Illa farið með skepnur
Matvælastofnun hefur birt stjórnvaldsákvarðanir og dagsektir vegna dýravelferðar frá maí til júní. Flestar snerta þær Suður- og Norðurland.
Matvælastofnun hefur birt yfirlit yfir stjórnvaldsákvarðanir stofnunarinnar í dýravelferðarmálum fyrir maí, júní og júlí. Er um að ræða mismunandi háar dagsektir og aðrar aðgerðir.
Samkvæmt tilkynningu MAST voru dagsektir, 10 þúsund á dag, lagðar á bónda í suðausturumdæmi til að knýja á um úrbætur. Þótti örmerkingum hrossa, hunda og katta á bænum vera ábótavant og hjarðbók fyrir sauðfé var óuppfærð. Sjúkdóma- og lyfjaskráningar fyrir sauðfé og hross voru einnig ófullnægjandi og almenn meðferð og umhirða hunda á bænum ekki í lagi.
Stjórnvaldssekt að upphæð 330.000 kr. var lögð á einstakling í suðvesturumdæmi sem notaði hengingaraðferð við tamningu á folaldi.
Hestaleigan hélt uppteknum hætti
MAST stöðvaði rekstur hestaleigu í suðausturumdæmi í apríl vegna brota á dýravelferð en rekstraraðilinn hélt áfram rekstrinum. Dagsektir, 10 þúsund krónur á dag, voru lagðar á hann í sumar til að knýja á um lokun hestaleigunnar og bæta úr velferð hrossanna.
Við eftirlit hjá bónda í suðvesturumdæmi fannst fótbrotin kvíga í fjárhúshlöðu á bænum sem hafði verið brotin í 2-3 daga áður en eftirlitsmenn bar að garði. Ekki hafði verið kallaður til dýralæknir. Kvígan var aflífuð að kröfu MAST og lögð stjórnvaldssekt á bóndann að upphæð 210.000 kr. Einnig voru lagðar á hann dagsektir að upphæð 15.000 kr. á dag til að knýja á um bætta dýravelferð í búskapnum.
Þá greip MAST til aðgerða vegna kýr sem drapst í flutningi til sláturhúss. Bóndi í norðausturumdæmi lét flytja kú til sláturhúss á Akureyri fimm dögum eftir burð. Hún drapst á leiðinni. Var það mat stofnunarinnar að bóndanum hefði átt að vera ljóst að kýrin var ekki flutningshæf vegna einkenna sem hún sýndi. Lögð var stjórnvaldssekt að upphæð 260.000 kr. á bóndann.
Illa farin kýr í fjósi
Jafnframt kom í ljós, við eftirlit hjá bónda í norðvesturumdæmi, mjög illa farin kýr í fjósi. Vanrækt hafði verið að kalla til dýralækni eða aflífa skepnuna. Skepnan var aflífuð að kröfu MAST. Lögð var stjórnvaldssekt að upphæð 225.000 kr. á bóndann.
Einnig voru lagðar hefðbundnar dagsektir á bónda í norðausturumdæmi til að knýja á um úrbætur á velferð sauðfjár og hrossa.
Nokkuð var sömuleiðis um aðgerðir tengdar velferð hunda og katta víða um land.
