Rúmur milljarður í þágu loftslagsaðgerða
Veita á 1.300 milljónum króna í styrki vegna orkuskipta og tækni- og nýsköpunarverkefna á sviði loftslagsmála.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur tilkynnt að Loftslags- og orkusjóður muni veita styrki að upphæð 1.300 milljóna króna til almennra verkefna sem eru til þess fallin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og gera Ísland óháðara jarðefnaeldsneyti.
Eru áherslur fyrir almenna úthlutun sjóðsins árið 2025 sagðar skiptast í tvo meginflokka. Eru þar annars vegar verkefni sem skila skjótum og mælanlegum árangri í útfösun kolefnis og skiptist sá flokkur niður á innviði fyrir stærri tæki og áfyllingarstöðvar fyrir raf- og lífeldsneyti. Hins vegar eru verkefni sem varða orkuskipti og orkusparnað í margvíslegum rekstri, orkuskipti á hafi og hringrásarverkefni. Hinn flokkurinn snýr að nýrri tækni og nýsköpunarverkefnum á sviði loftslagsmála.
Verður 1.000 m.kr. veitt í verkefni sem styðja við markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og 300 m.kr. til verkefna sem fela í sér innleiðingu á nýrri tækni eða nýsköpun á sviði loftslagsmála. Umsóknarfrestur er til 1. júní 2025.