Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt
Stakkhamar 2 í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi hefur skotist á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin á Íslandi samkvæmt nýju uppgjöri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins úr skýrsluhaldi síðasta árs. Árið 2021 var búið í 13. sæti sama lista.
Ábúendur á Stakkhamri 2 eru þau Laufey Bjarnadóttir og Þröstur Aðalbjarnarson. Árskýr þar eru 57,4 og skiluðu þær að meðaltali 8.910 kílóum hver, sem er tveimur kílóum meira en var á Búrfelli í Svarfaðardal þegar það var á toppi listans árið 2021. Það ár voru árskýr á Stakkhamri 58,1.

Búrfell fellur niður í sjötta sæti
Búrfell, sem var í efsta sæti listans fyrir árin 2020 og 2021, fellur niður í sjötta sæti með 8.374 kíló mjólkur eftir hverja árskú. Á síðasta ári fjölgaði þar árskúm úr 39,7 í 43,7.
Annað afurðahæsta kúabú landsins er Dalbær 1 í Hruna mannahreppi, en það var fjórða árið 2021.
Á síðasta ári skilaði búið 8.672 kílóum að meðaltali á hverja árskú, en þeim fækkaði á milli ára úr 65 í 60,3. Göngustaðir í Svarfaðardal stökkva einnig hátt á listanum, frá 16. sæti árið 2021 í þriðja sætið í fyrra.
Að meðaltali skilaði búið 8.596 kílóum mjólkur að meðaltali á hverja árskú, sem voru 61,6 í fyrra en 60,9 árið 2021.
Fata mjólkaði mest
Fata 2106 var nythæsta kýr landsins árið 2022 en hún er á búi Gunnbjörns ehf. í Gunnbjarnarholti í Eystrihreppi, undan Sjarma 12090, og móðurfaðir hennar er Þrymur 02042. Hún mjólkaði 14.739 kg en hún bar sínum fimmta kálfi 29. janúar á síðasta ári.
Hæsta dagsnyt Fötu á árinu var 55,6 kg, en Fata er fædd í júní 2015.

Meðalinnlegg jókst nokkuð en búum fækkar
Kúabúum fækkaði um sextán á síðasta ári og voru í árslok 496 sem leggja inn mjólk. Fjögur bú til viðbótar hættu framleiðslu í byrjun þessa árs. Meðalbústærð á síðasta ári var 51,2 árskýr, var árið á undan 50 árskýr. Meðalinnlegg á bú jókst nokkuð á milli ára og var 298.655 kg á síðasta ári, samanborið við 288.088 árið á undan.
Af núlifandi kúm hefur Gullbrá 357 á Hóli við Dalvík skilað mestum æviafurðum, eða 102.557 kg við síðustu áramót. Hún er fædd 9. apríl 2004 og hefur borið 11 sinnum. Bleik 995 á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd er þar næst á eftir með 100.097 kg við nýliðin áramót. Hún er fædd 14. ágúst 2009 og hefur borið 10 sinnum.
Sjá nánari umfjöllun um uppgjör skýrsluhaldsins í mjólkurframleiðslu á blaðsíðum 56‐57 í Bændablaðinu sem kom út í dag.
Heimild: Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins