Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og verðlaunahafar við afhendingu landbúnaðarverðlaunanna í Hörpunni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og verðlaunahafar við afhendingu landbúnaðarverðlaunanna í Hörpunni.
Mynd / HKr.
Fréttir 21. mars 2016

Stóru-Tjarnir og Hríshóll í Reykhólasveit verðlaunuð

„Í ár eru 20 ár liðin frá því land­búnaðarverðlaunin voru veitt í fyrsta skipti við setningu búnaðarþings,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson við afhendingu verðlaunanna á setningarhátíð búnaðarþings 2016. 
 
„Verðlaunin hafa alla tíð verið hugsuð sem viðurkenning til aðila sem á einn eða annan hátt tengjast íslenskum landbúnaði og hafa sýnt með verkum sínum – áræðni og dugnað – öðrum til fyrirmyndar. Verðlaunin má túlka sem þakklætis- og virðingarvott frá landbúnaðarráðherra til íslensks landbúnaðar – þeirrar atvinnugreinar sem svo margir byggja afkomu síðan á – beint eða óbeint. 
 
Val á verðlaunaþegum hefur í senn verið auðvelt en einnig nokkuð snúið; fjölmargir eiga verðlaunin skilið en fáir útvaldir í hvert skipti. Þrátt fyrir þetta hefur þannig til tekist að allir hafa verið sammála um að viðkomandi verðlaunaþegar eigi viðurkenninguna sannarlega skilið.
 
Um allt land eru starfandi duglegir og metnaðarfullir bændur sem sinna búum sínum – af hvaða toga svo sem þau eru – af miklum myndarskap – jafnt hvað umhirðu og góðan árangur búgreinarinnar varðar en jafnframt og ekki síður hvað ytra umhverfi og ásýnd búsins varðar. Eftir því er tekið.
 
Íslenskur landbúnaður er fjölbreyttur og íslensk bændastétt þess verðug að henni sé sómi sýndur. 
Verðlaunagripirnir í ár eru hannaðir og unnir af listakonunni Sigríði Helgu Olgeirsdóttur, steinleirsskúlptúr á stöpli úr íslensku birki.
 
Unnið er með þá hugmynd að fræið sé eins konar tákn um upphaf einhvers sem getur vaxið og dafnað, fái það réttar aðstæður. Í því samhengi getur verkið vísað út fyrir hinn hefðbundna ramma ræktunar  og staðið fyrir hvers kyns frumkvöðlastarf og nýbreytni.
 
Að þessu sinni verða veittar tvær viðurkenningar  og þær hljóta Stóru-Tjarnir í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsveit og Hríshóll í Reykhólasveit.“
 
Stóru-Tjarnir, Ljósavatnsskarði – Þingeyjarsveit
 
„Byggðin við Ljósavatn í Suður-Þingeyjarsýslu á sér langa og merka sögu, allt frá því Þorgeir goði Ljósvetninga lagði til á Alþingi árið 1000 að kristin trú skyldi gilda í landi voru. 
 
Á býlinu Stóru-Tjörnum sunnan við Ljósavatn búa hjónin Laufey Skúladóttir og Ásvaldur Ævar Þormóðsson. Tóku þau við búi foreldra Laufeyjar, Skúla Sigurðssonar og Guðríðar Sigurgeirdóttur árið 1992 – keyptu jörð og áhöfn. 
 
Þau ákváðu í upphafi að stækka búið, gera það svo hagkvæmt að ekki þyrfti að vinna utan búsins til að ná ásættanlegri afkomu. Þau byggðu við gamla fjósið og breyttu geldneytafjósi og fengu með því 32 bása. 
Árið 2007 stækkuðu þau búið enn frekar og byggðu 54 bása lausagöngufjós með mjaltaþjóni og fóðurkerfi. Kvígu- og kálfauppeldi er í eldra fjósinu.
 
Þegar Laufey og Ásvaldur tóku við búskapnum voru á Stóru-Tjörnum 16–20 kýr og 42.000 lítra framleiðsluréttur í mjólk. Nú eru þar ríflega 50 kýr og um 60 aðrir nautgripir og framleiðsluréttur 276.000 lítrar og innlegg í afurðastöð árið 2015 nam 382.000 lítrum.
 
Á Stóru-Tjörnum er stunduð markviss kynbótarækt á kúm og kindum með það að markmiði að ná fram sem bestum afurðum og efnainnihald mjólkur. Fóðrun gripanna skiptir þar miklu máli svo og uppeldið og öll velferð gripanna. Þau hafa gefið mjólkurkúnum nær eingöngu nýræktarhey, vallarfoxgras, af túnum helst ekki eldri en 6–8 ára. Meðalnyt per. kú var á síðasta ári 7.860 lítrar. 
 
Fjárbúskapurinn hefur gengið vel og afurðirnar um 33–35 kg eftir vertarfóðraða kind. Vænleiki sláturlamba síðustu 6–8 ár hefur verið um 18–19 kg. Síðastliðið haust slógu þau öll fyrri met sín en þá var kjötþungi eftir á 37,7 kg og meðalþungi 20,02. 
 
Jarðhiti er á Stóru-Tjörnum og hefur verið nýttur til húshitunar frá 1936. Einnig er á bænum 6 kw heimarafstöð, einkum nýtt til lýsingar í útihúsum og íbúðarhúsi. Hún hefur gengið óbreytt síðan 1928. Þá er silungsveiði á jörðinni.
 
Auk búskaparins hafa þau hjónin tekið virkan þátt í félagsmálum sveitarinnar og heimili þeirra þekkt fyrir íslenska gestrisni.“
 
Hríshóll, Reykhólasveit
 
„Bærinn Hríshóll í Reykhólasveit stendur undir melhól eða hvol sem bærinn heitir eftir. Í fjalllendinu fyrir ofan bæinn standa Vaðalfjöll – tveir stakir stuðlabergshnjúkar sem eru eitt helsta einkenni sveitarinnar. 
Ábúendur á Hríshóli í dag eru hjónin Þráinn Hjálmarsson og Málfríður Vilbergsdóttir og sonur þeirra, Vilberg Þráinsson, og eiginkona hans, Katla Ingibjörg Tryggvadóttir. 
 
Þráinn og Málfríður voru í sveit sem börn og 1977 létu þau draum sinn rætast og fluttu af höfuðborgarsvæðinu á Klett í Geiradal. Þar bjuggu þau til ársins 2001 með svín og sauðfé. Hríshól keyptu þau 1991 og fluttu þangað 2001. 
 
Á árunum 1991–2001 bjuggu með þeim fyrri eigendur Hríshóls,  Reynir Halldórsson og Gísella Halldórsdóttir, sem höfðu byggt upp jörðina af miklum myndarskap og hugsjón. Árið 1977 byggðu þau fjárhús og flatgryfju sem voru stærri en venja var og hugsuðu um jörðina af mikilli alúð. Hafa núverandi eigendur og bændur á Hríshóli fylgt í fótspor þeirra. Vekur snyrtimennska býlisins athygli allra sem um sveitina fara.
 
Árið 2009 komu þau Vilberg og Katla inn í búskapinn. Áður bjuggu þau í Reykjavík við nám, Vilberg í rafvirkjun en Katla í ferðamálafræði í Háskóla Íslands. Áður en þau fluttu á Hríshól lauk Vilberg námi á Hvanneyri sem búfræðingur. Er þau komu í Hríshól var búið stækkað úr 600 í 1.000 vetrarfóðraðar ær, byggt íbúðarhús og  hlaða og flatgryfjunni breytt í fjárhús.   
 
Jörðin Hríshóll er rúmir 2.000 ha, sumarbeitarlandi við túnfótinn og stærstum hluta fjárins er náð heim við fyrstu smölun. Ræktað land er um 55 ha. Þá taka þau þátt í verkefninu Bændur græða landið og hefur það gefið góða raun.
 
Feðgarnir á Hríshóli stunda skólaakstur og gera út fjárflutningabíl á haustin. Málfríður og Katla eru í hlutastarfi á Dvalarheimilinu Barmahlíð og Málfríður rekur einnig fótaaðgerðarstofuna Flottir fætur á Reykhólum. Að auki starfar Vilberg í sveitarstjórn Reykhólahrepps.“
Sólarsellustyrkir
Fréttir 22. júlí 2024

Sólarsellustyrkir

Orkusetur Orkustofnunar hefur auglýst eftir umsóknum um sólarsellustyrki.

Gæðingafeður og mæður
Fréttir 19. júlí 2024

Gæðingafeður og mæður

Skýr frá Skálakoti átti flest afkvæmi á Landsmóti hestamanna í ár, 31 talsins.

Kúakaup fyrir dómi
Fréttir 19. júlí 2024

Kúakaup fyrir dómi

Kúakaup milli tveggja bænda rötuðu til héraðsdóms á dögunum.

Úthlutun aflamarks
Fréttir 18. júlí 2024

Úthlutun aflamarks

Nýverið fundaði stjórn Byggðastofnunar vegna fyrirhugaðrar úthlutunar sértæks by...

Lóga þarf hrúti
Fréttir 18. júlí 2024

Lóga þarf hrúti

Bóndi þarf að afhenda Matvælastofnun ákveðinn hrút til að kanna útbreiðslu á rið...

Árangurinn kom á óvart
Fréttir 18. júlí 2024

Árangurinn kom á óvart

Fjölskyldan í Strandarhjáleigu í Rangárþingi eystra átti góðu gengi að fagna á n...

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi
Fréttir 17. júlí 2024

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi

Ýmislegt bendir til þess að fyrirtækið Háihólmi sé milliliður í innflutningi Kau...

Hestamennska gefur lífinu lit
Fréttir 17. júlí 2024

Hestamennska gefur lífinu lit

Það gustaði um hross kennd við Vöðla í Rangárþingi ytra á Landsmóti hestamanna.