Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sigríður Jónsdóttir sauðfjárbóndi, Arnarholti.
Sigríður Jónsdóttir sauðfjárbóndi, Arnarholti.
Mynd / HKr.
Lesendarýni 2. mars 2016

Sauðfjárbændur samþykkja hvað sem er

Höfundur: Sigríður Jónsdóttir, sauðfjárbóndi Arnarholti
Nú liggur fyrir Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Sem okkur sauðfjárbændum gefst kostur á að samþykkja eða synja í atkvæðagreiðslu. Fljótt á litið virðist samningurinn vera í einhverju samræmi við samningsmarkmið sem sett voru á aðalfundi LS í apríl  2015, en þegar nánar er að gætt er reyndin talsvert önnur. 
 
Í nóvember gafst bændum kostur á að fylgjast aðeins með gerð þessa nýja samnings og þá var vissulega reynt að anda í drukkinn. Samningamönnum okkar var gerð grein fyrir því að aldrei hefði staðið til að leggja niður greiðslumarkið eða að kollvarpa núverandi kerfi. En nú á samt að gera það.
 
Algert afnám framleiðslustjórnunar
 
Megin virði núverandi beingreiðslukerfis liggur í þeirri framleiðslustjórnun sem í því felst. Afnám beingreiðslna jafngildir afnámi framleiðslustjórnunar. Með stuðningskerfi nýja samningsins munu bændur keppa beint hver við annan um framleiðslustyrkina, með því að framleiða sem mest. Þannig samkeppni mun óhjákvæmilega leiða af sér aukna framleiðslu. Og það virðist vera helsta gulrótin í samningnum; tækifærið til að framleiða meira. 
 
Það vantar ekki kindakjöt á Íslandi. Síðast þegar ég vissi vantaði heldur ekki kjöt á erlendum mörkuðum. Við erum að flytja út kjöt og getum hvenær sem er aukið við framleiðsluna ef eitthvað verður upp úr útflutningi að hafa. Það verður ekkert vandamál.
 
Beingreiðslur falla til afurða sem seldar eru innanlands 
 
Enginn íslenskur skattgreiðandi kærir sig um að niðurgreiða framleiðslu sem flutt er úr landi. Með afnámi beingreiðslna mun öll framleiðsla hljóta sömu styrkina, hvort sem þörf er fyrir hana innanlands eða ekki. Útflutningur á vörum framleiddum í stuðningskerfi nýja samningsins verður ríkisstyrktur, nákvæmlega eins og vörur á innlendan markað. Enginn íslenskur bóndi kærir sig um að svara fyrir ríkisstyrktan útflutning árið 2026. Sauðfjárbændur gáfust endanlega upp á því áður en landið fór að taka þátt í söngvakeppninni, sællar minningar, fyrir 30 árum. 
 
Allir gildandi viðskiptasamningar við útlönd gera ráð fyrir að landbúnaðarvörur til útflutnings séu ekki ríkisstyrktar svo nokkru nemi og ég hreinlega skil ekki hvernig þessi nýi samningur á að tryggja farsælan og gróðavænlegan útflutning landbúnaðarvara um langa framtíð. Samkvæmt mínu viti er það í besta falli óskhyggja, í versta falli blekking. 
 
Sá samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar sem nú er lagður fram, mun óhjákvæmilega leiða af sér aukna framleiðslu, með tilheyrandi fjölgun sauðfjár. 
 
Það vantar ekki kindur á Íslandi
 
Margir Íslendingar vilja nota land til alls annars en sauðfjárræktar og sumir vilja hvergi sjá kind í námunda við sig eða sitt. Fækkun sauðfjár í landinu og gróðurframvinda undanfarinna áratuga hefur aukið okkur sauðfjárbændum von og bjartsýni um að við gætum búið í friði við samborgarana eitthvað lengur. Með þessum nýja samningi virðist það gert útilokað. 
 
Offramleiðsla og ofbeit eru sviðsmyndir sem vert er að fella í atkvæðagreiðslu. 
 
Fram undan er væntanlega fundaherferð
 
Sauðfjársamningurinn er vandlega veggfóðraður með loforðum sem sjálfsagt verða kynnt fjálglega sem kostir samningsins. 
 
Okkur verður sagt að nýliðum verði gert auðvelt að byrja að búa. Það vantar ekki fleiri sauðfjárbændur. Því miður. Sauðfjárbændur vantar meiri tekjur og þær fást ekki með því að fleiri bændur framleiði meira. 
Offramleiðsla mun valda verðfalli afurða á öllum stigum verðmyndunar og allir munu tapa á því. Byggðirnar í landinu eru í nógu mikilli hættu þó að ekki verði vegið að sauðfjárræktinni með algerum afkomubresti.
 
Okkur verður sagt að með afnámi kvótakerfis munu peningar hætta að flæða út úr greininni með kvótakaupum. En hvert hafa þeir peningar farið? Þeir hafa farið til sauðfjárbænda. Það ætlast enginn til að sextug hjón í Kópavogi gefi ungu pari íbúð, sjoppu eða innflutningseinkaleyfi. En atvinnutækifæri til sveita eiga að vera gefins. 
 
Okkur verður sagt af stórum viðskiptatækifærum. Sannleikurinn er að við þurfum ekki að afsala okkur einu eða neinu til að nýta okkur þau, ef þau eru fyrir hendi á annað borð.
 
Okkur verður sagt af rausnarlegum býlisstuðningi, gerðum til að styðja fjölskyldubúið. Hann verður 5% af heildarstuðningi í lok samningstímans. Núll- til þrjúhundruðog tuttugu þúsund kall per kot á ári. Sleikipinni. 
 
Okkur verður sagt að við verðum að koma fram sem ein heild gagnvart ríkisvaldinu og samþykkja samninginn, annars muni annað verra fylgja (eins og sagt var um Icesave). Okkur verður sagt að tollverndin verði tekin af okkur ef við verðum ekki þæg. 
 
Okkur verður sagt að endurskoðunarákvæði samningsins muni vernda okkur fyrir allri óheillaþróun. Mín skoðun er sú að við þurfum ekki að láta narra okkur inn í þennan samning. Í upphafi skal endirinn skoða og afleiðingarnar geta verið hverjum manni ljósar nú þegar. Það þarf að semja upp á nýtt og semja öðruvísi. Hér er verið að breyta breytinganna vegna og, eins og stundum áður, fyrir þá sem hafa veðjað hátt og hafa lítið til að leggja undir annað en afkomu annarra.
 
Óvissa framtíð og ekki sérlega bjarta er sauðfjárbændum ætlað að samþykkja. Því þeir eru slíkar gungur að þeir munu samþykkja hvað sem er. 
 
Kæru félagar. Við verðum að fella þennan samning. Við getum ekki látið þetta yfir okkur ganga og við þurfum þess heldur ekki. Við höfum atkvæðisrétt og segjum nei. 
 
Sigríður Jónsdóttir,
sauðfjárbóndi Arnarholti.
Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...