Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka urðu heimsmeistarar í
tölti og fjórgangi í ungmennaflokki.
Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka urðu heimsmeistarar í tölti og fjórgangi í ungmennaflokki.
Mynd / LH
Af vettvangi Bændasamtakana 14. ágúst 2025

Verðskuldaður árangur

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Heimsmeistaramóti íslenska hestsins lauk í Sviss á dögunum og var árangur íslenska liðsins afar góður. Fyrir hrossabændur og aðra unnendur íslenska hestsins er sérlega ánægjulegt að sjá að upprunaland kynsins sé enn í fremstu röð á mótum sem þessum, en Ísland vann til gullverðlauna í níu keppnisgreinum af fjórtán auk þess sem liðið fékk 10 silfurverðlaun og þrjú bronsverðlaun. Tölthornið var okkar, sem og fyrsti sigur Íslands í slaktaumatölti, og því ekki að undra að liðsbikarinn rann til íslenska liðsins. Glæsilegur árangur í yngri flokkunum og á kynbótabrautinni gefur svo von um áframhaldandi velgengni til lengri tíma.

En árangur sem þessi er ekki sjálfsprottinn, heldur afrakstur þeirrar miklu uppbyggingar sem verið hefur í hrossarækt og -þjálfun síðustu áratugi. Fjárfesting í þessari uppbyggingu verður ekki aðeins mæld í krónum og aurum, heldur líka í tíma, elju og alúð sem íslenskir hrossabændur, -ræktendur og tamningafólk hafa varið í starf sitt og hestana sína í gegnum árin.

Vegna þess að um er að ræða íslenska hestinn er ég ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hversu mikið afrek þetta er, því það er alls ekki þannig að íslenskir knapar séu með forgjöf vegna upprunans. Skráðir hestar hjá Alþjóðasamtökum íslenska hestsins eru ríflega 310.000 og þar af eru 220.000 hestar annars staðar en á Íslandi. Þegar mennskir meðlimir í samtökunum eru skoðaðir er munurinn enn meiri, en af ríflega 65.000 meðlimum eru um 12.500 íslenskir. Þýskir meðlimir í Alþjóðasamtökunum eru ríflega tvöfalt fleiri, eða 26.000 talsins! Þessar tölur sýna ekki bara hve marga unnendur hesturinn okkar á um víða veröld, heldur líka hvað samkeppnin á alþjóðlegum mótum er orðin hörð.

Svo má ekki gleyma því að knaparnir okkar þurfa að segja skilið við hrossin sín að keppni lokinni, því ekki má koma með þau heim aftur. Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfari orðaði það vel í viðtali á Bylgjunni. „Við erum að fara með bestu hestana okkar, sem er tveggja, þriggja, fjögurra eða jafnvel fimm ára þjálfunarferli að baki og eru búnir að vinna til fjölda verðlauna hér á landi. Síðan eru þau látin af hendi og nýir eigendur eru andstæðingar og keppninautarnir sem mæta jafnvel á næsta mót á þeim sum hver.“ Sigurbjörn hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að það sé svolítið mismunandi gefið á garðann hvað þetta varðar.

Í ljósi alls ofangreinds verður árangur íslenska liðsins enn glæsilegri og markverðari. Það er mikilvægt að við höldum áfram þessari góðu vinnu og missum ekki dampinn. Við höfum alla burði til að halda forystuhlutverki okkar í heimi íslenska hestsins og það er til mikils að vinna.

Gleymum því nefnilega ekki hvað íslenski hesturinn er orðinn stór hluti af ímynd Íslands út á við. Í markaðsefni ferðaþjónustufyrirtækja sem flytja hingað erlenda ferðamenn er mergð fallegra mynda og myndbanda, en það er samt svo að nær hvert einasta slíkt fyrirtæki notar myndir af íslenska hestinum (og raunar sauðkindinni líka) í sínum auglýsingum.

Ástæðan er sú að þessar myndir hafa áhrif. Íslenski hesturinn laðar að ferðamenn og leikur því lykilhlutverk í tveimur af höfuðatvinnugreinum íslensks samfélags, landbúnaði og ferðaþjónustu.

Nauðsyn þín er tekjulind okkar
Lesendarýni 26. janúar 2026

Nauðsyn þín er tekjulind okkar

Einhvers konar skattheimta er óhjákvæmilegur hluti samfélags. Skattar eru ekki v...

Fornleifar og skógrækt
Lesendarýni 26. janúar 2026

Fornleifar og skógrækt

Fornleifar kunna að þykja áhugaverðar, enda oft gaman að horfa til baka um farin...

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?
Lesendarýni 26. janúar 2026

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?

Við Íslendingar framleiðum margvíslegan úrgang, allt frá heimilis- og iðnaðarúrg...

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...