Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Huðnur hafa verið mjólkaðar í sumar í Ytri-Fagradal en ekki hefur enn mátt selja mjólkina þaðan.
Huðnur hafa verið mjólkaðar í sumar í Ytri-Fagradal en ekki hefur enn mátt selja mjólkina þaðan.
Mynd / Aðsend
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinólfsdóttir, geitabóndi í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, hefði ekki fengið úttekt hjá Matvælastofnun á aðstöðu sinni til mjólkurvinnslu, þrátt fyrir að hafa sent inn beiðni þess efnis í lok júní.

Skýringin sem starfsmaður stofnunarinnar gefur á seinaganginum er að erindi Höllu hafi „fallið milli skips og bryggju“ hjá honum.

„Þetta er óvenjuleg umsókn og hef ég þurft að bíða eftir umsögn sérfræðinga. Engin slík umsókn hefur verið afgreidd í mínu umdæmi áður að mér vitandi. Vegna sumarfría hefur málið svo gleymst, sem er mjög bagalegt fyrir Höllu,“ segir Daníel Haraldsson, héraðsdýralæknir Matvælastofnunar, í Norðvesturumdæmi í svari við fyrirspurn.

Fékk úttekt daginn sem hún hætti að mjólka

Halla fékk svo starfsmann í úttekt hjá sér miðvikudaginn 13. september, daginn sem hún hætti að mjólka geiturnar, vegna þess að kindurnar hennar þurfa nú sitt pláss á ný í fjárhúsunum. Halla segir þetta alvarlegt mál þar sem heilt sumar hafi verið eyðilagt hjá henni hvað varðar sölu á geitamjólkurafurðum sínum og að öllum líkindum talsverð verðmæti tapast. Hún segir að allt stefni í að hún fái leyfi til sölu á mjólkinni sinni athugasemdalaust. Það sé hins vegar of seint.

Halla Sigríður Steinólfsdóttir, geitabóndi í Ytri-Fagradal.

Fullkomlega óásættanleg málsmeðferð

„Skoðun okkar er að sjálfsögðu sú að svona meðferð mála er fullkomlega óásættanleg,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli.

„Ég grennslaðist fyrir um þetta tiltekna mál og virðist meginorsökin liggja í að sótt var um úttektina í júní þegar starfsmenn voru að detta í sumarfrí og hvorki sá sem fékk umsóknina á sitt borð né sá sem hann ætlaði að koma henni til brugðust við þrátt fyrir að Halla hafi ítrekað spurst fyrir um stöðuna og henni lofað að brugðist yrði við. Sumarfrístími er engin afsökun ef opið er fyrir umsóknir og ekki tekið fram þegar þær eru mótteknar að þær verði ekki afgreiddar fyrr en eftir tiltekna dagsetningu þegar starfsmenn eru komnir úr fríi. Vonandi sjá stjórnendur stofnunarinnar til þess að svona endurtaki sig ekki í framtíðinni.“

Oddný Anna Björnsdóttir.

Seinagangur í afgreiðslu umsókna

„Í gegnum tíðina höfum við heyrt af alls konar málum sem eru jafnólík og þau eru mörg og já, hluti þeirra hefur tengst seinagangi í afgreiðslu umsókna, að fólk bíði og bíði og fái engin svör. Það sorglegasta er hve margir, bæði þeir sem eru ekki byrjaðir og þeir sem hafa áhuga á að prófa eitthvað nýtt í sinni starfsemi, hafa hætt við eða ekki lagt í að fara út í frumkvöðlastarfsemi, því þeir upplifa að það þýði að þeir þurfi að fara í átök við kerfið. Samskipti frumkvöðla og eftirlits eiga ekki að þurfa að vera þannig og hef ég nú sjálf persónulega reynslu af slíkum slag eftir að við vorum kærð af Lyfjastofnun fyrir að rækta hamp, þrátt fyrir að þau vissu fullvel að við vorum með skriflegt leyfi frá Matvælastofnun. Þá urðum við fórnarlamb í valdabaráttu tveggja stofnana, þar sem hvorki var gætt meðalhófs né viðhöfð góð stjórnsýsla,“ segir Oddný.

Hún segir mikilvægt að báðir aðilar, framleiðandi og eftirlitsaðili, fari inn í ferlið með það markmið að vera lausnamiðaðir. „Þetta á ekki að vera slagur, þar sem annar vinnur og hinn tapar; heldur einlægur vilji beggja að gera vel og finna leiðir til að láta verkefnið ganga upp um leið og matvælaöryggi og velferð dýra er tryggð. Ef það væri alltaf gert, væru vandamálin ekki svona mörg. Svo er rétt að nefna að í fjölmörgum tilfellum gengur ferlið, þessi samskipti, mjög vel og eftirlitsaðilar bæði lausnamiðaðir og afgreiða málin hratt og vel. Það er jú þannig að við heyrum helst af þeim málum þar sem illa gengur, ekki þeim málum sem ganga hratt og vel fyrir sig.“

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...