Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Ef horft er til afdrifa fæddra kálfa þá voru 64,8% nautkálfanna settir á til lífs.
Ef horft er til afdrifa fæddra kálfa þá voru 64,8% nautkálfanna settir á til lífs.
Á faglegum nótum 11. mars 2024

Nokkrar tölur úr skýrsluhaldi mjólkurframleiðslunnar 2023

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt.

Fyrir skömmu var gerð grein fyrir niðurstöðum skýrsluhalds nautgriparæktarinnar hvað afurðir varðar en ýmsa meiri tölfræði er að finna í gagnagrunni skýrsluhaldsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir nokkrum þeirra.

Guðmundur Jóhannesson.

Fyrir að verða aldarfjórðungi kom fyrsti mjaltaþjónninn til notkunar hérlendis og síðan hefur orðið sprenging í útbreiðslu þeirra samhliða breytingum á framleiðsluaðstöðu. Á síðasta ári (2023) var svo komið að 54,4% búanna notuðu þessa mjaltatækni. Á þessum búum standa 70,9% kúnna og þau framleiddu 73,2% allrar innlagðrar mjólkur eða nálægt þremur fjórðu hlutum. Þetta er eftir því sem ég kemst næst hæsta hlutfall mjaltaþjóna í heiminum. Þarna hefur orðið mikil breyting á aðeins fimm árum en árið 2019 voru mjaltaþjónar á 40,6% búa og 54,6% kúnna voru mjólkaðar með þessari tækni.

Förgunarástæður kúnna á síðastliðnu ári voru um margt áþekkar og fyrri ár. Júgurbólga er tilgreind sem aðalástæða hjá flestum kúnna, eða 21,5%. Næstalgengasta förgunarástæðan er ófrjósemi eða kýrnar hafi ekki fest fang sem er tilgreint í 17,9% tilfella og því næst eru litlar afurðir sem eru aðalástæða förgunar í 10,0% tilvika. Aðrar ástæður eru sjaldgæfari, af þeim má nefna júgurgalla (7,9%), áföll við burð (4,3%) og há frumutala (4,1%). Baráttan við júgurbólguna er því sem fyrr aðalförgunarvaldurinn ásamt því að ekki tekst að koma kálfi í kýrnar.

Förgunarástæður kvígna á árinu 2023 eru líkt og fyrri ár tengdar ófrjósemi eða því að ekki tókst að koma kálfi í þær. Af þeim kvígum sem fargað var á árinu var 46% fargað vegna þessa og þær voru að meðaltali 963 daga gamlar. Það verður því ekki sagt annað en fullreynt hafi verið með þær. Aðrar ástæður eru fyrst og fremst þær að kvígurnar farast heima á búi eða þá að þeim er fargað af ýmsum orsökum. Samtals voru það rúmlega 1.800 kvígur sem var fargað eða þær drápust á árinu. Miðað við að ásetningur kvígna er um 10 þús. á ári hverju eru þetta hátt í 20% sem ná því ekki að verða mjólkurkýr og a.m.k. helmingur þeirra vegna þess að þær festa ekki fang.

Alls voru greind 199 þús. kýrsýni á árinu frá 487 búum. Samkvæmt reglugerð um stuðning í nautgriparækt þarf að skila kýrsýnum 8 sinnum á ári. Í fyrra var meðalfjöldi kýrsýnataka 8,6 á bú en nokkur breytileiki milli búa, eða frá 5 til 12 skipti yfir árið. Alls var 34.151 kýr skýrslufærð á árinu þannig að þetta jafngildir 5,8 sýnum á kú til jafnaðar, eða 7,9 sýni á árskú. Það sýnir okkur að þátttaka í sýnatöku er góð þó auðvitað megi gera betur. Þær mælingar sem kýrsýnin gefa eru mikilvægt tæki við bæði bústjórn og í ræktunarstarfinu. Mikilvægt er að sýnatakan sé framkvæmd með reglubundnum hætti og að vandað sé til hennar.

Kynhlutfall fæddra kálfa var eins og fyrr skekkt en áþekkt og verið hefur. Nautkálfar voru 53,2% fæddra kálfa samanborið við 53,1% árið áður. Ef horft er til afdrifa fæddra kálfa þá voru 64,8% nautkálfanna settir á til lífs. Þetta hlutfall er ívið lægra en árið þegar hlutfallið var 66,2%. Hlutfall þeirra nautkálfa sem slátrað er nýfæddum hækkar eilítið milli ára, eða í 14,5% úr 14,0%. Samdráttur í ásetningi nautkálfa á sér án efa skýringu í slakri afkomu nautakjötsframleiðslunnar. Af nautkálfunum fæðast 17,3% dauðir eða farast í fæðingu og 2,7% þeirra drepast innan 20 daga frá fæðingu. Á árinu 2022 voru þessi hlutföll 16,2% og 3,1%. Ef litið er til afdrifa kvígukálfanna eru 85,5% þeirra settar á til lífs en þetta hlutfall var 86,0% árið áður. Förgun nýfæddra kvígna er svo gott sem óþekkt fyrirbæri en 0,7% er slátrað nýfæddum og er engin breyting frá fyrra ári þegar 0,8% var fargað. Hlutfall þeirra kvígna sem fæðast dauðar eða drepast í burði er 11,8% en var 10,9% árið áður.

Þær kvígur sem drepast innan við 20 daga aldur telja 1,7% sem er sama hlutfall og 2022.

Á þessu má sjá að úr þeim kálfadauða sem verið hefur viðvarandi hefur ekki dregið, því miður. Rétt er að taka fram að engar vísbendingar eru um að skráningar séu með þeim hætti að kálfar sem fargað er heima séu skráðir dauðfæddir þannig að skýringanna er ekki að leita í þeim þætti. Ekki hefur tekist að finna skýringu á miklum fjölda dauðfæddra kálfa hérlendis, sem er mun meiri við 1. burð en seinni burði, þó víða hafa verið leitað. Ljóst er þó af þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið að skýringanna er ekki að leita í neinu einu ákveðnu heldur koma fleiri en einn þáttur að. Þar má nefna erfðaþátt en fundist hefur arfgengi þó lágt sé.

Nú er í gangi verkefni þar sem greina á erfðamengi dauðfæddra kálfa með það í huga að mögulega megi finna mein- og/eða banagen í stofninum. Um hvort svo sé er þó of snemmt að fullyrða eitthvað. Annar þáttur er almenn bústjórn. Í könnum sem RML framkvæmdi meðal bænda fyrir nokkrum árum kom í ljós að tíðni dauðfæddra kálfa var meiri þar sem áætlaður burðartími 1. kálfs kvígna var ekki þekktur og að verklag kringum burð virtist einnig hafa áhrif. Þannig virtist tíðni dauðfæddra kálfa vera meiri á búum þar sem kýr og kvígur voru settar í burðarstíu eftir að burðarferli hófst. Einn þátt enn er rétt að nefna og það er stærð kálfa en stærri fæddum kálfum hlýtur að öllu jöfnu að fylgja erfiðari burður. Þar kemur einkum þrennt til. Í fyrsta lagi kann að vera svo að við fóðrum kvígurnar ekki rétt frá fangi að burði. Í öðru lagi er það þekkt að ákveðin naut gefa stærri fædda kálfa en önnur og í þriðja lagi eru það áhrif móðurinnar sem geta verið með þeim hætti að þær gefi sjálfar stóra kálfa eða bygging þeirra sé þannig að burður verði erfiður.

Í þessu sambandi eiga þær einkunnir sem nú eru birtar fyrir burð feðraáhrif og burð móðuráhrif að geta hjálpað okkur og í það minnsta eigum við ekki að nota naut með lága einkunn fyrir burð feðraáhrif á kvígur.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...