Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Heimild: Verkfræðistofan Lota, 2020)
Heimild: Verkfræðistofan Lota, 2020)
Fréttir 26. nóvember 2020

Lýsa áhyggjum af hækkunum á gjaldskrá Landsnets

Höfundur: Ritstjórn

Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjumanna og Bændasamtök lýsa miklum áhyggjum af þeim hækkunum á gjaldskrá sem Landsnet hefur boðað frá og með 1. janúar nk.

Sú hækkun sem boðuð hefur verið til dreifiveitna er 9,9% og mun koma til hækkunar á framleiðslukostnaði í landbúnaði, ekki síst á ylræktuðum garðyrkjuafurðum, þar sem orkukaup eru einn stærsti þátturinn í framleiðslukostnaði, auk launakostnaðar.

Gjaldskrárhækkun á flutnings- og dreifingarkostnaði raforku vegna hækkana Landsnets mun leggjast á framleiðslukostnað til viðbótar þeim hækkunum sem verða vegna aukinna álagna á jarðefnaeldsneyti /flutningskostnað og kjarasamningsbundinna launahækkana.

 

Handstýrðar hækkanir

Á sama tíma og þessar handstýrðu hækkanir af hálfu opinberra aðila og fyrirtækja í opinberri eigu, hafa verið boðaðar er landsmönnum talin trú um að unnið sé að því með öllum ráðum að halda niðri verðbólgu. Vart geta gjaldskrárhækkanir Landsnets og auknar álögur á eldsneyti og flutningskostnað verið liður í því? Þvert á móti hljóta hækkanir á aðföngum og framleiðslukostnaði að leita út í verðlag með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu og rýrnun á kjörum heimila og fyrirtækja. Sömu fyrirtækja og heimila og munu einnig þurfa að taka á sig aukinn kostnað vegna raforkukaupa.

Nú kann einhver að minnast þess að í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er áformað að auka jöfnunarframlag vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku á næsta ári. Kynnu margir að telja að þar með væri nú raunhækkun til kaupenda úr sögunni og þessar áhyggjur væru óþarfar. En hvað segir reynslan okkur? Hvert hefur framlag skattgreiðenda til jöfnunar flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku í dreifbýli runnið á undanförnum árum?

Þróun á raforkukostnaði síðustu ár

Verkfræðistofan Lota hefur unnið úttekt fyrir Sölufélag garðyrkjumanna á þróun á raforkukostnaði síðustu ár. Hér má sjá dæmi um þróun flutnings- og dreifingarkostnaðar árin 2005-2019. Hér er miðað við 1.000 kW notanda með nýtingartímann 4.500 klst. á ársgrundvelli. Heimild: Verkfræðistofan Lota, 2020)

 Veruleg hækkun, eða 24%, varð á orkugjaldi í dreifbýli árið 2014 og árið 2015 kom ríkið inn með dreifbýlisframlag (kr./kWh), til jöfnunar flutnings- og dreifingarkostnaðar sem mótvægisaðgerð. Við það lækkaði kostnaður kaupenda vegna orkugjalds um 50% og varð þá bilið milli dreifbýlis og þéttbýlistaxta svipað og verið hafði árið 2005. En það var skammgóður vermir. Strax ári síðar hækkaði kostnaður vegna orkugjaldsins um 53%, aftur árið eftir um 12% og svo um 30%. Árið 2018 var því kostnaður vegna orkugjaldsins í raun orðinn sá sami og hann hefði verið ef ekki hefði komið til jöfnunarframlags frá ríkinu.

Með öðrum orðum, gjaldskrárhækkanir átu jöfunarframlagið upp á þremur árum.

275% frá 2005

Verð á flutningi og dreifingu raforku í dreifbýli hefur samtals hækkað um 275% frá 2005. Hækkunin er rúm 180% ef tekið er tillit til jöfnunargjalds stjórnvalda. Það er tæplega 179% umfram hækkun almenns verðlags (VNV) á sama tímabili eða 84% hækkun umfram VNV að teknu tilliti til jöfnunargjaldsins.

Umfjöllun um raforkumál getur verið flókin og framsetning upplýsinga jafnvel óáhugaverð fyrir þá sem ekki eru þeim mun spenntari fyrir málefninu. Það má t.d. alveg efast um að birting orkureikninga til heimila sé með svo skírum hætti að almenningur eigi auðvelt með að átta sig á samsetningu og gjöldum fyrir þá þjónustu sem þeir eru að greiða fyrir. Við þær aðstæður getur verið erfitt að fylgjast með hvort þær breytingar sem verða á gjaldskrá séu eðlilegar og raunhæfar.

Ef reynt er að setja þetta fram á mannamáli, með sæmilega einföldum hætti, má segja að við kaup á orku skiptist kostnaðurinn hjá flestum notendum í þrennt.

Fastagjald og aflgjald eru gjöld sem kaupandi greiðir fyrir orkuna sjálfa. Fastagjaldið er eins og grunnáskrift á meðan aflgjaldið tekur breytingum í samræmi við orkunotkun.

Orkugjaldið er svo gjald fyrir flutnings- og dreifingarkostnað og tekur líka breytingum eftir magni.

Aflgjald er ætlað til að standa undir fjárfestingum en orkugjaldið á í raun að standa undir rekstri og viðhaldi kerfisins.

Hækkaði rekstrarkostnaður kerfisins virkilega svona mikið?

Hækkaði rekstrarkostnaður kerfisins í dreifbýli virkilega svona mikið á þessu tímabili? Hækkun orkugjaldsins í verðskrá Rarik á tímabilinu 2013-2020 var 108%. Á sama tíma hækkuðu fastagjöld og aflgjöld um tæplega 10%.

Í hverju felst þessi risavaxna hækkun?

Hvernig samrýmist sú eigendastefna opinberra aðila á orkufyrirtækjum, sem birtist í gjaldskrárhækkunum af þessum toga, annarri stefnumörkun hins opinbera?

Það er engu líkara en hér séu tveir smiðir að byggja hús, annar notar tommustokk með gömlum, frönskum tommum og hinn með Imperial. Niðurstaðan virðist eftir því.

Nú er ráð að staldra við. Fresta þarf breytingum á gjaldskrá fyrir flutning- og dreifingu raforku, enda liggur fyrir að sá kostnaður er allt of hár og íþyngjandi fyrir notendur. Iðnaðarráðuneytið hefur nú ráðið Deloitte á Íslandi til að greina fyrirkomulag flutnings- og dreifingu á raforku hérlendis. Nauðsynlegt er að þær niðurstöður liggi fyrir áður en til frekari hækkana kemur, ekki síst þar sem um er að ræða fyrirtæki í opinberri eigu, í einokunarstöðu, sem þegar skilar ríkulegum arði, á kostnað raforkukaupenda, langt umfram verðlagsþróun.

Þess ber einnig að geta að þó að hér sé aðallega fjallað um áhrif á garðyrkju, enda er hún helsti stórnotandi raforku innan landbúnaðarins, hefur þessi hækkun áhrif á alla aðra aðra raforkukaupendur – annan landbúnað, önnur fyrirtæki og heimilin í landinu og það í miðri kreppu. Trúir því einhver að eðlilegt sé að eitthvað hækki 84% umfram almennt verðlag og það þrátt fyrir að stjórnvöld hafi beitt sér fyrir auknum jöfnuði á sama tíma? Án þess væri talan nærri 180%. Þetta þarf að stöðva.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...