Áburðarverð lækkar
Í lok síðasta árs kom út verðskrá Sláturfélags Suðurlands á Yara áburði. Skeljungur, Lífland, Búvís og Fóðurblandan hafa fylgt því eftir með eigin verðskrám á síðustu dögum.
Úlfur Blandon hjá Fóðurblöndunni segir verðlækkunina vera að meðaltali fimm prósent, en sé misjöfn milli tegunda. Ólíkir þættir skýri verðlækkunina, en þegar samningar voru gerðir við framleiðanda erlendis hafi heimsmarkaðsverð og gengi krónunnar verið hagstætt.
Hann bendir á að áburðarverð hafi nýverið tekið að hækka aftur í Evrópu. Fóðurblandan var búin að gera samninga við sína birgja fyrir þann tíma, en ekki sé hægt að tryggja óbreytt áburðarverð fyrir bændur sem leggja inn pöntun eftir að verðskráin rennur út 1. mars næstkomandi. Aðrir áburðarsalar sem Bændablaðið var í samskiptum við töluðu á sömu nótum og hefur áburðarverð lækkað hjá öllum um fimm til sex prósent í samanburði við verðskrár í fyrra.
Í svari frá Sláturfélagi Suðurlands segir að áburðarverð á erlendum mörkuðum hafi náð hámarki í apríl 2022 eftir að hafa hækkað hratt í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Áburðarverð lækkaði síðan nokkuð hratt fram á vor 2024 og hélst stöðugt fram í desember, en síðan þá hefur það hækkað aftur. Í janúar hafa verðhækkanirnar haldið áfram, sérstaklega á köfnunarefni.