Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sleipnisbikarinn, heiðursverðlaun íslenskrar hrossaræktar, var afhentur eigendum stóðhestsins Skýrs frá Skálakoti, þeim Jakobi Svavari Sigurðssyni og Guðmundi Viðarssyni.
Sleipnisbikarinn, heiðursverðlaun íslenskrar hrossaræktar, var afhentur eigendum stóðhestsins Skýrs frá Skálakoti, þeim Jakobi Svavari Sigurðssyni og Guðmundi Viðarssyni.
Mynd / TB
Fréttir 2. júlí 2020

Rjóminn í íslenskri hrossarækt

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Landssýning kynbótahrossa var haldin á Gaddstaðaflötum við Hellu um síðustu helgi en þar voru samankomnir helstu gæðingar landsins. Þátttökurétt áttu tíu hæst dæmdu kynbótahross vorsins í öllum flokkum, auk stóðhesta með afkvæmaverðlaun. 
 
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, afhenti Sleipnisbikarinn. Honum á vinstri hönd er Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda, sem stjórnaði verðlaunaveitingu af röggsemi. 
 
Þegar ljóst var að Landsmót hestamanna yrði blásið af vegna kórónuveirufaraldursins var fljótlega ákveðið að stefna að sýningarhaldinu til þess að svala þorsta aðdáenda íslenska hestsins.
 
Félagar í hestamannafélögum á Suðurlandi afhentu verðlaun á sýningunni.
 
Hlynur Guðmundsson, knapi og bóndi á Svanavatni, á fljúgandi skeiði á gæðingshryssunni Öskju frá Efstu-Grund, Skýrsdóttur.
 
Veðrið var eins og best verður á kosið og var greinilegt að um 1.200 gestir í brekkunni nutu dagsins til fullnustu. Hundruð áhorfenda fylgdust með beinu streymi af sýningunni á netinu víða um heim en þeir gátu valið um lýsingar á íslensku, ensku og þýsku. 
 
Pálmi Guðmundsson og Bjarney Jóna Unnsteinsdóttir.
 
Knaparnir Leifur George Gunnarsson, Lóa Dagmar Smáradóttir og Dagbjört Hrund Hjaltadóttir.
 
Óhætt er að segja að vel hafi tekist til með sýninguna sem stóð í einn dag. Það var hátíðleg stund þegar ræktendur og knapar tóku á móti verðlaunum fyrir hæst dæmdu hryssur og stóðhesta í sínum aldursflokkum. 
 
Ragnhildur Loftsdóttir veitti Álfadísarbikarnum viðtöku fyrir hæst dæmdu 4. vetra hryssu vorsins, Drift frá Austurási. Knapinn Árni Björn Pálsson hampar fyrstu verðlauna bikarnum.
 
Sleipnisbikarinn og afkvæmaverðlaun
 
Sleipnisbikarinn, heiðursverðlaun íslenskrar hrossaræktar, sem Bændasamtökin veita venjulega á Landsmóti hestamanna þeim stóðhesti sem stendur efstur til afkvæma, var afhentur ræktendum Skýrs frá Skálakoti en hann er 13 vetra stóðhestur með 128 stig í aðaleinkunn í kynbótamati og 52 sýnd afkvæmi. Guðmundur Viðarsson, ræktandi Skýrs og bóndi í Skálakoti, tók á móti Sleipnisbikarnum ásamt Jakobi Svavari Sigurðssyni, sem er meðeigandi hans og hefur séð um þjálfun þessa mikla gæðings.
 
Skýr frá Skálakoti með afkvæmum sínum og eigendum, þeim Jakobi Svavari Sigurðssyni og Guðmundi Viðarssyni. 
 
Afkvæmaverðlaun stóðhesta voru afhent ræktendum. Fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi hlutu Stormur frá Herríðarhóli, Ölnir frá Akranesi, Konsert frá Hofi og Skaginn frá Skipaskaga. Heiðursverðlaun fyrir afkvæmi hlutu Loki frá Selfossi, Óskasteinn frá Íbishóli og áðurnefndur Skýr frá Skálakoti. Allir verðlaunagripir sem veittir eru á landsmótum í einstaklingssýningum og fyrir afkvæmahesta voru veittir á sýningunni.
 
Þeir Jón Vilmundarson og Þorvaldur Kristjánsson sátu í þulaskúrnum og héldu áhorfendum upplýstum um gang mála. 
 
Mikilvægur vettvangur til að kynna ræktunina
 
Þorvaldur Kristjánsson, ráðunautur í hrossarækt, sagði í aðdraganda sýningarinnar að mikilvægt væri að veita ræktendum og hestaeigendum vettvang til að kynna sína ræktun.
 
 „Það er nauðsynlegt að við sameinumst öll um þennan dag íslenskri hrossarækt til heiðurs og framdráttar; sýna heiminum að Ísland, upprunaland íslenska hestsins, er sannarleg uppspretta gæða í hrossavali,“ sagði Þorvaldur. 
 
Það er ýmislegt skrafað í brekkunni. Hér eru þeir Magnús Einarsson í Kjarnholtum, tvíburabræðurnir Jón og Þorgeir Vigfússynir frá Efri-Brúnavöllum ásamt Gunnari Þorgeirssyni og Guðna Ágústssyni.
 
Það var Félag hrossabænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Horses of Iceland hjá Íslandsstofu og félagið Rangárbakkar sem áttu veg og vanda af sýningarhaldinu. 
 
 
Upplýsingar um efstu hross í hverjum flokki og dagskrá landssýningarinnar er að finna hér.
 
Fleiri myndir frá mannlífinu á Gaddstaðaflötum er að finna í myndasafni Bændablaðsins en hestakosturinn er á myndum hér undir.
 
Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...