Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Bjarki 15011 frá Akri.
Bjarki 15011 frá Akri.
Á faglegum nótum 30. mars 2020

Nautakosturinn sjaldan verið öflugri en nú

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson ábyrgðarmaður í nautgriparækt - mundi@rml.is

Fagráð í nautgriparækt fundaði í lok febrúar og tók ákvörðun um hvaða naut verða í dreifingu á næstu mánuðum. Þau reyndu naut sem voru og verða áfram í dreifingu standa vel við fyrri dóma og óverulegar breytingar urðu á mati þeirra við keyrslu kynbótamats að loknu uppgjöri ársins 2019. Því verða þau öll áfram í notkun utan það að ákveðið var að taka Svan 14068 úr dreifingu en hann gefur full lágfættar kýr, nokkuð sem fellur ekki að smekk nútíma bænda og því var notkun hans dræm.

Risi 15014 frá Syðri-Bægisá.

Naut sem verða áfram í notkun

Við skulum skoða aðeins nánar og fara nokkrum orðum um þau reyndu naut sem áfram verða í notkun. Rétt er að hafa í huga að nú gengur mjög á birgðir úr Sjarma 12090, Jörfa 13011 og Hálfmána 13022 og líklegt að sæði úr þeim verði uppurið á komandi vikum.

Bakkus 12001 lækkaði um eitt stig og stendur nú 112. Þetta er öflugt naut þar sem mikið er að sækja í góðar mjaltir og úrvalsgott skap. Nokkur umræða hefur verið um að  Bakkus gefi útstæða framspena. Það skal því upplýst hér að af 79 skoðuðum dætrum er ein (1,3%) með 6 í einkunn, 54 (68,4%) með 5 í einkunn, 17 (21,5%) með 4 í einkunn, 5 (6,3%) með 3 í einkunn og 2 (2,5%) með 2 í einkunn. Þannig getum við flokkað 8,8% dætra Bakkusar þannig að staða framspena sé alvarlegur galli og þessi harða umræða því dálítið ómakleg í hans garð.

Pipar 12007 stendur í stað í 109. Hann sækir styrk sinn í há efnahlutföll og góða júgur- og spenagerð ásamt mjöltum.

Loki 12071 stóð einnig í stað með 107. Þarna er á ferðinni gott naut sem gefur góða júgurgerð og mjaltir án verulegra galla hvað aðra eiginleika snertir.

Sjarmi 12090 styrkti sína stöðu á nýjan leik, hækkaði um tvö stig og er í 113. Sjarma þarf vart að kynna enda hér á ferðinni besta naut 2012 árgangsins.

Dúett 12097 lækkaði um eitt stig og stendur nú í 106. Dúett er fyrst og fremst sterkur í verðefnum í mjólk ásamt því að gefa fínar mjaltir.

Jörfi 13011 styrkti sína stöðu, hækkaði um eitt stig og stendur nú í 112. Hér er á ferðinni úrvalsnaut með jákvætt mat í öllum eiginleikum, gefur há efnahlutföll og frábæra júgurgerð en þar er hann hæstur allra nauta landsins.

Hálfmáni 13022 lækkaði um eitt stig og stendur í 111. Úrvalsnaut sem gefur mjólkurlagni, há efnahlutföll, góða júgurgerð, mjaltir og frábært skap.

Bárður 13027 lækkaði um eitt stig og stendur nú með 106. Styrkur Bárðar liggur í háu fituhlutfalli og stórgóðu skapi.

Ýmir 13051 hækkar um eitt stig og stendur nú í 111. Styrkleikar Ýmis liggja í mjólkurmagni júgur- og spenagerð ásamt mjöltum og  skapi en Akkillesarhæll hans eru efnahlutföllin.

Steri 13057 stendur í 111 eftir hækkun um eitt stig. Steri er afurðanaut þar sem efnahlutföll eru há en júgurgerð og mjaltir draga hann niður.

Hæll 14008 hækkar um eitt stig, upp í 108. Styrkleikana sækir Hæll einkum í afurðir, bæði magn og efnahlutföll, og júgurgerð.

Hnykkur 14029 lækkar um tvö stig er er nú með 105. Hnykkur er afurðanaut sem gefur góða júgurgerð.
Kláus 14031 stendur í stað í 110. Þetta naut er einkum afurðanaut og sækir það í mikið magn ásamt góðu skapi.

Stáli 14050 lækkar um eitt stig og fer í 107. Styrkur Stála er einkum mikil mjólkurafköst en einnig skartar hann góðri júgurgerð dætra.

Ný reynd naut í notkun

Til notkunar sem ný reynd naut koma nú sex naut, eitt úr 2014 árgangi og fimm úr 2015 árgangi. Greinilegt er að synir Laufáss koma sterkir úr afkvæmaprófun og virðast helt yfir gefa feikimiklar mjólkurkýr með góðar mjaltir. Hér á eftir fer nánari lýsing á dætrahópum þessara nauta.

Vals 14087 frá Brúnastöðum.

Vals 14087 er frá Brúnastöðum í Flóa, f. Laufás 08003, m. Hvönn 772, mf. Flói 02029. Dætur Vals eru gríðarlega mjólkurlagnar kýr með góð efnahlutföll í mjólk. Þetta eru stórar og háfættar kýr, boldjúpar en ekki útlögumiklar með nokkuð veika yfirlínu. Malirnar eru meðalbreiðar, beinar og þaklaga. Fótstaða er sterkleg en heldur þröng. Júgurgerðin er í góðu meðallagi, júgurband ekki sérlega áberandi en þau eru vel borin. Spenar eru vel gerðir, lengri og þykkari en meðallag án þess að geta talist grófir. Mjaltir eru góðar og mjaltagallar sjaldgæfir. Skap þessara kúa er gott. Meirihluti afkvæma Vals er tvílitur þar sem mest ber á huppóttum og skjöldóttum. Af grunnlitum eru bröndóttir litir algengastir þó allir litir komi fyrir. Undan Vals geta komið hyrndir gripir.

Kætir 15004 frá Núpstúni.

Kætir 15004 er frá Núpstúni í Hrunamannahreppi, f. Toppur 07046, m. Skræpa 294, mf. Síríus 02032. Dætur Kætis eru mjólkurlagnar kýr með mjög há efnahlutföll í mjólk. Þetta eru meðalstórar og í meðallagi háfættar kýr, hvorki boldjúpar né útlögumiklar en með sterka yfirlínu. Malirnar eru fremur breiðar, beinar og flatar. Fótstaða er sterkleg og gleið. Júgurgerðin er mjög góð, júgurband nokkuð áberandi, festa mikil og þau mjög vel borin. Spenar eru vel gerðir, frekar stuttir, grannir og aðeins gleitt settir. Mjaltir eru góðar og mjaltagallar fátíðir. Skap þessara kúa er mjög gott. Nánast öll afkvæmi Kætis eru tvílit þar sem mest ber á huppóttum og skjöldóttum. Af grunnlitum eru rauðir litir algengastir þó allir litir nema gráir komi fyrir. Undan Kæti geta komið hyrndir gripir.

Bjarki 15011 er frá Akri í Eyjafirði, f. Laufás 08003, m. Fura 505, mf. Ás 02048. Dætur Bjarka eru gríðarlega mjólkurlagnar kýr með efnahlutföll í mjólk undir meðallagi. Þetta eru frekar stórar og nokkuð háfættar kýr, hvorki boldjúpar né útlögumiklar en með beina yfirlínu. Malirnar eru grannar, beinar og þaklaga. Fótstaða er sterkleg og gleið. Júgurgerðin er mjög góð, júgurband áberandi, festa í meðallagi og þau mjög vel borin. Spenar eru vel gerðir, frekar stuttir, grannir og aðeins gleitt settir. Mjaltir eru úrvalsgóðar og mjaltagallar fátíðir. Skap þessara kúa er mjög gott. Um þriðjungur afkvæma Bjarka er tvílitur þar sem mest ber á huppóttum. Af grunnlitum eru rauðir og bröndóttir litir algengastir þó allir litir komi fyrir. Ekki er þekkt að Bjarki gefi hyrnd afkvæmi.

Risi 15014 frá Syðri-Bægisá í Öxnadal, f. Laufás 08003, m. Móa 414, mf. Hjarði 06029. Dætur Risa eru gríðarmiklar mjólkurkýr með hátt fituhlutfall í mjólk en próteinhlutfall í tæpu meðallagi. Þetta eru stórar og í meðallagi háfættar kýr, boldjúpar og útlögumiklar með veika yfirlínu. Malirnar eru meðalbreiðar, beinar og þaklaga. Fótstaða er sterkleg og gleið. Júgurgerðin er meðalgóð, júgurband nokkuð áberandi, festa í tæpu meðallagi og þau í meðallagi borin. Spenar eru vel gerðir, frekar stuttir, grannir og aðeins gleitt settir. Mjaltir eru góðar og mjaltagallar fátíðir. Skap þessara kúa er mjög gott. Mikill meirihluti afkvæma Risa er tvílitur þar sem mest ber á huppóttum og skjöldóttum. Af grunnlitum eru rauðir litir algengastir þó allir litir nema gráir komi fyrir. Ekki er þekkt að Risi gefi hyrnd afkvæmi.

Golíat er frá Keldudal í Hegranesi, f. Laufás 08003, m. Emma 738, mf. Bolti 09021. Dætur Golíats eru geysilegar mjólkurkýr með lágt fituhlutfall í mjólk en próteinhlutfall er hátt. Þetta eru mjög stórar og háfættar kýr, boldjúpar með meðalútlögur og fremur veika yfirlínu. Malirnar eru meðalbreiðar, hallandi og þaklaga. Fótstaða er sterkleg en nokkuð þröng. Júgurgerðin er góð, júgurband nokkuð áberandi, festa í góðu meðallagi og þau mjög vel borin. Spenar eru vel gerðir, hæfilega langir, aðeins grannir og örlítið gleitt settir. Mjaltir eru góðar og mjaltagallar fátíðir. Skap þessara kúa er meðalgott. Mikill meirihluti afkvæma Golíats er tvílitur þar sem mest ber á huppóttum og skjöldóttum. Af grunnlitum eru bröndóttir litir algengastir þó allir litir komi fyrir. Undan Golíat geta komið hyrndir gripir.

Jólnir 15022 frá Reykjahlíð.

Jólnir er frá Reykjahlíð á Skeiðum, f. Bambi 08049, m. Borgey 638, mf. Sússi 05037. Dætur Jólnis eru miklar mjólkurkýr með góð efnahlutföll í mjólk. Þetta eru fremur stórar og í meðallagi háfættar kýr, boldjúpar með miklar útlögur og sterka yfirlínu. Malirnar eru meðalbreiðar, beinar og nokkuð flatar. Fótstaða er sterkleg en eilítið þröng. Júgurgerðin er mjög góð, júgurband nokkuð áberandi, festa góð og þau vel borin. Spenar eru vel gerðir, fremur stuttir, aðeins grannir en mjög vel settir. Mjaltir eru mjög góðar og mjaltagallar fátíðir. Skap þessara kúa er meðalgott. Meirihluti afkvæma Jólnis er tvílitur þar sem mest ber á huppóttum og skjöldóttum. Af grunnlitum eru rauðir og bröndóttir litir algengastir þó allir litir nema gráir komi fyrir. Undan Jólni geta komið hyrndir gripir.

Nautsfeður

Ákveðið var að áfram verði Pipar 12007, Jörfi 13011, Hálfmáni 13022, Ýmir 13051 og Kláus 14031 í notkun sem nautsfeður en bíða frekari reynslu af nautum fæddum 2015.

Nautakosturinn öflugur

Ef litið er yfir sviðið og kostir og gallar þeirra nauta sem verða í dreifingu næstu mánuði er ljóst að nautakosturinn hefur sjaldan eða aldrei verið jafnsterkur og öflugur og nú. Bændum standa til boða mjög góðir valkostir hvað snertir flesta ef ekki alla eiginleika. Heilt yfir eru nautin mjög öflug hvað afurðaþætti snertir og sjaldan eða aldrei hafa eins góðir valkostir varðandi júgurgerð staðið til boða. Eins og ávallt þarf að horfa til þeirra kúa sem para á nautin við og velja saman gripi með tilliti til bæði kosti og galla sem og ætternis. Við eigum ekki að láta kylfu ráða kasti heldur vega þetta og meta eða þá fá aðstoð ráðunauta til pörunar gripanna. Það getur borgað sig til lengri tíma litið. Kynbætur eru langhlaup og ávaxta þeirra verður ekki notið á morgun en þolinmæði er dyggð og góður gripur getur verið biðarinnar virði.

Þau naut sem kynnt eru hér fyrsta sinni verða í kútum frjótækna um land allt að lokinni næstu sæðisáfyllingum eða útsendingum sæðis frá NBÍ á Hesti. Þess á því ekki að vera langt að bíða að fyrstu strá úr þeim Vals, Kæti, Bjarka, Risa, Golíat og Jólni verði komin í hendur manna.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...