Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Litlir og stórir – en allir knáir! Díana Rós Þrastardóttir, bóndi og bókari á Þórustöðum, með dótturina Heklu Lind Jónsdóttur. Í baksýn er stærsta og öflugasta kartöfluupptökuvél landsins og Jón Helgi Helgason, eiginmaður Díönu, rabbar við gest um kartöflubúskapinn. Þótt bjart sé yfir mannskapnum er búskapurinn bændum þungur í skauti og blikur á lofti.
Litlir og stórir – en allir knáir! Díana Rós Þrastardóttir, bóndi og bókari á Þórustöðum, með dótturina Heklu Lind Jónsdóttur. Í baksýn er stærsta og öflugasta kartöfluupptökuvél landsins og Jón Helgi Helgason, eiginmaður Díönu, rabbar við gest um kartöflubúskapinn. Þótt bjart sé yfir mannskapnum er búskapurinn bændum þungur í skauti og blikur á lofti.
Mynd / Steinunn Ásmundsdóttir
Viðtal 7. nóvember 2023

Kartöfluverð þarf að hækka

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Stærsta karöfluupptökuvél landsins stendur á hlaðinu á Þórustöðum í Eyjafjarðarsveit. Hún sparar mannafla og þar með launakostnað en þrátt fyrir það er reksturinn níðþungur.

Helgi Örlygsson tók við jörðinni Þórustöðum af föður sínum og afa og hefur stundað þar kartöflurækt nærfellt alla daga síðan ásamt fjölskyldu sinni og fleirum. Búið er að reyna ýmislegt til að hagræða í búskapnum en Helgi er ekki bjartsýnn á stöðu mála í íslenskum landbúnaði.

Vélin er af gerðinni Grimme SE 150-60. „Við keyptum hana 2022 og erum því búin að nota hana í tvö ár,“ segir Helgi Örlygsson, kartöflubóndi að Þórustöðum, þar sem lengi hefur verið einhver mesta kartöfluframleiðsla landsins. „Hún tekur upp tvær rásir, sem sagt tvöfalt meira en gamla vélin gerði, og þar af leiðandi erum við tvöfalt fljótari með hvern hektara.“

Þetta mun vera stærsta vél af þessari gerð hér á landi, að sögn Helga. Margar Grimme-vélar séu hér í notkun en þetta sé eina vélin sem taki upp tvær rásir í einu. „Það er einn að keyra og svo er einn og upp í þrjá-fjóra á vélinni, það fer náttúrlega eftir görðunum: í nýjum görðum þurfum við fjóra,“ segir hann og bætir við að í góðu landi og veðri geti þau tekið upp undir einn og hálfan til tvo ha á dag.

Vélarnar spara mannafla

Helgi útskýrir að það sem sé frábrugðið í kartöfluupptöku með stóru vélinni sé að kartöflurnar fari upp í stórt síló og svo beint í kassa á vagni. Þannig þurfi miklu sjaldnar en ella að stoppa og losa vélina. „Það er hagkvæmara að setja beint á vagninn og þessi vél hjálpar okkur mjög mikið og sparar mikla vinnu. Tvö síðustu ár höfum við getað minnkað launakostnað við upptöku heilmikið,“ segir hann.

Vélin kostaði um 30 m.kr. plús vsk. „Við keyptum þetta til að reyna að ná böndum á launakostnað. Það er eins með stafræna flokkarann inni, sem flokkar kartöflurnar eftir stærðum og útliti, hann sparar helling í launakostnaði. Þannig að sparnaður í launakostnaði vegur upp á móti vöxtunum af þessum tveimur vélum að verulegu leyti.“

Vinnslan er í gömlu og endurinnréttuðu fjósi og þar rúlla um þvottatromlur, færibönd og flokkara Gullauga, Rauðar, Premier, Milva, Solist, Rósagull og Helga.

Juku við að hvatningu stjórnvalda

Ekki er annar búskapur á Þórustaðajörðinni þar sem búa þrjár fjölskyldur. Auk Helga eru þar sonur hans, Jón Helgi, og kona Jóns, Díana Rós Þrastardóttir ásamt börnum og Jón Kristjánsson og Tinna Ösp Viðarsdóttir og börn.

Horft heim í hlað á Þórustöðum á Degi landbúnaðarins þegar gestum og gangandi var boðið heim að skoða kartöflubúskapinn, bæði á þvotta- og flokkunarvélar innan dyra og svo utandyra á vinnuvélar af öflugasta tagi.

Á jörðinni hafa verið ræktaðar kartöflur í ríflega öld og var farið að rækta þær til sölu á árabilinu 1950 til 1967. Þórustaðakartöflurnar eru seldar á Norðurlandi, dreift gegnum Samkaup og einnig seldar í Sölufélag garðyrkjumanna. Þær dafna vel í góðum jarðvegi sem hefur verið haldið frjósömum með skiptirækt.

Helgi, sem tók við af föður sínum og afa, hefur verið lengi í kartöflunum, eða frá 1977, framan af með konu sinni, Vigdísi E. Helgadóttur, sem lést árið 2018. Þórustaðir ehf. urðu til 2016 og þeir Jón Helgi og Jón Kristjánsson komu inn í reksturinn 2018.
Þau hafa árlega framleitt frá 200 upp í 500 tonn á 18-40 ha lands.

„Árið 2020 voru bændur hvattir í búvörusamningum til að auka grænmetisframleiðslu um 25%,“ segir Helgi og bætir við: „Við fórum í það og tókum upp undir 100% aukningu og stuðningurinn minnkaði! Við vorum í kringum 18–19 ha og fórum í 40. Það er engin forsenda fyrir rekstri af þessu tagi í dag, m.a. vegna þess að stjórnvöld hafa ekki staðið við gefin loforð.“

Blikur á lofti í búskapnum

Þegar spurt er hvort Þórustaðafólkið lifi af kartöfluræktinni hlær Helgi við, kannski nokkuð kalt, og segist aldrei hafa unnið eingöngu í kartöflum. Þær hafi verið hálfgert hobbí. Kannski sé landbúnaður almennt að verða hobbí. „Það eru allavega ekki laun í þessum búskap. Á þessu svæði eru nokkur kartöflubú og á þeim öllum eru bændur í aukastörfum með kartöfluræktinni,“ segir

Helgi, sem sjálfur er framkvæmdastjóri Kaffitárs á Akureyri.

Nýuppteknar kartöflurnar eru þvegnar í tromlu og fara svo í stærðaflokkarann og þaðan í umbúðir brakandi ferskar og fínar.

Hann segir, líkt og svo margir bændur í dag, að reksturinn sé afar þungur. „Þetta er vinnufrek starfsemi vegna þess að taka þarf upp allar kartöflurnar á haustin á stuttum tíma. Við vorum að borga eitt og hálft starf en stöðugildin eru í raun fjögur. En í dag höfum við ekki tök á að greiða nein laun. Þó að vaxtakostnaðurinn hjá okkur sé ekki sérlega hár þá sjáum við fram á að við þurfum að fara að fjárfesta meira en það er bara ekki hægt eins og staðan er í dag. Kostnaðarhækkanir á aðföngum s.s. áburði, útsæði, eldsneyti og varnarefnum hefur farið langt umfram hækkanir á afurðaverði, sem stýrt er af verslunum.“

Aðspurður hvernig honum lítist á búskap í Eyjafirði um þessar mundir svarar hann að bragði: „Engan veginn. Vaxtaumhverfið er náttúrlega fáránlegt. Þeir aðilar sem voru búnir að byggja upp á annað borð og höfðu litlar skuldir eiga kannski möguleika.
Það eru litlar skuldir hjá okkur en samt er þetta mjög erfitt því afurðaverðið er ekki nógu hátt og við fáum ekki að ráða verðinu.“ Stóru verslanakeðjurnar neiti að taka inn kartöflur ef afurðaverðið hækki eins og þyrfti. Þær segist þá bara geta fengið kartöflur einhvers staðar annars staðar eða flytji þær inn.

„Tollurinn var 60 kr. í ársbyrjun 2004 og er enn þann dag í dag, en ætti uppreiknað að vera 156 kr. miðað við verðlag. Tollverndin er þannig engin,“

hnýtir Helgi við.

Afurðaverð stendur íslensku kartöflunni fyrir þrifum

Hvað myndi Helgi vilja sjá gerast í íslenskri kartöflurækt, hafandi verið í henni til áratuga? „Ég vil sjá hækkun á afurðaverði um 120 kr. kg, hækkun verndartolla um 200 kr. kg og hækkun á jarðræktarstyrk,“ segir hann. „Það eru þrír aðilar á landinu sem ráða því hvort þeir kaupa vöruna þína eða ekki og einn af þeim með um 60% af markaðinum. Það er erfitt við að eiga þegar viðkomandi aðili vill ekki láta kartöflukílóið kosta meira en fjögur hundruð kall út úr búð. Þetta er auðvitað fákeppni!

Rósagull og smælki tilbúið til neytenda en ræktuð eru sjö yrki alls.

Hann segist vera búinn að hugsa þetta aftur á bak og áfram í langan tíma. „Ef maður verðleggur sig út af markaðnum þá verður ekkert tekið af manni og enginn vill kaupa afurðina. Ég held satt að segja að viðhorfið þurfi að breytast, hægt og rólega, og að kartöfluverðið þurfi að hækka. Við getum ekki miðað okkur við útlönd þar sem hægt er að fá ódýrt vinnuafl á vorin og haustin og uppskeran er helmingi meiri á hvern hektara, enda sumarið lengra en hér á Íslandi.“

Hann segir að vel geti verið að hægt sé að rækta kartöflur og selja í minna mæli ef menn hafi eitthvað annað að starfa með. Þá borgi einhver önnur starfsemi reksturinn.„Ég sé ekki að þessi grein haldi sér og held að æ fleiri muni hætta þessu ef ekkert breytist.“

Helgi segir fólk þó jafnan bera sig vel og það vilji ekki segja upphátt að allt sé heldur á niðurleið.
„Svo þegar ég spyr hvort menn reikni sér laun fyrir vinnuna sem þeir vinna við þetta þá verður fátt um svör. Þetta er bara ekki hægt.“

Allir gjörsamlega búnir að fá nóg

Díana Rós Þrastardóttir býr á Þórustöðum VII og hefur tekið drjúgan þátt í kartöflubúskapnum. Hún er ættuð úr Saurbæjarhreppi í Dalasýslu en foreldrar hennar eru sauðfjárbændur á Neðri-Brunná. Hún flutti að Þórustöðum vorið 2018.

„Eftir að ég kom hingað í kartöflubúskapinn er ég búin að vinna við hann,“ segir Díana Rós. „Bæði við vinnsluna á kartöflunum og við bókhaldið, en ég er viðurkenndur bókari. Síðan vinn ég í Kaffitári á Akureyri sem sölumaður.“ Hún segir lausan tíma fara í að sinna börnum þeirra Jóns Helga Helgasonar, manns hennar, og búskapnum, Hún grípi einnig í að baka, mála og auðvitað í sauðburð og smalamennsku eftir atvikum.

Vinnuálagið tekur allt frá manni

Aðspurð hvernig sé að vera ung kona í búskap segir hún það oft og tíðum bæði gaman og gefandi. „Það er gaman að geta verið með krakkana með í brasinu, en allt hefur þó mörk. Ég er fædd og uppalin í sveit og hef alltaf elskað þetta sjálf. En þó að manni finnist þetta skemmtilegt þá minnkar þessi tilfinning að njóta þegar vinnuálagið er að taka allt frá manni. Maður hefur unnið í kartöflunum fram að kvöldmat, svo setið í bókhaldinu fram eftir kvöldi og flestar helgar fara í vinnu,“ segir hún.

„Ég verð að segja að staðan er komin úr því að vera ekki góð í það að vera hreint út sagt hræðileg,“ segir Díana Rós Þrastardóttir, hér ásamt Heklu Lind, dóttur sinni á Þórustaðahlaði.

Díana Rós segir samstöðu milli bænda og vináttu. „Það er voðalega gott að búa í Eyjafjarðarsveit,“ bætir hún við. En henni líst ekki vel á stöðu íslensks landbúnaðar um þessar mundir. „Ég verð að segja að staðan er komin úr því að vera ekki góð í það að vera hreint út sagt hræðileg,“ segir hún og heldur áfram: „Maður er svo sem búinn að sjá það gerast alla ævi að það er ótrúlegt hvað hægt er að traðka á bændastéttinni. En núna eru allir gjörsamlega búnir að fá nóg, enda ekkert eftir til að gefa. Almenningur og stjórnvöld þurfa að fara að sýna þessu einhvern áhuga – maturinn birtist ekki bara úti í búð – það er fólk sem vinnur baki brotnu til að koma þessu þangað og á nánast engum launum. Íslenskur landbúnaður er að mínu mati að framleiða hreinustu og vistvænustu vöru sem þú getur náð þér í! Ætli það þurfi ekki að koma einhver erlendur, frægur leikari og segja að það þurfi að bjarga íslenskum landbúnaði til að eitthvað sé gert og fólk vakni,“ segir Díana Rós.

Verður að vera hægt að borga mannsæmandi laun

Hún segir að það verði að vera hægt að borga mannsæmandi laun. „Endurskoða þarf tollverndina og láta hana fylgja verðlagi – hún hefur ekkert breyst síðan 2004. Tryggingar þurfa að vera til staðar vegna uppskerubrests og tjóns. Bændur þurfa að fá betri kjör á vexti þannig að hægt sé að fjárfesta í betri útbúnaði og aðstöðu, bæði fyrir velferð dýra og heilsu bænda.“

Unnt þurfi að vera að fylgja þróun í landbúnaði án þess að fara á hausinn við það. Einnig þurfi að hjálpa eldri bændum að geta hætt búskap án þess að koma út í mínus. „Það er ekkert eðlilegt við það að jarðir með fullum rekstri séu á sama verði og einbýlishús í Reykjavík,“ segir hún jafnframt. „Einnig þurfa bændur að veðsetja í húsinu sínu fyrir lánum fyrir rekstrinum, þannig að ef reksturinn fer á hliðina þá tapar þú ekki bara jörðinni þinni heldur húsinu þínu líka,“ segir Díana að endingu og er hugsi yfir af hverju ekki sé sett veð í jarðirnar sjálfar.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt