Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Merki ASK-rafmyntarinnar með Öskju í baksýn.
Merki ASK-rafmyntarinnar með Öskju í baksýn.
Fréttir 13. júlí 2022

Hugmyndin að nýta bálkakeðjutæknina til hagsældar fyrir bændur og neytendur

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Hugbúnaðarfyrirtækið Rusticity vinnur nú að verkefni sem felst í því að setja á markað rafmyntina ASK í þeim tilgangi að koma á beinu viðskiptasambandi milli bænda og neytenda með bálkakeðjutækni (blockchain) undir heitinu ASKJA, sem er eins konar vistkerfi smáforrita og rafmyntarinnar.

Gilles Tasse, einn stjórnenda og eigenda Rusticity
Nanna K. Kristjándsdóttir, forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Rusticity

Slík hugmynd er ekki alveg ný af nálinni hér á landi, en Sveinn Margeirsson, þáverandi forstjóri Matís, hafði á sínum tíma uppi svipuð áform um slíkt fyrirkomulag með sauðfjárslátrun heima á bæjum, kjötvinnslu og sölu beint frá býli. Þar sem allar upplýsingar væru skráðar um sjálfar afurðirnar og viðskiptin, með bálkakeðjufyrirkomulagi í miðlægan gagnagrunn á vefnum Matarlandslagið. Bálkakeðjutæknin gerir slík viðskipti fullkomlega rekjanleg í gegnum allt framleiðslu- ferlið, án þess að það sé gegnsætt.
Nýverið var rafmyntin falboðin í forpöntun á vef ÖSKJU (askja.io) þar sem áhugasömum, íslenskum bændum og aðilum tengdum íslenskum landbúnaði er boðið að taka þátt, en hún hefur ekki enn verið sett á markað.

Höfundar LAMB-smáforritsins

Parið Nanna K. Kristjánsdóttir og Gilles Tasse eru meðal stjórnenda og eigenda Rusticity. Gilles, sem er landbúnaðarverkfræðingur, vann á árum áður í tölvudeild Bændasamtaka Íslands við þróun á forritum fyrir bændur og saman hafa þau meðal annars þróað og rekið smáforritið LAMB – sem margir sauðfjárbændur þekkja – og AppFeng sem hrossaræktendur nota.

Að sögn Nönnu er ASKJA hugsað fyrir bændur, dýraræktendur og gæludýraeigendur og er ætlunin að bjóða fram þjónustu við markaðssetningu á landbúnaðarafurðum, lifandi dýrum og dýraafurðum, í gegnum þetta vistkerfi. Ætlunin er að hafa milligöngu um að koma á sambandi við verslanir þar sem þessar vörur verða til sölu á stafrænu formi, en möguleiki verður einnig á beinni sölu bænda með rafmyntina ASK sem gjaldmiðil.

Rafmynt og smáforrit

Hugmyndin fæddist fyrir rúmu ári sem hefur nú leitt af sér ASK- rafmyntina og áætlað er að setja fyrstu smáforritin í vistkerfi Öskju í umferð nú í sumar, sem eru Katla og Bestiz.

Hið fyrra er markaðstorg ætlað til að deila hestamyndum, auk þess að búa til, deila og selja svokallað NFT tengt hestum. NFT stendur fyrir „non-fungible token“ og eru venjulega stafræn tákn eða myndir sem framleitt er með sama hætti og rafmyntir, með bálkakeðjutækninni, og hefur breiðst út á Internetinu á undanförnum fáeinum misserum – og gengur þar kaupum og sölum.
Bestiz hefur svipaða virkni og Katla, en höfðar til gæludýraeigenda.
Bálkakeðjutæknin mun breyta okkar raunveruleika

„Bálkakeðjutæknin er eitthvað sem á eftir að breyta okkar raunveruleika á svipaðan hátt og Internetið og snjalltækin gerðu á sínum tíma. Við höldum að það eigi eftir að verða gífurlegar breytingar næstu tvö árin og rafmynt er eitthvað sem allir eiga eftir að skilja vel og nota,“ segir Nanna.

„Það kann að hljóma framandi þegar talað er um bálkakeðjur og rafmynt, en við leggjum mikið upp úr því að vistkerfi Öskju sé þannig byggt að notandinn geti orðið partur af samfélaginu á tiltölulega einfaldan hátt óháð því hversu djúpan skilning það hefur á bálkakeðjutækninni.“

Milljarður ASK-rafmynta

„ASKJA rafmynt er tilbúin til útgáfu en við stefnum á að gefa hana út í haust. Við höfum í okkar röðum hagfræðing á sviði vistkerfa bálkakeðjutækninnar (Tokenomic) og bíðum eftir merki frá honum um hvenær er rétt að gefa út ÖSKJU- rafmynt,“ segir Nanna – en gert er ráð fyrir að milljarður ASK-rafmynta verði alls í umferð.

„Þegar ASKJA hefur náð fótfestu ætlum við að búa til tól sem tengja saman ITO-snjalltækni og bálkakeðju, sem er sérsniðin að landbúnaði.“

Milliliðalaus sala

Fyrsta tólið er ASKJA TRACE, sem er ætlað að aðstoða bændur sem vilja fjárfesta í betri tækni fyrir milliliðalausa sölu. Það mun virka sem tæki til að bæta stöðu bóndans í virðiskeðjunni, sem og til að auðvelda neytendum að taka upplýsta ákvörðun um viðskiptin.

Að sögn Nönnu geta bændur, með hjálp ASKJA TRACE, búið til áreiðanleikavottorð með bálkakeðjutækninni.

Vottorðið inniheldur helstu atriði sem eru vörunni viðkomandi; eins og til dæmis hvaðan tiltekin kjötafurð sé upprunnin.

„Vottorðið er síðan hægt að flytja út sem QR-kóða. Neytandinn getur skannað kóðann, athugað upplýsingar og haft yfirsýn yfir framleiðsluferil vörunnar.

Þá höfum við á borðinu eins konar NFT-rafræn skráningarskírteini sem fylgir gripum, til dæmis hestum í gegnum þeirra líftíma, sláturupplýsingar og flutningsupplýsingar,“ segir hún.

„Við ætlum líka að færa öll smáforritin okkar sem eru á sviði landbúnaðar yfir í ÖSKJU-vistkerfið og munum byrja á LAMB- snjallforriti og AppFeng.“

Landbúnaðarsjóður settur á fót

Sem fyrr segir verður ÖSKJU- vistkerfið sérstaklega helgað landbúnaði. Þau ætla að setja eitt prósent af öllum viðskiptafærslum í sérstakan landbúnaðarsjóð, sem bændur og aðrir í landbúnaðar- geiranum geta sótt í til að fjármagna verkefni. „Öll tól sem við ætlum að smíða á næstu 15 árum eru miðuð að landbúnaði. Við stefnum á að gefa okkar notendum ÖSKJU-rafmynt á bændaþingi sem við eigum með sauðfjárbændum síðar í sumar. Við viljum að sjálfsögðu hafa bændur sem eigendur á bak við ÖSKJU. Við vonumst eftir að bændur, Bændasamtökin og bændafélög komi með okkur og myndi sterkt alþjóðlegt samfélag landbúnaðarins,“ segir Nanna.

Betri kjör til bænda

Meginmarkmiðið með verkefninu er að sögn Nönnu að taka út milliliði sem rýri kjör bænda. „Það er ástæðan fyrir því að við viljum fara út í þetta meðal annars, svo að tekjurnar geti farið beint til bænda.

Bálkakeðja er dreifstýrð, en ekki miðstýrð eins og flest kerfi sem við þekkjum í dag til dæmis hjá bönkum, í stjórnsýslu og víðar.“

Þau segja að þeirra hugmyndafræði sé mjög svipuð þeirri sem Sveinn Margeirsson kynnti hjá Matís á sínum tíma. „Við tókum þátt í ráðstefnu með honum fyrir skemmstu. Þótt grunnhugmyndin sé sú sama erum við kannski meira tæknileg. Við teljum að rekjanleiki, gagnsæi og stafrænt samfélag sé módel sem geti tekið við af því sem við þekkjum í dag og skili sér betri hagsæld til bænda.“

Hræðsluáróður gegn rafmyntum

Nanna segir það varla hafa farið fram hjá neinum að rafmyntamarkaðurinn hafi verið í frjálsu falli í vor og eigi mjög erfitt uppdráttar eins og er, spurð um hvort ekki sé óvarlegt að setja íslenska rafmynt á markað á þessum tímum.

„Ástæðan fyrir því er þríþætt, síðasta haust var mikil uppsveifla og margir óheiðarlegir einstaklingar nýttu sér þennan markað. Þeir hreinlega gáfu út rafmynt til þess eins að ræna fólk. Þess vegna er fólk mun meira vart um sig og kröfur um vottun orðin meiri. Þá hefur umfjöllun um rafmyntir verið mjög óvægin og fjölmiðlar og stórir aðilar eins og fjárfestingafyrirtæki og bankar, sem sjá að þarna er verið að þrengja að þeim, hafa haldið úti hræðsluáróðri og reynt að stýra fólki frá þessum frjálsa markaði.

Að lokum hefur heimskreppa, stríð og Covid haft áhrif á þennan gjaldmiðil eins og aðra,“ segir hún.

„En ef skoðuð er stóra myndin og farið er fimm ár aftur í tímann sést að markaðurinn er að jafna sig eftir óeðlilega uppsveiflu á síðasta ári en ekki er um hrun að ræða. Síðustu sex mánuðir gefa hins vegar mjög slæma mynd.Þau áhrif sem þetta hafði á okkur var að við þurftum að ganga í gegnum nokkuð dýrar og flóknar vottanir, KYC og Audited, ásamt því að þurfa að leggja meira fé í markaðssetningu en hefði þurft áður og svo þurftum við að setja útgáfu myntarinnar í bið.

En það er gífurlega mikilvægt að myntin fari vel af stað fyrstu klukkutímana og dagana. Ef hún byrjar illa getur það þýtt að hún nái sér aldrei á strik. Við búumst við að markaðurinn taki við sér í haust og munum þá setja af stað nýja einka- og forsölu,“ segir Nanna að lokum.

Skylt efni: rafmynt | bálkakeðjutækni

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...