Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Sauðfé hefur ekki verið færra á Íslandi síðan 1861, eða í 160 ár
Mynd / smh
Fréttir 29. apríl 2021

Sauðfé hefur ekki verið færra á Íslandi síðan 1861, eða í 160 ár

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Samkvæmt fyrirliggjandi tölum Mælaborðs landbúnaðarins heldur sauðfé enn áfram að fækka í landinu og var vetrarfóðrað fé á síðasta ári 2020 samtals 400.724, en var 415.847 á árinu 2019. Þetta er fækkun um 15.123 fjár á milli ára, eða um 3,63%. Hefur sauðfé ekki verið færra á Íslandi í 160 ár, eða síðan 1861, þegar talsverð fækkun varð vegna fjárkláða og stofninn fór niður í 327.000. 

Mesti fjárfjöldinn var 1977

Mesti fjárfjöldi í landinu frá upphafi var fyrir 44 árum, eða árið 1977, en þá taldist vera hér 896.000 fjár í vetrarfóðrun.

Af sauðfjártölum 2020 voru 314.025 ær í landinu, 10.909 hrútar, 66.584 lambgimbrar og 8.064 lambhrútar.

Í gögnum sem dr. Ólafur R. Dýrmundsson tók saman fyrir kennslubókina Sauðfjárrækt árið 1975 og voru endurskoðuð árið 1980 er merkilegur fróðleikur um vetrarfóðrað fé á Íslandi allt aftur til 1703. Nokkrum sinnum á 318 árum hefur íslenski sauðfjárstofninn orðið fyrir áföllum vegna sjúkdóma og eldgosa. 

Móðuharðindin

Árið 1760 var fjöldi vetrarfóðraðs sauðfjár í landinu 357.000 og hafði þá fjölgað úr 279.000 árið 1703. Lakagígagosið, eða Skaftáreldar, á árunum 1783 til 1784 olli miklum búsifjum í því sem nefnt var „móðuharðindi“ vegna eitraðrar brennisteinsdíoxíðsmóðu frá gos­inu. Þá fækkaði sauðfjár­stofninum niður í 50.000 fjár og landsmönnum fækkaði um 20%, létust þá um 10.000 manns að talið er. Eftir þessar hörmungar fór sauðfé að fjölga nokkuð ört og var komið í 304.000 um aldamótin 1800 og 490.000 árið 1855.

Fækkun vegna fjárkláða

Næsti skellur í búfjárrækt var síðan í kringum 1861. Það ár var fjöldi vetrarfóðraðs fjár í gögnum Ólafs talinn hafa verið 327.000. Ástæða fækkunar sauðfjár var fjárkláði.

Áfall vegna innflutnings Karakúl-fjár

Þriðja stóra áfallið varð í kjölfar þess að hingað til lands voru fluttar 20 kindur af Karakúl-kyni frá Halle í Þýskalandi árið 1933. Með þessu fé bárust sjúkdómarnir votamæði, þurramæði, visna, garnaveiki og kýlapest. Sauðfjárstofninn var kominn í 699.000 árið 1934, en fækkaði niður í 402.000 árið 1949.

Fækkun fjár á kalárunum 

Á sjöunda áratug síðustu aldar var mikið um hafís við landið. Árið 1966 var sauðfé í vetrarfóðrun talið vera um 850.000. Á kalárinu mikla árið 1970 var fjöldinn kominn niður í 763.000.

Metfjöldi náðist í sauðfjár­stofninum frá  upphafi byggðar á Íslandi árið 1977, eða  896.000 fjár. Síðan hefur fé farið nær stöðugt fækkandi af ýmsum mannlegum orsökum, eins og upptöku kvótakerfis, vegna markaðsmála og breytinga á þjóðfélagsmynstri og neysluvenjum. Á síðasta ári var sauðfjárfjöldinn svo orðinn sá minnsti í 160 ár. Miðað við alþjóðlegar skyldur Íslendinga um verndun tegunda fer trúlega að vakna spurning um hvar mörkin liggja um lágmarksstærð stofnsins.

Um 50% fækkun á síðustu 40 árum

Tölur hins nýja mælaborðs landbúnaðarins ná aftur til ársins 1981. Þá var vetrarfóðrað sauðfé talið vera samtals 794.097 og fór hratt fækkandi, en það var 828 þúsund árið 1980. Fækkunin frá 1981, eða á 40 árum, nemur því 394.515 fjár, eða um rétt tæplega 50%.

Fjárfjöldi í landinu og fjöldabreytingar frá 1703 koma vel fram í tölum dr. Ólafs:

  • 1703 -  279.000
  • 1760 -  357.000
  • 1784 -   50.000  (Móðuharðindin)
  • 1800 - 304.000
  • 1855 - 490.000
  • 1861 - 327.000  (Fjárkláði)
  • 1901 - 482.000
  • 1924 - 583.000
  • 1934 - 699.000
  • 1945 - 532.000
  • 1949 - 402.000 (Mæðiveiki)
  • 1955 - 658.000
  • 1960 - 834. 000
  • 1966 - 850.000
  • 1970 - 736.000 (Kalár)
  • 1974 - 864.000
  • 1977 - 896.000 (Mesti fjárfjöldi)
  • 1980 - 827.927
  • Frá 1980 hefur  verið fækkun vegna kvótakerfis og markaðsmála.
Ekki góð þróun

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson telur þessa þróun í sauðfjárrækt lands­manna ekki æskilega.

„Þetta er ekki góð þróun á sama tíma og verið er að flytja inn korn í vaxandi mæli fyrir flestar aðrar búgreinar, eða, einfaldlega verið að flytja inn kjöt í stórum stíl, allt með vaxandi sótspori. Síðan á að moka ofan í skurði og rækta skóga um allt til að vega á móti og takast á við þessar skuggahliðar kapítalismans. Þar að auki kemur byggðaröskunin sem fylgir fækkun sauðfjár og sauðfjárbænda,“ segir Ólafur. 

 

– Sjá einnig umfjöllun á bls. 20 í nýju Bændablaði

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...