Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Ragnar Atli Tómasson hefur verið í forsvari fyrir íslenska wasabi-ræktun í tæpan áratug. Nú er wasabi ræktað á 2.000 fm og ársuppskeran nemur nokkrum tonnum. Hið íslenska wasabi er selt bæði hér innanlands og erlendis.
Ragnar Atli Tómasson hefur verið í forsvari fyrir íslenska wasabi-ræktun í tæpan áratug. Nú er wasabi ræktað á 2.000 fm og ársuppskeran nemur nokkrum tonnum. Hið íslenska wasabi er selt bæði hér innanlands og erlendis.
Mynd / sá
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasabi-duft í hæsta gæðaflokki. Wasabi-ræktandinn, Jurt ehf., er jafnframt einn stærsti asparplöntuframleiðandi landsins.

„Það var ekki eins og við hefðum vaknað einn morguninn árið 2015 og ákveðið að rækta wasabi heldur var þetta þróunarferli einnar hugmyndar til annarrar,“ segir Ragnar Atli Tómasson, einn upphafsmanna wasabi-ræktunar á Íslandi.

Hann stofnaði ásamt öðrum fyrirtæki fyrir að verða áratug, þá nýútskrifaður úr verkfræði, og langaði að nýta hin íslensku gæði; jarðhitann, rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum og hreina vatnið til að skapa útflutningsvöru með sérstöðu. Upphaflega hugmyndin sneri að matvælaframleiðslu, sem þrengdist niður í grænmetisræktun og á endanum varð wasabi niðurstaðan.

Jurt ehf. leigði tvö gróðurhús og plöntu-kæligeymslu í Fellum á Fljótsdalshéraði, þar sem skógræktarstöðin Barri starfaði áður, en keypti mannvirkin fyrir tveimur árum og hefur möguleika á að byggja fleiri gróðurhús á lóðinni.

Öflugur hluthafahópur stendur að baki félaginu sem hefur verið í stöðugum vexti frá stofnun þess, og sífellt með mörg járn í eldinum.

Erla Vilhjálmsdóttir hefur vakað yfir wasabi-ræktuninni frá upphafi og gætt hinna mjög svo viðkvæmu plantna eins og sjáaldurs auga síns.
Wasabi-duft á leið í búðir

Til að byrja með var wasabi; rót, blöð og blóm plöntunnar, sent beint til kokka erlendis eftir að tengslum hafði markvisst verið komið á, en að sögn Ragnars Atla þyngdist regluverk um innflutning í Evrópusambandið og nú þarf heilbrigðisvottorð og sérstaka skoðun á hverja sendingu.

Í stað þess að senda vöruna beint til kokka erlendis er því verið að byggja upp kerfi dreifingaraðila í hverju landi fyrir sig. Samhliða þessari áskorun í flutningum og að koma vörunni nær neytendum, hefur fyrirtækið verið í vöruþróun og er nú að markaðssetja wasabi-duft í 20 gramma dósum.

„Þá er búið að frostþurrka bæði rótina og blaðstilkana og blanda í 100% hreint duft, en það er nánast ófáanlegt á heimsvísu, er alltaf þynnt út. Líka þykir mjög erfitt að ná bragðgæðunum í gegn án þess að nota íblöndunarefni, sem okkur hefur tekist,“ segir Ragnar Atli.

Þessi vara fer í sölu og dreifingu á næstu vikum á Íslandi. „Við erum líka komin í samstarf við O.Johnson & Kaaber-Ísam ehf. um dreifingu á allri ferskvörunni og nú einnig á duftinu í verslanir fyrir neytendur,“ segir hann. Duftið hafi langt geymsluþol og aðeins þurfi að blanda það í hlutfallinu 1/1 af vatni til að fá ferskt wasabi í fullum gæðum.

Ætla sér stóra hluti í trjáplönturækt

Við hliðina á wasabi-gróðurhúsinu í Fellum er annað eins gróðurhús og þar eru ræktaðir aspargræðlingar. Jurt ehf. stefnir að því að verða stærsti framleiðandi asparplantna á landinu. Fyrirtækið býr vel að því að hafa mjög stóra plöntu-kæligeymslu á lóðinni, sem byggð var í tíð skógræktarstöðvarinnar Barra.

„Ræktunarstærðin á þessum 2.000 fm hefur gefið mjög vel af sér svo að við teljum þetta nokkuð góða stærð miðað við wasabi- markaðinn,“ útskýrir Ragnar og heldur áfram:

„Við fórum því að velta fyrir okkur tækifærum í stöðunni, hér á þessari sérhæfðu skógræktarstöð. Eftir að hafa aðeins litið í kringum okkur, sáum við að mikil eftirspurn er eftir skógarplöntum og kom í ljós að sérstaklega var vöntun á öspum. Hinar stöðvarnar hafa ekki verið að anna eftirspurn. Jafnframt bindur öspin mest kolefni. Nú er eftirspurn eftir skógarplöntum að miklu leyti vegna kolefnisverkefna og það var í raun og veru tækifærið sem við stukkum á,“ segir hann.

„Við stundum því stórtæka framleiðslu og vorum stærsti einstaki asparræktandinn á Íslandi í fyrra, með nokkur hundruð þúsund plöntur. Við verðum með annað eins núna og aukum svo í. Við munum horfa til fleiri trjátegunda, ásamt því að sérhæfa okkur í öspinni, og ætlum okkur stóra hluti,“ segir Ragnar Atli.

Í samstarfi um vefjaræktun

Umfang wasabi-ræktunarinnar hefur aukist stigvaxandi. „Við byrjuðum í gróðurhúsinu í einu horni og stækkuðum smám saman upp í allt rýmið, 2.000 fermetra,“ segir Ragnar Atli. Afkastagetan í fullri ræktun skipti tonnum árlega. Utan Japans er einn ræktunaraðili í Bretlandi, með útiræktun, en Ragnar Atli segist ekki hafa orðið var við aðra ræktendur á markaði í Evrópu. Hann segir wasabi-ræktun enda vandasama og erfitt að fá plöntur.

„Útvega þarf plöntur frá Japan og þarlendir vilja ekki endilega selja þær nema til þeirra sem þeir treysta. Það er erfitt að fjölga plöntunni með fræi og við höfum verið að vinna með Háskóla Íslands við vefjaræktun til þess að fjölga plöntunum. Þannig gerum við þetta í dag,“ segir hann.

Jurt ehf. hefur að markmiði að verða stærsti asparræktandi landsins, enda aukin eftirspurn eftir ösp vegna mikilla kolefnisbindandi eiginleika hennar.

Íslenskt wasabi hjá Noma

Ragnar Atli segist kominn þangað sem hann ætlaði sér með wasabi- ræktunina.

„Já, það hefur náðst mikill og góður árangur – en maður ætlar auðvitað alltaf lengra,“ bætir hann við. Í upphafi, eftir rúmlega tveggja ára undirbúning wasabi- ræktunarinnar, hafi fengist prýðileg uppskera sem seld var á fimm veitingastaði innanlands. Í kjölfarið var farið í útflutning.

„Eftir að wasabi hafði verið selt á veitingastað í Danmörku í stuttan tíma var hringt frá Noma, sem er frægasti veitingastaður í heimi, og þau vildu fá vöruna. Smám saman hefur það undið upp á sig og hróður Nordic-Wasabi breiðst út víða um lönd.“ Ragnar Atli segist nota wasabi mikið heima hjá sér.

Hann mælir sérstaklega með að nota það ekki aðeins með sushi, eins og fólki detti jafnan fyrst í hug, heldur líka með kjöti og fiski, út í sýrðan rjóma, eða jafnvel í kokteila. Wasabi sé líka virkilega gott með súkkulaði og í súkkulaðiköku þó að það kunni að hljóma undarlega. „Það eru ótrúlegir möguleikar,“ segir Ragnar Atli.

Skylt efni: wasabi

Metinnflutningur á koltvísýringi
Fréttir 11. desember 2024

Metinnflutningur á koltvísýringi

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa verið flutt inn til landsins um 2.600 tonn af k...

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára
Fréttir 11. desember 2024

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára

Heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2024 var, skv. bráðabirgðatölum Hafrannsókn...

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki
Fréttir 11. desember 2024

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki

Afleiðingar rafmagnsleysis í Lundarreykjadal í febrúar urðu bændum dýrkeyptar.

Mun fleiri vilja kaupa en selja greiðslumark
Fréttir 10. desember 2024

Mun fleiri vilja kaupa en selja greiðslumark

Á innlausnarmarkaði ársins 2024 með greiðslumark í sauðfé, sem haldinn var 15. ...

Slæm staða útiræktunar grænmetis til umræðu
Fréttir 10. desember 2024

Slæm staða útiræktunar grænmetis til umræðu

Slæm staða útiræktunar grænmetis var rædd á haustfundi garðyrkjunnar sem haldinn...

Stórgripaslátrun í níu sláturhúsum
Fréttir 10. desember 2024

Stórgripaslátrun í níu sláturhúsum

Alls var 103.750 stórgripum slátrað hér á landi árið 2023. Slátrað var á níu stö...

KS innleysti Búsældarbændur
Fréttir 10. desember 2024

KS innleysti Búsældarbændur

Kaupfélag Skagfirðinga leysti til sín eignarhlut þeirra þrettán bænda sem féllus...

Umdeildur samningur þykir heldur klénn
Fréttir 10. desember 2024

Umdeildur samningur þykir heldur klénn

COP29-loftslagsráðstefnunni í Bakú í nóvember lauk eftir tveggja vikna samningaþ...