Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Af grundvallaratriðum
Lesendarýni 20. júlí 2022

Af grundvallaratriðum

Höfundur: Herdís Magna Gunnarsdóttir varaformaður BÍ og formaður NautBÍ.

Í 12. tbl. Bændablaðsins ritaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra grein með yfirskriftinni Sprett úr spori, þar sem hún tæpti á því helsta af vettvangi stjórnarráðsins í landbúnaðarmálum.

Það er ánægjulegt að lesa að matvælaráðherra segist bæði hafa og muni standa með bændum og innlendum landbúnaði. Þá er einnig ánægjulegt að sjá að ráðherra leggur áherslu á að afkoma bænda sé forsenda fæðuöryggis og efling innlendrar kornræktar er þar jafnframt mikilvægur áhrifaþáttur.

Að tryggja fæðuöryggi

Á tímum sem nú eru forsendur fyrir því að meginmarkmið búvörusamninga hlýtur að vera að tryggja nægjanlegt framboð gæðaafurða og fæðuöryggi, ásamt því að tryggja framleiðsluvilja og afkomu bænda.

Öruggustu skilaboðin sem hægt er að gefa bændum um að framleiða þau matvæli sem eftirspurn er eftir er að greiða þeim fyrir framleiðsluna sjálfa. Um 30% af samningnum um starfsskilyrði í nautgriparækt eru nú greidd út á mjólk innan greiðslu- marks en mjólkurframleiðslan býr við framleiðslustýringu sem á að koma í veg fyrir offramleiðslu með tilheyrandi sóun en ekki síður að tryggja að nægjanlegt magn sé framleitt.

Framleiðsluskyldan er 100% svo bændur fá ekki fullar stuðningsgreiðslur nema þeir framleiði þá mjólk sem óskað er eftir. Skilaboðin gætu ekki verið skýrari.

Áform um að styrkja innlenda kornrækt og jarðyrkju eru göfug en þessu tvennu á ekki að blanda saman. Sjálfbærari fóðuröflun styrkir landbúnaðinn og stuðlar að fæðuöryggi en jarðræktarstyrkir tryggja ekki endilega að bændur framleiði þá matvöru sem eftirspurn er eftir. Stjórnvöld verða að gæta þess að tapa ekki því frábæra verkfæri sem þau hafa í höndunum núna, sem framleiðslutengdir styrkir eru, til að tryggja fæðuöryggi. Þeir virka vel þegar framleiðslustýringar nýtur við.

Afgerandi afstaða kúabænda

Í grein sinni veltir matvælaráðherra m.a. upp fyrirkomulagi ríkisstuðnings og þar á meðal framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu. Það er fjarri lagi að í fyrsta skipti sé verið að velta upp þeim göllum kvótakerfis í mjólk sem að ráðherra nefnir í greininni. Greiðslu- mark mjólkur og form framleiðslu stýringar hefur í ára- raðir verið umræðuefni meðal bænda og tók nokkurt pláss við gerð síðustu búvörusamninga. Við finnum seint upp hið fullkomna kerfi en kvótakerfið tók þónokkrum breytingum við síðustu endurskoðun sem stuðlar að jafnræði milli bænda auk þess að hámarksverð var sett á kvótann til að sporna við of háu kvótaverði. Í núverandi fyrirkomulagi er söfnunarskylda á markaðsráðandi afurðastöð og flutningsjöfnunarkerfi. Þetta tvennt er mikilvægt til að tryggja að hægt sé að framleiða mjólk um land allt.

Án framleiðslustýringar væri erfitt að halda úti söfnunarskyldu, enda sjáum við að í þeim nágrannaríkjum okkar sem hafa afnumið kvótakerfi í mjólk að afurðastöðvarnar sjálfar setja á nokkurs konar kvótakerfi þar sem mjólkurframleiðendur þurfa að gera við þær samning til að tekið sé á móti mjólkinni. Við myndum að öllum líkindum sjá sömu hluti gerast hér og velti ég fyrir mér hvernig myndi fara fyrir minni og afskekktari búum við slíkar aðstæður.

Það sætir nokkurri furðu að ráðherra viðri hugmyndir um afnám kvótakerfis, sem svo til sama ríkisstjórn og hún situr nú í samþykkti fyrir þremur árum að yrði fest í sessi.

Árið 2019 kusu kúabændur um hvort afnema ætti kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. Tæplega 90% kúabænda tóku þátt og um 90% þeirra kusu að halda í kvótakerfið. Það var síðar lögfest við endurskoðun búvörusamninga sama ár.

Afstaða bænda var afgerandi og er það von mín að ráðherra virði þá afstöðu kúabænda, það hlýtur að vera grundvallaratriði.

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...

Girðingar meðfram vegum
Lesendarýni 25. mars 2024

Girðingar meðfram vegum

Oft eru gáfulegar umræður við kaffiborð í sveitum og þá sérstaklega ef kaffið er...