Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Mikið tjón varð á Vattarnesi sem er yst í sunnanverðum Fáskrúðsfirði. Þakið af fjárhúsunum fauk af og þak íbúðarhússins skemmdist.
Mikið tjón varð á Vattarnesi sem er yst í sunnanverðum Fáskrúðsfirði. Þakið af fjárhúsunum fauk af og þak íbúðarhússins skemmdist.
Mynd / Aðsend
Fréttir 20. febrúar 2025

Fjárhús fuku á Vattarnesi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á Vattarnesi í Fáskrúðsfirði varð mikið tjón á íbúðarhúsi, fjárhúsum, farartækjum, girðingum og fleiru í óveðrinu sem gekk yfir í byrjun febrúar.

Óðinn Logi Þórisson og Ásta Kristín Guðmundsdóttir Michelsen reka þar sauðfjárbú með 180 kindum. Klukkan 11 að kvöldi 5. febrúar kom sterk vindhviða sem reif hluta af þaki íbúðarhússins. Fjárhúsin á bænum fuku morguninn eftir. Austurfrétt greindi fyrst frá.

Með óveðrinu fylgdi mikið vatnsveður og lak talsvert inn í íbúðarhúsið þar sem hluta þaksins vantaði. Meðan á veðrinu stóð flúði fjölskyldan niður í kjallara og segir Óðinn lítið hafa verið hægt að gera annað en að bíða. Í mestu hviðunum um kvölduð fuku bílar til og feyktist þung dráttarvélaskófla á bifreið. „Bíllinn hjá konunni fauk upp á grjót þannig að afturhásingin náði ekki niður. Það fóru fimm rúður í bílnum og hann er eins og það hafi verið skotið á hann með haglabyssu. Allur beyglaður eftir grjótfok,“ segir Óðinn.

Vindur úr öllum áttum

„Um morguninn byrjaði þetta skrýtna veður sem hefur trúlega verið eins og á Stöðvarfirði. Vindurinn sló úr öllum áttum. Það var ekki nein ákveðin átt þegar allt fauk til andskotans. Þegar fjárhúsið fór sá ég að gaflarnir lögðust inn,“ segir Óðinn. Í kjölfarið fauk þakið í heilu lagi og lagðist án þess að brotna upp á klett sem er áttatíu metrum frá. „Í næstu svipum kom það af klettinum og lagðist samsíða fjárhúsunum. Svo, í einni andrá, sprakk það alveg í tætlur þarna á jörðinni,“ segir hann. Þessi atburðarás gerðist á nokkrum mínútum um ellefuleytið að morgni 6. febrúar og segir Óðinn að hvasst hafi verið til klukkan tvö síðdegis. „Svo datt veðrið niður í einni andrá – alveg eins og í bíómynd.“

Þrjár kindur drápust þegar fjárhúsin fuku. Aðrar virðast hafa sloppið án meiðsla og hefur flestum ánum verið komið fyrir í beitarhólfi, en þar sem snjólétt er á Vattarnesi telur Óðinn þær þola útivistina í nokkrar vikur. Nú er verið að leggja drög að viðgerð á fjárhúsunum og segist Óðinn hafa orðið að hálfgerðum byggingastjóra á einni nóttu. „Ég vona að ég fái svar frá smiðnum í dag og þá er ýtt á „go“ og farið að panta byggingarefni,“ segir hann, en vonir standa til að endursmíðin geti hafist í næstu viku og taki ekki mikið meira en tíu daga.

Þakklátur sjálfboðaliðum

Óðinn og Ásta vilja koma á framfæri þakklæti til þeirra sem komu til að laga þakið á íbúðarhúsinu, safna saman braki úr fjárhúsunum og elda mat og bakkelsi fyrir mannskapinn, en það var allt unnið í sjálfboðavinnu. „Það er það sem er ómetanlegt við að búa í svona samfélagi. Þarna voru þrjátíu, fjörtíu manns þegar mest lét,“ segir Óðinn. Stór hluti sjálfboðaliðanna eru vinir og kunningjar, en Loðnuvinnslan sendi jafnframt starfsfólk, vinnutæki og smiði til að laga þakið á íbúðarhúsinu.

Tjónið hefur verið tekið út af tryggingarfélagi bændanna. „Sem betur fer er ég eitthvað tryggður fyrir þessu, en ég held að enginn komi vel út úr svona. Þetta tók fullt af alls konar girðingum, svo fauk þak af sjóhúsinu og gömlu fjósi. Það splundraðust fánastangir og skjólveggir,“ segir Óðinn. Þá voru stálhlið sem stóðu lokuð milli stólpa sem bognuðu eins og keyrt hefði verið á þau. Óðinn og Ásta tóku við búskap á Vattarnesi í apríl á síðasta ári. Þar voru Baldur Rafnsson og Elinóra Guðjónsdóttir áður bændur.

Skylt efni: óveður | Vattarnes

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.