Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Lifandi náttúru fórnað!
Lesendarýni 15. maí 2023

Lifandi náttúru fórnað!

Höfundur: Hörður Sigurbjarnarson, virkur þátttakandi í Húsgull og stofnandi Norðursiglingu og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Hvernig má það vera að við dirfumst að fórna lifandi náttúru á altari hins íslenska steinsteypuguðs?

Þröstur Eysteinsson og Hörður Sigurbjarnarson.

Nú standa yfir miklar framkvæmdir á hinni nærri þrjú þúsund fermetra lóð Húsavíkurkirkju í hjarta miðbæjarins. Húsavíkurkirkja er efalítið það mannvirki sem við Þingeyingar getum verið hvað stoltastir af.

Fyrir því eru nokkrar ástæður sem mig langar að draga fram og setja í samband við lífsnauðsynlega umræðu um umhverfismál í stærra samhengi.

Húsavíkurkirkja núverandi var vígð 2. júní 1907. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði kirkjuna sem er krosskirkja, byggð úr norskum við. Rögnvaldur var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og raunar fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust. Margir telja að Húsavíkurkirkja sé hans fegursta verk og lofi meistara sinn.

Aðalhleðslumaður við grunn kirkjunnar var Jón Ármann Árnason steinsmiður, Fossi, Húsavík. Yfirsmiður var Páll Kristjánsson, smiður og kaupmaður á Húsavík.

Húsavíkurkirkja er með sterkum einkennum svonefnds Schweitzerstíls sem þróaðist í Noregi á seinni hluta 19. aldar og ættaður var frá Sviss. Aðeins eitt ár tók að byggja Húsavíkurkirkju.

Já, það tók aðeins eitt ár að byggja þetta stórhýsi fyrir eitt hundrað og sextán árum sem gat hýst nær alla íbúa þorpsins og þá voru þeir innan við fjögur hundruð talsins.

Þegar ráðist var í byggingu kirkjunnar má segja að sól Þingeyinga hafi verið virkilega byrjuð að rísa. Frá stofnun fyrsta kaupfélags landsmanna, Kaupfélags Þingeyinga, var liðinn aldarfjórðungur og þéttbýli á Húsavík tekið að vaxa fiskur um hrygg þótt þá hafi það fyrst og fremst byggst á þjónustu við landbúnaðinn í nærsveitum.

Höfum það bak við eyrað að landflótti til vesturheims hafði ekki stöðvast og gerði það ekki fyrr en í lok annars áratugar 20. aldar. Talið er að landflóttinn hafi numið nálægt 20% landsmanna og hvergi varð hlutfallið hærra af íbúafjölda en í Þingeyjarsýslum og Norður-Múlasýslu. Í þessu ljósi er sá framfarahugur sem Þingeyingar sýndu í verki með byggingu kirkjunnar og glæsilegs barnaskóla skömmu síðar athyglisverður og sér í lagi þegar hinn mikli landflótti er hafður í huga.

Það sem vekur ugg í brjósti undirritaðra er hve fálmkennd og skeytingarlaus viðbrögð okkar eru við þeirri staðreynd að lofts- slagsbreytingarnar sem yfir hnöttinn ganga eru af manna völdum. Efasemdaraddir eru að mestu leyti þagnaðar, en fátt bendir þó til þess að fólk sé í raun búið að meðtaka það hvað afleiðingar loftslagsbreytinga eiga eftir að verða svakalegar. Nýverið kom út skýrsla frá Umhverfisstofnun með þeirri niðurstöðu að Íslendingar muni ekki ná þeim markmiðum í loftslagsmálum sem við settum okkur að ná fyrir árið 2030.

Þar eru m.a. markmið í landnotkun og skógrækt þar sem eini ljósi punkturinn er að skógar eru að binda meira kolefni en áður var áætlað. Sá árangur stafar mest af því að gjöfular trjátegundir á borð við sitkagreni, stafafuru, rússalerki og alaskaösp vaxa hér mjög vel. Það eru m.ö.o. innfluttar trjátegundir sem mest gagn eru að gera á Íslandi í baráttunni við hraðfara loftslagsbreytingar.

Í þessu ljósi er það dapurlegt að sjá þrjú sitkagrenitré felld á lóð kirkjunnar. Hæsta tréð var gróðursett um 1960 og var 12 metra hátt.

Hvað má ætla að þessi tré hefðu gert fyrir loftslagið? Sitkagreni getur lifað í þúsund ár eða meira og haldið góðum vexti í fleiri hundruð ár. Allan þann tíma dregur það CO2 úr andrúmsloftinu og bindur það í formi viðar. Á langri ævi getur eitt sitkagrenitré bundið tugi tonna CO2. Nú á dögum er það ábyrgðarhlutur að eyða trjágróðri. Vega þarf ávinning þess að fella tré á móti loftslagsávinningi þeirra. Því var ekki hægt að hlífa trjánum við endurskipulagningu lóðarinnar? Auðvitað hefði það verið hægt. Það var bara ekki talið mikilvægt.

Setjum þessa trjáfellingu í samhengi við furðulegan trjárasisma sem Íslendingar hafa innleitt. Umræða lítils hóps um innfluttar trjátegundir, meint ágengi þeirra, útsýnistap, hættu fyrir mófugla og hvaða aðra glæpi sem þau tré eru sökuð um er farin út í algjörar öfgar. Þeir meintu glæpir eru ýmist hreinn uppspuni eða ýktir út fyrir öll velsæmismörk.

Meint neikvæð áhrif innfluttra trjáa eru líka hjóm eitt samanborið við það gagn sem þau gera í bindingu kolefnis.

Hin neikvæða umræða hefur lækkað gengi innfluttra trjátegunda í hugum sumra. Þeim finnst því réttlætanlegt að drepa þau fyrir léttvægar sakir á borð við að þau breyti tilteknu útsýni eða séu fyrir við endurhönnun lóðar eða bara af því að þau eru útlensk að uppruna.

Sem betur fer eru flestir Íslendingar ekki á þessari skoðun. Langflestum okkar finnst mikill akkur í auknum trjágróðri, enda ávinningurinn flestum augljós. Gerum betur. Eyðum fordómum frekar en trjám.

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?
Lesendarýni 20. mars 2024

Hvernig stóð á kúfi dauðsfalla eftir að veiran var að mestu horfin?

Mikill fjöldi ótímabærra dauðsfalla á síðustu misserum hefur ekki farið fram hjá...

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...