Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Votlendi sem er staðsett í yfir 200 metra hæð yfir sjávarmáli er nú ekki lengur skilgreint sem stýrt svæði og er því ekki lengur tekið inn í útreikninga á losun gróðurhúsalofttegunda.
Votlendi sem er staðsett í yfir 200 metra hæð yfir sjávarmáli er nú ekki lengur skilgreint sem stýrt svæði og er því ekki lengur tekið inn í útreikninga á losun gróðurhúsalofttegunda.
Mynd / ghp
Fréttir 13. janúar 2025

Breytingin nær tvöföld losun landbúnaðarins

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Skráð losun gróðurhúsa­lofttegunda frá votlendi lækkar um 1,3 milljónir tonna CO2­ ígildi milli áranna 2021 og 2023. Ástæðan liggur ekki í stórtækum aðgerðum á sviði endurheimtar, heldur vegna breytinga á skráningu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar nam heildarlosun Íslands árið 2023 alls 12,3 milljónum tonna CO2­íg. Þar af er hlutur landnotkunar (LULUCF) 7.743 þúsund tonn en innan þess má finna losun frá mólendi, sem er skráð skv. bráðabirgðatölunum 818 þúsund tonn CO2­íg. Þessi tala var 2.121 þúsund tonn í skýrslu Umhverfisstofnunar árið 2021.

Ástæða þessarar lækkunar liggur í nýjum skilgreiningaratriðum á flokkun votlendis.

Skilgreiningaratriðið snýr að skilgreiningu á „stýrðu landi“ samkvæmt vef Umhverfisstofnunar. „Út frá gögnum um beit sauðfjár hefur verið metið að beit hafi lítil sem engin áhrif á losun frá votlendi í yfir 200 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem sauðfé er nánast aldrei á slíkum svæðum.“

Slík svæði teljast því ekki lengur sem stýrð svæði og eru því tekin úr útreikningunum því losun vegna landnotkunar sem fellur undir skuldbindingar Íslands skv. ESB og UNFCCC­reglunum er einungis sú notkun sem á sér stað á stýrðu landi. Minnkun á stærð stýrðs lands leiðir því til minnkunar á losun.

Jóhann Þórsson.
Endurheimt ein öflugasta loftslagsaðgerðin

Þetta staðfestir Jóhann Þórsson, fagteymisstjóri loftslags­ og jarðvegs hjá Landi og skógi.

„Sú breyting byggir ekki á að votlendi ofar 200 m losi minna en áður var talið, heldur er hún byggð á því að þetta votlendi er lítið sótt af sauðfé, bæði vegna þess að þegar komið er svo ofarlega er um tiltölulega fátt fé að ræða og það sækir ekki sérstaklega í votlendi. Vegna þessa þá er þetta land nú ekki skilgreint sem land í nýtingu. Við það fellur það út úr skuldbindingahluta loftslagsbókhaldsins og losun reiknast því minni en áður. Þetta þýðir ekki að losunin sé minni frá þessum landflokki heldur einungis að minni hluti af honum er talinn fram.

Þetta hefur á engan hátt áhrif á þá staðreynd að endurheimt framræsts votlendis er ein öflugasta loftslagsaðgerðin sem okkur stendur til boða, enda er það land að mestu undir 200 m hæðarlínu. Þetta þýðir heldur ekki að losun frá votlendi sé minni en áður var talin. Ísland hefur heldur ekki fengið endanlega staðfest að þessi breyting á landnýtingu verði viðurkennd,“ segir Jóhann.

Hilmar Vilberg Gylfason.
Eigum mikið ólært

„Okkur er alveg óhætt að tala um sviptingar í þessum tölum. Lækkunin í þessum flokki tilheyrir losun vegna landnotkunar en breytingin er það mikil að hún er nær tvöföld heildarlosun landbúnaðarins í flokknum samfélagslosun,“ segir Hilmar Vilberg Gylfason, sjálfbærnisérfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands (BÍ).

„Þessar miklu breytingar sem nú verða á niðurstöðum yfir losun vegna landnotkunar er góð áminning þess að við eigum eftir að læra mikið um losun gróðurhúsa­ lofttegunda og hvernig við best
drögum úr þeirri losun. Samhliða því að við erum að efla rannsóknir og bæta upplýsingar er verið að tala fyrir aðgerðum, vegna þess að við megum engan tíma missa. En það þarf líka að horfa á allar aðgerðir gagnrýnum augum og setja í forgang þær sem skila sannanlega árangri í baráttunni gegn losun.“

Þetta breyti þó ekki afstöðu BÍ í tillögu að Loftslagsvegvísi bænda. Sú afstaða byggir í stuttu máli á því að það er ekki skynsamlegt að endurheimta votlendi á góðu ræktunarlandi, á svæðum þar sem er líklegt að slíkt land verði nýtt til ræktunar eða beitar á næstu árum eða áratugum.

„En það er líklega að sama skapi skynsamlegt að endurheimta votlendi á landi sem litlar eða engar líkur eru á að verði nýtt til ræktunar eða beitar í fyrirsjáanlegri framtíð, eða jafnvel á landi sem hefur verið framræst en aldrei verið nýtt. Í þessu ferli eiga ekki að felast neinar öfgar, heldur á að fara í svona aðgerðir að vel athuguðu máli. Þegar ákveðið er að endurheimta votlendi þarf að tryggja að framkvæmdin sé þannig unnin að hún valdi ekki hættu fyrir umferð manna og dýra. Jafnframt ætti að hafa í huga að endurheimt votlendis þarf ekki að vera varanleg. Ef aðstæður breytast og við stöndum frammi fyrir aukinni þörf fyrir ræktunarland væri hægt að „endurheimta“ slíkt land til baka,“ segir Hilmar.

Bændur sjá í gegnum leikþætti sérfræðinga að sunnan

Traust gögn og öflugt rannsóknastarf séu grundvallarforsendur fyrir því að geta tekið upplýstar ákvarðanir.

„En þessar sviptingar í tölunum eru líka ágætis áminning um að setja ekki öll eggin í sömu körfuna, fjölþættar aðgerðir sem miða að því að nýta betur öll aðföng og ræktunarland eru aðgerðir sem þurfa alltaf að vera í forgangi. Við þurfum á sama tíma að passa okkur að nálgast loftslagsmálin með opnum hug og afneita ekki nýjum lausnum, enda værum við sem dæmi ekki stödd á sama stað í kynbótastarfinu ef bændur nálguðust hlutina með því hugarfari.

Bændur búa að dýrmætri reynslu sem flyst milli kynslóða. Við sérfræðingarnir að sunnan verðum að geta sýnt fram á árangurinn af aðgerðunum sem við boðum og rökstutt fyrir bændum hvers vegna þeir þurfi að taka þátt í hinum ýmsu verkefnum. Þú ríður ekkert um sveitir og selur nýju fötin keisarans, bændur sjá strax í gegnum svoleiðis leikþætti,“ segir Hilmar.

Til glöggvunar

Gildi landnýtingar í losun gróðurhúsalofttegunda frá býlum vegur þungt og er oftar en ekki stærsti losunarþáttur býlis í samanburði við losun t.d. vegna iðragerjunar búfjár eða vegna áburðarnotkunar. Breyting á skilgreiningu á stýrðu landi getur því haft mikil áhrif á útreikning á losun frá býlum, sérstaklega á þeim jörðum sem liggja að hálendi.

Hálendi er skilgreint sem sá hluti lands sem er hærri en 200 metrar yfir sjávarmáli. Þrír fjórðu hlutar Íslands teljast hálendi.

Heildarlosun Íslands skiptist í þrjá flokka, í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart EES- samningnum: Samfélagslosun, sem inniheldur m.a. losun frá samgöngum, frá fiskiskipum, frá landbúnaði og frá meðhöndlun úrgangs og skólps; losun vegna landnotkunar (LULUCF), sem skógræktin er hluti af; og losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (svokallað ETS kerfi), sem inniheldur stóriðju.

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða
Fréttir 13. febrúar 2025

Sjö verkefni um aukið virði sauðfjárafurða

Kennslutól fyrir skólabörn, vöruþróun ærkjöts og sauðaosta og markaðssetning á s...

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög
Fréttir 12. febrúar 2025

Kjötafurðastöðvar aftur undir samkeppnislög

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar hefur verið kynnt fyrir vorþingið. Landbúnaðarmá...

Sýktur refur í Skagafirði
Fréttir 12. febrúar 2025

Sýktur refur í Skagafirði

Íbúi í Skagafirði varð var við veikan ref og reyndist dýrið með fuglaflensu.

Deilt um gjaldtöku vegna meðhöndlunar á dýrahræjum
Fréttir 11. febrúar 2025

Deilt um gjaldtöku vegna meðhöndlunar á dýrahræjum

Fyrir áramót bárust tvö mál inn á borð lögfræðinga Bændasamtaka Íslands þar sem ...

Tvöfaldur hagnaður kjötvinnslu í eigu KS
Fréttir 11. febrúar 2025

Tvöfaldur hagnaður kjötvinnslu í eigu KS

Kjötvinnslan Esja gæðafæði nær tvöfaldaði hagnað sinn milli áranna 2022 og 2023.

Framleiðsla og sala á hrossakjöti jókst mest
Fréttir 10. febrúar 2025

Framleiðsla og sala á hrossakjöti jókst mest

Mikil aukning var í framleiðslu og sölu á hrossakjöti og svínakjöti á síðasta ár...

Betri afkoma sauðfjárbúa
Fréttir 10. febrúar 2025

Betri afkoma sauðfjárbúa

Hagstofan greindi frá því á vef sínum fyrir skemmstu að afkoman í sauðfjárræktin...

Hver á Ísland?
Fréttir 7. febrúar 2025

Hver á Ísland?

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stendur að átaksverkefni við að áætla eignarmörk ...