Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Japanska ræktunarfyrirtækið iFarm Iceland missti alla jarðarberjauppskeru sína í byrjun sumars vegna meindýra og sjúkdóma í innfluttum plöntum. Framvegis verða jarðarberin ræktuð upp af fræi.
Japanska ræktunarfyrirtækið iFarm Iceland missti alla jarðarberjauppskeru sína í byrjun sumars vegna meindýra og sjúkdóma í innfluttum plöntum. Framvegis verða jarðarberin ræktuð upp af fræi.
Mynd / iFarm
Fréttir 1. september 2025

Tafir hjá japanska jarðarberjaræktandanum

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Japanskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í lóðréttri vatnsræktun varð að farga allri jarðarberjauppskeru sinni í Helguvík í sumarbyrjun.

Japanski jarðarberjaræktandinn iFarm Iceland ehf., sem aðsetur hefur í Græna iðngarðinum í Helguvík, lenti í skakkaföllum í vor sem sett hafa áætlanir fyrirtækisins úr skorðum.

Bændablaðið sagði frá því í nóvember í fyrra að Japanir ætluðu sér mikla hluti í ræktun jarðarberja á Íslandi. Kenichi Noda, forstjóri iFarm Iceland ehf., sagði þá Ísland vera fullkomið umhverfi fyrir nýsköpun í matvælakerfinu. „Við getum starfrækt sjálfbæra verksmiðju með endurnýjanlegri orku, og án losunar koldíoxíðs, með litlum tilkostnaði,“ sagði Noda.

Eingöngu ræktað af fræi

„Í mars urðum við fyrir alvarlegu áfalli þegar meindýr og sjúkdómar greindust í innfluttum plöntum,“ útskýrir Noda, spurður um ganginn í ræktuninni. „Þar sem efnafræðileg skordýraeitur, sem almennt eru notuð í Japan, eru bönnuð í Evrópu, urðu þær mótvægisaðgerðir sem til eru hér ekki árangursríkar og því miður þurfti að farga allri uppskeru í maí,“ útskýrir hann. Síðan þá hafi starfsemin verið endurskipulögð.

„Við einbeitum okkur nú að fullu að jarðarberjaframleiðslu með fræræktun og lífrænum eftirlitsaðferðum, til að tryggja heilbrigðan og sjálfbæran vöxt. Frá og með september munu sérfræðingar frá Japan koma til Íslands til að styðja við ræktun og þjálfun á staðnum,“ segir Noda jafnframt.

Önnur ræktun í biðstöðu

Jarðarberjaframleiðslan er í lóðréttri vatnsræktun og nam uppskeran í fyrra um 70 kg á mánuði. Áætlað hafði verið að auka hana í 500 kg á mánuði nú í ár og stefnt að því að ræktunin væri í slíku magni að flytja mætti jarðarberin út til kaupenda í helstu stórborgum heims. Stóð til að kynna hana á íslenskum og breskum markaði nú í upphafi árs.

Jafnframt voru áform um að bæta hrísgrjónarækt við jarðarberjaframleiðslu iFarm Iceland og brugga hér japanskt sake. Þá var wasabi-ræktun mögulega í kortunum.

Noda segir að nú séu áætlanir um hrísgrjón, wasabi og aðrar nýjar vörur í biðstöðu. „Núverandi forgangsverkefni okkar er að tryggja stöðuga jarðarberjaframleiðslu áður en við stækkum frekar,“ segir hann. Búist er við nýrri jarðarberjauppskeru fyrir veturinn.

MAST annast eftirlit

Matvælastofnun annast eftirlit og vottun vegna plöntuheilbrigðis við innflutning plantna og plöntuafurða. Segir á vef MAST að plöntuheilbrigðisvottorð (Phytosanitary certificate) sé gefið út af opinberri stofnun í útflutningslandinu sem sjái um eftirlit með plöntuheilbrigði. Með því að gefa út slíkt heilbrigðisvottorð sé verið að staðfesta það að plönturnar eða plöntuafurðirnar í sendingunni uppfylli þær kröfur sem innflutningslandið geri varðandi plöntuheilbrigði.

Hvatningarverðlaun skógræktar
Fréttir 30. janúar 2026

Hvatningarverðlaun skógræktar

Óskað hefur verið eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna í skógrækt sem verð...

Nýta mætti afurðir hreindýra betur
Fréttir 30. janúar 2026

Nýta mætti afurðir hreindýra betur

Formaður Hreindýraráðs Austurlands segir að mun betur megi nýta veidd hreindýr e...

Kýrnar í Hólmi mjólkuðu mest
Fréttir 30. janúar 2026

Kýrnar í Hólmi mjólkuðu mest

Samkvæmt nýbirtum niðurstöðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins mjólkuðu kýrnar...

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...