Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Það er ávallt stuð hjá dömunum í Kvenfélagi Eyrarbakka.
Það er ávallt stuð hjá dömunum í Kvenfélagi Eyrarbakka.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 25. apríl 2025

„Kvennamafían á Eyrarbakka“

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Kvenfélag Eyrarbakka var stofnað þann 25. apríl árið 1888 og því brátt einnar og hálfrar aldar gamalt. Samkvæmt fyrstu lögum félagsins var tilgangur þess að „hjálpa og hjúkra sjúkum og bágstöddum á Eyrarbakka á hvern þann hátt sem bezt gegnir og félagið álítur hagkvæmast“.

Í grein Önnu Sigurkarlsdóttur, sem birtist í tímariti Húsfreyjunnar árið 1959, kemur fram að á meðan fjáröflun sé „snar þáttur“ í starfseminni sé henni þó þannig háttað að kvöldvökur eru haldnar hálfsmánaðarlega, konum til skemmtunar. Þar sé glatt á hjalla og ber að gæta þess að þeir sem álíta það lélega skemmtun skulu athuga að „kvenfélögin eru einmitt það, sem við sjálfar gerum þau að, leiðinleg eða skemmtileg, það fer eftir því hvort við, þú eða ég, erum leiðinlegar eða skemmtilegar“.

Í dag tekur Kristín Eiríksdóttir, núverandi formaður kvenfélagsins, undir þessi orð og segir ævinlega glatt á hjalla enda félagsskapurinn góður.

Félagslífið er öflugt og snertir samfélagið á margvíslegan hátt.

Konur eru svo skemmtilegar og starfið ómetanlegt

„Ég byrjaði sjálf í félaginu fyrir tæpum þrjátíu árum en þetta hefur liðið svo hratt eins og ávallt þegar gaman er. Þetta er svo skemmtilegt, hér kynnist maður konum, vinnur með konum og konur eru svo skemmtilegar,“ segir Kristín hlæjandi, og greinilegt að konurnar á Eyrarbakka hafa ekkert breyst síðan Anna Sigurkarlsdóttir skrifaði grein sína fyrir 66 árum síðan.

„Grunnurinn er alltaf sá sami, félagið er stofnað til að styðja við konur og börn, menntun og menningu hér á Eyrarbakka. Þetta var sjómannaþorp og menn að drukkna frá fjölskyldum sínum sem sátu eftir. Þetta er mjög samheldið og kærleiksríkt samfélag.

Hér starfa líka björgunarsveit og slysavarnafélag sem hafa alla tíð verið mjög öflug. Ég var til dæmis, áður en ég fór í kvenfélagið, í stjórn slysavarnafélagsins, en þetta var í raun hluti af uppeldinu – að skila til samfélagsins. Hér eru allir til staðar fyrir alla sem er ómetanlegt enda aldrei að vita hvenær maður þarf sjálfur á því að halda yfir æviskeiðið.

Nú hef ég verið formaður síðan í apríl 2009 og við erum með ákveðið utanumhald hér á staðnum. Við sjáum m.a. um 17. júní með stuðningi sveitarfélagsins Árborgar, við sjáum um 1. maí kaffið, en helsta fjáröflunin hjá okkur er kannski sú að við sjáum um erfidrykkjur og erum til staðar fyrir fólkið okkar þegar það þarf á að halda. Svo styrkjum við bæði leikskólann og grunnskólann. Það er viss upphæð sem fer þangað en okkur þykir gaman að geta stutt við ferð hjá tíunda bekk til dæmis, útskriftarbekknum. En annars stjórnum við auðvitað ekki í hvað peningarnir fara, skólastjórnendur nýta þá til góða. Svo styrkjum við bágstaddar fjölskyldur fyrir jólin án þess að það fari hátt og það hefur verið vaninn frá stofnun kvenfélagsins (þeir einir vita sem njóta).“

Sögur kvenna skráðar

Kristín segir frá því að nú sé verið að skrifa sögu þessa merkilega kvenfélags, sem áætlað er að komi út árið 2028. Það er Kristín Bragadóttir, doktor í menningar- og bóksögu frá Háskóla Íslands, sem stendur í skrifunum, en hún er fædd og uppalin á Eyrarbakka og hefur áður m.a. skrifað Bakkadrottninguna, sem segir frá kaupmannskonunni Eugeníu Nielsen, sem var mikil stoð og frömuður samfélagsins á Eyrarbakka á árum áður. „Sagan er svo verðmæt, þetta er hluti af kvennamenningu sem er sterk hér á Íslandi sem betur fer.“

Kvennamafían við stjórn

„Það er gaman að segja frá því að Valgeir Guðjónsson söngvari er mikill vinur okkar og velunnari sem hefur komið og sungið fyrir okkur á fundum – hann kallar okkur kvennamafíuna á Eyrarbakka og vill meina að við stjórnum öllu! En það er nú svolítið grín. Við hins vegar reynum eftir fremsta megni að gera okkur glaðan dag á fundum.“

Félagið skiptist upp í nokkrar nefndir sem hittast reglulega og formenn yfir hverri nefnd, en Kristín segir að hlutverk hennar sé að „líma þetta saman“. Konurnar í kvenfélaginu eru yfir 65 talsins og aldursbilið frá fertugu og yfir áttrætt. Kristín segir þær nokkrar sem komi frá Stokkseyri, Hveragerði og í kring, enda hafa skemmtilegheitin og gleðin á Eyrarbakka greinilega smitað út frá sér frá árinu 1888.

Afkvæmasýning vinsæl

Þær kvenfélagskonur bregða gjarnan undir sig betri fætinum þegar þannig stendur á og hafa m.a. mætt í kvöldkaffi og skemmtun Kvenfélagsins Fjallkvennanna í Fella- og Hólakirkju auk þess að bjóða þeim heim sjálfar á jólafund. „Það var ægilegt stuð, þær komu með hljómsveitina sína, Gleðisveitina, og gerðu allt tryllt! Við bröllum annars ýmislegt. Þann 19. júní förum við árlega í menningar- og skemmtiferð auk þess sem við reynum að fara utan annað hvert ár og upplifa heiminn. Konurnar spara fyrir því bara sjálfar. Svo höldum við bingó, jólabasar og ýmislegt fleira. Jólaboð fyrir þá sem vilja mæta, það er t.d. vinsælt af þeim sem eru brottfluttir, auk þess sem það mætti segja að þá séum við kvennamafían með afkvæmasýningu,“ segir Kristín og hlær, en börn kvenfélagskvennanna mæta gjarnan í jólaboðin, ekki síst þau sem nú hafa búsetu annars staðar. „Konur eru svo góður félagsskapur, traustur og góður, okkur þykir gaman að vera saman og viljum hugsa vel um nærsamfélagið okkar,“ segir Kristín að lokum, um leið og hún hvetur konur um land allt til þess að ganga í kvenfélag.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt