Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Bræðurnir Einar og Gunnar Guðmundssynir hafa rekið Búvís frá stofnun.
Bræðurnir Einar og Gunnar Guðmundssynir hafa rekið Búvís frá stofnun.
Mynd / aðsend
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar sem síðarnefnda fyrirtækið er mikilvægur samkeppnisaðili á áburðarmarkaði.

Talið var ljóst að samruni þessara tveggja fyrirtækja hefði haft skaðleg áhrif á markaði með innflutning á tilbúnum áburði. Búvís er mikilvægur keppinautur og því taldi Samkeppniseftirlitið (SKE) óhjákvæmilegt annað en að ógilda samrunann. Frá þessu er greint í frétt á vef stofnunarinnar.

Búvís hafi verið stofnað sem andsvar við verulegum verðhækkunum á áburði á sínum tíma vegna skorts á samkeppni. Fyrirtækið hafi breytt samkeppnisaðstæðum til hins betra með því að halda verði niðri og bjóða bændum bætta þjónustu og viðskiptakjör. Með samruna Skeljungs og Búvís telur SKE hætt við að markaðsaðstæður leiti í sama horf og fyrir stofnun síðarnefnda fyrirtækisins.

Samkeppni umfram markaðshlutdeild

Búvís sé öflugur keppinautur sem veiti öðrum fyrirtækjum samkeppni umfram það sem markaðshlutdeild gefi til kynna. Með samrunanum hefði burðugum keppinautum fækkað úr fjórum í þrjá, sem hefði leitt af sér meiri samþjöppun á fákeppnismarkaði en ásættanlegt þykir. Með fækkun keppinauta hefðu aðstæður til verðsamráðs orðið hentugri.

Rannsóknir SKE hafi gefið til kynna að samningsstaða bænda gagnvart þeim sem þjónusti landbúnaðinn sé veik, ásamt því að fjárhagsstaða bænda sé iðulega erfið. Stofnunin segir samrunaaðila ekki hafa lagt fram fullnægjandi upplýsingar, gögn eða skýringar þess efnis að samruninn hefði haft í för með sér hagræði sem mótvægi við þau skaðlegu áhrif sem ætla megi að hlotnist af samrunanum.

Ekki hluti af kjarnastarfsemi

Í skriflegu svari við fyrirspurn segir Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, að með þessum úrskurði sé fyrirtækið knúið til að endurskoða innflutning á áburði, enda sé það ekki hluti af þeirra kjarnastarfsemi og enginn starfsmaður í föstu starfi sem sinni þeirri hlið.

Tilgangur og markmið kaupanna hafi verið að færa áburðarinnflutning Skeljungs inn í Búvís og efla þannig starfsemi og samkeppnishæfni síðarnefnda fyrirtækisins á þessu sviði. „Í ljósi þess hversu lítil viðskipti um ræðir og hversu borðleggjandi okkur fannst að þetta myndi auka samkeppnishæfni Búvís á áburðarmarkaðinum töldum við að SKE myndi fagna þessu frekar en að hafna,“ segir í svari Þórðar. Hann gefur lítið fyrir þá fullyrðingu SKE að samrunaaðilar hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn, óskað eftir sáttaviðræðum eða lagt fram tillögur að mögulegum skilyrðum. Þvert á móti hafi Skeljungur lagt fram ítarlegar upplýsingar eins og óskað var eftir. Þá hafi fyrirtækið ekki talið að kaupin myndu falla undir þá skilgreiningu að þau yrðu skilyrt eða nauðsynlegt væri að leita sátta til að fá þau samþykkt.

Einar Guðmundsson hjá Búvís tekur í sama streng. Þeir hafi fundað með SKE í lok maí og skýrt sína aðstöðu. Stofnunin hafi ekki kallað eftir tillögum að skilyrðum eða boðið þeim upp á sáttaviðræður. Hvorki stjórnendur Búvís né Skeljungs hafa tekið afstöðu til þess hvort málið verði tekið lengra.

Skylt efni: Búvís

Forvarnir gegn hófsperru verði hluti af ábyrgu hestahaldi
Fréttir 20. júní 2025

Forvarnir gegn hófsperru verði hluti af ábyrgu hestahaldi

Hófsperra er kvalafullur sjúkdómur í hrossum sem sífellt er að verða algengari h...

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum
Fréttir 20. júní 2025

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum

Skeifudagurinn fór fram í blíðskaparveðri sumardaginn fyrsta á Hvanneyri þar sem...

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili
Fréttir 19. júní 2025

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili

Samkvæmt nýlegum gögnum Hagstofu Íslands var heildarkjötframleiðsla nú í apríl á...

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða
Fréttir 19. júní 2025

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða

Næsta haust mun Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra, mæ...

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið
Fréttir 19. júní 2025

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið

Á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu má sjá lítil viðarhús merkt Pikkoló sem er ís...

Einkunnamet slegin á vorsýningum
Fréttir 19. júní 2025

Einkunnamet slegin á vorsýningum

Glæsileg kynbótahross hafa hlotið háar einkunnir og eftirtekt fyrir framgöngu sí...

Nóg af heitu vatni til að kynda öll hús
Fréttir 19. júní 2025

Nóg af heitu vatni til að kynda öll hús

Í maí 2024 fannst heitt vatn í Tungudal við Ísafjörð, aðeins um þremur kílómetru...

Spornað við útrýmingu
Fréttir 19. júní 2025

Spornað við útrýmingu

Nýlega var stofnað Fagráð um geitfjárrækt. Er það talið nauðsynlegt til að stuðl...