Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vextir í lánaviðskiptum og vaxtahækkanir munu að stórum hluta valda því að „Fiat-gjaldmiðlar“ með enga baktryggingu í raunverðmætum eins og gulli, munu falla að mati fjármálasérfræðings hjá GoldMoney.
Vextir í lánaviðskiptum og vaxtahækkanir munu að stórum hluta valda því að „Fiat-gjaldmiðlar“ með enga baktryggingu í raunverðmætum eins og gulli, munu falla að mati fjármálasérfræðings hjá GoldMoney.
Fréttaskýring 1. júní 2022

Fljótandi gjaldmiðlar með enga baktryggingu í raunverðmætum sagðir dæmdir til að hrynja

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Stríðsátökin í Úkraínu virðast vera að valda áhyggjum um að þau geti hrundið af stað atburðarás í fjármálakerfi heimsins sem muni hafa ófyrirséðar afleiðingar.

Þar séu helstu peningakerfi heims, sem byggja á fljótandi gjaldmiðlum án gulltryggingar, orðin afar viðkvæm.

Gjáin milli Evrasíu og vestrænna hernaðar- og leyniþjónustubandalaga (NATO, Five-eyes, AUKUS o.s.frv.) stækkar hratt. Þó fjölmiðlaskýringar einblíni á hina sýnilegu hlið átakanna í Úkraínu, þá eru efnahagslegir og fjárhagslegir þættir sem raunverulega skipta máli. Peningahagsmunir eru nefnilega drifkrafturinn á bak við öll hernaðarbandalög, en gjaldmiðlakerfin eru lítils virði ef þau skortir bakstuðning í raunverðmætum. Drifkrafturinn í peningakerfum heimsins byggist líka á beitingu vaxta.

Áður hefur verið fjallað í Bændablaðinu um hrikalegar afleiðingar vaxta á hagkerfi heimsins og afkomu fólks. Þá m.a. með vísun í merkilegar heimspekilegar vangaveltur Martinus Simson, í bók sinni „Hugleiðingar um vaxtakerfið og hin skynsama óvita“, sem hann gaf út á Ísafirði árið 1965.

Því er fróðlegt að sjá hvernig reyndur fjármálasérfræðingur í heimsklassa tekur nú í raun undir margt af því sem þar kom fram, en 57 árum seinna.

Það hriktir í undirstöðum núverandi „Fiat money“- peningakerfa heimsins

GoldMoney er eitt virtasta fyrirtæki heims í viðskiptum með gull og aðra góðmálma og í fjármálaþjónustu við tæknifyrirtæki. Það er m.a. skráð á verðbréfamarkaði á Toronto Stock Exchange. Á heimasíðu þess 5. maí síðastliðinn er grein undir fyrirsögninni „Fjármálastríð tekur viðbjóðslega stefnu“. Þar segir að það sé vaxandi óumflýjanleiki við þetta allt saman sem valdi ekki síst áhyggjum. Einnig sú staðreynd að undirstöður núverandi peningakerfa „Fiat Money“, sem notast við myntir og seðla, sem ekki eru baktryggðir í gulli eða öðrum áþreifanlegum verðmætum, séu orðnar afar veik­burða. Þetta á við allar helstu myntir heims eins og dollar, evru sem og rúblu og hið kínverska yuan (rembimi). Á því kann að verða breyting fyrr en menn grunar sem gjörbreytt getur stöðu heimsmála.

Í annarri grein á heimasíðu GoldMoney í apríl undir fyrir­sögninni „Verðmætaeyðing“, eða „Value destruction“, segist höfund­ur­inn Alasdair Macleod hafa haldið því fram í nýlegum greinum að tímabili staðalsins sem Fiat dollar byggir á sé að ljúka.

Hann telur að japanska yenið og evran verði meðal fyrstu gjaldmiðlanna til að falla í valinn. Það byggir hann m.a. á því að það muni reynast nauðsynlegt að kaupa út seðlabanka sem eru á bak við Seðlabanka Evrópu (European Central Bank - ECB). Þeir eru þegar yfirhlaðnir af áhættuskuldabréfum og séu auk þess með útistandandi endurhverf lán upp á 8.725 billjónir evra sem vinda þurfi ofan af. Það eru lán með veði í verðbréfum sem geta orðið verðlaus.

Staða bandaríkjadals muni halda í einhvern tíma en ef það takist ekki að tryggja fall skuldabréfa muni tugir billjóna dollara peningaeign þurrkast út.

Í þessari ítarlegu grein tekur hann tilgátuna lengra og útskýrir að það er ekki bara tilkoma nýrra hrávöru­tryggðra gjaldmiðla í Asíu sem mun ógna yfirráðum vestrænna gjaldmiðla, heldur misheppnuð „FED“ peningamálastefna seðla­banka Bandaríkjanna (The Federal Reserve System) og annarra helstu seðlabanka. Þá segir hann:

„Óstöðvandi vaxtahækkun mun að stórum hluta valda því að þeir falla.“

Reynslubolti í fjármálaheiminum

Alasdair Macleod er yfirmaður rannsókna hjá GoldMoney og hefur mikla reynslu af fjármálamörkuðum þar sem hann starfaði sem verðbréfa­miðlari á verðbréfamarkaði í London í meira en fjóra áratugi. Hann hefur m.a. haldið því fram að Bitcoin muni deyja um leið og Fiat-peningakerfið lognast út af.

Macleod segir að fjármála­markaðir vanmeti þau eyðingaröfl sem felast í fjármálabólum. Það eru fjármálalegar eignir sem eru baktrygg­ing stærsta hluta banka­kerfisins. Þegar verð á þeim hrynur vegna hækkunar vaxta mun það valda hruni fyrirtækja, banka og jafnvel seðlabanka. Það mun gera fjármögnun gríðarlegs ríkishalla ómögulega nema til komi mjög hratt fall gjaldmiðla (gengisfelling, innskot blm.).

Macleod spyr sig hvort seðla­bankar muni reyna að verja verðmæti fjármálalegra eigna til að koma í veg fyrir að fjármálakerfi vesturlanda hrynji. Hann telur að þessi áhætta sé ástæðan fyrir því að Kína og Rússland séu nú að skipuleggja nýjan mið-asískan gjaldmiðil.

Vextirnir eru vandamálið

„Þetta snýst allt um vexti,“ segir Macleod. – „Hækkandi vextir grafa undan verðmæti peningaeigna og lækkandi vextir hækka þau. Frá 1981 og fram í mars 2020 hefur þróunin verið sú að verðbólga hefur hjaðnað og vextir lækkað með þeim.“ Síðan segir hann:

„Þróun vaxtalækkana er nú á enda og fjármálavæðingin er á undanhaldi. Nýlegir atburðir, lokanir vegna Covid, truflanir á birgða­keðjunni og refsiaðgerðir gegn Rússlandi veita áþreifanleg sönnunar­gögn um að svo hljóti að vera.

Þú þarft ekki að vera sjáandi til að spá fyrir um hrávöruverðskreppu og horfur á víðtæku hungri vegna skorts á korni og áburði í sumar. Heilbrigð skynsemi segir okkur að lok fjármálavæðingartímabilsins muni hafa víðtækar afleiðingar, en samt er varla hægt að merkja þetta á fjármálamörkuðum.“

Hann segir að sérfræðingar hafi verið með nefið klesst í eigin hugarheimi og sjái því ekki stóru myndina. Hann telur að það sé þó að breytast eftir ræðu sem Augustin Carsten hélt um verðbólguna nýverið, en Carsten er framkvæmdastjóri Alþjóða­greiðslubankans og almennt kall­aður seðlabankastjóri seðlabanka, sem er leiðandi í samhæfingu á alþjóða­vettvangi og markar peninga­stefnuna í heiminum.

Markmið í ræðu hans var að aðstoða seðlabanka við að samræma viðbrögð sín við þeim vanda sem hann viðurkennir þó seint að sé upphafið á nýju peningatímabili.

Segir greiningu á ástæðum verðbólgu vera ranga

Macleod segir í grein sinni að ein af þeim afdrifaríku mistökum sem þjóðhagsstofnanir hafi gert snúist um skilgreiningu á verðbólgu. Rétt skilgreining sé að verðbólga stafi af falli gjaldmiðils sem verður við það að auka peningamagn í umferð.

„Það snýst ekki um hækkun á almennu verðlagi, sem er það sem efnahagskerfið vill láta okkur trúa. Ástæðan fyrir því að þetta er sérstaklega viðeigandi nú, er vegna þess að stjórnvöld í gegnum seðlabanka sína hafa farið að treysta á að beita aukningu á magni gjaldmiðila í umferð og lánsfjár til að auka við skatta. Það gerir stjórnvöldum kleift að eyða meira en þau fá í tekjur.“

Villur vaxtastefnunnar

„Seðlabankar nota vexti sem aðal­aðferð sína til að stjórna peninga­stefnunni. Þeirra mistök eru að gera ráð fyrir að vextir séu ekki hærri en peningaverð. Ef þeir eru hækkaðir á eftirspurn eftir peningum að minnka og ef þeir eru lækkaðir er gert ráð fyrir að eftirspurn eftir peningum aukist. Með eftirspurn eftir peningum sé hægt að stýra eftirspurn eftir vörum og verði þeirra. Því er gert ráð fyrir að verðbólgu og efnahagslegri afkomu sé stýrt með stýringu vaxta. Þetta er þvert á fyrirliggjandi staðreyndir og gögn.“ Síðan segir Macleod:

„Við vitum að verðmæti fjáreigna á eftir að lækka, því með því að neytenda- og framleiðendaverð hækkar mikið munu vextir og ávöxtunarkrafa skuldabréfa halda áfram að hækka.“

Fíat-peningar hafa enga baktryggingu í raunverðmætum

Peningar eins og íslenska krónan er af því formi sem kallað hefur verið „Fiat money“ sem hefur ekki baktryggingu í neinum áþreifan­legum verðmætum til að tryggja sitt gengi. Samt eru peningarnir upphaflega ávísun á raunverðmæti, eins og kýr eða gull. Að rukka vexti fyrir slíka peninga er því í raun það sama og að rukka afgjald fyrir eitthvað sem ekki er til. Hins vegar hafa menn hingað til talið þokkalega tryggingu í bakstuðningi seðlabanka viðkomandi ríkja sem nota þessa Fiat-peninga, en það er samt ekki það sama og trygging í áþreifanlegum raunverðmætum.

Óstjórnleg peningaprentun og innheimta vaxta fyrir lán á peningum veldur því að á endanum skortir raunverðmæti sem geta staðið á bak við þær ávísanir sem peningarnir eru. Afleiðingin verður verðfall eða hrun viðkomandi myntar. Þetta þekkjum við af reglulegum sveiflum í verðmætum gjaldmiðla sem kallaðar eru verðbólgusveiflur. Þær eru í eðli sínu ekkert annað en tilfærsla á raunverðmætum til þeirra sem innheimta vextina og eiga sífellt fleiri peningaseðla sem settir eru í umferð. Nú telja ýmsir, þar á meðal sérfræðingar GoldMoney, að það styttist í stóruppgjör í peningaheiminum.

Nafnið Fiat money er komið úr latínu og þýðir „láttu það gerast“. Peningar voru fundnir upp til að auðvelda viðskipti manna á milli í stað beinna vöruskipta.

Ýmsir sérfræðingar telja að núverandi kerfi Fíat-peninga sé að renna sitt skeið og smám saman verði slíkar myntir verðlausar. Því verði að grípa til einhvers konar baktrygginga í raunverðmætum, t.d. hráefni eins og gulli. Þar eiga Bandaríkin stærsta gullforðann, eða 8.133 tonn. Þau eiga líka langflesta dollaraseðla í umferð svo verðmæti þeirra yrðu í dag langt frá því eins miklir og þeir voru fyrir 1944 þegar Bretton Woods ráðstefnan ákvað að hver únsa af gulli yrði metin á 35 dollara. Eða með öðrum orðum, þá fékkst 0,81 gramm af gulli fyrir hvern dollar meðan gullfótur var undir þeim gjaldmiðli. Í dag fengist lítið sem ekkert gull fyrir hvern dollaraseðil svo virði allra þeirra 40 billjóna dollara (40.000.000.000.000) sem eru í umferð myndi hrynja.

Um 59% af öllum banka­innstæðum seðlabanka heimsins voru í dollurum í árslok 2020 svo hrun á dollar hefði gríðarlegar afleiðingar. Þótt bandaríkjadalur sé öflugasti gjaldmiðillinn í alþjóðaviðskiptum er hann alls ekki með sterkasta gengið og er þar aðeins í tíunda sæti. Sterkasti gjaldmiðill heims er talinn vera dinarinn í Kúveit.

Þjóðir íhuga á ný gulltryggingu sinna gjaldmiðla

Talið er að Rússar vinni nú hörðum höndum að því að setja gulltryggingu á bak við sína rúblu sem gerði gengi hennar stöðugt. Þannig verði hún óháð sveiflum í verði fljótandi gjaldmiðla og um leið óháð Fiat-peningakerfinu. Þetta eru m.a. sögð viðbrögð Rússa við ítrekuðum refsi­aðgerðum Vesturlanda vegna stríðsaðgerða þeirra fyrrnefndu í Úkraínu.

Rússar eiga 2.299 tonn af gulli (um 74 milljón únsur) sem er mun minna en Bandaríkja­menn, en rúblurnar í umferð eru líka langtum færri. Einn af helstu ráðgjöfum Pútíns, Nikolai Patrushev, staðfesti í viðtali við Rossiyskaya Gazeta fyrir skömmu að verið væri að skoða mögulega tengingu rúblu við framleiðsluvörur, eða hrávöru, sem yrði þá væntanlega gull.

Þar á bæ virðast menn nokkuð sann­færðir um að bandaríski doll­ar­inn sé að missa fótfestu sína í alþjóðlegu samhengi. Evran hefur þó verið í frjálsu falli gagnvart dollar nær allt þetta ár sem bætist við mikið fall evrunnar á síðasta ári. Þá er því spáð á mörkuðum að evran haldi áfram að falla út næsta ár.

Rúblan féll mjög hratt við upphaf stríðsátaka í Úkraínu, en var búin að ná jafnvægi gagnvart dollar upp úr miðjum apríl. Síðan hefur rússneska rúblan verið að styrkjast umtalsvert gagnvart dollar þvert á allar spár sem gerðu flestar ráð fyrir algjöru hruni rúblunnar í kjölfar viðskiptaþvingana.

Kínverjar eru sagðir vera á sömu braut og Rússar með sitt yuan (rembimi). Rætt er um að aðrar þjóðir íhugi nú með hvaða hráefnum þær geti tryggt sína gjaldmiðla. Gull er augljós kostur en það er af skornum skammti. Sumar þjóðir eru ríkar af silfri og öðrum framleiðsluvörum eins og stáli, kopar og hveiti svo eitthvað sé nefnt. Slíkt mætti mögulega nota sem tryggingu og viðmið fyrir verðmæti gjaldmiðla.

Ísland á gríðarleg raunverðmæti sem eru meira en gullsígildi

Ísland á ekki mikinn gullforða (um 1,98 tonn), en Ísland á önnur verðmæti sem eru ómetanleg í þessu samhengi, eins og áhugasamur lesandi Bændablaðsins hefur bent greinarhöfundi á. Sú áhugaverða hugmynd byggir á að baktrygging krónunnar verði í endurnýjanlegri orku. Ísland gæti því fræðilega séð tryggt krónuna t.d. í „Grænum kílówöttum eða kílówattstundum“. Sú orka getur í raun verið margfalt meira virði en gull svo lengi sem vatn, vind, jarðhitaorku og sjávarfallaorku þrýtur ekki á Íslandi. Á því er lítil hætta, nema lofthjúpur jarðar hverfi og tunglið hætti að toga í hafflötinn og orsaka flóð og fjöru. Þetta ætti að vera mun raunhæfari kostur en tenging dollars í olíu (Petrodollar) sem er þverrandi auðlind. Þá er Ísland mun betur sett í þessum efnum en margar aðrar þjóðir sem hafa orðið að treysta að stórum hluta á jarðeldsneyti til orkuframleiðslu.

Uppsett rafafl á Íslandi var árið 2020 samtals 2.863.774 kílówött í endurnýjanlegri raforku samkvæmt tölum Orkustofnunar. Græn raforkuframleiðsla var samtals 19.124.234 megawattstundir (MWst). Í þessu liggja gríðarleg verðmæti.

Trygging íslensku krónunnar í raforku hlýtur þó alltaf að vera háð því að íslenska ríkið hafi alltaf yfirráð fyrir stærstum hluta raforkuframleiðslunnar í landinu. Því myndi uppskipti og sala á Landsvirkjun slá slíkar vangaveltur út af borðinu.

Prentun á dollaraseðlum í Vietnamstríðinu kippti gulltryggingunni undan Bandaríkjadollar

Bandaríski dollarinn var baktryggður í gulli allt fram til 1971 þegar Richard Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseti, afnam gulltrygginguna. Það var líkt og margar aðrar þjóðir gerðu við sína gjaldmiðla í fyrri heimsstyrjöldinni, eða 1913, og Bretar árið 1931. Ástæð­a aðgerða Nioxons var gríðarleg peninga­prentun Bandaríkjastjórnar vegna stríðs­reksturs í Víetnam. Var þá búið að gefa svo mikið út af dollurum að gullbirgðir Bandaríkjanna hefðu ekki dugað til að leysa út alla þá seðla en hver únsa af gulli var metin á föstu gengi 35 dollara. Dollarinn var því orðinn stórlega ofmetinn og hefði hrunið ef almenningur hefði valið þá leið að skipta peningunum út fyrir gull, en eins og lög gerðu ráð fyrir að væri hægt.

Hið alþjóðlega Bretton Woods peningakerfi, sem komið var á fót 1944 af 44 þjóðum og byggði á gulltengingu dollars, hrundi líka í raun í kjölfar aðgerða Nixons. Í framhaldinu af afnámi gulltryggingar á dollar var tekið upp nýtt kerfi 1973 sem byggði á fljótandi gengi gjaldmiðla og bandaríski dollarinn var þá í raun orðinn að „Fiat money“ eins og nánast allar aðrar myntir heimsins, en ekki með neina baktryggingu í raunverðmætum.

Olíuviðskiptin hafa haldið Bandaríkjadollar á floti

Það sem í raun hefur haldið Bandaríkjadollar í þeirri ofursterku stöðu á heimsmarkaði allar götur síðan 1971 er sú snilld bandarískra ráðamanna að takast að semja við olíuríkin í Mið-Austurlöndum um að dollar væri notaður í öllum þeirra olíuviðskiptum. Slíkt setti í raun nýjan grunn undir bandaríska dollarinn í stað gulls og hélt uppi virði hans í alþjóðaviðskiptum. Var slíkur dollar kallaður Petrodollar með vísun í eldsneyti eða „petrol“. Olíuútflytjendur fengu þá dollara í skiptum fyrir sína olíu og höfðu í raun ekkert val. Dollarar fóru því að hlaðast upp í olíuríkjunum og vegna gagnkvæmra hagsmuna gerði Bandaríkjastjórn samning 1974 við Sádi-Arabíu um að þeir gætu fjárfest með sínum Petrodollurum í bandarískum ríkiskuldabréfum. Þeir fjármunir voru síðan m.a. nýttir í þróunarverkefni sem rekin voru af bandarískum stjórnvöldum og fyrirtækjum til uppbyggingar í Sádi-Arabíu 1979. Þarna var komin hringrás peninga sem skapaði mikinn peningagróða hjá bandarískum fyrirtækjum.

Bæði Rússar og Kínverjar hafa reynt að ná samningum við olíuríkin um að nota sínar myntir, rúblu og yuan (renminbi) í stað dollars sem getur augljóslega veikt stöðu dollars á alþjóðamarkaði. Rússar hafa í kjölfar stríðsreksturs í Úkraínu reynt að neyða Evrópusambandsþjóðirnar til að stunda sín kaup á olíu og gasi frá Rússlandi í rúblum. Var það augljóslega hugsað til að styrkja stöðu rúblunnar líkt og Bandaríkjamenn gerðu með samningum við Sádi-Araba og fleiri þjóðir í Mið-Austurlöndum. Rússum virðist ekki vera að takast þetta nægilega vel og það ýtir undir að þeir reyni að tryggja sinn gjaldmiðil með öðrum hætti.

Gengi hins kínverska yuan tók að rísa í mars á þessu ári þegar fregnir bárust af því að Kínverjar væru að semja við Sádi-Arabíu um að hluti af olíuviðskiptum þeirra færi fram í yuan í stað dollars. Óljóst er þó hvort slíkir samningar nái fótfestu.

Kínverjar og Rússar eru sagðir undirbúa að tryggja sína gjaldmiðla í raunverðmætum í stað þess að hafa þá fljótandi. Þannig yrði þeirra gjaldmiðlar ekki eins háðir gengi annarra gjaldmiðla eins og dollars og evru í aljóðlegum viðskiptum og standast mögulegt fall þeirra.

Kínverjar vilja tyggja sinn gjaldmiðil

Í greininni á GoldMoney segir að Kína hafi fleytt sér á verðbólgu­öldufaldinum á Vesturlöndum síðastliðin fjörutíu ár og grætt vel. Nú þegar það horfir fram á niðurlægingu Bandaríkjadollars vegna minnkandi áhrifa Bandaríkjanna, m.a í olíuviðskiptum, þá velti Kínverjar því fyrir sér hvernig eigi að bregðast við. Þeir eiga þegar gríðarlegar eignir í dollurum og m.a. bandarískum ríkisskuldabréfum og ekki einfalt fyrir Kínverja að losna undan áhrifum dollars. Kínverjar gætu aftur á móti hæglega veikt dollarinn með því að losa um sína dollaraeign en það þýðir þá væntanlega um leið tap fyrir þá sjálfa.

Rússar sagðir á góðri leið með að gulltryggja rúbluna

GoldMoney segir að Rússar séu ef til vill lengra komnir í áætlunum sínum um að vera án dollara og annarra vestrænna gjaldmiðla. Þeim áætlunum hafi verið flýtt vegna refsiaðgerða gegn þeim 2014 og aftur nú vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Á sama tíma eru Vesturlönd sífellt að verða viðkvæmari án þess að sjá neinn valkost við ofurvald dollarans sem sé samt dæmdur til að veikjast.

Þjóðverjar voru með þýska markið sem afar sterkan gjaldmiðil áður en þeir skiptu yfir í evru. Þeir eru næststærstu eigendur heims af gulli með 3.359 tonn. Þjóðverjar gætu því hæglega tekið upp nýtt og gulltryggt mark og stillt gengið þess af eins og þeim hentaði best í dag. Það myndi þó líklega um leið marka endalok evrunnar. Sterkt þýskt mark á gullfæti gæti líka mögulega styrkt stöðu Þýskalands sem nú glímir við mikinn orkuvanda vegna gas- og olíuviðskiptanna við Rússa. Slíkt myndi þó líklega valda upplausn í ríkjasamstarfi ESB.

Rússar og Kínverjar sagðir neyddir í baráttu gegn þeim sem byggja viðskiptin á dollar

Sérfræðingar GoldMoney telja að með því að beita Rússa refsi­aðgerðum hafi Vesturlönd í raun stillt landfræðilega andstæðingum sínum upp og neytt þá út í sameiginlega fylkingu gegn ríkjum sem byggja allt sitt á mætti Bandaríkjadals. Bent er á í greininni að Rússland sé stærsti útflytjandi heims á orku, málmum og mörgum öðrum hráefnum. Kína er helsti birgir hálfunninna og fullunninna neysluvara fyrir heimsmarkaðinn. Afleiðingar refsi­aðgerða Vesturlanda taka þetta mikilvæga atriði ekki inn í dæmið að mati greinarhöfunda.

Greinarhöfundar GoldMoney skoðuðu núverandi stöðu fjármála­kerfis heimsins og reyndu að meta hvert það stefnir. Þeirra mat er að það dragi stöðugt úr peningalegum áhrifamætti Vesturlanda, Kína og Rússlands. Því sé brýnt fyrir tvö síðarnefndu ríkin að fjarlægja sig frá yfirvofandi gjaldeyris-, banka- og fjármálakreppu Vesturlanda. –
„Við munum fara að sjá hvernig spilast úr fjármálastríðinu,“ segja greinarhöfundar GoldMoney.

Kínverjar hafa litið á aðferðafræði Bandaríkjanna sem leið til að tryggja yfirráð sín. Það hefur leitt til djúpstæðs vantrausts á sambandi Kínverja við Bandaríkin. Það er að mati greinarhöfunda afleiðing af utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Afli dollars beitt gegn kommúnisma víða um heim

Sambland af sýnilegri hernaðargetu Bandaríkjanna og minna sýnilegu dollaraveldi sigraði kommúnisma Sovétmanna og Mao Zedong á sínum tíma. Aðstoð til að kaupa upp kommúnisma í Afríku og Rómönsku Ameríku var möguleg með því að prenta dollara til útflutnings. Í tilviki Rómönsku Ameríku með því að endurnýta olíudollara (petrodollars) með aðstoð bandaríska bankakerfisins og breyta þeim í sambankalán. Seint á áttunda áratugnum fengu bankar í London telexskeyti í kílómetravís frá Citibank í Bandaríkjunum sem buðu upp á þátttöku í sambankalánum. Venjulega fyrir 100 milljónir doll­ara, en tilgangurinn samkvæmt telexinu var undantekningarlaust „að styrkja aðgerðir ríkisins“, að sögn greinarhöfundar GoldMoney.

Þjóðir hnepptar í skuldafjötra

Lán til Suður- og Mið-Ameríkuríkja frá bandarískum viðskiptabönkum og öðrum lánveitendum jukust verulega á áttunda áratugnum. Í upphafi áratugarins voru heildarskuldir Suður-Ameríku frá ýmsum lánveitendum 29 milljarðar dollara, en í árslok 1978 hafði sú tala rokið upp í 159 milljarða dollara. Snemma árs 1982 voru skuldirnar komnar í 327 milljarða dollara.

„Við vissum öll að eitthvað af því var að hverfa inn á svissneska bankareikninga herforingja og stjórnmálamanna í löndum eins og Argentínu. Verið var að kaupa tryggð þeirra við kapítalíska heiminn og það endaði fyrirsjáanlega með skuldakreppunni í Suður-Ameríku,“ segja greinarhöfundar.

Þar sem neysluverðsverðbólga geisaði, þurfti seðlabanki Banda­ríkjanna og aðrir helstu seðlabankar að hækka vexti seint á áttunda áratugnum og útlánasveifla banka snerist gegn lántakendum í Mið-Ameríkuríkjunum. Bankar reyndu að draga úr lánaskuldbindingum sínum og oft með lánagjörningum á breytilegum vöxtum, en voru oft að greiða fyrir það með hærri afsláttum.

Í ágúst 1982 var Mexíkó fyrst til að tilkynna bandaríska seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu og Alþjóða­gjaldeyrissjóðnum (AGS) að það gæti ekki lengur staðið við skuldir sínar. Alls breyttu sextán Mið-Ameríkuríki skuldum sínum í kjölfarið auk ellefu ríkja í öðrum heimshlutum. Bandaríkin tóku þá forystu um að veita lán til þrautavara í samstarfi seðlabanka og AGS. Bandaríkin veittu eigin fyrirtækjum forgang í bataferli og endurskipulagningu fjárfestinga í Mið-Ameríku. Hluti af þessari endurskipulagningu fólst í að gjaldfella lán og hefja yfirtöku og þar með voru menn komnir í lykilstöðu í framleiðslu margra ríkja.

Þetta var hin árangursríka aðferða­fræði sem Kínverjar áttuðu sig á tuttugu árum seinna. Hún byggir einfaldlega á því að drekkja þjóðum í „hagstæðum“ lánum sem þær geta svo á endanum ekki staðið við að borga. Þar með eru þær orðnar þrælar lánveitenda.

Sömu lúalegu aðferðafræðinni átti að beita gegn Íslendingum

Athyglisvert er að skoða þetta í öðru samhengi. Nákvæmlega sömu aðferðafræði átti að beita gegn Íslendingum í kjölfar bankahrunsins 2008 að undirlagi AGS. Íslendingar áttu að fá „hagstæð“ lán til að borga Icesave klúðrið, vitandi vits um að það setti gríðarlegan skuldaklafa á herðar Íslendingum. Í framhaldinu hefði verið einfalt fyrir lánveitendur að sölsa undir sig fiskimiðin við landið og orkulindir á Íslandi eða hvað sem mönnum hefði dottið í hug. Allt gert í nafni væntumþykju og hjálpsemi við íslenska þjóð.

Kínverjar lærðu af reynslu Bandaríkjamanna

Sumir hafa viljað meina að boð Kínverja til þjóða víða um heim um þátttöku í stórtæku samgöngu- og viðskiptaverkefni kínverskra stjórnvalda, undir því sem kallað er „Belti og braut“, sé afrakstur af lærdómi þeirra á aðferðafræði Bandaríkjanna. Þar séu þjóðir þó að skuldbinda sig með öllu mýkri og lúmskari hætti en í aðferðafræði Bandaríkjamanna. Íslendingar höfnuðu slíku boði 2019. OECD greindi frá því á sínum tíma að yfir 10 ára tímabil frá 2017 hafi Kínverjar ætlað að fjárfesta sem nemur þúsund milljörðum dollara í þessari áætlun í samgönguinnviðum utan landamæra Kína. Það er að jafnvirði um 137 þúsund milljarða króna samkvæmt gengi í byrjun síðustu viku.

Stjórnvöld verði að fara í heildarstefnumörkun
Fréttaskýring 26. maí 2023

Stjórnvöld verði að fara í heildarstefnumörkun

Hugmyndir um vindmyllur á Íslandi og að nýta vindorku í auknum mæli eru mjög umd...

Vandrataður vegur tollverndar
Fréttaskýring 15. maí 2023

Vandrataður vegur tollverndar

Tollvernd er mikilvægt stjórntæki, liður í opinberri stefnu stjórnvalda gagnvart...

„Samúð með bændum áþreifanleg í salnum“
Fréttaskýring 28. apríl 2023

„Samúð með bændum áþreifanleg í salnum“

Opinn upplýsingafundur var haldinn á Hótel Laugarbakka þriðjudaginn 18. apríl ve...

Ákall er um breytingar á riðuvörnum
Fréttaskýring 28. apríl 2023

Ákall er um breytingar á riðuvörnum

Riðuveiki í sauðfé hefur í fyrsta sinn greinst í Miðfjarðarhólfi, sauðfjárveikiv...

Matvæli undir fölsku flaggi
Fréttaskýring 10. mars 2023

Matvæli undir fölsku flaggi

Uppruni matvæla skiptir neytendur miklu máli. Ákveðnar reglur gilda um merkingar...

Endurmat á losun gróðurhúsaloft­tegunda frá ræktarlöndum bænda
Fréttaskýring 2. mars 2023

Endurmat á losun gróðurhúsaloft­tegunda frá ræktarlöndum bænda

Matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa falið Landgræ...

Kostur skemmtiferðaskipa
Fréttaskýring 20. febrúar 2023

Kostur skemmtiferðaskipa

Von er á tæplega 300 farþegaskipum til Íslands á þessu ári. Ætla má að farþegar ...

Lífrænn úrgangur er vannýtt auðlind á Íslandi
Fréttaskýring 17. febrúar 2023

Lífrænn úrgangur er vannýtt auðlind á Íslandi

Í dag eru tveir stórir metanframleiðendur á Íslandi – annars vegar Sorpa í Reykj...