Hvað ef ég vil vera hér?
Hvað þarf til þess að ungt fólk vilji setjast að á landsbyggðinni? Þetta er spurning sem eflaust flest landsbyggðarsamfélög hafa spurt sig að á síðastliðnum árum. Nýheimar þekkingarsetur, sem er staðsett á Höfn í Hornafirði, hefur síðastliðin 10 ár unnið að því að kanna upplifun ungs fólks af samfélaginu sínu og líðan þess.
Greina má ákveðna rauða þræði í niðurstöðum þeirra rannsókna, ár eftir ár. Ungmenni upplifa takmörkuð tækifæri í heimabyggð til bæði atvinnu og félagslífs og upplifa jafnvel að þeirra áhugasvið eigi ekki samleið með búsetu á svæðinu. Þá upplifa þau sig hvorki sem hluta af samfélagi barna né heldur samfélagi fullorðinna.
Sú staðreynd að sömu niðurstöður eru að birtast ár eftir ár, bæði hérlendis og á Norðurlöndunum, sýnir að samfélög hafa ekki náð að bregðast við með fullnægjandi hætti. Þessar niðurstöður voru hvatinn að nýju verkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar, HeimaHöfn. Fyrsta starfsári verkefnisins er lokið en tilgangur þess er að bregðast við og bæta líðan sem og efla byggðafestu og tengingu ungs fólks við samfélagið. Verkefnið miðar að því að styrkja samkeppnishæfni og aðdráttarafl svæðisins sem framtíðarbúsetukost. Tilgangur þess er enn fremur að þróa og móta heildstæða nálgun á viðfangsefnið sem tekur mið af aðstæðum landsbyggðarsamfélaga á Íslandi og getur orðið öðrum sveitarfélögum fyrirmynd.
HeimaHöfn snýst í grunninn um að efla tengsl ungs fólks við samfélagið sitt svo að það vilji vera þar eða koma aftur á einhverjum tímapunkti. Þetta snýst um að gera sveitarfélagið að raunhæfum og ákjósanlegum búsetukosti til framtíðar. Unnið er að sterkri tengslamyndun við unglinga á meðan þau eru hér, með það að markmiði að þau sjái þá möguleika sem eru til staðar og geri sér betur grein fyrir þeim tækifærum sem þau geta skapað sér sjálf.
HeimaHöfn byggir á ólíkum verkþáttum sem ætlað er að stuðla að jákvæðri upplifun og viðhorfi ungmenna til framtíðarinnar í sveitarfélaginu. Verkefnið er blanda af viðburðum, tengslamyndun, upplýsingamiðlun og ráðgjöf til ungs fólks þar sem markvisst er unnið að því að efla og viðhalda tengslum við ungmenni á staðnum, efla félagslega virkni þeirra og samfélagsþátttöku. Unnið er í nánu samstarfi við ungt fólk og aðra hagaðila, svo sem fulltrúa atvinnulífsins og menntastofnanir á svæðinu. Á fyrsta starfsári HeimaHafnar hafa verið haldnir fjölmargir viðburðir í tengslum við atvinnulíf á svæðinu til þess að opna augu ungmenna fyrir þeim fjölmörgu atvinnutækifærum sem þeim standa til boða. Á næsta ári verður lögð áhersla á samfélagsþátttöku og unnið þétt með öllum þeim fjölda félagasamtaka sem eru starfandi á svæðinu.
Ásamt því að standa að viðburðahaldi, fræðslu og ráðgjöf til ungs fólks er mikil áhersla lögð á virka upplýsingamiðlun. Heimasíða verkefnisins, www.heimahofn.is, er mikilvægur vettvangur til miðlunar upplýsinga. Á heimasíðunni birtast upplýsingar um námsframboð, atvinnutækifæri, félagsstarf, rannsóknarverkefni, viðburðahald og fleira. Heimasíðunni er ætlað að vera fyrsta stopp fyrir alla þá sem hafa áhuga á samfélaginu hér í Sveitarfélaginu Hornafirði, hvort sem um er að ræða núverandi íbúa, brottflutta eða verðandi íbúa, fyrirtæki eða félagasamtök.
Þá fékk verkefnið styrk frá innviðaráðuneytinu til þess að miðla verkefninu áfram til annarra sveitarfélaga. Í því skyni verður haldið málþing næsta haust fyrir fulltrúa annarra sveitarfélaga á landsbyggðinni en einnig verður unninn leiðarvísir fyrir önnur sveitarfélög sem vilja taka upp verkefnið og staðfæra og sníða að sínum aðstæðum. Atgervisflótti ungs fólks er málefni sem snertir öll landsbyggðarsamfélög með einum eða öðrum hætti og því viljum við hjálpast að við að bregðast við.
Með verkefninu HeimaHöfn viljum við valdefla ungt fólk í Sveitarfélaginu Hornafirði og bæta líðan þess. Því sterkari tengsl sem ungmenni mynda og því meira sem þau hafa að segja um mótun samfélagsins sem þau búa í, því líklegra er að þau íhugi æskustöðvarnar sem búsetukost í framtíðinni. Á fyrsta ári verkefnisins höfum við fundið fyrir miklum áhuga og meðbyr með verkefninu okkar. Það er okkur afar mikilvægt enda er þátttaka skóla, fyrirtækja og félagasamtaka í sveitarfélaginu í heild sinni forsenda þess að markmið verkefnisins um eflingu byggðar geti náðst, ungmennum og íbúum öllum til heilla.