Þau örfáu kíló af kaffibaunum sem runnarnir gefa af sér eru hreinsuð, ristuð og möluð af alúð og umhyggju af starfsfólki skólans og hellt upp á að íslenskum sið.
Þau örfáu kíló af kaffibaunum sem runnarnir gefa af sér eru hreinsuð, ristuð og möluð af alúð og umhyggju af starfsfólki skólans og hellt upp á að íslenskum sið.
Mynd / Guðríður Helgadóttir
Á faglegum nótum 7. maí 2024

Kaffisaga frá Reykjum

Höfundur: Ingólfur Guðnason, fagbrautarstjóri garðyrkjuframleiðslu.

Við Garðyrkjuskólann á Reykjum hefur ýmislegt verið reynt í gegnum tíðina til að auka fjölbreytni í ylræktun.

Ingólfur Guðnason.

Ein forvitnilegasta athugunin er efalaust kaffiræktunin sem hófst þar fyrir rúmum 70 árum og enn má sjá vísi af í Bananahúsinu á Reykjum. Um miðja síðustu öld og lengi síðan voru þjóðþekkt hjón, Hal og Halla Linker, áberandi í þjóðlífinu. Mest störfuðu þau þó í Bandaríkjunum. Hal Linker var þekktur þáttagerðarmaður í bandarísku sjónvarpi og þau hjón bæði. Hal var aðalræðismaður Íslands í Los Ageles og Halla tók við því embætti 1980. Þau tengjast ylræktarsögu okkar á forvitnilegan hátt.

Havaí kemur við sögu í íslenskri kaffiræktun

Hal ferðaðist víða um heim vegna starfa sinna og kom meðal annars til Havaí árið 1952. Þar kynntist hann kaffirunna þeim sem íbúar eyjanna rækta. Kaffirunni þessi er af Arabica-stofni, ræktaður í eldfjallajarðvegi í hlíðum eldfjallsins Mauna Loa, sérstaklega í Kona-héraði og ber nafn af því. Kona-kaffirunninn barst þangað frá Brasilíu árið 1828. Runninn blómstrar þar hvítum blómum í febrúar–mars og myndast í kjölfarið græn aldin sem verða fagurrauð er þau þroskast. Enn eru þessir kaffirunnar ræktaðir í Kona-héraði og þykja framúrskarandi að gæðum enda eitt dýrasta kaffi sem fyrirfinnst. Gilda þar afar strangar reglur um markaðssetningu Kona-kaffibauna til að koma í veg fyrir óheiðarlega markaðssetningu.

Í einni af Íslandsferðum þeirra Hal og Höllu Linker í ágúst 1952 færðu þau hjón Garðyrkjuskóla ríkisins að gjöf 12 unga Kona-kaffirunna, sem komið var fyrir í einu af gróðurhúsunum á Reykjum, ásamt nokkrum ananasplöntum. Hal Linker hafði mikið fyrir því að komast yfir plöntur af þessu tiltekna kaffiyrki, meðal annars fyrir milligöngu háskólans í Honolulu og ríkisstjórnar eyjanna, er tóku vel málaleitan hans. Plönturnar sem Hal eignaðist voru síðan fluttar til Filippseyja og þaðan til Lundúna. Þær komu loks til Íslands með Gullfaxa, flugvél Flugfélags Íslands, í september 1952.

Kaffirunnarnir eru af hinu nafntogaða Kona-yrki frá Havaí.
Kaffirunnar enn í fullu fjöri á Reykjum

Kaffirunnarnir lifðu þessa hreppaflutninga vel og var þeim komið fyrir í gróðurhúsi í Garðyrkjuskólanum á Reykjum þar sem auk annarra jurta voru, og eru enn, ræktaðir bananar. Var talið að íslenskur eldfjallajarðvegur hentaði þessu yrki vel. Þegar til kastanna kom reyndist uppskeran ekki duga til áframhaldandi stórræktunar hér á landi, eins og vonir stóðu til í upphafi. Tilraunin varð þó tilefni talsverðrar umfjöllunar um möguleika íslenskrar ylræktar í dagblöðum. Það þótti til dæmis tíðindum sæta er fyrstu kaffibaunirnar voru tíndar af kaffirunnum Bananahússins á Reykjum árið 1955. Í dagblaðinu Vísi 14. nóvember sama ár birtist frétt um þessa nýju ræktunartegund þar sem segir m.a.:

„Ekki taldi skólastjóri líklegt að kaffirækt myndi bera sig á Íslandi, en þó væri það ekki með öllu útilokað. Hann sagði það vera staðreynd að litir og bragð yrði eftir því sterkara sem norðar drægi á hnettinum. Og þess vegna væri heldur engan veginn fráleitt að hugsa sér það að hér yrði hægt að rækta kaffitegund, sem þætti betra en annað kaffi og mætti því selja á heimsmarkaði sem lúxusvöru, og þá um leið dýrara en kaffi er almennt selt.“

Það er skemmtilegt að á Reykjum hefur nánast árlega fengist ofurlítil uppskera af þeim kaffirunnum sem þar eru ræktaðir og eru af hinu nafntogaða Kona-yrki frá Havaí. Þau örfáu kíló af kaffibaunum sem runnarnir gefa af sér eru hreinsuð, ristuð og möluð af alúð og umhyggju af starfsfólki skólans og hellt upp á að íslenskum sið. Á Reykjum vaxa einnig nokkrar kaffiplöntur sem þroska gular baunir. Ekki er óhugsandi að heppnir gestir nái að njóta rjúkandi bolla af íslensku kaffi á sumardaginn fyrsta, en þá verður opið hús í Garðyrkjuskólanum og öllum almenningi er boðið í heimsókn.

Skylt efni: Garðyrkja

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...