Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Aflinn rétt rúm milljón tonn
Fréttaskýring 22. desember 2020

Aflinn rétt rúm milljón tonn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Síðasta fiskveiðiár verður seint talið mikið aflaár í íslenskum sjávarútvegi. Veiðin losaði rétt um milljón tonn. Uppsjávarafli hefur dregist mikið saman vegna lítillar loðnuveiði. Aflahæsta skipið í flotanum er Börkur NK.

Nýlega birti Fiskistofa yfirlit um veiðar á fiskveiðiárinu 2019/2020. Heildaraflinn var rúmlega 1.011 þúsund tonn og minnkaði frá fyrra ári um 7,3%. Síðustu fimm fiskveiðiár hefur aflinn verið frá rúmlega milljón tonnum á ári upp í tæpar 1,3 milljónir tonna.

Mestur ársafli rúmar tvær milljónir tonna

Fiskveiðiárið byrjar 1. september og lýkur 31. ágúst árið eftir. Fiskistofa miðar sína samantekt um afla við fiskveiðiár en upplýsingar á vef Hagstofunnar, sem einnig er vitnað til hér, taka einkum mið af almanaksárinu. Það skiptir þó ekki öllu máli hvort miðað er við fiskveiðiár eða almanaksár þegar litið er á aflatölur í sögulegu samhengi.

Frá almanaksárinu 1975 hefur heildarafli íslenskra skipa verið á bilinu 1,5 til tvær milljónir tonna flest árin samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar. Á árabilinu 1996 til 2003 fór aflinn sex sinnum yfir tvær milljónir tonna á ári. Mestur varð aflinn 2.225 þúsund tonn árið 1997. Af þessu má sjá að milljón tonna afli er ekki mikill í samanburði við það sem áður var.

Þess má geta að almanaksárið 2018 var Ísland í 19. sæti yfir fiskveiðiþjóðir heims en afli okkar þá var tæpar 1,3 milljónir tonna.

Í yfirliti Fiskistofu um fiskveiði­árið 2019/2020 er aflanum skipt í þrjá flokka: botnfisk, uppsjávarfisk og skel og krabba. Verður fjallað um hvern flokk hér á eftir.

Minni botnfiskur en aukning í þorski

Botnfiskaflinn á síðasta fiskveiðiári nam 483 þúsund tonnum og dróst saman um 30 þúsund tonn milli ára, sem sjá má í meðfylgjandi töflu.

Þorskur er sem fyrr lang­mikil­vægasta botnfisk­tegundin. Alls veiddust 278.503 tonn af þorski, að Barentshafsþorski meðtöldum, sem eru um 57% af heildarbotnfiskafla.

Þorskaflinn jókst um 3 þúsund tonn milli fiskveiðiára en ýsuaflinn minnkaði um 11 þúsund tonn. Mikill samdráttur varð einnig í veiðum á ufsa, gullkarfa og steinbít.

Flatfiskar eru taldir með botn­fiskum í þessari samantekt. Svipaður afli er milli ára í flatfisk­tegundum eins og grálúðu og skarkola en annar flatfiskafli hefur dregist saman.

Minnsti afli uppsjávarfisks í áratugi

Síðustu ár og áratugi hafa orðið miklar sveiflur í afla uppsjávarfiska sem sjá má í meðfylgjandi skýringar­­mynd sem byggð er á gögnum frá Fiskistofu. Um er að ræða fimm fisktegundir: norsk-íslenska síld, íslenska síld, loðnu, kolmunna og makríl. Aflinn hefur sveiflast í flestum þessum tegundum, þó mest í loðnu. Ólíkt botnfiskum miðast kvóti flestra uppsjávartegunda við almanakasárið.

Uppsjávaraflinn síðasta fisk­veiði­ár var tæp 520 þúsund tonn og dróst saman um 48 þúsund tonn milli ára. Aflinn jókst aðeins í einni tegund, norsk-íslensku síldinni.

Frá fiskveiðiárinu 1992/1993 hefur uppsjávaraflinn aldrei verið jafnlítill og á síðasta ári. Fram til 2004/2005 var aflinn yfir milljón tonn á ári að einu fiskveiðiári undanskyldu. Mestur varð hann árið 2001/2002 samtals rúmar 1,6 milljónir tonna. Síðustu árin hefur sigið á ógæfuhliðina en tilkoma makríls hefur vegið að hluta til upp á móti samdrætti í öðrum tegundum.

Mikið í húfi

Heildarafli íslenskra skipa ræðst mikið af loðnuveiðinni eins og áður er vikið að. Vegna hlýnunar sjávar hefur dreifing loðnu breyst, bæði ungloðnu og kynþroska loðnu á fæðuslóð. Hún hefur ekki fundist í sama mæli og áður, hvorki í mælingum á ungloðnu, fullorðinni loðnu á fæðuslóð né loðnu í hefðbundinni hrygningargöngu.

Lengst af eða fram til 2005 var loðnuaflinn flest árin frá 500 þúsund tonnum og upp í eina milljón tonna á ári. Þrisvar sinnum hefur aflinn verið meiri en milljón tonn, fór mest í rúmar 1,3 milljónir tonna almanaksárið 1996.

Frá árinu 2005 hefur aflinn hins vegar aðeins einu sinni farið yfir 500 þúsund tonn en það var árið 2012. Flest árin frá 2006 hefur aflinn verið undir 200 þúsund tonnum. Síðustu tvö árin hefur verið loðnubrestur.

Allt kapp hefur nú verið lagt á að mæla loðnustofninn í þeirri von að nógu mikið finnist til að unnt verði að gefa út kvóta svo uppsjávarskipin geti haldið til veiða. Mikið er í húfi því þokkaleg loðnuvertíð getur skilað allt að 30 milljörðum króna í útflutningstekjur í þjóðarbúið.

Humar og skelfiskur, fátt um fína drætti

Veiðar á rækju og humri voru lengi vel snar þáttur í afla og aflaverðmæti íslenskra skipa. Nú er fátt um fína drætti í þessum flokki.

Humarstofninn hefur hrunið. Veiðar á humri eru nú aðeins leyfðar til að ná í sýnishorn af tegundinni til að fylgjast með stærðarsamsetningu og dreifingu.

Rækjustofnar, bæði innfjarðar og í úthafinu, hafa skroppið verulega saman. Á síðasta fisk­veiðiári var rækjuafli aðeins um 2.800 tonn. Mestur varð rækjuafli íslenskra skipa, jafnt innan lögsögu sem utan, samanlagt tæp 90 þúsund tonn árið 1996.

Aflahæstu skip

Fjöldi skipa af öllum stærðum og gerðum stendur á bak við veiðarnar ár hvert. Aflinn skiptist misjafnlega niður á þau eins og við er að búast og ræðst það af kvóta þeirra, afkastagetu og áhöfn. Til fróðleiks verða hér nefnd aflahæstu skip á fiskveiðiárinu í þremur tegundum skipa og báta, þ.e. í flokki skuttogara, uppsjávarskipa og smábáta.

Aflahæsta uppsjávarskipið á fiskveiðiárinu er Börkur NK, sem Síldarvinnslan í Neskaupstað gerir út, með samtals 44.505 tonn. Börkur er jafnframt aflahæsta skipið í flotanum. Rétt á eftir Berki kemur uppsjávarskipið Venus NK, sem Brim gerir út, með 43.966 tonn. Aflahæstu uppsjávarskipin veiddu að sjálfsögðu mun meira hér á árum áður þegar veiðiheimildir voru rýmri en nú er.

Aflahæsti skuttogarinn síðastliðið fiskveiðiár er frystitogarinn Sólberg ÓF sem Rammi í Fjallabyggð gerir út. Skipið veiddi samtals 13.127 tonn, 9.835 tonn í íslenskri landhelgi og 3.292 tonn í Barentshafi. Enginn íslenskur togari hefur komið með jafnmikinn botnfiskafla að landi á einu ári og Sólbergið samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmanni fréttasíðunnar aflafrettir.is.

Aflahæsti smábáturinn á fiskveið­i­árinu er Sandfell SU sem Loðnu­vinnslan á Fáskrúðs­firði gerir út. Hann er um 30 tonn að stærð og veiðir í króka­aflamarks­kerfinu. Afli hans er 2.371 tonn og aflaverðmætið 615 milljónir króna.

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...