Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bændur og dýralæknar mótmæla harðlega drögum að breytingum á lyfjalögum
Mynd / smh
Fréttir 4. mars 2019

Bændur og dýralæknar mótmæla harðlega drögum að breytingum á lyfjalögum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í drögum að frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra til nýrra lyfjalaga eru tvö atriði sem lagt er til að verði breytt í gildandi lögum er varða dýraheilbrigði. Hafa bændur brugðist ókvæða við og sent inn harðorðar umsagnir í samráðsgátt. Þá hafa dýralæknar og Dýralæknafélag Íslands gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpsdrögin.

Í frumvarpsdrögunum er lagt er til að verðlagning dýralyfja og lausasölulyfja verði gefin frjáls. Einnig er lagt til að heimildir dýrlækna til reksturs lyfjasölu verði afnumdar. Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum segir svo í drögunum.

Dýralæknafélag Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð sem höfð hafa verið við þetta mikilvæga frumvarp. Ekki hafi verið haft samráð við dýralækna, en frumvarpið leggur til verulega skerðingu á réttindum heillar stéttar, réttindum sem dýralæknar hafa haft frá því þeir hófu störf hér á landi.

„Að afnema þau með svo skömmum fyrirvara og án nokkurs samráðs við stéttina er mjög ámælisvert. Enn fremur hefur engin kynning farið fram á frumvarpinu eða óskað umsagna, fyrr en frumvarpið var sett á samráðsgáttina með mjög stuttum umsagnarfresti,“ segir m.a. í umsögn Dýralæknafélagsins.

Bændur óhressir

Hafa þessi breytingaráform líka vakið sterk viðbrögð meðal bænda sem mótmæla þessu harðlega, enda hafi núverandi fyrirkomulag gefist vel.  Sem dæmi þá hljóðar umsögn Guðmundar Guðmundssonar bónda svo:

„Sem bóndi í mjög góðu og árangursríku samstarfi við starfandi dýralækna á mínu svæði, Rangárþingi, mótmæli ég harðlega þessum ákvæðum með eftirfarandi rökstuðningi:

  1. Lyfjakostnaður er núna sambærilegur milli dýralæknaþjónusta þannig að bóndi þarf ekki að velja í hvaða lækni hann kallar m.t.t. þess að mismunar gætti í lyfjaverði. Það tryggir hámarks dýravelferð að geta umsvifalaust kallað í þann lækni sem næstur er á svæðinu.
  2. Dýralæknar halda lyfjakostnaði í lágmarki sem er hagur bændanna, dýranna og á endanum neytenda
  3. Að afnema lyfsöluleyfi dýralækna þýðir algjöran tvíverknað í útvegun lyfja og algjört óöryggi fyrir bændur sem verða að treysta á að dýralæknar séu alltaf með bestu lyfin sem þeir velja sjálfir og selja.
  4. Ef bændur verða sjálfir að sækja lyfin til lyfsala þá er dýravelferð stefnt í stórkostlega hættu.

Að lokum: Það vantar öll rök fyrir því að færa lyfsöluleyfi frá sérhæfðum læknum dýra til lyfsala sem hafa aldrei nokkurn tíman höndlað með dýralyf og bændur hafa enga tryggingu fyrir að þeir hafi þekkingu til þess.“

Fjölmargir aðrir bændur taka í svipaðan streng í sínum umsögnum.

Dýralæknar mótmæla harðlega

Þá sendir Margrét Katrín Guðnadóttir dýralæknir inn umsögn og mótmælir harðlega fyrrnefndum breytingartillögum og sama gerir Janine Arens sem er starfandi sýrallæknir í dreifbýli. Í umsögn Margrétar segir m.a.:

„1) Dýralæknar á Íslandi hafa staðið sig afar vel í að stuðla að ábyrgðarfullri notkun bænda á sýklalyfjum, sem að sýnir sig í þeirri staðreynd að á Íslandi er minnsta notkun sýklalyfja húsdýrum í Evrópu. Þessi staðreynd sýnir það að dýralæknar á Íslandi hafi staðið sig afar vel í þessum efnum og ekki verið að selja sýkalyf með óábyrgum hætti og því engin ástæða til að færa sölu þeirra lyfja úr höndum dýralækna.

2) Dýralæknar hafa sérþekkingu á dýralyfjum, virkni þeirra og útskolun. Lyfjafræðingar eru með sérþekkingu á mannalyfjum. Dýralyf og mannalyf eru ekki sami hluturinn.

3) Dýralæknar í dreifðari byggðum treysta á lyfjasölu til þess að halda launum uppi, því að ekki eru næg verkefni til að greiða laun dýralækna á vitjunum einum saman. Ef að lyfjasalan er ekki fyrir hendi eru þó nokkrar líkur á að ekki fáist dýralæknar til starfa í dreifðari byggðum landsins og stafar það dýravelferð í hættu. Einnig má benda á að ef að lyfsala verður tekin af dýralæknum neyðumst við til þess að hækka gjaldskrá hressilega og það mun bitna beint á skepnum sem að ekki fá þá meðhöndlum og er frekar fargað.

4) Um langan veg er oft að fara á landsbyggðinni og langt er fyrir marga bændur að komast í lyfsölu í þéttbýli. Oft eru vegir illfærir/ófærir og nóg að dýralæknirinn brjótist fram og til baka í ófærð og vondu veðri án þess að bóndi verði að fara á eftir að sækja lyf. Ekki eru apótek á landsbyggðinni opin um kvöld og helgar og hætt er við að kostnaður bænda aukist ef að kalla þarf út mannskap til að selja þeim lyf.

5) Mikilvæg samskipti eiga sér stað á milli bónda og dýralæknis þegar að lyf eru pöntuð og afhent, varðandi heilbrigði og meðhöndlanir, t.d. í tengslum við bólusetningu, ekki er víst að sama þjónusta fáist í apótekum landsins.

6) Eðlilegra væri að dýralæknar fengju sér reglugerð hvað varðar lyfsölu okkar.“

Krafa um að mikilvæg grein í lögunum frá 2015 verði sett inn aftur

Janine Arens dýralæknir segir m.a. í sinni umsögn:

„Ég tel mig sem sérfræðingur í dýrasjúkdómum og viðeigandi meðferð á þeim í samræmi við matvælaöryggi og dýravelferð. Lyfjafræðingar hafa ekki menntun á sviði dýralyfja, þar með talið virkni, áhrifum og sérstökum ábendingum þeirra, sem eru í mörgum tilfellum mjög tegundabundnar. Lyfjafræðingar hafa enn fremur ekki menntun í matvælaöryggi og lyfjanotkun í afurðagefandi dýr. Fyrir utan það bendi ég á að í apótekum út á landi er ekki alltaf lyfjafræðingur starfandi.“

Þá segir Janine að í frumvarpinu frá 2015 hafi verið grein númer 33 sem nú sé felld út. Hún skipti þó öllu máli er varðar velferð dýra og dýralækningar. Krefst hún þess að þessi grein verði sett inn aftur og aðrir þættir sem byggja á þeirri grein. Hún klikkir svo út með þessum orðum:

„Að lokum mótmæli ég einnig vinnubrögð við þetta frumvarp. Ekki hefur verið haft samráð við dýralækna, en frumvarpið leggur til verulega skerðingu á réttindum heillar stéttar, réttindum sem dýralæknar hafa haft frá því þeir hófu störf hér á landi.Að afnema þau með svo skömmum fyrirvara og án nokkurs samráðs við stéttina er mjög ámælisvert. Engin kynning hefur farið fram á frumvarpinu eða óskað umsagna, fyrr en frumvarpið var sett á samráðsgáttina með mjög stuttum umsagnarfresti. Greinargerð með frumvarpinu kom svo ekki inn á gáttina fyrr en 27. febrúar, 4 dögum áður en umsagnarfrestur rennur út, og er í raun upptalning athugasemda en enginn rökstuðningur gefinn fyrir breytingum sem fyrirhugaðar eru á starfsvettvangi dýralækna.“ 

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...

Spretthópur skipaður til að bregðast við afkomuvanda bænda
Fréttir 3. júní 2022

Spretthópur skipaður til að bregðast við afkomuvanda bænda

Tilkynnt var um það á vef matvælaráðuneytisins í morgun að Svandís Svavarsdóttir...

Orkuframleiðsla með kolum jókst um 18%
Fréttir 2. júní 2022

Orkuframleiðsla með kolum jókst um 18%

Þrátt fyrir allt tal um að draga verði úr losun koltvísýrings (CO2) þá jókst not...