Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Þegar þú ert búin að gefa öllum dýrum, innan sem utan húss, og þú situr inni í fjárhúsi og hlustar á kindurnar éta með sínum krúttlegu smjatthljóðum. Friðurinn sem fylgir er fyrir mér himneskur. Það er að vera bóndi fyrir mér – vitandi að allir eru saddir og sælir,“ segir Þórunn Dís m.a. í grein sinni.
„Þegar þú ert búin að gefa öllum dýrum, innan sem utan húss, og þú situr inni í fjárhúsi og hlustar á kindurnar éta með sínum krúttlegu smjatthljóðum. Friðurinn sem fylgir er fyrir mér himneskur. Það er að vera bóndi fyrir mér – vitandi að allir eru saddir og sælir,“ segir Þórunn Dís m.a. í grein sinni.
Mynd / ghp
Lesendarýni 11. janúar 2023

Endurkynni þjóðar og bænda

Höfundur: Þórunn Dís Þórunnardóttir, varaformaður Samtaka ungra bænda.

Það eru til atvinnugreinar hér á landi sem eru svo lokaðar að þú þarft að þekkja mjög mikilvægt fólk til að komast að. Að verða bóndi má alveg telja sem eina af þeim atvinnugreinum, því að til þess að komast að þeirri mjólkurfötu verður þú að þekkja MJÖG mikilvægt fólk; aðra bændur!

Þórunn Dís Þórunnard.

Hér áður fyrr áttu þeir krakkar sem bjuggu í þéttbýli allir einhver ættmenni sem bjuggu í sveit. Þekkt var að þéttbýlin nánast tæmdust yfir sumarið því langflestir fóru til Siggu frænku eða ömmu og afa í fjósið yfir sumarið, tóku þátt í heyskap, sauðburði og allt það sem fylgdi. Núna eru krakkar að alast upp sem eiga enga ættingja til að fara til út á landi. Síðustu tvær eða þrjár kynslóðir hafa vaxið úr grasi án þess að sjá hvernig það er verkað í hey fyrir dýrin.

Það er ekkert að því að vera malbiksmanneskja, sitt sýnist hverjum, en er það ekki þá okkar bændanna að sjá til þess að allir viti hvernig maturinn þeirra kemst á diskinn þeirra, sem allir eru aldeilis spenntir fyrir að skella einni mynd af á grammið?

Við verðum víst að sætta okkur við það að mest af innlendu matarframleiðslunni verður til á landsbyggðinni ... ekki höfuðborgarsvæðinu. EN! - Þéttbýli eru á víð og dreif um landsbyggðina, það er eitthvað meira til af miðbæjum heldur en bara 101 Reykjavík.

Þegar vinnan var í gangi á bak við gerð Hvítbók um byggðamál - Drög að stefnumótandi byggðaáætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára í maí 2021 voru Samtök ungra bænda beðin um að leggja til hugmyndir og segja meðal annars:

„Með því að fjölga atvinnutækifærum í þéttbýlum utan höfuðborgarsvæðisins er á sama tíma verið að styrkja byggð í dreifbýli. Þar sem margs konar þjónustu er hægt að fá í gegnum netið er engin fyrirstaða fyrir því að færa fleiri störf út á land og þannig auka byggð landsins. Með því fæst einnig meiri hvati fyrir ungt fólk úr þéttbýli eða fjölskyldur til þess að flytja út á land.“

Þannig að vera malbiksmanneskja þýðir alls ekki að þú sért bara lattelepjandi trefill í hundrað og einum eins og einhvern tímann var komist að orði. En með því að flytja á Kópasker – sem er vissulega þéttbýli – ertu um leið að styrkja sveitina og gera Gísla á Uppsölum það kleift að sitja aðeins lengur á jörðinni sinni með þessar tvær kýr og tíu kindur.

Það er reyndar þessi lenska að mála alla bændur sem einhvers konar Gísla, eða Magnús og Eyjólf – einyrkja með tóbakið lengst niður á höku og vitandi ekkert hvað snýr upp eða niður á fartölvu. Við erum alveg aðeins meira nýmóðins en það (þrátt fyrir að undirrituð sé svo gamaldags að nota orðið nýmóðins.)

Spurning um að fara að auglýsa dalalífsviku einhvers staðar, hver tekur svoleiðis að sér?

Fjósalykt! Æ LOVIT! – Ansans, ég er greinilega of gömul til að skrifa þessa grein þrátt fyrir að eiga að flokkast sem ungur bóndi. En er það ekki bara önnur birtingarmynd vandans, yngri bændur eru bara ekki til? Þegar heil starfsstétt er búin að vera fjársvelt svo lengi þá er næsta kynslóð sem hefur fylgst með foreldrum sínum jafnvel bugast út af fjárhagsáhyggjum og vinnu. Það er því ekki skrítið að næsta kynslóð sé ekki að hlaupa til að taka við.

Skýrslan Ræktum Ísland!, sem var unnin fyrir þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem gaf upp mynd af landbúnaðarstefnu fyrir Ísland segir:

„Hvarvetna er litið til kynslóðaskipta og nýliðunar við mótun landbúnaðarstefnu enda er hún ekki lífvænleg nema vel sé að þessum þáttum staðið og afkoma bænda tryggð.“ – Alltaf kemur þetta svo sem niður á það að það vantar meiri pening. Ég ætlaði samt að reyna að komast í gegnum þessi skrif án þess að nefna peningaleysi bændastéttarinnar. Nóg er af þeim jarðarfarasálmum og eru fleiri eflaust í skrifum þegar þessi grein er í prentun.

Við skulum aðeins líta inn á við. Allar starfsstéttir eiga sínar skin og skúrir og þegar hugsað er til baka man maður yfirleitt það sem verst fer, en einnig það sem heppnast svo vel að maður fellir næstum tár. Þegar lamb sem gekk í gegnum erfiðan burð og er vart hugað líf kemst á fætur og endar með móður sinni uppi á fjalli þar sem það fær að hlaupa allt sumarið. Þegar kýr ber gullfallegum kálfi alveg sjálf. Þegar kindin sem þú ert búin að vera að hlaupa á eftir í 2 klukkutíma fer loksins rétta leið heim. Þegar litla folaldið þitt er allt í einu komið í úrslit inn á landsmót. Þegar akurinn sem þú rétt náðir að sá niður fyrir rigningu gefur af sér metuppskeru.

Íslenskur landbúnaður er alveg jafn fjölbreyttur og bændurnir sem sinna honum enn þá fjölbreyttari. Flestir, ef ekki nær allir, geta talið upp alls konar sögur um búskapinn, hvort fór það illa eða vel og svo framvegis. Það er einfaldlega eitt af því að vera bóndi.

Maður kannski fer að spyrja sig í kjölfarið; hvað þýðir það að vera bóndi? Þetta kann að vera flókin spurning en fyrir einhverjum getur svarið einfaldlega verið niðurnjörvað í litlu atburðina sem gerir það að vinna og lifa í landbúnaði og búskap svo frábært.

Mitt svar er: Þegar þú ert búin að gefa öllum dýrum, innan sem utan húss, og þú situr inni í fjárhúsi og hlustar á kindurnar éta með sínum krúttlegu smjatthljóðum. Friðurinn sem fylgir er fyrir mér himneskur. Það er að vera bóndi fyrir mér – vitandi að allir eru saddir og sælir.

Er ekki kominn tími til að allir opni huga sinn og reyni að sjá hvað það þýðir fyrir Jón, Gunnu, Gísla, Magnús og Eyjólf, að vera bóndi? Jafnvel fara að hugsa sitt eigið svar við þessari spurningu. Ef svarið er kannski:

„Bændur eru fólk sem getur stjórnað sínum vinnutíma miklu betur en ég sem er fastur í 9-5 vinnu fyrir framan tölvu.“

Í kjölfarið fer það að hugsa að kannski væri ekki svo vitlaust að flytja úr þessari íbúðarblokk í ónefndum bæ og flytja á lítinn sveitabæ. Jafnvel taka nokkra áfanga um jarðrækt í Landbúnaðarháskólanum. Hvernig ætli sé best að komast að mjólkurfötunni?

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker
Lesendarýni 14. mars 2024

Þjóðlendukröfur í eyjar og sker

Óbyggðanefnd tók til meðferðarsvæði 12, með því að fjármálaráðuneytinu var tilky...

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?
Lesendarýni 13. mars 2024

Eignaupptaka í nafni sjálfbærrar landnýtingar?

Í Samráðsgátt stjórnvalda lágu fyrir skemmstu til umsagnar drög að reglugerð um ...

Niðurskurðargapuxarnir
Lesendarýni 12. mars 2024

Niðurskurðargapuxarnir

Eins og meðfylgjandi grein í Nýjum félagsritum frá 1885 ber með sér hafa verið u...

Alvarleg aðför að eignarrétti, landbúnaði og byggðafestu
Lesendarýni 8. mars 2024

Alvarleg aðför að eignarrétti, landbúnaði og byggðafestu

Reglugerðardrög um sjálfbæra landnýtingu sem lokið hafa umsagnarferli í samráðsg...

Deildarfundir Auðhumlu svf. 2024
Lesendarýni 4. mars 2024

Deildarfundir Auðhumlu svf. 2024

Deildarfundir Auðhumlu svf. 2024 verða haldnir sem hér segir:

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar
Lesendarýni 1. mars 2024

Falskt fæðuöryggi undir merkjum ofstjórnar

Þess gætir í vaxandi mæli í þjóðfélaginu að dregnar eru upp sviðsmyndir sem í eð...

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda
Lesendarýni 28. febrúar 2024

EES-samningurinn vinnur gegn rekstrarumhverfi íslenskra bænda

Eftir 1. júlí 2024 mega bændur ekki endurnota eyrnamerki/ örmerki sín í sauðfé, ...

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB
Lesendarýni 28. febrúar 2024

Hið „meinta“ viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur við ESB

Árið 1993 var lokið við gerð samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og hann l...