Vilja fella niður lög um gæðamat
Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga um að fella brott lögbundið kerfi um gæðamat á æðardúni.
Í greinargerð með frumvarpinu segja þingmennirnir að lög um gæðamat á æðardúni sé byggð á gömlum viðskiptaháttum og að þróa þurfi verkunaraðferðir með tilliti til raunverulegra gæða æðardúns. Lögin nú kveða á um að allur æðardúnn skuli metinn og veginn af lögskipuðum dúnmatsmönnum eftir fullhreinsun og áður en kemur til dreifingar á markaði.
Í greinargerð kemur fram að lögskipaðir dúnmatsmenn á árunum 2021–2026 séu þrettán talsins. Í staðinn er lagt til að ábyrgð á gæðum æðardúns verði í höndum framleiðenda sjálfra, en til skoðunar komi að þeir setji gæðastaðla en Matvælastofnun yrði áfram gert að annast útgáfu á heilbrigðisvottorði.
Flutningsmenn frumvarpsins eru þau Ólafur Guðmundur Adolfsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason, Jón Gunnarsson, Hildur Sverrisdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Frumvarpið hefur áður verið lagt fyrir þingið en ekki verið afgreitt.