Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Ile-de-France Mobilités fólksflutningafyrirtækið í Frakklandi gerði samning við IVECO um kaup á 409 gasknúnum strætisvögnum til afhendingar 2020 og 2021. Verða vagnarnir í notkun í miðborgarkjarna Parísar. Tankfyllingin á vögnunum dugar í 400 km akstur, sem sagt er henta vel á Stór-Parísarsvæðinu. Til samanburðar er Stór-Reykjavíkursvæðið að reka eigin metanframleiðslu, en nýtir gasið einungis á tvo af sínum 85 strætisvögnum.
Ile-de-France Mobilités fólksflutningafyrirtækið í Frakklandi gerði samning við IVECO um kaup á 409 gasknúnum strætisvögnum til afhendingar 2020 og 2021. Verða vagnarnir í notkun í miðborgarkjarna Parísar. Tankfyllingin á vögnunum dugar í 400 km akstur, sem sagt er henta vel á Stór-Parísarsvæðinu. Til samanburðar er Stór-Reykjavíkursvæðið að reka eigin metanframleiðslu, en nýtir gasið einungis á tvo af sínum 85 strætisvögnum.
Mynd / SustainableBus
Fréttir 17. september 2020

Stefnuleysi ríkjandi um nýtingu á metangasi en samt er verið að stórauka framleiðsluna

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Á Íslandi sem erlendis er metan (CH4) þekkt sem öruggur, umhverfisvænn og hagkvæmur kostur. Íslenska eldsneytið metan hlaut meira að segja norræna umhverfismerkið Svaninn í nóvember 2016. Nú á að margfalda framleiðslu þess í gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA á Álfsnesi, en samt virðist ríkja algjört stefnuleysi í nýtingu þess.

Um allan heim er metan mikið notað sem eldsneyti á farartæki og til húshitunar, eldunar og rafmagns-framleiðslu. Hægt er að nýta það á nánast öll almenn farartæki í vegasamgöngum, en vegna lægra orkugildis metans, miðað við t.d. dísilolíu, hefur það ekki þótt sérlega hentugt fyrir stór og þung farartæki.

Ef metan sem hér verður til í sorphaugum eða verður framleitt í nýrri gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi er ekki nýtt á ökutæki er samt best fyrir umhverfið að brenna það. Ávinningurinn af nýtingu þess með aukinni notkun gasknúinna ökutækja ætti því að vera augljós. Enn augljósari ætti hagur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að vera á nýtingu á eigin gasi í stað þess að kaupa strætisvagna, sorpbíla, sendibíla og önnur vélknúin farartæki sem nýta aðra orkugjafa, eins og jarðefnaeldsneyti. Auk jákvæðra umhverfissjónarmiða, gæti fjárhagslegur ávinningur líka verið umtalsverður.

Metanbílar góður kostur

Metanbifreiðar eru sagðar umhverfis-vænn kostur og eru bæði ódýrari í innkaupum og í rekstri en sambærilegir bílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Þá eru þær mun ódýrari og burðarmeiri en sambærilegir rafmagnsbílar.

Gasnýting umhverfisvæn aðgerð

Nýting á metani á bifreiðar sem fellur til á Íslandi er afskaplega umhverfisvæn aðgerð og mikilvægt framlag ef menn vilja draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ástæðan er sú að metan er talið minnst 21 sinni áhrifameiri lofttegund í að valda gróðurhúsaáhrifum en koltvísýringur (CO2). 

Metan í hæsta gæðaflokki

SORPA bs. er eini framleiðandi metans á höfuðborgarsvæðinu eins og er. Frá árinu 2000 hefur SORPA framleitt 15,6 milljón Nm3  af ökutækjaeldsneyti úr hauggasi sem myndast við niðurbrot á lífrænu efni á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi.

Eftir söfnun á hauggasi frá urðunarstað er metan einangrað úr hauggasinu með vatnsþvegilstækni (e. Water Scrubber Technology). Afurðin verður „nútíma“-metan ökutækja-eldsneyti í hæsta gæðaflokki með allt að 98% hreinleika, 125–130 oktan eldsneyti að því er fram kemur í gögnum Metans ehf.

Fékk Svansvottun 2016

Metan fékk Svansvottun árið 2016 og er eina umhverfisvottaða eldsneytið hér á landi. Sparaður útblástur frá upphafi er um 500 þúsund tonn af CO2 og því til mikils að vinna við að koma þessu eldsneyti í notkun.

Hingað til hefur þetta eldsneyti verið notað á ökutæki, s.s. sorpbíla Reykjavíkurborgar, sorpbíla á vegum einkaaðila, gámabíla á vegum SORPU, strætisvagna (7), þjónustu fatlaða (Akureyri), vöruflutninga (Innnes) og sér SORPA um að koma metaninu í notkun með einum eða öðrum hætti.

Dýrmætu metani fyrir allt að 4.000 bíla eytt á hverju ári

Metan sem ekki hefur verið nýtt á söfnunarstað í Álfsnesi til þessa er brennt á staðnum í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið. Sama verður án efa gert í nýju gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA ef ekki verða gerðar verulegar áherslubreytingar í nýtingu á gasinu á ökutæki hérlendis. 

Árið 2018 myndaðist metan í sorphaugnum í Álfsnesi sem myndi (skv. heimild frá SORPU) duga á 3–6.000 smærri ökutæki (eftir því hvaða viðmið er notað við útreikninga). Þar sem eftirspurn hefur verið töluvert lægri en þetta, eða sem nemur metani á um 1.600 fólksbíla, hefur umfram metani einfaldlega verið brennt til að draga úr hlýnunaráhrifum á loftslag. Staðan er því þannig að metani, sem gæti nýst sem eldsneyti á 2–4.000 bíla, er fargað án þess að orkan sé nýtt á neinn hátt.

Hingað til hafa notendur einna helst verið fólksbílar, vinnubílar, pallbílar, strætisvagnar og sorphirðubílar. Þannig fara um 1.753.117 Nm3 í ökutæki og um 121.300 Nm3 í eigin not, hjá SORPU. Restinni, um 1.694.000 Nm3, af gasi fer til „spillis“ og er brennt.

Til skoðunar er að nýta metan í rafmagnsframleiðslu, plast-framleiðslu, þurrklefa, almenningssamgöngur og þjónustubíla í auknum mæli, vöruflutninga, skip og ferjur, o.s.frv.

Framleiðslugeta SORPU er í dag (fyrir opnun GAJA) um 3,5 milljónir Nm3 af metani á ári og var nákvæmlega 3.568.417 Nm3 fyrir árið 2019.

Metangas á allt að 12 þúsund bíla

Árið 2018 hófst bygging á gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA í Álfsnesi  sem á að taka í notkun um næstu áramót. Hún á að framleiða 3 milljónir Nm3 af metangasi og verður heildarframleiðslan á gasi í Álfsnesi því yfir 6 milljónir Nm3. Það ætti að duga á allt að 12.000 fólksbifreiðar. 

Norðurorka á Akureyri getur framleitt gas á 600 fólksbíla

Í Glerárdal, rétt fyrir ofan Akureyri, stígur metanið upp af gömlum ruslahaugum. Stór hluti þess fer út í andrúmsloftið og veldur þessi kröftuga gróðurhúsalofttegund um 20-30 sinnum meiri skaða en koltvísýringurinn sem myndast þegar gasinu er brennt.

Árið 2013 gerði Norðurorka samning við OLÍS um að sjá um smásölu á metani sem Norðurorka framleiðir.

Framleiddir eru um hundrað þúsund Nm3 af metani á Akureyri, en það væri hægt að framleiða um 600 þúsund Nm3 miðað við eðlilegan nýtingartíma og það gæti dugað til að keyra um 600 fólksbíla. Með því að efla enn betur stöðina mætti mögulega framleiða metan á yfir þúsund bíla næstu tíu árin. Enn sem komið er fer mikið magn metans sem framleitt er á Akureyri til spillis.

Einungis 2 vagnar Strætó ganga fyrir metangasi

Í ársskýrslu Strætó fyrir árið 2019 segir að áhersla sé á umhverfis- og öryggismál. Einnig að taka tillit til umhverfissjónarmiða við innkaup á vörum og þjónustu og að innleiða vistvæn innkaup og þar stendur líka orðrétt: „Að innleiða notkun á vistvænum orkugjöfum eða orkutækni.“

Samkvæmt ársskýrslu Strætó er veruleikinn sá að vagnaflotinn, sem rekinn er af Strætó, samanstendur af 85 vögnum. Þeir óku samtals rúmlega 5,3 milljónir kílómetra á síðasta ári. Þar af eru 68 dísilvagnar og einungis 2 metanvagnar. Þá eru 15 rafmagnsvagnar í flotanum sem eru í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Vagnafloti verktaka samanstendur af 77 vögnum. Þar ef eru 48 vagnar reknir af Kynnisferðum og 29 af Hagvögnum. Ekki kemur fram hvers konar orku þeir nota, en þrír metanvagnar munu vera í notkun hjá SVA á Akureyri.

Skylt efni: vistvænir orkugjafar

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...