Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Af Auðhumlu og MS
Lesendarýni 29. janúar 2018

Af Auðhumlu og MS

Höfundur: Birkir Tómasson
Hef ég verið svo lánsamur undanfarin ár að kúabændur í minni sveit hafa treyst mér til setu í fulltrúaráði Auðhumlu og til að hafa þar áhrif á sameiginleg málefni okkar mjólkurframleiðenda. Hefur mér fundist það gefandi, fræðandi og jafnvel skemmtilegt að hafa tækifæri til að setja mig inn í málefni þau sem skipta okkur svo miklu sem raun ber og reynt að leggja til málanna eftir föngum.
 
Það þarf nýja sátt um mjólkuriðnaðinn við stjórnvöld og brýnt að spyrna við og snúa af þeirri braut þjóðnýtingar sem viðgengst á rekstri Mjólkursamsölunnar. Það sjá allir sem vilja sjá.  Fyrirtækinu er naumt sniðinn stakkur með lögbundið lágmarksverð á hráefni og opinbera verðlagningu á vörum, og ekki sé talað um þær skyldur sem settar eru á fyrirtækið vegna markaðsaðstæðna.  Stjórnvöld verða að hafa dug til að taka samtalið og þor til að koma þessum málefnum í viðunandi farveg.  Stjórnvöld verða einnig að hafa í huga mikilvægi starfsstöðva fyrirtækisins á hverjum stað en þar eru stórir vinnustaðir og allir á landsbyggðinni, þetta snýst ekki bara um okkur bændur.   
 
Þó nokkuð hefur reynt á innviði Mjólkursamsölunnar vegna mikillar aukningar á innvigtun og sölu undanfarin ár, ekki síst vegna þess að sú vara sem hvað mest hefur aukist í sölu er verðlögð af verðlagsnefnd undir hráefniskostnaði. Þarf ekki mikinn sérfræðing til að sjá að við svo verður ekki búið um lengri tíma. Þá fer að skila sér að fullu tollasamningur við ESB sem mun þýða aukinn innflutning á ostum, það eitt og sér er í raun verðugt verkefni að takast á við, ekki síst vegna þess að okkar útflutningskvótar sem koma á móti nýtast okkur ekki sem skyldi þegar Bretland gengur úr ESB.   
 
Þegar gefur á er ánægjulegt að við mjólkurframleiðendur höfum haft gæfu til að kjósa okkur trausta stjórn sem gefst ekki upp þótt á móti blási, og mikilvægt að sú stjórn fékk afgerandi kosningu og traust umboð á síðasta aðalfundi Auðhumlu. Þessi stjórn undir formennsku Egils á Berustöðum hefur nú boðað sókn og mikla uppbyggingu í mjólkuriðnaðinum til að auka hagræðingu og ná viðspyrnu í vaxandi samkeppni erlendis frá. Samhliða þessu verður hlutafé MS aukið svo um munar,  það kemur frá okkur bændum í gegnum Auðhumlu og svo frá Ks gagnvart þeirra hlut. Það er þvi enn mikilvægara að við bændur, eigendur fyrirtækisins, sameinumst um rekstur þess og tölum fyrir víðri sátt um fyrirkomulag og afkomu í framleiðslu og vinnslu mjólkurvara. 
 
Á nýlega afstöðnum auka­fulltrúaráðsfundi sammæltust við fulltrúar um að ganga þá braut sem stjórn hafði miðað og leggja í uppbyggingu fyrir miklar fjárhæðir á næstu árum.  Það var ánægjulegt að taka þátt í umræðum um þessi mál og fékk ég þá tilfinningu að eftir sem á fundinn leið þá þéttust raðirnar, samstaðan var að aukast eftir erfiða tíma í nokkur misseri.  Verð að segja að það var að mínu mati kærkomin tilfinning og vona ég að framhald verði á. Enda hvað höfum við ef við höfum ekki samstöðu og samhug um þessamikilvægustu hagsmuni okkar sem felast í Mjólkursamsölunni, gáttina að markaðinum?  
 
Ljóst er að mikil vinna er fram undan hjá okkar frábæra starfsfólki í iðnaðinum til að ná settu marki, en ég er viss um að því verki verður siglt örugglega í höfn. En það þarf einnig að vinna í félagsmálunum og sætta sjónarmið, stjórn verður að mínu mati að setja í gang vinnu við að móta tillögur að framtíðarskipan málefna umframmjólkur sem byggir á umræðum og vinnu undanfarinna fulltrúafunda. Best væri ef tillögur að lausnum gætu legið fyrir á aðalfundi Auðhumlu í vor.  Þar gætu þá fulltrúar afgreitt það mál sem hefur fengið eina mestu umfjöllun allra mála í fulltrúaráðinu síðustu ár. Held það sé forsenda góðrar samstöðu að fá farveg fyrir þetta mál og trúi ég að við munum verða enn sterkari á eftir. – Áfram íslenskur landbúnaður.
 
Birkir Tómasson  
Móeiðarhvoli
Jarðgöng undir Reynisfjall með aðliggjandi láglendisvegi
Lesendarýni 23. nóvember 2023

Jarðgöng undir Reynisfjall með aðliggjandi láglendisvegi

Árið 1984 voru Dyrhólahreppur og Hvammshreppur sameinaðir í einn hrepp, Mýrdalsh...

„Ærnar renna eina slóð“ – Um kindagötur
Lesendarýni 21. nóvember 2023

„Ærnar renna eina slóð“ – Um kindagötur

Göngumanni í íslenskum úthaga er það léttir að ramba á kindagötu. Því má treysta...

Fé smalað með dróna
Lesendarýni 20. nóvember 2023

Fé smalað með dróna

Í haust og fyrrahaust gerði ég tilraunir með að smala með dróna, af svæði sem er...

Samfélagsskuld við bændur
Lesendarýni 10. nóvember 2023

Samfélagsskuld við bændur

Starfsskilyrði bænda hafa verið í umræðunni síðustu daga og vikur. Loksins.

Kolefnisbinding í sauðfjárrækt
Lesendarýni 9. nóvember 2023

Kolefnisbinding í sauðfjárrækt

Á undanförnum árum hefi ég fjallað um kolefnisspor dilkakjöts frá ýmsum hliðum. ...

Borgaralaun fyrir bændur
Lesendarýni 8. nóvember 2023

Borgaralaun fyrir bændur

Núverandi staða bænda er óásættanleg. Stöðugar fréttir berast af því að stór hlu...

Þegar sett eru lög um starfsemi sem í raun fela í sér bann
Lesendarýni 7. nóvember 2023

Þegar sett eru lög um starfsemi sem í raun fela í sér bann

Árið 2011 voru sett lög um skeldýrarækt sem þáverandi formaður Samtaka atvinnulí...

Tillaga um jarðalánasjóð
Lesendarýni 6. nóvember 2023

Tillaga um jarðalánasjóð

Ég legg hér með fram tillögu sem miðar að því að stórlækka fjármagnskostnað og a...