Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Kornrækt fer vaxandi á Íslandi en þarfnast betri stuðnings og áherslu á
ræktun til manneldis út frá fæðuöryggissjónarmiðum.
Kornrækt fer vaxandi á Íslandi en þarfnast betri stuðnings og áherslu á ræktun til manneldis út frá fæðuöryggissjónarmiðum.
Mynd / Bbl
Fréttir 6. júní 2025

Ódýrasta trygging fæðuöryggis að efla afkomu bænda

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Bóndi í Borgarfirði segir vel hægt að rækta korn á Íslandi og nota miklu meira af því til manneldis en nú er gert.

Eiríkur Blöndal, bóndi á Jaðri í Bæjarsveit í Borgarfirði. Hann sagði rannsóknir
LbhÍ og Matís hafa skipt sköpum fyrir þá kornrækt sem við þekkjum nú á
Íslandi en betur mætti ef duga skyldi. Mynd / Matís-Anton Brink

„Hvaða máli skiptir innlent korn fyrir neytendur? Skiptir máli hvort korn sem við neytum á Íslandi sé innlent?“ spurði Eiríkur Blöndal, bóndi á Jaðri í Bæjarsveit í Borgarfirði, í erindi sínu á málþingi Matís, Neytendur framtíðar, 13. maí sl. Fjölskyldan á Jaðri ræktar bygg og hafra, stundum rúg og svolítið af nepju. Þau eru einnig með sauðfé og bjóða upp á ferskt lambakjöt allt árið undir vörumerkinu Brákarey.

„Við höfum ræktað korn á Íslandi frá landnámi, við ræktum mest af byggi en við ræktum líka hafra, rúg, hveiti og eitthvað smávegis af öðrum tegundum. Mest af korninu okkar fer í dýrafóður, aðallega fyrir nautgripi, svín og sauðfé, en sumir bændur hafa líka náð ágætum tökum á að framleiða matarkorn. Auk þess korns sem er neytt sem bygggrjón eða grautur, eða sem hráefni í brauð, er svolítið af korni í bjór- og viskígerð,“ útskýrði Eiríkur.

Hann sagði íslenskt korn ræktað og þurrkað við góð skilyrði. Unnt væri að nota miklu meira af því til manneldis ef rétt yrði á málum haldið.

Neytendur velji íslenskar landbúnaðarvörur

„Þessa dagana er mörgum tíðrætt um fæðuöryggi og ekki að ástæðulausu. Fæðuöryggi þýðir að við séum sem mest sjálfbær um þá fæðu sem við neytum. Fæðuöryggi felur í sér að við séum ekki eins háð öðrum um mat. Það þýðir einnig að aðrir þurfi ekki að svelta þó að við kaupum mat á heimsmarkaði. Því Íslendingar eru vissulega mjög ríkir og geta keypt sér ýmislegt, og þar með talið mat, þ.e.a.s. ef hann fæst í heiminum. En aukaverkunin er sú að þá er einhver annar sem sveltur, því það vantar einfaldlega meiri mat í heiminn.

Þá er spurningin hvernig neytendur geti haft áhrif á íslenska kornrækt, ef þeir á annað borð kæra sig um það, og haft þannig áhrif á fæðuöryggið,“ sagði Eiríkur og svaraði jafnharðan með því að það gætu neytendur gert með því að velja landbúnaðarvörur sem framleiddar væru á Íslandi. Eða að minnsta kosti frá löndum þar sem velferð dýra og manna væri í hávegum höfð.

„Svo er annað, sem ég tel mjög mikilvægt, en það er að fólk á að spyrja í mötuneytum vinnustaðanna hvaðan maturinn sé. Og bera það síðan saman við hvaðan ykkur finnst að maturinn ætti að vera. Neytendur geta líka ýtt á ráðandi aðila í þjóðfélaginu. Stjórnvöld stjórna því hvaða kjör landbúnaðurinn býr við. Ég er ekki bara að tala um landbúnaðarráðherrann, eða atvinnuvegaráðherrann, heldur líka sveitarstjórnirnar og borgarstjórnina. Þau eru líka stjórnvöld og geta haft veruleg áhrif með sínum gjörðum og verkum. Því að öruggur matur kemur úr heilbrigðum samfélögum. Í heilbrigðum samfélögum býr fólk af ýmsum toga sem deilir kjörum og hefur til dæmis skóla og menningu. Ræktun er menning og við þurfum að umgangast hana sem slíka,“ sagði Eiríkur jafnframt.

Uppteknir við að verjast innrás

Hann sagði mönnum verða tíðrætt um orkuskort á Íslandi og meiri áhugi væri á þeirri umræðu en um matarskort. „En hvort ætli sé meiri orkuskortur eða matarskortur á Íslandi?“ spurði hann enn.

„Ég veit að minnsta kosti að við framleiðum margfalda þá orku sem heimili og minni fyrirtæki nota, kannski tíu til fimmtán sinnum meiri en við þurfum til heimila og lítilla fyrirtækja. Á sama tíma framleiðum við langt innan við helming þeirra landbúnaðarafurða sem við notum. Við og búféð okkar.

Í mínu samfélagi hafa stjórnvöld stutt við brjálæðislegar vindmyllur á heiðum, óuppfundnar eldsneytisverksmiðjur á höfnunum og æðisgenginn rafmagnskapal þar á milli. Þetta eru áform sem þrengja mjög að samfélagi sem snýst um landbúnað, ferðaþjónustu og hlunnindanýtingu. Samfélagið lamast vegna ásóknar og bændur, sem ættu að vera að yrkja jörðina og sá korni, verða uppteknir af því að verjast innrás þessara nýju aðila. Við berjumst við vindmyllur. Svo er líka ásókn í jarðnæði til þess að binda kolefni með skógrækt. Og Íslendingar, þrátt fyrir að vera margfaldir heimsmeistarar í orkuskiptum, vilja svo gjarnan taka á sig syndir heimsins í þessum málum líka. Það eru aðilar sem kaupa jarðir til kolefnisbindingar og keppa við unga bændur. Þeir eru með fjármagn sem er kannski tuttugu sinnum ódýrara heldur en fjármagnið sem ungum bændum býðst. Þessi þróun eflir ekki fæðuöryggi eða kornrækt,“ sagði Eiríkur enn fremur.

Stjórnvöld setji kornrækt á oddinn

Hann kvað eigin framtíðarsýn fyrir kornrækt og korn fyrir íslenska neytendur þá að þjóðin gæti orðið sjálfbær um framleiðslu korns í fóður og matkorns. Sú vegferð gæti byrjað með því að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög settu málið í forgang og settu sér sömuleiðis innkaupastefnu fyrir sín mötuneyti.

„Rannsóknir Landbúnaðarháskólans og Matís hafa skipt sköpum fyrir þá kornrækt sem við þekkjum nú á Íslandi en þarna þarf samt að bæta verulega í. Stórauka þarf áherslu á málaflokkinn kornrækt, reisa jarðræktarmiðstöðina á Hvanneyri, og Matís þarf að hafa bolmagn til að greina hvers konar möguleika korns til matar og aukaafurða. Stjórnvöld ættu þar að auki að tryggja afkomu bænda almennt. Það er ódýrasta trygging fæðuöryggis,“ sagði Eiríkur að endingu.

Skylt efni: kornrækt | fæðuöryggi

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu
Fréttir 11. desember 2025

Kolefnisspor íslenskra matvæla á pari við Evrópu

Ný rannsókn Matís sýnir að kolefnisspor helstu íslenskra matvæla – mjólkur, kjöt...

Þörungakjarni með mörg hlutverk
Fréttir 11. desember 2025

Þörungakjarni með mörg hlutverk

Undirrituð hefur verið formleg viljayfirlýsing um stofnun Þörungakjarna á Akrane...

Húsaeiningar frá Noregi
Fréttir 9. desember 2025

Húsaeiningar frá Noregi

Nýlega komu um tvö þúsund fermetrar af svonefndum „Modulum“, sem eru forsmíðaðar...

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Unnið að friðun sex svæða á landsbyggðinni

Alþingi hefur samþykkt framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til ársins 2029. Um tí...

Gervigreind í Grímsnesi
Fréttir 9. desember 2025

Gervigreind í Grímsnesi

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur nú þátt í þróunarverkefni í samstarfi við up...

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni
Fréttir 9. desember 2025

Jarðakaup frumkvöðla á landsbyggðinni

Þingsályktunartillaga um nýtt fyrirkomulag jarðakaupa frumkvöðla á landsbyggðinn...

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti
Fréttir 8. desember 2025

Þurfum að viðhalda sérstöðu og forskoti

Niðurstöðu COP30 sem fram fór í Brasilíu í nóvember hefur verið lýst sem lægsta ...

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum
Fréttir 8. desember 2025

Fituúrgangur til framleiðslu á hreinsivörum

Nýsköpunarfyrirtækið Gefn sérhæfir sig í framleiðslu á umhverfisvænum bílahreins...