Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Stórt kort af Vallanesi á Fljótsdalshéraði, þar sem merkt er inn hvað er ræktað á ökrunum hverju sinni. Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir segja ræktarlandið vera eins og skepnu að formi til og þannig sé Vallanesbýlið einmitt: eins og það hafi sjálfstætt líf. Nú vilja þau huga að því að koma því og Móður Jörð í nýjar hendur. Hvorugt er þó komið formlega á sölu ennþá en þau eru tilbúin að hefja ferlið.
Stórt kort af Vallanesi á Fljótsdalshéraði, þar sem merkt er inn hvað er ræktað á ökrunum hverju sinni. Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir segja ræktarlandið vera eins og skepnu að formi til og þannig sé Vallanesbýlið einmitt: eins og það hafi sjálfstætt líf. Nú vilja þau huga að því að koma því og Móður Jörð í nýjar hendur. Hvorugt er þó komið formlega á sölu ennþá en þau eru tilbúin að hefja ferlið.
Mynd / sá
Viðtal 30. júní 2025

Á fljúgandi ferð en huga nú að sölu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Jörðin Vallanes á Fljótsdalshéraði fer senn á sölu með öllum byggingum, auk Móður Jarðar ehf., fyrirtækis í lífrænni ræktun, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu.

Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir, margverðlaunaðir eigendur fyrirtækjanna tveggja, hafa lagt stund á lífræna korn- og grænmetisræktun í Vallanesi og framleitt tilbúnar hollustu- og sælkeravörur sem bera Evrópulaufið, alþjóðlegt vottunarmerki um lífræna ræktun og framleiðslu. Allt grænmeti er útiræktað og á jörðinni er auk kornræktar umfangsmikil skógrækt. Auk þess eru þau með veitingasölu og gistingu.

Nú leita þau nýrra eigenda. „Hér er í gangi nýsköpun sem tekur engan enda og því kannski rétt að segja þetta gott á einhverjum tímapunkti og koma fyrirtækjunum í yngri og fleiri hendur,“ segja þau Eygló og Eymundur. „Jörðin er ekki komin formlega á sölu, enda er þetta frekar erfið ákvörðun, en við teljum að við séum tilbúin ef vænlegir arftakar banka upp á,“ segja þau og hnýta við að þau séu ekkert að yngjast og tímabært sé að huga að því.

Asparhúsið, Vallanesstimbur í gegn, var eins og ýmislegt fleira í Vallanesi teiknað af Albínu Thordarson arkitekt. Húsið býr yfir einstökum þokka.

Tímabært að huga að eigendaskiptum

„Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en Þórunn, dóttir mín, fór að rukka mig um sjötíu ára afmælið – hvað ég ætlaði að gera í haust í tilefni af því. Og ég sem hélt að ég væri bara fimmtugur!“ segir Eymundur kíminn og heldur áfram:

„Aldurinn læðist að og okkur langar til að snúa okkur að öðru á meðan maður er hress og hægt er að njóta. Ég þykist nú eiga orðið inni svolítið af fríi hjá Móður Jörð eftir 46 ára búskap. Við Eygló eigum eftir að ferðast víða og ferðumst vel saman.

Hann segist myndi vilja hafa miklu meiri tíma til að vinna í fegurð staðarins; planta blómum og trjám og taka til. Hann spyrji sig oft að því af hverju hann sé endalaust að koma sér í meiri verkefni og „vandræði“ þar með, t.d. að standa í að malta bygg til bjórgerðar, þegar hann hafi engan tíma til þess í raun og veru því verkefnin séu næg fyrir: „En ef maður hefur brennandi áhuga á einhverju þá bætir maður því við, því það þarf að vera gaman líka.“

Eymundur og Eygló segja nú kominn réttan tíma til að láta fréttast að þau vilji selja. Á meðan það gerjist vinni þau af fullum krafti og gleði.

Umfangið vaxið hratt

Þau segja umfangið í Vallanesi og hjá Móður Jörð hafa vaxið mikið á undanförnum árum, enda hafi starfsemin þróast frá frumframleiðslu að grunninum til, upp í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu sem tengist því. „Við höfum verið í uppbyggingarfasa og mikilli nýsköpun undanfarin ár, sem hefur skapað 7–8 ársverk, og það eru vaxtartækifæri á öllum sviðum. Þetta er bara rétti tíminn að undirbúa kaflaskil og þó að allt hér sé í stöðugri þróun er þetta eitthvað sem við þurfum að gera,“ segja þau.

„Skógurinn er að koma inn sem tekjulind, ferðaþjónustan getur vaxið, framleiðslan, og ræktunin líka, því það er enn nóg landrými. Það eru vaxtartækifæri á öllum sviðum og við erum á einhverjum ákveðnum stað á markaði með okkar lífrænu framleiðslu, þetta á allt góða framtíð fyrir sér. Vonandi bara að einhverjir taki þann bolta og geri jafnvel enn meira úr þessu öllu saman. En einhvern tímann verðum við að hefja þetta ferli og koma þessu áfram inn í framtíðina.“

Þau segjast alveg eiga eftir að sjá hvernig áhugi skapist. „Það getur vel verið að eitthvert ferðaþjónustufyrirtæki sæi sér hag í að kaupa fasteignirnar og aðrir tækju búskapinn. Þetta stendur bara til og við erum að hefja það ferli. Þangað til erum við bara í vinnunni og höfum gaman. Hægt er að gera betur á öllum sviðum. Það er fullt af fólki þarna úti sem getur örugglega gert hlutina betur en við. En það er af og frá að við ætlumst til að einhverjir geri hlutina hér endilega eins og við höfum gert þá.“

Þau hafi búið til ákveðið „platform“, ákveðna möguleika í sjálfbærri starfsemi sem verði vaxandi krafa í matvælaframleiðslu í framtíðinni. „Hér er góð aðstaða, tæki og tól, uppskriftir, aðferðir og annað sem við myndum fylgja fólki inn í ef áhugi væri fyrir því. Við höfum alltaf reynt að gera hlutina vel og við ætlum líka að gera það núna,“ segja þau Eygló og Eymundur.

Lífræn grænmetisræktun í Vallanesi.

Ósnortin skógarauðlind

Þau tiltaka að skógurinn á Vallaneslandinu sé nánast ósnertur með öllu sínu timbri og í því felist mikil verðmæti. Skemmst er að minnast fordæmis sem búið er að gefa varðandi verðmat skógarjarðar umfram fasteignamat, þegar Skógræktin í vor verðmat land Hvamms á Völlum mun hærra en upphaflegt fasteignamat sagði til um, vegna mögulegra verðmæta skógarins á landinu til nytja. Þau segja slíkt mat ekki liggja fyrir en Vallanesskógurinn sé mikill að umfangi og þeki um 200 ha lands.

Spurð að því hvað sé nákvæmlega til sölu segja þau um að ræða tvö fyrirtæki: Vallanesbýlið ehf., sem á jörðina og allar byggingar, og svo Móðir Jörð ehf., sem sér um rekstur og á vörumerkið. Vallanesbýlið leigir þannig Móður Jörð landið og fasteignirnar.

Lífræna ræktunin kjarninn

Vallanes er prýtt skógi og ökrum innan um skjólbelti. Jörðin er miðja vegu milli Egilsstaða og Hallormsstaðar og nær frá bökkum Lagarfljóts niður að Grímsá.

Grænmetisveitingastaður og gistihús eru starfrækt á jörðinni frá vori og fram á haust. Lögð er áhersla á ferskt hráefni beint af akrinum, heilkorn og annað hráefni úr jurtaríkinu. Gisting er m.a. í uppgerðu gömlu fjósi og tveimur stökum smáhúsum.

Meðal framleiðsluvara Móður Jarðar eru korn, þ.e. bygg og heilhveiti, repjuolía, ferskt, sýrt og sultað grænmeti, pestó, grænmetisréttir, jurtablöndur og te, sultur, hrökkbrauð og bakstursblöndur.

„Hér er fyrirtæki sem vinnur á grundvelli lífrænnar ræktunar,“ útskýrir Eygló. Svo hefur verið allt frá árinu 1995. Eymundur hóf búskap í Vallanesi árið 1979 með fjölskyldu sinni og lagði fyrst stund á kúabúskap, 1979–1989, hafði naut til 1994 og hefur verið með grænmetis- og kornrækt til manneldis frá árinu 1985.

Þau Eygló kynntust á matvælasýningu árið 2004 en hún starfaði þá við innflutning á ítölskum gæðamatvælum og hafði ásamt fleirum stofnað Slow-foodhreyfinguna árið 2000. Þau giftu sig árið 2010.

„Þetta var meðal fyrstu býla til að fá lífræna vottun, 1995. Það sem límir allt saman hérna er ræktunarkerfið og hin lífræna hugsun. Síðan er þetta bara nútímaleg atvinnustarfsemi á þeim grunni,“ segir hún.

Fyrsta bygguppskeran kom 1986. Byggið fór strax í verslanir undir merki Móður Jarðar, Vallaneskartöflurnar urðu frægar fyrir bragðgæði, nuddolíurnar eftirsóttar og fyrsta íslenska grænmetisbuffið leit dagsins ljós, árið 2004. Sama ár fékk Eymundur Landbúnaðarverðlaunin, m.a. fyrir það framtak og skjólbeltaog skógrækt. Móðir Jörð var því orðið vel sýnilegt vörumerki fyrir um 25 árum og er í dag með fjölda framleiðsluvara.

„Við erum í dag ein á manneldismarkaði í verslunum með íslenskt bygg og höfum verið með stöðugt framboð í áratugi,“ bendir Eymundur á og bætir við að þau framleiði um 20 vörutegundir sem grundvallist á bygginu. Bygg sé sú korntegundin sem unnt sé að rækta af einhverju öryggi á Íslandi vegna veðurfarslegra skilyrða, í það minnsta enn sem komið er. Aukin neysla á heilkorni, s.s. byggi, sé í takt við manneldismarkmið, þetta sé íslenskt hráefni sem eigi erindi í ýmsar neysluvörur.

Skógurinn á Vallanesjörðinni er orðinn verðmætur og fullur af nýtanlegu timbri.
Viðurinn og húsin

Akrarnir eru í dag orðnir 70 ha að stærð og ræktað á um 40 ha ár hvert. „Skipulag jarðarinnar, byggingar og annað hefur raðast saman á fallegan og notadrjúgan hátt,“ útskýrir Eymundur. Utan á reksturinn hafi svo hlaðist ferðaþjónusta til að styrkja býlið og efla mannlíf, í formi veitingareksturs og gistingar yfir sumartímann, auk viðburðahalds. Þau segja þetta falla einkar vel hvað að öðru

Þau byggðu m.a. hið fallega og einstaka Asparhús fyrir níu árum. Það er teiknað af Albínu Thordarson arkitekt í samvinnu við þau og er sérstætt fyrir að vera allt úr ösp, auk lerkis og grenis, og var það í fyrsta sinn sem íslenskt timbur var vottað sem burðarviður í hús.

„Auk þess eru tvær aðrar byggingar, gamla fjósið og hlaðan, sem nýtt er til gistingar, og kyndistöð sem er að grunni til 40 feta gámur, klæddar með ösp og með sömu þakgerð og Asparhúsið. Gólf og innréttingar gistirýmisins eru úr öspinni okkar. Sömuleiðis er lerki í pöllum og útisvæði. Albína teiknaði þetta allt saman en hún er mikill áhrifavaldur í uppbyggingunni hér, og nú er orðið býsna staðarlegt að koma hingað heim,“ segir Eymundur. Sonur hans, Gabríel, felldi allt efnið í húsið; aspir úr skjólbeltum, og Skógræktin á Hallormsstað fletti viðnum. Eftir að fyrirtækið Skógarafurðir var stofnað í Fljótsdal hefur það séð um vinnslu á Vallanesviðnum í aðrar byggingar.

Nú er komin reynsla á hvernig viðurinn reynist og Eymundur segir Asparhúsið eins og það hafi verið byggt í gær. Á viðinn utan á húsinu sé borið náttúrulega efnið línolía og ef hún veðrist mikið þurfi að bera á.

Líf og fjör í kortunum

Veitingastaðurinn í Asparhúsinu er að renna inn í sumarvertíðina en hann er, ásamt gistingunni, opinn frá maí og út september. Sumarið lítur vel út í gistingunni. Þau gerðu upp gamalt fjós og hlöðu, sem fyrr segir, og byggðu ofan á nokkrar rúmgóðar svítur með suðurverönd. Er þetta fyrsta heila sumarið sem þessi valkostur er í boði.

„Fólk er mjög ánægt og við erum að fá tíur á færibandi, sem er ánægjulegt,“ segir Eymundur. Eygló segir staðinn tengjast beint inn í sjálfbæra ferðaþjónustu. „Svo erum við að hnoða saman matarupplifunina og gistinguna. Við bjóðum m.a. morgunverðarkörfur með byggi o.fl. sem fólk getur haft inni á herbergjum. Boðið er sömuleiðis upp á grænmetishlaðborð í hádeginu sem endurspeglar alltaf það sem við erum að rækta, árstíðina og boðið er upp á kvöldmat fyrir gesti,“ segir hún.

Þau eru líka viðburðastjórnendur. Skógargleðin í Vallanesi er löngu orðin árlegur viðburður. „Já, þetta er nú dálítið leikarinn í mér, sem hef alltaf verið með leiklistarbakteríu, að vera með einhverja gjörninga úti í skógi,“ segir Eymundur hlæjandi. Hátíðin er komin á fermingaraldurinn og þau segja afar gaman að hóa saman góðu fólki til að mynda keðju viðburða í skóginum. Kennir þar ýmissa grasa, allt frá tálgunarkennslu, lifandi tónlistarflutningi og ljóðalestri, til grænmetismarkaðar og leirbrennslu við opinn eld.

Ísánir akrar Vallaness eru tilbúnir til sprettu í íslenska sumrinu.
Orkuskipti og kolefnisbinding

Í Vallanesi hafa verið gróðursett yfir milljón tré sem veita ræktuninni skjól og auðga jarðveg. Því er orðinn til gróskumikill útivistarskógur, með viðarkurlsstígum þvers og kruss. Áætlað er að skógurinn og 9 km löng skjólbeltin bindi um 1.000 tonn af CO2 á ári.

Ein afurð skógarins er orkuviður, sem hingað til hefur komið úr grisjun skógarins. Eymundur og Eygló teiknuðu fyrsta orkuverkefni sitt upp fyrir um fimmtán árum, hitaveitukerfi til að kynda húsin. Þá voru þau að hugsa um Heizomatviðarkyndikerfi, miðlæga stöð fyrir eldivið með lögnum til húsa. „Í stuttu máli féllu umsóknir okkar ekki í kramið, lagnir reyndust of dýrar og ef til vill ekki mikill áhugi fyrir hendi hjá opinberum aðilum á þeim tíma til að styðja við slík verkefni.

Þegar Magnús Þorsteinsson hjá viðarperluframleiðandanum Tandrabrettum kom í heimsókn og kynnti sína lausn teiknuðust upp aðrir möguleikar. Þarna var orðið mögulegt að byggja upp dreift kerfi sem nýtti austfirskar viðarperlur og kurl. Þá var nýyrðið orkuskipti orðið til, komin áhersla á umhverfisvænni orku í samfélaginu og hægt að sækja um styrki í slík verkefni,“ útskýra þau Eymundur og Eygló.

Í Vallanesi urðu því orkuskipti við kornþurrkunina með stuðningi Orkusjóðs og nú er allt korn þurrkað með viðarbrennara sem þau segja kolefnishlutlausa aðferð vegna þess að það losni ekki meira en viðurinn var búinn að binda. „Það verða að teljast frábær orkuskipti að fara úr olíu í íslenskan við,“ segir Eymundur. „Áður höfðum við virkjað hitann frá fjórum kælivélum með varmaskiptum og hitum gólf í vinnsluhúsnæði og víðar.“

Þá er kyndistöð gegnt Asparhúsinu sem hitar vatn. Í henni er brenndur kurlaður grisjunarviður og viðarperlur með nýjustu tækni til að hita allan húsakost, þ.m.t. gróðurhús. Brennarinn getur afkastað á milli 60–100 kW.

Birtan beisluð

Nýjasta orkuverkefni Vallaness er sólarselluverkefni, en þau voru valin í tilraunaverkefni á vegum ALOR í samstarfi við Bændasamtök Íslands, þar sem prófa á slíka tækni við íslenskar aðstæður í ólíkum tegundum búskapar. Voru nýlega settar á þak kyndistöðvarinnar 28 birtusellur sem fara langt með að framleiða það rafmagn sem býlið notar yfir bjartasta og hlýjasta tíma ársins, tæp 12 kW.

„Við erum á köldu svæði svo við verðum að prófa aðra hluti, hverfa frá jarðefnaeldsneyti og lækka kostnað. Lífræna kerfið er heildstætt og pælir einmitt í öllum þessum hlutum. Þetta styrkir vörumerkið, lækkar kolefnissporið og rímar við allt sem við erum að gera,“ segir Eygló. Þau hafi þegar sótt um styrki til að setja birtusellur á fleiri þök og efla þannig orkugetuna enn frekar.

Ógetið er rannsóknarverkefna sem hafa átt sér stað í tengslum við Vallanes og má nefna sem dæmi yfirstandandi rannsókn á vægi lífkola í jarðvegi. Þau hirða einnig alla ösku og kol frá pitsustaðnum Aski á Egilsstöðum og blanda af kostgæfni í safnhaugana, sem fara svo út á akrana. Þá fékk Eymundur um tíma fiskúrgang frá þorskhausaþurrkfyrirtæki í Fellabæ og setti í safnhaug.

„Lífrænir framleiðendur eru mikið að hugsa á þessum brautum, þetta er fólk sem vinnur með hringrásina á hverjum einasta degi og nýtir lífrænt efni í áburð,“ bendir hún á.

Eygló og Eymund langar að ferðast og njóta þegar rétti tíminn kemur. Þau hefja því nú þá vegferð að setja Vallanes og Móður Jörð í hendur annarra. Ekki án allrar eftirsjár, en trú sínum lífsmarkmiðum. Enda dagsverkið orðið ærið.

Íslenskur bjór frá Móður Jörð

Fyrsti alíslenski bjórinn úr byggmalti frá íslenskum kornbónda mun verða tilbúinn í júlíbyrjun. Hann er úr íslensku möltuðu byggi frá Vallanesi, sítrónumelissu og íslensku vatni, auk lífrænna humla og gers.

Í Vallanesi fékkst gríðarlega góður byggárgangur árið 2021, bygg með 99% spírun. Það var að hluta notað sem sáðkorn næsta ár en eftir urðu nokkrir sekkir af úrvalskorni. Eymundur og Eygló fengu styrk úr Matvælasjóði til að rannsaka hvort unnt væri að búa til bjór úr eigin byggi og hafa verið undir handleiðslu Matís í verkefninu.

„Það er ekki eftir litlu að slægjast þar, því flutt eru inn um 6.000 tonn árlega af byggmalti til bjórgerðar hérlendis. Tvöfalda mætti kornrækt í landinu bara til að koma í stað innflutts maltaðs korns. Verandi byggframleiðandi finnst mér að íslenskur bjór sé raunverulega ekki til, meðan aðeins vatnið er íslenskt,“ segir Eymundur.

Byggmaltið, 150 kíló, var sett í ámu hjá brugghúsinu Múla á Egilsstöðum laust eftir síðustu mánaðamót, bjórinn smakkaður um miðjan mánuð og gert er ráð fyrir að hann verði tilbúinn fljótlega í júlí.

Eymundur segir litinn, lyktina og bragðið lofa mjög góðu og þarna sé að gerjast alíslenskur bjór, úr íslensku möltuðu korni og vatni. Seinna verði plantað humlum í gróðurhús og þetta tekið enn lengra.

„Ég ætla ekki að linna látum fyrr en ég er búinn að sanna að þetta sé hægt og þá ætti þetta að vera áhugavert fyrir alla kornbændur í landinu að hafa sem aukabúgrein: að nota hluta af góðum byggárgöngum þar sem spírunarprósentan er í það minnsta yfir 85%, malta og selja til handverksbrugghúsanna. Vegna legu landsins er fyrirsjáanlegt að við náum ekki að dekka þennan markað alveg á næstunni, en mjór er mikils vísir!“ segir Eymundur.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt