Atvinnuuppbygging í hinum dreifðari byggðum í uppnámi
Bændasamtök Íslands og fleiri aðilar, á borð við Landsvirkjun, gerðu alvarlegar athugasemdir við frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á raforkulögum sem opnar á að nýir notendur verði rukkaðir um óskilgreindan viðbótarkostnað.

Sigurjón Þórðarson.
Landsvirkjun bendir á að frumvarpið geti unnið gegn markmiðum um orkuskipti og samdrátt í kolefnislosun. Bændasamtök Íslands benda á hið augljósa, þ.e. að óskilgreindur viðbótarkostnaður gangi gegn markmiðum byggðaáætlunar sem og tilgreindum markmiðum sem sett eru fram í matvæla- og landbúnaðarstefnum stjórnvalda.
Það er óskiljanlegt að meirihluti atvinnuveganefndar, með Stefán Vagn Stefánsson, þingmann Framsóknarflokksins, í formennsku, taki í engu mið af alvarlegum athugasemdum og snúi jafnvel út úr þeim í nefndaráliti sem lagt var fram við aðra umræðu um málið á þingi.
Í umræddu nefndaráliti er reynt að telja almenningi trú um það að sérstakur viðbótartengikostnaður á nýja notendur í hinum dreifðu byggðum geti jafnvel hvatt til framkvæmda!
Það á eftir að fjalla um málið í þriðju umræðu á þingi og mikilvægt er að ná fram breytingum á málinu, þannig að framþróun og nýsköpun á landsbyggðinni sé ekki sett í uppnám. Svo undarlegt sem það nú er að á sama tíma og ríkisstjórnin gefur út opna gjaldheimtu á nýsköpun í hinum dreifðu byggðum, þá er formaður Framsóknarflokksins með frumvarp sem kallast Samþætting áætlana.