Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Frá Noregi.
Frá Noregi.
Fréttir 22. febrúar 2018

Ellilífeyrisþegar geta unnið eins mikið og þeim sýnist án skerðingar á lífeyri

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Til viðbótar við hinar hefðbundnu lífeyrissjóðsgreiðslur í gegnum almannatryggingakerfið í Noregi er löggjöf í Noregi sem skyldar alla atvinnurekendur að bjóða starfsfólki sínu þjónustulífeyri sem svipar til viðbótarlífeyrissparnaðar á Íslandi. Lífeyrissjóðakerfið í Noregi er að mörgu leyti líkt og á Íslandi en þar í landi er leyfilegt að hefja töku lífeyris frá 62 ára aldri og þá gjarnan samhliða öðrum launagreiðslum. Lífeyrir frá ríkinu skerðist samt ekki þótt unnið sé eins og fólk treystir sér til.
 
„Allir eiga rétt á lífeyri út úr almannatryggingakerfinu í Noregi. Það er fjármagnað með sköttum og kemur fram á skattaskýrslu sem tryggingargjald. Þetta er nokkuð breytilegt en er til dæmis fyrir launþega 8,2% af brúttótekjum en fyrir atvinnurekendur eru þetta 11,2% af brúttótekjum. Það eru margar ólíkar reglur í gildi í almannatryggingakerfinu og það fer eftir því hvenær viðkomandi er fæddur í hvaða regluflokk hann eða hún fellur,“ segir Tom Staavi, upplýsingafulltrúi hjá Finans Norge, sem eru regnhlífarsamtök yfir 200 fjármálafyrirtækja með um 50 þúsund starfsmenn í Noregi. 
 
Nútímavæddu tryggingakerfið
 
Laun og fjöldi starfsára ákvarðar endanlega upphæð lífeyris í Noregi en nýlega tóku í gildi aðrar reglur fyrir þá sem fæddir eru eftir árið 1963. 
 
„Eftir að tryggingakerfið var nútímavætt munu allir sem fæddir eru eftir 1963 fá eftirfarandi útborgun: 18,1% af brúttótekjum, allt að 7,1 sinnum grunnupphæðina. Samtalan af þessu verður þinn lífeyrir sem á að deila niður á allt þitt lífeyristímabil. 
 
Grunnupphæðin er 93.634 norskar krónur og tekjur sem verða meiri en 7,1 sinnum 93.634 krónur norskar veita ekki neina uppsöfnun,“ útskýrir Tom og segir jafnframt: 
 
„Meðaltekjur í Noregi eftir 40 ára starf á vinnumarkaði munu veita lífeyrisréttindi sem samsvarar um 45% af laununum út lífið. Þeir sem eru fæddir fyrir árið 1963 fara að hluta til í eldra og að hluta til í nýtt kerfi eða þeir fá allt út úr gamla kerfinu.“
 
Útreikningar byggjast á lífslíkum
 
„Hægt er að velja um að byrja að taka út lífeyri þegar þú ert 62 ára í Noregi og þá gjarnan  samhliða öðrum launagreiðslum. En þá verður árlegur lífeyrir mun minni. Hér er svokallað lífeyriskerfi sem byggist á aðlögun á lífslíkum sem þýðir að við giskum á hversu gamall þú ert þegar þú byrjar að taka út lífeyrinn þinn. Eftir það er lífeyrissparnaði þínum dreift yfir þau ár sem þú átt eftir ólifað. Ef þú byrjar að taka út lífeyri þegar þú ert 62 ára þá þarf að deila sparnaði þínum yfir fleiri ár og þá færðu minna út á hverju ári.
Ef þú bíður þangað til þú ert 70 ára með að taka út sparnaðinn er hann stærri og honum er deilt á færri ár og þar af leiðandi verður útborgun á hverju ári meiri. 
 
Aðlögun á lífslíkum í tryggingakerfinu er ein af þessum virkilega góðu umbótum sem norskir stjórnmálamenn hafa náð í gegn að mínu mati,“ segir Tom Staavi.
 
Geta unnið eins mikið og þeir vilja án skerðingar á lífeyri
 
„Frá 62 ára aldri hefur maður rétt á minni vinnutíma en þetta verður atvinnurekandi að samþykkja. Hugsunin er að í staðinn fyrir að hætta að vinna þá geti fólk unnið hlutastarf og bætt sér upp lægri laun með útborgun að fullu eða að hluta frá lífeyri. 
 
Þú getur tekið út lífeyrinn þinn og þar að auki unnið eins mikið og þú vilt án skerðingar ef þú starfar hjá fyrirtæki í einkageiranum eða ef þú ert sjálfstætt starfandi. Um þessar mundir er kerfið hjá hinu opinbera til endurskoðunar með samningaviðræðum milli ríkisins og samtaka atvinnulífsins/starfsmanna. Þetta er síðasti þáttur í stórri endurskoðun á lífeyrissjóðskerfinu hér í Noregi og kemur í ljós í mars hvað þessar viðræður leiða af sér. Búist er við að kerfið fyrir starfsmenn í opinbera geiranum verði líkara því sem er í einkageiranum.“
 
 Spara með skattahvatningu
 
Til viðbótar við almannatrygginga­kerfið er löggjöf í Noregi sem skyldar alla atvinnurekendur að bjóða starfsfólki sínu þjónustulífeyri. 
 
„Fyrir flestalla í einkageiranum er þetta nú orðið svokallaður innborgunarlífeyrir. Þá leggur atvinnurekandi prósentuhluta af laununum inn á bankareikning starfsmanns til fyrirtækis sem starfar innan þessa aukalífeyriskerfis og er upphæðin inni á reikningnum borguð út til viðbótar við útborgun úr almannatryggingakerfinu í að minnsta kosti 10 ár eftir að þú hefur náð 67 ára aldri. Þetta er nokkuð sem atvinnurekendur verða sjálfir að finna lausn á, það eru nokkrir möguleikar sem þeir geta nýtt sér en það er frjálst hvernig þeir gera það,“ útskýrir Tom og bætir við: 
 
„Hjá ríki og sveitarfélögum og nokkrum stórum fyrirtækjum í einkageiranum er til nokkuð sem heitir flutningskerfi. Það virkar þannig að starfsmenn með fulla söfnun, sem vanalega er 40 ár, hafa tryggingu fyrir því að lífeyririnn muni verða 66% af lokalaunum frá 67 ára aldri og út lífið. Með öðrum orðum, þá sér maður hér tryggingakerfið og lífeyri atvinnurekanda í samhengi. Þar að auki hefur nýlega verið kynntur möguleiki á að hver og einn geti sjálfur sparað í sjóð með sérstakri skattahvatningu. 
 
Í innborgunarkerfinu í þjónustu­lífeyrinum er engin samhæfing. Í flutningskerfinu er samhæfing í því formi að útborgunin verður ekki meiri en það sem ákvarðað hefur verið í stigum sem er yfirleitt 66% af lokalaunum. Fyrir einstaklings- og frjálsu sparnaðarkerfin er engin samhæfing með hvorki almannatryggingakerfinu eða þjónustulífeyrinum.“
Ný og endurbætt vorbók
Fréttir 18. mars 2024

Ný og endurbætt vorbók

Á vordögum tökum við í notkun endurbætta útgáfu að hinni góðu gulu vorbók sem er...

Fræðasamfélag í uppbyggingu
Fréttir 18. mars 2024

Fræðasamfélag í uppbyggingu

Í Mývatnssveit er verið að byggja upp svokallaða vettvangsakademíu fyrir kennslu...

Einkaframtak í gerð gönguskíðaspora
Fréttir 18. mars 2024

Einkaframtak í gerð gönguskíðaspora

Magne Kvam hefur tekið upp á sitt einsdæmi að leggja spor fyrir skíðagöngu á höf...

Íbúum utan borgarinnar fjölgar
Fréttir 15. mars 2024

Íbúum utan borgarinnar fjölgar

Yfirlit yfir þróun byggðar hérlendis er eitt verkefna Byggðastofnunar, en nýveri...

Kolefniseiningar tilvonandi tekjustoð í búrekstrinum
Fréttir 15. mars 2024

Kolefniseiningar tilvonandi tekjustoð í búrekstrinum

Oddný Steina Valsdóttir og Ágúst Jensson, bændur á Butru í Fljótshlíð, eru fyrst...

Fimm tegundir teknar af skrá
Fréttir 15. mars 2024

Fimm tegundir teknar af skrá

Samkvæmt niðurstöðum áburðareftirlits Matvælastofnunar fyrir innfluttan tilbúinn...

Loftslag
Fréttir 15. mars 2024

Loftslag

Gagnvirkur loftslagsatlas sýnir fortíð og spáir fyrir um framtíð.

Bændavakt á Búnaðarþingi
Fréttir 14. mars 2024

Bændavakt á Búnaðarþingi

Búnaðarþing er nú haldið á Hótel Reykjavík Natura. Á Bændavakt á vef Bændasamtak...