlaveiðar í auknari mæli enda var eftirspurn eftir lýsi orðin mikil í borgum Evrópu. Þetta leiddi til þess að Íslendingar fóru að gera út skip sem einungis voru ætluð til hákarlaveiða en áður fyrr hafði hákarlinn aðeins verið veiddur sem viðbót við þorskaflann. Það voru þó breytingar handan við hornið á aðbúnaði manna úti á sjó því þegar að aukin eftirspurn eftir lýsi varð í Evrópu fóru menn að gera út til hákarlaveiða á þilskipum.
 
Vestfirðingar ruddu brautina í hákarlaveiðunum
 
Hákarlaveiðar á þilskipum hófust fyrir alvöru í kringum 4. áratug 19. aldar og voru Vestfirðingar manna fyrstir til þess að gera út til hákarlaveiða á þilskipum. Á þessum tíma hafði verð á lýsi hækkað hlutfallslega mikið gagnvart þorski. Þilskipum á Vestfjörðum fjölgaði stöðugt á þessum árum og var svo komið að þorskveiðar virtust hafa verið aukageta skipverja. Þilskipaútgerð Norðlendinga byrjaði þó öllu síðar en fyrir vestan. Þilskipaútgerð Norðlendinga var í höndum bænda og stunduðu þau skip nær eingöngu hákarlaveiðar.
 
Mikil eftirspurn var á lýsi í borgum Evrópu allt fram til 1900. Upp úr því fór eftirspurnin að minnka verulega þar sem menn voru byrjaðir að nota olíu til þess að lýsa upp borgirnar í stað lýsis.
 
Þegar að veiðarnar stóðu sem hæst hér við land voru menn að veiða það mikið af hákarli að lifrin úr þeim náði að fylla rúmlega 12.000 tunnur árið 1867. Það voru Norðlendingar sem báru þá höfuð og herðar yfir aðra hvað hákarlaveiðar vörðuðu á landinu. Hnignun veiðanna varð þó mjög hröð. Þó er enn veitt nokkuð af hákarli í dag en sá hákarl sem veiðist er helst kæstur og borinn fram á þorrablótum.
 
Kæsing til að gera hákarlinn neysluhæfan
 
Hákarlinn  er brjóskfiskur og talinn hafa verið í höfunum að mestu í óbreyttri mynd í rúmlega 300 milljónir ára. Þótt hann hafi verið hér á landi um aldir vegna lýsisins, þá er hann vandmeðfarinn ef neyta á holdsins. Hákarlinn hefur ekkert þvagkerfi og þegar hann er drepinn tekur þvagið að brotna niður í eitt af myndunarefnum ammoníaks. Það flæðir um skrokk dýrsins og styrkur þess getur verið svo mikill að ef einhver neytir kjötsins getur það leitt til alvarlegrar eitrunar eða dregið menn til dauða.
 
Til að gera hákarlinn hæfan til neyslu eftir að hann hefur verið drepinn hefur tíðkast hér á landi að brjóta niður eiturefni sem myndast í holdinu með því að kæsa hann. Er hákarlinn látinn gerjast í kös í einn til þrjá mánuði og síðan hengdur upp á hjall og þurrkaður.
 
„Þetta eru um sex til átta vikur að jafnaði sem hann er látinn kæsast í rimlakössum. Það fer þó auðvitað eftir hitastiginu úti,“ segir Hildibrandur. Hákarlinn er einungis kæstur yfir vetrartímann, en hákarl sem veiðist á sumrin er þá geymdur í frysti þar til lofthiti til verkunar er orðinn heppilegur.
 
Skyrhákarl og glerhákarl
 
Margir hafa heyrt talað um skyrhákarl og glerhákarl sem fólk neytir eftir verkun. Að sögn Hildibrands er skyrhákarl oftast hvítur að lit og skorinn úr þykkum bakstykkjum hákarlsins. Glerhákarlinn er aftur á móti það sem til fellur við verkun á þynnri kviðstykkjunum. 
 
„Þegar ég var krakki var skyrhákarlinn á heimilinu alltaf seldur, en við krakkarnir fengum að borða glerhákarlinn. Þetta var sælgæti með skyrhræring eða súrhræring og gjarnan skammtað með honum.“ 
 
Vel lukkuð markaðssetning á skrítnum mat
 
Þessi verkunaraðferð þykir afar sérstök og má segja að Íslendingum hafi tekist vel upp við að markaðssetja svo skrítna fæðu á síðari árum. Þar er hlutur Bjarnarhafnarfólksins ekki lítill. Þykir útlendingum sem hingað koma sérlega spennandi að prófa að smakka þennan fisk sem angar af sterkri rotnunar- eða ýldulykt. Koma menn jafnvel fljúgandi á þyrlum í Bjarnarhöfn til að upplifa þetta og mikill fjöldi gesta af skemmtiferðaskipum kemur þar árlega í sömu erindagjörðum. 
 
„Útlendingum og öllum sem hingað koma þykir líka gaman að sjá skýringarmyndina um verkunina og hvernig hákarlinn  er skorinn til verkunar.“ 
 
Annars konar verkun í útlöndum
 
Neysla á hákarli er þó vel þekkt víða um heim, en á allt annan hátt en hér á landi. Er hann þá blóðgaður strax eftir að hafa verið drepinn og þvagefnaríkt blóðið þá látið renna úr honum. Er þá hægt að matreiða „kjötið“ á ýmsan hátt, án þess að finna ammóníaksbragð. Þykja minni hákarlstegundirnar bestar. Lítil hefð er þó fyrir slíku hér á landi. 
 
Ein verkunaraðferð sem meðal annars er notuð í Bandaríkjunum og víðar felst í því að fjarlægja skrápinn og dökkt hold sem liggur undir honum eftir blóðgun. Síðan er „kjötið“ skorið niður í bita og þeir þaktir hveiti- eða kornmjöli og settir í kæli. Bitana þarf helst að geyma í kæli við 0–3°C í tvo sólarhringa áður en hægt er að neyta þeirra. Með þessari aðferð sleppa menn að mestu við ammoníaksbragðið og hægt er að borða kjötið nokkuð ferskt.
 
 Bú margra merkismanna
 
Margir merkismenn hafa búið á Bjarnarhöfn í gegnum tíðina. Hjörleifur Gilsson bjó á Bjarnarhöfn um árið 1200. Hann var faðir Arons Hjörleifssonar, sem getið er um í Sturlunga sögu. Þar bjó einnig maður að nafni Marteinn Narfason. Hallgrímur Bachman læknir bjó þar frá 1773 til æviloka 1811. Hann varð fjórðungslæknir árið 1776. Hann hafði numið læknisfræði af Bjarna Pálssyni landlækni og einnig erlendis. Páll Melsted (1791–1861) var sýslumaður Snæfellinga 1849–1854 og bjó lengst af þeim tíma á Bjarnarhöfn.
 
Á eftir honum bjó þar Þorleifur Þorleifsson (1801–1877). Hann var læknir á Snæfellsnesi á öldinni sem leið. Þorleifur var smáskammtalæknir og varð héraðslæknir. Hann var gæddur miklum hæfileikum; hann þótti mjög heppinn læknir, aflasæll formaður, mikil skytta og dugandi bóndi. En það allra merkilegasta í fari hans var þó fjarsýnisgáfan. Margar sögur fara af því hvernig hann gat nýtt sér þennan hæfileika sinn til lækninga, sagt var að hann gæti séð það á fólki hverjir áttu von og hverjir ekki. Þórir Bergsson (1885–1970) rithöfundur, sem réttu nafni hét Þorsteinn Jónsson, átti heima á Bjarnarhöfn ásamt foreldrum sínum 1905–1907.
 
Komst í eigu umsvifamannsins Thors Jensen
 
Thor Jensen (1863–1947) var verslunarstjóri í Borgarnesi frá 1889–1894 og á Akranesi til 1899. Flutti síðar til Reykjavíkur 1901, gerðist umsvifamikill útgerðar- og kaupmaður og stóð meðal annars að stofnun útgerðarfélaga. Hann keypti Bjarnarhöfn og allt helsta nágrenni árið 1914. Thor rak þar mikið sauðfjárbú og lét reisa þar vönduð fjárhús fyrir 600 fjár árið 1917. Voru það talin á þeim tíma veglegustu fjárhús sem byggð höfðu verið í víðri veröld. Voru þau mun veglegri en mörg íbúðarhúsin á þeim tíma. Í þeim voru steyptir kjallarar með grindum yfir og öll loft þiljuð með panel að sögn Hildibrands. Hann segir að of seint hafi verið farið að huga að því að varðveita húsin og er því ekkert af þeim uppistandandi í dag.   
Árið 1921 seldi hann svo Sveini Jóni Einarssyni jörðina og keypti sjálfur jörðina að Korpúlfsstöðum og kom þar upp stærsta kúabúi á Íslandi. 
 
Fiskleysi í Húnaflóa leiddi foreldra Hildibrands til Bjarnarhafnar
 
Árið 1932 keypti Bæring Elísson Bjarnarhöfnina og bjó þar myndarbúi ásamt Árþóru Friðriksdóttur, konu sinni, til ársins 1951 er hann seldi jörðina. Kaupendur voru foreldrar Hildibrands, þau Bjarni Jónsson frá Asparvík á Ströndum (fæddur á Svanshóli 1908) og Laufey Valgeirsdóttir frá Norðurfirði (fædd 1917). Ástæðan fyrir kaupum þeirra á jörðinni voru einkum möguleikar á sjávarnytjum á jörðinni og stutt að róa eftir fiski í Breiðafirði. Fóru þau að leita fyrir sér í kjölfar þess að fiskur hvarf að mestu úr Húnaflóa.  
 
Mikil umsvif í Kumbaravogi
 
Í Bjarnarhöfn hafa verið mikil umsvif í gegnum aldirnar. Þarna rétt fyrir innan  er Kumbaravogur. Segir Hildibrandur nafnið stafa af því að menn frá Cumberland  í Bretlandi hafi sett þar upp verslun fyrir mörgum öldum. Sumir nefna einnig Íra og Þjóðverja í því sambandi.
 
Hansakaupmenn komu í kjölfarið og settu þar upp verslun á árabilinu 1500 til 1600. Síðan tóku Hollendingar við að sögn Hildibrands og voru þar á milli 1600 og 1700. Í kjölfar þeirra komu Danir og stunduðu þar verslun fram á miðja 18. öld. Telur Hildibrandur víst að miklar minjar liggi þar í jörðu eftir aldalöng umsvif erlendra kaupmanna á staðnum. 

39 myndir:

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt