Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Systurnar Kristín og María Marta Einarsdætur með Haganeslandið í baksýn. Þeim finnst nauðsynlegt að komast norður í æðarvarpið vor hvert.
Systurnar Kristín og María Marta Einarsdætur með Haganeslandið í baksýn. Þeim finnst nauðsynlegt að komast norður í æðarvarpið vor hvert.
Mynd / Eyrún Jónsdóttir
Viðtal 27. júní 2023

Erfið en yndisleg iðja

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Dúntekja er iðkuð víða um land. Hún er oft lýjandi en skapar mikil verðmæti því íslenski æðardúnninn þykir einhver sá allra besti.

Systurnar Kristín og María Marta Einarsdætur hafa farið í æðardúnstekju í Haganesi um árabil, einkum þó Kristín, sem er yngri þeirra systra. María Benediktsdóttir, amma þeirra, var frá Haganesi II sem stendur í Haganesvík í Fljótum, fyrir opnu hafi norðanvert á Tröllaskaga. Brautarholt, Haganes I og II vinna saman við æðarvarpið. Afkomendur Maríu Benediktsdóttur annast varpið í þrjú ár af hverjum tíu en aðrir afkomendur í Haganesi ll vinna hin sjö árin. Kristín fór því ung að sinna æðarvarpinu og gerir það enn af og til ásamt Maríu Mörtu.

Bændablaðið náði tali af þeim systrum þar sem þær dvelja í bústað sínum, Birkilundi í Haganesvík. Þær segjast hafa gengið varpið í fyrra en þetta sumarið séu þær á staðnum sér til yndis og hvíldar. Haganes er fremur flatlent, þýft og mýrlent, liggur að sjó og er milli tveggja vatna, Hópsvatns og Miklavatns. Æðarvarpið nær yfir stórt landsvæði. Aðspurðar um verklag við dúntekju lýsa þær systur því svo að í byrjun varps sé farið af stað miðmorguns og tekin með hamar, heftibyssa, flögg og prik. Flaggprik eru þá reist við hvert hreiður, og endurnýjuð eftir þörfum frá fyrra ári, og felld aftur í síðustu göngu, en æðarvarpið er gengið í allt að fimm skipti. Í fyrstu göngu er jafnframt hreinsað upp úr gömlum hreiðrum. „Þegar kollurnar eru komnar þá göngum við svæðið og teljum hreiðrin og ef dúnn er kominn og hann farinn að brúska svolítið út fyrir hreiðrið þá byrjum við að tína dúninn,“ segir Kristín. Þrjá til fjóra daga taki að ganga allt svæðið.

„Til að byrja með tökum við bara klípu, það sem „flöffar“ upp úr hreiðrinu,“ segi hún. „Í næstsíðustu göngu tökum við mikinn dún en skiljum botndúninn eftir.“ „En í síðustu göngunni tökum við allt ef farið er að springa út á eggjunum og kollurnar byrjaðar að unga út. Þá reytum við gras undir þær og setjum ungana þar og eggin. Þá erum við með tvo poka, einn fyrir botndún og annan fyrir betri dúninn,“ hnýtir María Marta við.

Systurnar segjast aldrei ganga í roki og þaðan af síður í rigningu. „Sumar kollurnar fljúga af hreiðrunum þegar við komum og þá gæti dúnninn fokið því hann er svo léttur. Og ekki göngum við heldur í rigningu því þá blotnar allt hjá þeim, greyjunum, og það viljum við ekki,“ segir María Marta.

Æðarungar og egg í hreiðri. Systurnar láta eggin yfirleitt vera því afföll hafa verið mikil í varpinu vegna ótíðar undanfarin vor.

Tímafrekt dútl

Gangan um varpið getur verið erfið. Ýmist eru það þúfurnar eða mýrin, sem hæglega er hægt að sökkva í upp að hnjám. „Maður er svo þreyttur þegar maður kemur heim eftir daginn að bakpokinn er bara látinn detta og maður fleygir sér flötum til að hvíla sig,“ segir María Marta og útskýrir að einnig þurfi að bera með sér talsvert af drykkjarvatni því svæðin sem gengin eru séu það víðáttumikil og hætt við vökvatapi í mikilli sól.

Notaðir eru hanskar úti í varpinu því kollurnar skíta á eggin ef þær fara af hreiðrunum. Lyktin af skítnum sé svo sterk að engin sápa dugi til að ná henni burtu.Þær gera þetta með gamla laginu: smíða sér kassa með neti utan um, langan og stóran, og búa til grindur. Dúninum er hent upp á þær og tættur til að fá loft í hann. Sé sólbjart og gola er hann hafður úti frá morgni og fram á dag, því sólarljósið sprengir skítinn úr dúninum upp að einhverju marki, en tekinn inn fyrir kvöldið svo ekki setjist saggi í hann. Þá er hafist handa við að hreinsa hann og fjarlægðar stórar greinar og lyng, einnig fjaðrir eftir föngum. Þetta sé tímafrek iðja og mikið dútl segja þær, þreytandi að standa og bogra og ekki fyrir alla. Auk þess kemur afar fínt ryk úr dúninum og þótt þær hafi reynt að vinna með grímu fyrir vitunum hafi það ekki gefist vel.

Dúnninn er svo sendur áfram í fullhreinsun. „Einu sinni fórum við alltaf með dúninn til Hafsteins út í Flatey, það var mjög skemmtilegt,“ segir Kristín og bætir við að síðast hafi þær skipt við Íslenskan æðardún ehf. í Stykkishólmi.

Vargur í véum

Kristín rifjar upp að fyrr á árum hafi þurft að standa tófuvakt meira og minna allan sólarhringinn. Ef sást til tófu var vafningalaust hringt í tófubana sveitarinnar, Jón á Þrasastöðum, sem kom þá og skaut.

Svæðið milli Hópsvatns og Miklavatns var girt fyrir fáeinum árum, með loðnunót, og hlið sett á veginn. Hefur það orðið til þess að tófuvaktir eru heldur minni. „Vandamálið hjá okkur er að kambur er milli sjávar og vatns; þar er gamli vegurinn ásamt brú yfir ósinn og tófan gæti komist yfir,“ bendir Kristín á.

„Við vorum að frétta að það er tófa í varpinu núna,“ segir María Marta. „Þær voru tvær og tófubaninn náði annarri en missti af hinni. Ef hann nær ekki þeirri sem eftir er þá þurfa þær sem eru í varpinu núna að vakta það og kalla Þrasastaðabónda út ef til tófunnar sést.“

Vargur er einnig í lofti og er það mávurinn og hrafninn. Þær segja afkomendur sem eigi riffla frá Haganesi I koma að vori og skjóta þá eftir föngum. Krían er hins vegar þeirra besti vinur og ver varpið. Ef kríurnar fljúgi upp í hópum og steypi sér niður til árásar viti þær að eitthvað sé á seyði.

Kollurnar hafa karakter eins og mannfólkið að sögn systranna. Sumar séu árásargjarnar og reyni að fljúga með manneskjuna sem ætlar að fara að bauka við hreiðrið í burtu. Aðrar standi upp úr hreiðri sínu, skíti yfir eggin með þóttasvip og gangi svo hnarreistar í burtu. Komi svo til baka þegar hreiðurplokki er lokið, lagi til og kvarti hástöfum yfir trufluninni. Enn aðrar liggi kyrrar og þá þurfi beinlínis að lyfta þeim af hreiðri, tylla þeim niður við hliðina á því og flytja þær svo til baka. Þær haldi þá áfram að liggja á eins og ekkert hafi í skorist.

Æðarkollan situr á eggjum sínum í um eða yfir 25 daga og fer helst ekki af nema stundarkorn til að drekka og svo ef dúntekjufólk á erindi við hana.

Undir náttúrunni komið

Á því svæði sem tilheyrir Haganesbæjum og Brautarholti voru hreiðrin áður tólf til þrettán hundruð talsins en telja nú um átta til níu hundruð. Tvö til þrjú þúsund hreiður kallast stórt varp.

Þær taka ekkert af eggjum og segjast nískar á það, því þær hafi orðið fyrir svo miklum skakkaföllum í varpinu á undanförnum árum. „Það er einkum út af veðurfari, aðallega rigningum,“ segir Kristín. Ef snjóar þá liggja kollurnar á hreiðrunum þangað til að hausinn fer á kaf, þær geta teygt hausinn dálítið langt, en um leið og þær sjá ekki upp fyrir snjóinn þá yfirgefa þær hreiðrin og við höfum lent í því. Það var alveg skelfilegt því við þurftum að moka upp mörg hreiður.“

María Marta bætir við að í fyrra hafi verið langvarandi vætutíð. „Í síðustu göngunni var maður með tárin í augunum því ungarnir voru rétt að skríða úr eggjum, allt dautt og kollan farin vegna kulda. Það var ansi sorglegt.“ Þær segja tíðina hafa farið versnandi. „Undanfarin vor hafa verið nokkuð köld og blaut. Þetta getur því verið erfitt og mikil áskorun í sjálfu sér. En við erum undir náttúrunni komnar með hvernig þetta er,“ segir Kristín.

Þær segjast hitta sömu kollurnar ár eftir ár og Kristín telur þær flestar staðbundnar. „Á tímabili hitti ég iðulega þá sömu, hún var niðri á Sandi sem við köllum, kambinum milli sjávar og vatns, og ég lenti alltaf á henni. Hún beit í skálmina á buxunum hjá mér og reyndi að fljúga með mig í burtu. Réðist á mig. En þær bíta ekki fast, eru náttúrulega ekki með tennur, en þær geta marið mann. Ég hef fengið smá skrámur. En þá tekur maður bara um hálsinn á þeim og heldur þeim svolítið frá meðan maður er að athafna sig við hreiðrið.“ Aðspurð um tilfinningu þeirra fyrir stöðu æðarstofnsins segja þær telja hann vera í lægð. „Ég hef enga sönnun fyrir því, bætir Kristín við, „en þetta er mín tilfinning. Miðað við fjöldann hjá okkur hlýtur hann að vera minni hjá öðrum líka.“

Ungviðið yndislegast

„Það besta við þetta allt saman finnst mér þegar ungarnir eru að koma út,“ svarar Kristín þegar hún er spurð um hvað henni þyki standa upp úr í dúntekjunni. „Ég tek alltaf neðan í bolinn hjá mér, bý til svona vasa og set ungana þar ofan í á meðan ég er að athafna mig og reyta. Svo set ég ungana aftur á og legg höndina yfir til að róa þá niður. Annars þarf maður að hlaupa á eftir þeim út um allt!“ Hún rifjar upp sögu af tófuvaktinni eitt árið.

„Innan varpsins er hóll sem heitir Helgahaugur. Ég fór upp á hann, sem ég gerði annars mjög sjaldan, og skimaði eftir tófu því af hólnum er gott útsýni. Ég sá tófu og hringdi í tófubanann.

Hann kom og skreið til að komast í færi við hana. Tófan sá hann og stökk af stað, hljóp upp á Helgahauginn til mín og straukst við mig. Fór svo niður hinum megin á harðaspretti og reigði sig upp til að gá hvort enn væri hætta. En þá var bara mættur annar gamall tófubani héðan úr sveitinni, sem hafði læðst að og skaut hana, greyið. Þetta var alveg ótrúlegt.“

María Marta hefur mest yndi af að vera í varpinu og innan um ungana en einnig að handfjatla dúninn. Hún hafi þó átt erfitt með hreinsunina framan af. „Ég var hér áður fyrr svo pödduhrædd, það er náttúrlega fló á þessu,“ segir hún og hlær.

Hún muni eftir því að Kristín hafi skilið hana eftir við að velta dúninum og hreinsa hann meðan hún fór sjálf út í æðarvarpið.

„Ég gat ekki hugsað mér að koma við dúninn því ég hefði getað fengið á mig pöddu. Ég brá því á það ráð að ná mér í hrífu til verksins. Þegar Kristín kom til baka horfði hún upp á mig að kraka með hrífunni í dúninum og þótti það nú ekki góð vinnubrögð!

Að hugsa sér – kerlan að hræra í dúni með hrífu – það var kostulegt, enda sprakk Kristín úr hlátri!“

Þær eru sammála um að það að vera úti í náttúrunni séu forréttindi og dúntekjan sé yndisleg þegar á heildina er litið.

Skylt efni: dúntekja | æðarfugl

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt