Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Bómullarinnar blóði drifna slóð
Fréttir 12. mars 2015

Bómullarinnar blóði drifna slóð

Höfundur: Vilmundur Hansen

Af öllum nytjaplöntum mannkyns sem ekki er nýtt til matar er bómull þeirra mikilvægust. Stór hluti mannkyns notar bómull á hverjum degi og víða um heim klæðist fólk buxum, kjólum, bolum og skyrtum sem ofnar eru úr bómull og sefur í bómullarrúmfötum.

Engin planta í veröldinni hefur valdið jafn miklum þjáningum og dauða jafnmargra í gegnum aldirnar eins og bómull.

Bómull er meira ræktuð en allar aðra spunaplöntur eins og hör, lín, flax, netlur, hampur og fleiri til samans og framleidd í um 100 löndum. Áætluð heimsframleiðsla á bómull ræktunarárið 2013 til 2014 er 26,2 milljón tonn og er talið að hún eigi eftir að aukast um 3 til 5 milljón tonn á næsta áratug. Kína og Indland eru stærstu framleiðendurnir með 7,1 og 6,7 milljón tonn hvort land, Bandaríkin eru í þriðja sæti með 2,8 milljón, Pakistan í því fjórða með 2,1 milljón tonn og Brasilía í því fimmta með 1,7 milljóna tonna framleiðslu. Í kjölfarið fylgja ríki eins og Úsbekistan, Tyrkland, Ástralía og Túrkmenistan. Bómull er ræktuð á tæplega 30 milljón hekturum lands.

Bandaríkin eru stærsti útflytjandi bómullar í heiminum, Indland og Pakistan í öðru og þriðja sæti, Úsbekistan og Brasilía í því fjórða og fimmta. Auk þess að framleiða mest af bómull allra landa flytja Kínverjar einnig mest af honum inn. Af ríkjum sem ekki rækta bómull eru Japan og Kórea stærstu innflytjendurnir.

Margs konar nytjar

Stór hluti jarðarbúa kemst í samband við bómull á hverjum einasta degi. Fatnaður ofinn úr bómull er þekktur um allan heim og þykir mjúkur, sterkur og hlýr. Á Vesturlöndum sofum við flest í bómullarrúmfötum og þurrkum okkur með bómullarhandklæðum og klæðum börnin okkar í bómullartreyjur.

Af öðrum nytjum má nefna að pappírsseðlar eru að hluta gerðir úr bómull, úr því eru ofin net, bómull er að finna í sumum gerðum af kaffifilter, í bleium og sprengiefni, pappír, sápu, tyggjói og eyrnapinnum. Í matvælaiðnaði er olía unnin úr bómullarfræjum notuð sem íblöndunarefni við framleiðslu á ís og kartöfluflögum. Wright-bræður notuðu bómull í fyrstu flugvélina og Edison notaði það sem þráð í fyrstu ljósaperuna. Fyrstu Levi´s gallabuxurnar úr bómull komu á markað 1870. Bómull getur dregið í sig 27 sinnum eigin þyngd af vatni.
Hálmur af bómull er víða notaður sem fóður fyrir búfé.

Fjöldi tegunda

Bómull í náttúrunni er fjölær lágvaxinn runni eða lítið tré sem nær um tveggja og hálfs metra hæð en í tæknivæddum landbúnaði er plantan ræktuð sem einær. Blöðin eru breytileg að lögun eftir tegundum og vaxtarstað, blómin gul, rauð eða bleikleit og yfirleitt með fimm krónuböðum. Fræin hærð og geta ferðast langt á hárunum með vindi og úr hárunum er unnin bómull. Fræhár bómullar geta verið hvít, brún, græn eða bleik en hvít bómull hefur forustuna þegar kemur að ræktun. Þar sem bómullarræktun er mikil er víða bannað að rækta annað en hvítt afbrigði til að koma í veg fyrir að hvíti liturinn spillist.

Náttúruleg heimkynni bómullar eru í hitabeltinu víða um heim og í Mið-Ameríku, Afríku og Indlandi. Þrjátíu og níu ólíkar tegundir þekkjast villtar í náttúrunni og er fjöldi þeirra og fjölbreytni mest í Mexíkó.

Helstu tegundir í ræktun eru Gossypium hirsutum sem er upprunnin í Mið-Ameríku og stendur að baki um 90% heimsframleiðslu á bómull í dag. Gossypium barbadense kemur frá Suður-Ameríku og telur um 8% heimsframleiðslunnar, G. arboreum kemur frá Indlandi og Pakistan og eru um 2% en G. herbaceum er upprunnið í Suður-Afríku og er framleiðsla á því sáralítil og minni en 2% á heimsvísu.

Að öllu jöfnu tekur um 150 til 200 frostlausa daga fyrir bómullarplöntur að vaxa frá fræi og ná fullum þroska til uppskeru. Plantan kýs mikla sól og milli 600 og 1200 millilítra af úrkomu á vaxtarskeiðinu. Bómull kýs fremur þéttan jarðveg og er plantan nægjusöm á næringu en fúlsar þó ekki við henni og er áburðarnotkun í bómullarræktun ein sú mesta sem gerist í landbúnaði.

Eftir að ræktun korns og bómullar hófst á sléttum Mið-Asíu fór fljótlega að bera á vatnsskorti við ræktunina. Stjórnvöld í Sovétríkjunum sálugu gripu til þess ráðs að veita vatni úr Aralvatni sem er á landamærum Úsbekistans og Kasakstans með áveitum yfir akrana. Afleiðingarnar á umhverfið voru skelfilegar. Vatnsmagn vatnsins minnkaði á nokkrum áratugum um 70% en á sama tíma margfaldaðist saltstyrkur þess þannig að varla nokkur lífvera fæst  þrifist í því.

Ull á trjánum

Eitt af því sem er áhugavert í ræktunarsögu bómullar er að ræktun hennar hófst á ólíkum stöðum í nýja og gamla heiminum á svipuðum tíma rúmum 5.000 árum fyrir Krist. Nytjar á bómull gætu þó hæglega verið mun eldri þar sem plöntuleifar varðveitast illa. Elstu bómullarþræðir sem fundist hafa við fornleifarannsóknir eru frá Mexíkó og Indusdal sem liggur milli Indlands og Pakistan.

Heimildir eru um blómstrandi bómullarvefnað í Mexíkó 3000 árum f. Kr. og á Indlandi 2000 árum f. Kr. Grikkir og Arabar kynntust bómull í kringum 350 eftir Krist í kjölfar hernaðarbrölts Alexanders mikla og er haft eftir einum samtímamanna hans að á Indlandi vaxi ull á trjánum.

Bómull var ræktuð í Mið-, og Suður-Ameríku við komu Evrópumanna þangað og var hún meðal annars ofin í klæðnað og net til fiskjar við ströndina.

Bómullarlömb og vasaklútar

Vinsældir bómullar jukust gríðarlega í Mið- og Norður-Evrópu um það leyti sem landnám hófst á Íslandi.

Í bók John Manderville frá 1350, þar sem hann lýsir ferðum sínum, sönnun og lognum, segir hann frá undursamlegu tré sem vex á Indlandi sem ber smávaxin lömb á greinaendunum. Eftir því sem lömbin vaxa sveigjast greinar trjánna nær jörðinni og þannig geta lömbin bitið gras sem vex í kringum þau. Fullvaxinn brotna lömbin af greinunum og það er af þeim sem rúin er bómull.

Á þýsku kallast bómull baumwolle, baum þýðir tré og wolle ull og ekki fer á milli mála að íslenska nafnið er að sama stofni. Heitið bómull er líklega hingað komið frá Danmörku eins og svo margt annað gott.

Bómullarrækt var orðin talsverð á hlýrri landsvæðum Asíu og Ameríku í lok 16. aldar enda bómull þá tískuvara hefðarfólks, aðallega sem nærklæði. Í Evrópu þótti ríkmannlegt að bera á sér vasaklút úr bómull og myndaðist stór iðnaður í kringum framleiðslu á slíkum pjötlum.
Eftir því sem vinsældir bómullar jukust í Evrópu því meiri ágirndaraugum horfðu Bretar til Indlands og að lokum hernumdu þeir landið til að komast yfir bómullarframleiðsluna og iðnaðinn þar. Í kjölfar þess hófst gríðarleg verslun með bómull og þræla og fyrsta iðnbyltingin.

Blóð, sviti og tár

Upphaf iðnbyltingarinnar er í textíliðnaði og fyrstu alvöru verksmiðjurnar voru reistar í borginni Manchester á Bretlandseyjum og var borgin um tíma uppnefnd Cottonopolis.
Þrælaverslun frá Afríku til Bandaríkjanna, aðallega suður­ríkjanna, jókst gríðarlega með aukinni bómullarræktun en lengi vel var megnið af uppskerunni flutt til Bretlands til vinnslu. Þegar mest var, árið 1855, voru um 3,2 milljónir þræla við bómullartínslu í suðurríkjum Bandaríkjanna. Stríðið milli suður- og norðurríkja Bandaríkjanna, 1861 til 1865 og kostaði yfir 600 þúsund manns lífið, stóð að mestu um afnám þrælahalds.

Bómullarverksmiðj­urnar á Bretlandi voru lítið annað en þrælkunarbúðir þar sem börn niður í fimm ára aldur voru látin vinna allt upp í sextán tíma á sólarhring sex daga vikunnar. Til eru hræðilegar lýsingar á aðbúnaði og meðferð fólks sem starfaði við slíkar verksmiðjur og vitað að fátækir foreldrar seldu börnin sín til vinnu í verksmiðjunum. Lífshorfur barna og fullorðinna sem störfuðu í verksmiðjunum voru tvö til þrjú ár og flestir léttust vegna meina tengdum öndunarvegi. Í læknaskýrslum eru lýsingar á því að fólk hafi hóstað upp úr sér heilu bómullarboltunum rauða og svarta af blóði. Slys voru algeng en bætur engar og ef fólk gat ekki unnið lengur var því umsvifalaust kastað út á guð og gaddinn.

Skáldið William Blake kallaði verksmiðjurnar myllur Satans í einu af kvæðum sínum.
Á Indlandi olli yfirtaka Breta á aldagamalli bómullarhefð gríðarlegum þjáningum og var Indverjum sem dæmi bannað að vinna úr ull. Eitthvað sem átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar í sjálfstæðisbaráttu Indverja síðar.

Gandhi spinnur Indland til frelsis

Eftir að Bretar hernánu Indland var nýlendan nánast undir hæl Austur-Indía félagsins og réði félagið því sem það vildi ráða í landinu. Indverjum var banna að spinna og vefa úr bómull sem ræktuð var í landinu og hún í staðinn send til Bretlands og unnin þar.

Slíkt hafði gríðarlega slæm áhrif á efnahag og sjálfsmynd Indverja sem höfðu spunnið þráð og ofið klæði og listaverk úr bómull í aldaraðir.

Ferlið var þannig að Bretar keyptu bómull beint af ökrunum á lágmarksverði í krafti einkaréttar. Uppskeran var flutt með skipum yfir Indlandshaf, um Rauða- og Miðjarðarhafið gegnum Gíbraltarsund, yfir Biskajaflóa og Atlantshafið til Bretlandseyja. Hagnaður skipafélaga af þessum flutningum var gríðarlegur. Bómullin var unnin í verksmiðjum á Bretlandi sem borga starfsfólki sínu smánarlaun. Breskur stáliðnaður hagnast verulega í byggingu verksmiðjanna og allur hagnaðurinn hélst innan Bretlandseyja. Fullunnar bómullarafurðir voru sendar með skipum sömu leið til baka með ærnum tilkostnaði. Að lokum var bómullin seld Indverjum sem klæði eða efni til að sníða úr á verði sem einungis hinir efnuðu höfðu ráð á.

Árið 1920 hrinti Mahatma Gandhi af stað aðgerð sem fólst í því að fá Indverja til að sniðganga breskar afurðir sem unnar voru úr indverskri bómull. Rök hans voru að með því að spinna og vefa sjálfir úr bómull mundi skapast atvinna og tekjur fyrir milljónir fátækra Indverja. Gandhi hvatti þjóðina til að spinna sinn eigin bómullarþráð og vefa sín eigin klæði. Hann settist sjálfur við spunahjólið og hóf friðsamlega uppreisn gegn breskum yfirráðum sem leiddi til þess að Indland varð sjálfstætt ríki að nýju árið 1947.

Sjúkdómar og meindýr

Líkt og í allri einræktun eru sjúkdómar og meindýr mikið vandamál við bómullarræktun. Ekkert þessara vandamála kemst þó í hálfkvisti við þann skaða sem hlýst af völdum bómullarbjöllunnar.

Bjallan kemur frá Mexíkó en hún fór ekki að valda skaða í bómullarræktun fyrir en hún barst til suðurríkja Bandaríkjanna milli 1910 og 1920. Síðan þá hefur hún náð fótfestu á öllum stærstu bómullarsvæðum heims og veldur gríðarlegum skemmdum á uppskeru á hverju ári. Bómullarbjallan er þess valdandi að notkun á skordýraeitri við bómullarræktun er sú mesta sem gerist í landbúnaði. Þrátt fyrir að bómull sé einungis ræktuð í litlum hluta landbúnaðarlands í heiminum hefur fram til þessa milli 11 og 12% alls skordýraeiturs í landbúnaði verið notað við bómullarrækt.

Nánast öll bómull til textíliðnaðar erfðabreytt

Nánast öllum bómullarplöntum sem ræktaðar eru í Bandaríkjunum hefur verið erfðabreytt með nýjustu líftækni á einhvern hátt og á það sama við stóran hluta alls bómullar sem framleiddur er í heiminum. Líftæknifyrirtækið Monsanto er þar fremst í flokki. Upphaflega var hugmyndin að búa til afbrigði af bómullarplöntu sem væri þolið fyrir skordýraplágum og dræpi út frá sér illgresi. Í dag snýst starfsemi fyrirtækisins meira um fræsölu og eignarhald á erfðaefni með öllum þeim siðferðislegu spurningum sem slíku fylgja.

Uppskera með vélum og höndum

Í iðnvæddum samfélögum eins og Bandaríkjunum og Ástralíu er uppskera bómullar vélvædd en fyrstu tínsluvélarnar komu á markað árið 1935.

Á Indlandi, Kína og víðar fer tínsla bómullar að mestu fram með höndum. Handtínsla er erfið og skelfilegt til þess að hugsa að uppskera stórs hluta bómullar í heiminum sé framkvæmd á sama hátt og þegar þrælahald var opinberlega viðurkennt fyrir um tvö hundruð árum. 

Skylt efni: ræktun | bómull

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...

Sala á 3.357 ærgildum
Fréttir 5. desember 2023

Sala á 3.357 ærgildum

Á innlausnarmarkaði með greiðslumark í sauðfé, sem haldinn var 15. nóvember, bár...

Sæðingar verða niðurgreiddar
Fréttir 5. desember 2023

Sæðingar verða niðurgreiddar

Sæðingar verða niðurgreiddar til að innleiða verndandi arfgerðir gegn riðu.

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum
Fréttir 4. desember 2023

Íslenskir verðlaunahestar í útlöndum

Sjö stóðhestar, fæddir á Íslandi en staðsettir erlendis, uppfylltu viðurkenningu...

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum
Fréttir 4. desember 2023

Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum

Bændasamtök Íslands senda frá sér í næstu viku aðgerðaráætlun með umfjöllun um a...

Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.