Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands, er blómabóndi á Espiflöt í Reykholti.
Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands, er blómabóndi á Espiflöt í Reykholti.
Mynd / smh
Viðtal 2. maí 2025

Stefnt í átt að sjálfbærari garðyrkju

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Þungur raforkukostnaður garðyrkjubænda í ylrækt hefur verið mjög til umræðu á síðustu misserum, eftir miklar verðskrárhækkanir á undanförnum misserum. Opinber stuðningur fékkst nýlega til innleiðingar á LED-ljósum sem getur dregið verulega úr raforkukostnaði í greininni.

Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands, segir að sóknarfæri séu víða til sjálfbærari garðyrkjuframleiðslu. Hvata vanti hins vegar af hálfu stjórnvalda til að raunveruleg framleiðsluaukning geti orðið.

Spurður um hvort sólarsellutæknin sé tæk til hagnýtingar hjá garðyrkjubændum, segir Axel að það sé reyndar tilraunaverkefni í gangi þar sem eitt garðyrkjubýli sé að prófa notkun á birtusellum, sem þurfa ekki beina sól til að geta framleitt orku.

„Þetta hefur hins vegar verið skoðað aðeins og í ljós komið að orkuþörfin er svo mikil þar sem vaxtarlýsing er að hæpið sé að þessi tækni geti komið að fullu í stað hefðbundinnar orkuöflunar þannig að búin geti orðið sjálfbær um nægilega orkuframleiðslu. En ef við tökum frá lýsingarþátt gróðurhúsanna þá má vel ímynda sér að slík orkuöflun gæti staðið undir annarri almennri raforkunotkun, eins og í dæli- og kælikerfum – og í starfsmannaaðstöðu.“

Hærri rekstrarkostnaður og hringrásarhagkerfi

Að sögn Axels hafa stöðugar hækkanir á rekstrarkostnaði á undanförnum misserum og árum – og hertar kröfur í umhverfismálum – knúið bændur til að huga meira að möguleikum á þróun til aukinnar sjálfbærni í búrekstri sinna garðyrkjustöðva. Hefðbundnar gróðurhúsaperur eru á útleið og almennt skal stefnt í átt að hringrásarhagkerfi með lífrænt endurvinnanleg efni.

Garðyrkjubændur eru stofnaðili að verkefni sem gengur út á að reisa lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árnessýslu, nálægt Reykholti. Þar stendur til að framleiða koltvísýring, lífrænan áburð, rafmagn og hita úr garðyrkjuafskurði frá garðyrkjubændum og kúamykju frá kúabændum með loftfirrðri gerjun [e. anaerobic digestion]. Með því að fara þá leið með sinn garðyrkjuúrgang geta bændur losnað við þann kostnað sem fylgir því að fara með hann til viðeigandi moltugerðar og eiga auk þess aðgengi að koltvísýringi á hagstæðu verði, sem er nauðsynlegur í framleiðsluferli ylræktarbænda.

Á deildarfundi garðyrjubænda í febrúar voru þessi mál til umræðu og fór Axel yfir tækifæri í þeim efnum í ársyfirliti sínu, einkum möguleika í LED-ljósum – til raforkusparnaðar – sem kemur í stað gömlu HPS-ljósanna, auk þess sem hann vék að tækifærum í endurvinnslu á áburðarvatni. Nýlega fengu ylræktendur þau gleðitíðindi að Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra myndi styrkja þá til innleiðingar á LED-perum í gróðurhús sín, sem talið er að geti á endanum minnkað raforkunotkun þeirra um 40–60 prósent. Stuðningurinn er því kærkominn, vegna þess að gert er ráð fyrir að gömlu ljósin verði bönnuð á næstu árum og því fyrirsjáanlegt að bændur þurfa að fara í slíkar fjárfestingar.

Axel við hluta af tækjabúnaðinum sem sér um endurnýtingu á áburðarvatni.

Endurnýtt áburðarvatn

Axel segir að vitundarvakning hafi orðið að undanförnu, um nauðsyn þess að áburðarefni séu betur nýtt og ekki síst í landbúnaði. Hann telur að um fimm garðyrkjustöðvar í ylrækt séu með endurvinnslukerfi á áburðarvatni en mikilvægt sé að fleiri hugi að þeim kostum sem þeim geti fylgt, bæði umhverfislega og fjárhagslega – en hann áætlar að það geti sparast um 30–50 prósent í innkaupum á innfluttum tilbúnum áburði með þessum hætti. „Við erum búin að vera með endurvinnslukerfi á áburðinum frá 2018 og höfum mjög góða reynslu af þessu. Hjá okkur náum við alveg helmings sparnaði á áburðarinnkaupum. En það er ekki bara beinn sparnaður í áburðarnotkun með endurnýtingu á áburðarvatninu, heldur verður notkunin skilvirkari og gagnast plöntunum því betur sem skilar svo betri framleiðslu. Það er alltaf mikilvægt í svona ræktun að plantan hafi aðgang að þeirri næringu sem hún þarf. Með þessari nálgun er hægt að skammta ríflega af áburðinum en plantan tekur svo bara upp það sem hún þarf, en þú ert viss um að hún fær það sem hún þarf. Það sem gengur af er svo endurnýtt og engu er sóað.

Við erum með þetta kerfi eingöngu í rósaræktuninni hjá okkur enda er þar langmesta áburðarþörfin og ræktunin umfangsmest. Þegar þetta kerfi var sett upp hjá okkur jók ég áburðargjöfina strax og ræktunin varð mun betri fyrir vikið. Við erum með rennur undir pottunum sem plönturnar eru ræktaðar í, sem grípa vökvunarvatnið og þaðan rennur það í pípum ofan í tanka sem eru grafnir í jörðu undir gróðurhúsinu. Síðan er vatninu dælt upp í gegnum síur og svo í gegnum hreinsibúnað þar sem það er hitað upp í 95 gráður til sótthreinsunar – án þess að nokkur næringarefni tapist. Síðan er það kælt niður aftur og fer þaðan inn á vökvunarkerfið,“ útskýrir Axel.

Alls ekki sóa næringarefnum

Hann segir stofnkostnaðinn við slík kerfi hlaupa á einhverjum milljónum króna. „Hjá okkur til dæmis kostaði þetta um fimm milljónir árið 2018 fyrir utan vinnu. Við spöruðum í byrjun svona þrjú til fjögur hundruð þúsund á ári, en aðalhugsunin hjá okkur var að við vildum alls ekki vera að sóa næringarefnum af stöðinni beint út í náttúruna.

Við ætluðum að sætta okkur við að þetta myndi kannski borga sig upp á tíu árum, en svo kom Covid og þá nærri þrefaldaðist áburðarverðið og við erum í dag að spara okkur um eina og hálfa milljón á ári með þessari fjárfestingu og búin að borga hana upp.“

Upptaktur að búvörusamningum

Á deildarfundinum ræddi Axel einnig upptaktinn fyrir samningaviðræður við stjórnvöld um nýja búvörusamninga, sem munu taka gildi í byrjun árs 2027, þar sem hann setti nokkur áherslumál á oddinn.

Leggja ætti áherslu á að niðurgreiðsluhlutfall stjórnvalda vegna raforkudreifingar verði fest við 95 prósent, að stuðningur fáist við jarðrækt með niturbindandi plöntum, tækjastuðningur til innleiðingar á endurvinnslu áburðarefna og innleiðingar á LED-ljósum, að nýliðunarstuðningur verði uppfærður, að uppreiknaður verði stuðningur fyrir A og B hluta jarðræktarstuðnings til verðlags dagsins í dag, að afhendingaröryggi á raforku verði tryggt og raforkukostnaður verði niðurgreiddur.

Undirbúningur fyrir búvörusamninga hefjist sem fyrst

Axel segir að Bændasamtök Íslands og garðyrkjudeildin innan þeirra séu samhuga í því að stefnt verði að því að hefja undirbúning og viðræður um nýja búvörusamninga sem fyrst á þessu ári. „Það sem er mikilvægast er þrennt að mínu mati. Að það verði búnir til alvöru framleiðsluhvatar í gegnum stuðningskerfið svo raunhæft verði að auka hlutfall af innlendum garðyrkjuafurðum á markaði – og um leið skapa aðstæður fyrir yngri garðyrkjubændur til betri afkomu með aukinni framleiðslu. Svo að nýliðunarstuðningurinn verði uppfærður þannig að nýtt fólk komist inn í greinina og að við bætist sérstakur fjárfestingastuðningur fyrir garðyrkjuna sem ekki hefur verið í boði.

Verndartollar á innfluttu útiræktuðu grænmeti, sumarblómum og afskornum blómum eru greininni einnig afar mikilvægir til að gera garðyrkjubændum kleift að keppa á markaði. Umræddir krónutölu tollar hafa verið eins í áratugi og þar af leiðandi ekki fylgt verðlagi. Þetta hefur skekkt samkeppnistöðu bænda mikið og gert þeim erfiðara um vik að standast samkeppni. Það er skýrt í okkar búvörusamningum að tollaumhverfið er hluti af okkar starfsskilyrðum og því finnst okkur að tollarnir þurfi að fylgja því verðlagi sem er eða koma á móts við greinina á annan hátt.

Við höfum átt í óformlegu samtali við stjórnvöld og okkur líst bara vel á þann hljómgrunn sem við höfum fengið hjá þeim hingað til.“

Skylt efni: garðyrkjubændur

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt