Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Ef ráðleggingarnar eru þær að auka neyslu úr jurtaríkinu, er þá ekki næsta skref að hérlend stjórnvöld vinni að því að matvælaframleiðendur á Íslandi hafi þau tækifæri að efla slíka starfsemi?
Ef ráðleggingarnar eru þær að auka neyslu úr jurtaríkinu, er þá ekki næsta skref að hérlend stjórnvöld vinni að því að matvælaframleiðendur á Íslandi hafi þau tækifæri að efla slíka starfsemi?
Mynd / Dan Gold - Unsplash
Leiðari 23. júní 2023

Í orði og á borði

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri

Nýjar norrænar næringarráðleggingar (NNR23) voru kynntar í vikunni, en þær leggja grunninn að opinberri stefnu um mataræði og grundvallar t.d. ákvörðun yfirvalda á Norðurlöndum um opinber innkaup, s.s. í skólamötuneyti og sjúkrastofnanir.

Guðrún Hulda Pálsdóttir

Núna byggja ráðleggingarnar ekki eingöngu á áhrif mataræðis á heilsufar manna, heldur heyrir til tíðinda að þær taka einnig til áhrifa matvæla á umhverfi. Niðurstaðan er að mælt er með meira mataræði úr jurtaríkinu og minni neyslu á kjöti, mjólkurvörum og eggjum en áður var.

Í aðdraganda útgáfu ráðlegginganna vöktu formenn bændasamtaka allra Norðurlanda athygli Norrænu ráðherranefndarinnar á skorti á vísindalegum grunni og gagnsæi við vinnslu NNR23. Helsta gagnrýni þeirra er að þær taki ekki til sjálfbærni landanna. Minnst er á misræmi á stöðlum þeirra greina og rannsókna sem teknar eru til greina þegar verið er að ná utan um hina yfirgripsmiklu þekkingu sem ráðin byggja á. Í öllu kynningarefni um NNR23 er hins vegar staðhæft að vinna þess sé byggð á gagnsæju ferli og vísindalegum aðferðum. Benda gagnrýnendur hins vegar á undarlega mikil áhrif breskrar hugveitu á umhverfiskafla ráðlegginganna, en sú starfsemi hefur talað fyrir róttækum breytingum á matvælakerfum. Gagnrýnendur segja að í vísindarýni höfundahóps ráðlegginganna hafi t.d. verið dregnar ályktanir út frá meðaltalstölum á heimsvísu í stað þess að byggja á vísindalegri þekkingu út frá landfræðilegri legu Norðurlanda og Balkanskaga.

Martin Haaskjold Inderhaug hjá Animalia AS bendir til dæmis á það í norska miðlinum Forskersonen að við greiningu á útblæstri á neyslu landbúnaðarafurða sé miðað við meðaltalslosunartölur á heimsvísu, sem eru á bilinu 3–5 sinnum hærri en raunlosunartölur dýraafurðaframleiðslu í Noregi. Losun gróðurhúsalofttegunda frá matvælum sé mjög mismunandi eftir svæðum og framleiðslukerfum. Martin staðhæfir að í Noregi sé umtalsvert minni losun frá dýraafurðum eins og kjöti og mjólk en flestum öðrum löndum. Norsku tölurnar sé að finna í birtum vísindagreinum sem auðvelt er að nálgast og erfitt sé að skilja hvers vegna þessar heimildir séu ekki hluti af þeim greinum sem liggja til grundvallar NNR23.

Peter Kullgren, landsbyggðarráðherra Svíþjóðar, er harðorður í aðsendri grein í Aftonbladet þar sem fram kemur að sænska ríkisstjórnin muni eingöngu taka tillit til heilsufarslega hluta næringarráðanna. Hún ætli að stuðla að meiri sjálfbærni landsins og taka mið af náttúrulegum aðstæðum Svíþjóðar til matvælaframleiðslu. Í því felst t.d. aukin kjötframleiðsla og gengur sú stefna þar með í berhögg við NNR23.

Miðað við þá miklu áherslu sem lögð er á neyslu grænmetis, berja, fræja, belgjurta og ávaxta í NNR23 væri æskilegt að velta fyrir sér, hvernig getum við útvegað okkur þessa næringu án þess að treysta um of á innflutning þeirra?

Fyrsta skrefið er augljóst: Að skapa þau skilyrði að grænmetis- og ávaxtarækt geti aukist hér á landi til muna. Eins og fram hefur komið í fyrri tölublöðum Bændablaðsins hafa garðyrkjubændur ekki fengið hljómgrunn hjá samninganefnd stjórnvalda við endurskoðun búvörusamninga um aukinn stuðning við íslenska grænmetisframleiðslu, þrátt fyrir að stjórnarsáttmálinn kveði á um 25% vöxt hans á fáeinum árum. Gjörðir hafa ekki fylgt stóryrtri stefnu.

Fram er nú komið leiðandi skjal sem liggur til grundvallar ákvörðun yfirvalda á Norðurlöndum um opinber innkaup. Ef ráðleggingarnar eru þær að auka neyslu úr jurtaríkinu, er þá ekki næsta skref að hérlend stjórnvöld vinni að því að matvælaframleiðendur á Íslandi hafi þau tækifæri að efla slíka starfsemi?

Græðlingar
Leiðari 8. september 2023

Græðlingar

Skrifað stendur í einu fræðsluriti Skógræktarfélags Íslands að sá plöntuhluti se...

Matvælastofnun
Leiðari 25. ágúst 2023

Matvælastofnun

Seglbúðir, litla sláturhúsið í Landbrotinu, hefur tilkynnt að ekki verði slátrað...

Slump
Leiðari 21. júlí 2023

Slump

Á dögunum sá ég mynd frá garðyrkjubónda sem sinnti kúrbítsplöntum í gróðurhúsi. ...

Upprunamerkingar á veitingastöðum
Leiðari 7. júlí 2023

Upprunamerkingar á veitingastöðum

Við aukna umfjöllun um upprunamerkingar matvæla á undanförnum mánuðum virðist ha...

Í orði og á borði
Leiðari 23. júní 2023

Í orði og á borði

Nýjar norrænar næringarráðleggingar (NNR23) voru kynntar í vikunni, en þær leggj...

Riða
Leiðari 9. júní 2023

Riða

Í þessu tölublaði Bændablaðsins eru heimsóttir bændur á fjórum bæjum, sem urðu f...

Fjársvelt neytendavernd
Leiðari 26. maí 2023

Fjársvelt neytendavernd

Reglugerð nr. 618/2017 fjallar um notkun þjóðfánans við markaðssetningu á vöru o...

Hvað kostar tollvernd?
Leiðari 12. maí 2023

Hvað kostar tollvernd?

Tollvernd er margslungið og frekar óaðgengilegt fyrirbæri. Því er ekki skrítið a...