Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hætti á dögunum við áætlanir um að draga úr notkun skordýraeiturs. Ursula von der Leyen segir það verða verkefni næstu framkvæmdastjórnar ESB að koma regluverki um samdrátt í notkun varnarefna í gegn.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hætti á dögunum við áætlanir um að draga úr notkun skordýraeiturs. Ursula von der Leyen segir það verða verkefni næstu framkvæmdastjórnar ESB að koma regluverki um samdrátt í notkun varnarefna í gegn.
Mynd / CBD
Fréttir 12. mars 2024

Ekki dregið úr varnarefnanotkun

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Evrópusambandið hefur að sinni fallið frá áformum um að minnka notkun varnarefna innan landa sambandsins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað 21. febrúar að tilkynna Evrópuþinginu og ráðherraráðinu um þau áform framkvæmdastjórnarinnar að draga frumvarp að Evrópureglugerð um sjálfbæra notkun varnarefna fyrir plöntur til baka fyrir 31. mars nk. Þetta staðfestir Viktor Stefánsson, stjórnmála- og fjölmiðlafulltrúi hjá Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi. Frumvarpið gerði m.a. ráð fyrir að minnka notkun varnarefna um helming meðal Evrópusambandsþjóðanna fyrir lok áratugarins og átti að vera hluti af margþættum grænum umskiptum ESB. Hún gerði einnig ráð fyrir algjöru banni varnarefna á viðkvæmum svæðum.

Segir Viktor að framkvæmdastjórnin sé enn staðráðin í að standa vörð um heilbrigði íbúa og hlúa að náttúrunni og á sama tíma styðja við bændasamfélög aðildarríkja sambandsins, landbúnaðarframleiðslu og fæðuöryggi.

„Eftir sérstaka úttekt hefur framkvæmdastjórnin ákveðið að draga frumvarpið til baka í ljósi ýmissa erfiðleika sem áttu sér stað í ákvarðanatökuferlinu. Til að mynda var frumvarpið fellt af Evrópuþinginu í nóvember 2023 og ljóst var að ráðherraráðið væri ekki nálægt því að að afgreiða frumvarpið,“ segir hann.

Framkvæmdastjórnin hafi því komist að þeirri niðurstöðu að þörf væri á frekari umræðu og breyttri nálgun til að ná settum markmiðum. Þrátt fyrir þetta verði lögð áhersla á að minnka notkun hættulegs kemísks skordýraeiturs og minnka skaða og áhættu sem fylgi notkun skordýraeiturs: það séu enn lykilmarkmið framkvæmdastjórnarinnar hvað varðar matvælaöryggi. Tilskipun 2009/128/EC um sjálfbæra notkun skordýraeiturs sé enn í gildi og stuðli að minnkun áhættu tengdri notkun skordýraeiturs, sem og áhrifa þeirra á heilbrigði íbúa og náttúru. Tilskipunin skapi einnig hvata til að beita öðrum aðferðum í landbúnaði en að nota skaðlegt kemískt skordýraeitur.

Grafi ekki undan Farm to Fork

Evrópusamtök bænda, Copa- Cogeca, fagna því að skordýraeitursfrumvarpið náði ekki í gegn: „Þessi „ofan frá og niður“-tillaga, sem sprettur af Farm to Fork- stefnu ESB, var illa unnin og framsett, vanfjármögnuð og gaf bændum engan sveigjanleika,“ sögðu forsvarsmenn samtakanna í The Guardian og kölluðu eftir raunhæfum lausnum á erfiðri stöðu bænda. Niðurstaðan um varnarefnafrumvarpið er jafnvel talin grafa enn frekar undan Farm to Fork: fjölþættri stefnu ESB, sem kynnt var í maí 2020, með það að markmiði að gera matvælakerfi Evrópu heilbrigðara og sjálfbærara. Semdæmiumþettaerbentáaðí fyrra ákvað framkvæmdastjórnin að falla frá lagagerð um sjálfbært matvælakerfi, sem átti að vera burðarásinn í matvælastefnu sambandsins.

Þess í stað var ákveðið að hefja stefnumótandi viðræður um landbúnað í því skyni að draga úr vaxandi pólun í greininni. Aðrar lagasetningar tengdar landbúnaði, sem voru í burðarliðnum, voru aldrei lagðar fram, svo sem nýjar reglur um velferð eldisdýra og merkingar á næringargildi matvæla í ESB.
Þessu hafnar Viktor Stefánsson og segir ljóst að heilbrigðari og sjálfbærri matvælaframleiðsla sé forgangsatriði í augum margra íbúa Evrópusambandsins og sé hornsteinn í Græna sáttmálanum.

„Afturkall þessa frumvarps mun ekki hafa áhrif á þau markmið sem sambandið hefur sett sér með Farm to Fork-áætluninni í minnkun á notkun skaðlegra eiturefna,“ segir hann. Þar megi einna helst nefna markmið um 50% minnkun á notkun og minnkun á áhættu tengdri kemísku skordýraeitri. Einnig markmið um 50% minnkun á notkun sérlega hættulegra eiturefna.

„Til þess að vernda heilbrigði og sjálfbærni í evrópskri matvæla- framleiðslu hefur framkvæmdastjórnin lagt fram fjölda frumvarpa að Evrópureglugerðum og tilskipunum sem nú eru í höndum Evrópuþingsins og ráðherraráðsins, tengdum Farm to Fork,“ segir Viktor. Framkvæmdastjórnin muni halda áfram að birta árlegar upplýsingar um framvindu mála í átt að markmiðum áætlunarinnar.

Ætti að bera meira traust til bænda

Bændur víða um Evrópu mótmæla enn og segjast standa frammi fyrir stórfelldum áskorunum, þar á meðal lækkandi vöruverði, hækkandi orku-, áburðar- og flutningskostnaði, ódýrum erlendum innflutningi, öflugum smásöluaðilum og óhóflegum evrópskum og innlendum reglugerðum. Bændur hafa m.a. beitt slagorðum eins og „Enginn bóndi, enginn matur“ og „Engin framtíð án ræktenda“.

„Engin framtíð án ræktenda.“ Ítalskir bændur fjölmenntu til Rómar á dögunum og mótmæltu, líkt og bændur hafa gert víðar í Evrópu. Mynd / skjáskot

Mátti sjá þau víða á mótmælaspjöldum, t.d. í Róm á dögunum. Auk ESB hafa einstök aðildarríki gripið til aðgerða til að koma til móts við bændur. Til dæmis hafa þýsk stjórnvöld dregið heldur í land með áætlanir um að lækka niðurgreiðslu á dísilolíu. Þá eru Frakkar að hætta við fyrirhugaða hækkun á dísilolíuskatti og lofa þarlend stjórnvöld meira en 400 milljónum evra í markvissa aðstoð til bænda. Fram kemur á Euronews að forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, segi marga bændur Evrópu upplifa sig sem hornrekur og að hlusta verði á sjónarmið þeirra. Þeir standi frammi fyrir framfærslukreppu og miklum erfiðleikum, m.a. vegna loftslagsbreytinga og innrásar Rússa í Úkraínu. Evrópskur landbúnaður verði þó fyrr en síðar að fara yfir í sjálfbærara framleiðslulíkan. Landbúnaður í Evrópu valdi 10% af losun gróðurhúsalofttegunda sambandsins og sé verulega niðurgreiddur gegnum fjárlög ESB.

„Bændur munu aðeins fjárfesta í framtíðinni geti þeir lifað af landinu. Og bændur geta aðeins lifað af landinu ef við náum loftslags- og umhverfismarkmiðum okkar saman. Bændur okkar gera sér vel grein fyrir þessu. Við ættum að bera meira traust til þeirra,“ sagði von der Leyen.

Von der Leyen hefur jafnframt gefið út að þetta verði þó ekki það síðasta sem heyrist af áætlunum um minnkun varnarefnanotkunar innan ESB. Það verði væntanlega verkefni næstu framkvæmdastjórnar en kosið verður til Evrópuþings í júní.

Skylt efni: varnarefni

Engir hveitibrauðsdagar
Fréttir 30. apríl 2024

Engir hveitibrauðsdagar

Nýi matvælaráðherrann, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segir of stutt vera eftir af...

Vanræksla kærð til lögreglunnar
Fréttir 30. apríl 2024

Vanræksla kærð til lögreglunnar

Matvælastofnun tilkynnti þann 9. apríl sl. að stofnunin hefði kært til lögreglu ...

Kjötmjöl verði skilgreint sem áburður en ekki aukaafurð dýra
Fréttir 30. apríl 2024

Kjötmjöl verði skilgreint sem áburður en ekki aukaafurð dýra

Orkugerðin ehf. í Flóanum stefnir að því innan fárra mánaða að breyta framleiðsl...

Sveinn Rúnar nýr stjórnarformaður
Fréttir 29. apríl 2024

Sveinn Rúnar nýr stjórnarformaður

Breytingar hafa orðið á stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...