Tilgangur landbúnaðarkerfisins
Eins og bændur vita renna núgildandi búvörusamningar út á næsta ári og ber ég vonir til að vinna við gerð nýrra samninga hefjist nú þegar í haust. Ég tel mikilvægt að þessi vinna hefjist nægilega snemma svo rými sé til íhugunar og vandaðra vinnubragða, ekki síst ef samið verður til langs tíma eins og síðast.
Við upphaf slíkrar vinnu er gagnlegt að fara alveg ofan í grunninn á málinu og skoða tilgang vinnunnar – af hverju erum við með landbúnaðarkerfi sem byggir á opinberum stuðningi og af hverju er formið á því eins og það er?
Margar ástæður eru fyrir því af hverju stjórnvöld og íslenska þjóðin hafa séð hag sínum borgið með því að efla og styðja við íslenska bændur og íslenska matvælaframleiðslu. Þær eru menningarlegar, hagrænar, rökrænar og tilfinningalegar. Öflugur landbúnaður er forsenda þess að dreifbýli haldist í byggð, sem er svo forsenda fyrir stórum hluta ferðaþjónustunnar. Íslenskur landbúnaður, sveitin og maturinn er mikilvægur og óaðskiljanlegur hluti íslensks samfélags og menningar og þá hefur fæðuöryggi sjaldan verið jafn oft í almennri umræðu og einmitt nú.
Svo mætti lengi telja, en mikilvægasta ástæðan er sú að íslenskir neytendur vilja íslenskan mat. Fólk vill neyta matar sem framleiddur er á Íslandi úr íslenskum landbúnaðarafurðum. Og þetta er ekki innantóm fullyrðing, heldur sýna kannanir og kauphegðun fólks svo ekki verður um villst að neytendur vilja íslenskar afurðir.
Enda eru íslenskar landbúnaðarafurðir einstakar hvað varðar bragð, heilnæmi og gæði almennt. Hvergi á Vesturlöndum er sýklalyfjanotkun minni en hér og í íslenskum afurðum er magn óæskilegra snefilefna lægra en nánast alls staðar annars staðar. Orkan okkar er umhverfisvæn og endurnýjanleg og flutningsleiðir eru stuttar, sem hefur áhrif á kolefnissporið okkar.
Við bændur erum réttilega stoltir af afurðum okkar og gleðjumst yfir því hversu eftirsóttar þær eru af íslenskum almenningi, en við eigum í harðri samkeppni við innflutta matvöru, matvöru sem framleidd er við aðrar aðstæður en þeim sem við búum við, þar sem kröfur til lyfja- og efnanotkunar eru aðrar og slakari en hér. Og ekki er hægt að horfa fram hjá því að þessi erlenda matvara byggir öll á ríkulegum opinberum styrkjum framleiðslulandanna.
Megintilgangur landbúnaðarkerfisins er að tryggja sanngjarna samkeppnisstöðu íslenskra bænda gagnvart innfluttum matvælum og þar með tryggja íslenskum neytendum raunverulegt val þegar kemur að því að kaupa mat fyrir fjölskylduna.
Orðið „sérhagsmunir“ stingur reglulega upp kollinum þegar landbúnaðarkerfið er til umræðu og þá venjulega til að ýja að því að landbúnaðarkerfinu sé ætlað að verja slíka hagsmuni á kostnað almannahagsmuna. En þar er raunveruleikanum snúið á haus, því kerfi sem er ætlað að tryggja almenningi aðgengi að öruggri, hollri og umhverfisvænni fæðu og bændum og fjölskyldum þeirra sómasamlega afkomu er að þjóna hinum raunverulegu almannahagsmunum.
Ef rétt er á málum haldið er hægt að ná búvörusamningum sem munu styðja við aukna framleiðslu, meiri nýsköpun og meiri verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði. Ég hlakka til þessarar vinnu og ber þá von í brjósti að hún muni skila marktækum árangri, svo lengi sem báðir aðilar missa ekki sjónar á stóru myndinni, íslenskum bændum og íslenskum neytendum.