Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Ellert frá Baldurshaga er glæsilegur hestur.
Ellert frá Baldurshaga er glæsilegur hestur.
Mynd / Liga Liepina
Á faglegum nótum 24. janúar 2024

Óvenjuleg litaafbrigði út af Ellerti frá Baldurshaga

Höfundur: Páll Imsland. Höfundur er jarðfræðingur & áhugamaður um íslenska húsdýrastofna.

Það er eitt af markmiðunum í íslenskri hrossarækt að viðhalda erfðabreidd í stofninum. Það gengur þó ekki vel því framkvæmd ræktunarstefnunnar er þannig háttað og henni fleytt þannig fram að hún þrengir í raun sífellt að erfðabreiddinni. Það er því meira en lítill viðburður þegar fæðist hross sem færir nýjan erfðaþátt inn í stofninn og auðgar hann þannig að erfðabreidd. En það gerðist einmitt austur í Landeyjum fyrir áratug.

Hinn 1. júní 2013 kastaði Kengála frá Búlandi sínu síðasta folaldi. Strax var ljóst að hér kom í heiminn óvenjulegur gripur, svona litmynstur hafði enginn séð hér áður. Þetta mynstur fékk síðan nafnið ýruskjótt. Það lýsir sér þannig, að haus er mikið til hvítur, breið- eða glámblesóttur og jafnvel hjálmóttur og augun eru yfirleitt með ísbláu mynstri, hringjum eða vöglum. Lappir eru hvítar, yfirleitt hátt upp á leggi eða alveg undir kvið. Bolurinn er hins vegar í lit en einkennist af því að í litaða hlutanum eru hvítar yrjur í mismiklu magni. Þessar yrjur gefa mjög sérkennandi útlit, ólíkt því sem við erum vön í íslenskum hrossum.

Þessi óvenjulega útlítandi foli hlaut nafnið Ellert og er frá Baldurshaga, IS2013180518, ræktaður og í eigu Baldurs Eiðssonar. Ellert er bleikálóttur ýruskjóttur. Hann er nú reyndur, bæði sem reiðhestur og stóðhestur og hefur reynst fyrirmyndargripur í alla staði. Í tilefni af tíu vetra afmæli Ellerts og af þeirri reynslu sem á hann er komin og í ljósi þess framlags sem hann hefur lagt hrossastofninum til, ákváðu Hrossaræktarsamtök Suðurlands að heiðra Ellert með verðlaunabikar á haustráðstefnu Fagráðs í hrossarækt hinn 3. desember síðastliðinn.

Fjölbreytt ásýnd ýruskjótts

Ellert er, séður í þessi ljósi, án efa einn merkilegasti, ef ekki sá almerkilegasti, hestur sem hér á landi hefur fæðst. Hross sem minna á ýruskjótt og eru með svipað mynstur og Ellert eru þekkt í nokkrum hrossastofnum en eru ekki með nákvæmlega sömu erfðagerð og Ellert.

Ellert er undan frábærum foreldrum og með sterkar ættir á bak við sig. Faðir hans er Sær frá Bakkakoti, sem er Orrasonur undan hinni frægu Ófeigsdóttur Sælu frá Gerðum. Svo er Ellert undan Kengálu frá Búlandi, sem á Kolskegg frá Kjarnholtum að afa í báðum ættum. Sjálfur er Ellert fyrirmyndar AA-hestur, sýndur upp á 8,27 fyrir kynbótadómi (aðaleink. 8,4 án skeiðs og 8,32 fyrir hæfileika án skeiðs). Undan Kengálu er einnig stóðhesturinn Arthúr frá Baldurshaga, AA-hestur sem hlotið hefur einkunnina 8,69 fyrir kynbótadómi (aðaleink. 9,12 án skeiðs og 9,30 fyrir hæfileika án skeiðs).

Ellert hefur þegar eignast um 200 afkvæmi (um 170 eru nú í WorldFeng). Sumarið 2023 hefur einnig heilmikið af afkvæmum Ellerts, bæði hryssum og folum eignast afkvæmi og það er eiginlega fyrst með þeim sem við förum að sjá alls konar fjölbreytileika í ásýnd ýruskjótts.

Við megum eiga von á því að á næstu árum sjáum við af og til afkomendur Ellerts sem bera ytri einkenni í lit og mystrum sem við erum ekki vön og höfum ekki séð fyrr. Nú fara t.d. að koma í ljós afkomendur hans og hryssa sem bera rautt litarefni, rautt, bleikt og leirljóst og sameina það ýruskjóttu, en Ellert gefur þá liti ekki sjálfur. Hann gefur aðeins brúnt litarefni og þar af leiðandi aðeins grunnlitina brúnt og jarpt og lýstu litina móálótt og bleikálótt, moldótt, vindótt og muskótt (glóbrúnt). Muskótt ýruskjótt hefur reyndar ekki fæðst enn enda er muskótt vandræktaður litur.

Jöklalína frá Sölvholti, undan Valentínusi, syni Ellerts, er jörp ýruskjótt. Hún er líklega einnig með gen fyrir bæði slettuskjóttu og hefðbundnu flekkjaskjóttu og er með stóra jarpa varstjörnu. Mynd / PI

Einnig er ljóst orðið að ýruskjótta mynstrið tekur á sig mjög breytilegt útlit með tilliti til þess hversu mikill hluti háranna á kroppnum er hvítur og hversu mikið er í lit. Yrjurnar á bolnum geta þakið allt frá því nærri 100% og niður undir 0%. Ýruskjóttu hrossin eru því afar misdökk á bolinn. Ekki hafa enn fæðst folöld undan báðum foreldrum ýruskjóttum, svo enn vitum við ekki hvaða mynd arfhreint ýruskjótt mynstur tekur á sig. Að því kemur þó í framhaldi ræktunarinnar á ýruskjóttu að þetta gerist og verður gaman að sjá árangurinn.

Varteiknin sjaldgæfu

Það eru þegar komin í heiminn tvö folöld út af Ellerti sem bera afar sérkennileg mynstur, mynstur sem sjaldan hafa sést fyrr í íslenskum hrossum. Þetta eru svo kölluð varmynstur eða varteikn, varblesa og varstjarna í þessum tilvikum.

Varteikn eru í útliti eins konar andhverfa hvítra smámynstra á haus hrossa, blesa, stjarna og svo framvegis. Útlitsmunurinn er sá að varteiknin eru í lit, sama lit og hrossið, en hvítt er umhverfis þau. Svo virðist sem varteikn eigi auðveldra uppdráttar í hrossum með skjóttar erfðir en í einlitum. Ef til vill eiga þær líka auðveldara uppdráttar með ýruskjóttu en öðrum skjóttum mynstrum, en það verður framtíðin að leiða í ljós.

Annað þessara varmynstra er í fola frá síðastliðnu vori, Prins Greifa frá Baldurshaga, sem mynd er af á forsíðu blaðsins, en hann er brúnn ýruskjóttur með svarta varblesu á hvítum haus. Þetta er eftir því sem best er vitað fyrsta varblesan sem sést hefur á íslensku hrossi.

Prins Greifi er undan Ellertssyninum Ófeigi frá Baldurshaga sem er móálóttur ýruskjóttur og Ekkju frá Nesi sem er sótrauð, vindfext, breiðblesótt og leistótt, arfblendin slettuskjótt.

Prins Greifi frá Baldurhaga, undan syni Ellerts, fæddur vorið 2023, er brúnn ýruskjóttur og með varblesu. Varteikn eða varmynstur eru sjaldgæf og má lýsa útliti þeirra sem eins konar andstæðu venjulegra hvítra teikna eða smámynstra sem koma fyrir á haus hrossa. Teiknið ber þá sama lit og hrossið en er umlukið hvítu. Mynd / María Guðný Rögnvaldsdóttir

Hitt varmynstrið er í jarpri skjóttri hryssu, Jöklalínu, fæddri í Sölvholti síðastliðið vor. Jöklalína er mikið hvít með nokkra smáa jarpa og jarpyrjótta flekki og svo stóra jarpa varstjörnu á hvítum haus. Jöklalína er undan Ellertssyninum Valentínusi frá Sölvholti, sem er jarpur og bæði ýruskjóttur og litföróttur, fyrsta hrossið sem ber ýruskjótt og litförótt mynstur saman. Svo er Jöklalína undan Heklu frá Sölvholti sem er jörp skjótt og slettuskjótt. Jöklalína er einstök að tvennu leyti, bæði fyrir að bera varstjörnuna og fyrir það að hún ber að öllum líkindum gen fyrir öllum þrem skjóttu mynstrunum sem finnast í íslenska hrossastofninum, hefðbundnu flekkjaskjóttu, slettuskjóttu og ýruskjóttu.

Tilkomur þessara tveggja folalda með varmynstur eða varteikn gefa líklega vísbendingu um að við eigum eftir að sjá fleira óvenjulegt á næstu árum í ræktun út af Ellerti. Enda er það eðli málsins að með annarri, þriðju og síðari kynslóðum komi fleira í ljós en í fyrstu kynslóðinni.

Þá fara ýruskjóttu erfðirnar að spila með fleiri og fleiri litum og litmynstrum og möguleikarnir í fjölbreytni vaxa. Við eigum enn eftir að sjá afkvæmi ýruskjótts og grás og ýruskjótts og arfhreins slettuskjótt, svo dæmi séu tekin um möguleika sem gefið gætu eitthvað óvenjulegt. Flest bendir til þess að á síðastliðnu sumri hafi fæðst fyrsta rauða ýruskjótta folaldið. Það er folinn Árdagur frá Sölvholti, sem er rauður breiðblesóttur og sokkóttur en sýnir, a.m.k. enn þá, nánast engar yrjur, en samkvæmt erfðum og litum foreldranna ber hann ýruskjóttar erfðir.

Valentínus frá Sölvholti, undan Ellerti og Gerplu frá Kaldbak, er fyrsta folaldið sem fæðist ýruskjótt og litförótt. Hann ber jarpan grunnlit. Mynd / PI

Árdagur er undan Valentínusi, sem fyrr er nefndur og Þrumu frá Sölvholti sem er muskótt vindótt. Það er líka möguleiki á að fyrsta leirljósa ýruskjótta folaldið hafi fæðst í Sölvholti, folinn Ljósvaki sem er einnig undan Valentínusi á móti Glæru frá Sölvholti sem er föl, arfhrein leirljós.

Ljósvaki er leirljós, blesóttur, hásokkóttur, en yrjur er erfitt að greina enda er leirljós feldur mjög ljós. Litarmunur var mun meiri á honum nýfæddum en síðar varð. Ef þetta er rétt eigum við bara eftir að sjá ýruskjótta mynstrið með bleikum og muskóttum lit.

Árdagur frá Sölvholti, undan Valentínusi og Þrumu frá Sölvholti, er fyrsta rauða ýruskjótta folaldið.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...