Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Sigurður Steinar Ásgeirsson og Hrafnhildur Árnadóttir eru eigendur
Frostþurrkunar í Þorlákshöfn.
Sigurður Steinar Ásgeirsson og Hrafnhildur Árnadóttir eru eigendur Frostþurrkunar í Þorlákshöfn.
Mynd / smh
Fréttir 19. apríl 2023

Verðmætasköpun úr vannýttum afurðum landbúnaðar, sjávarútvegs og landeldis

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í nóvember á síðasta ári hóf nýsköpunarfyrirtækið Frostþurrkun formlega rekstur á iðnaðarfrostþurrkstöð í Þorlákshöfn, sem er sú eina sinnar tegundar á landinu.

Ingimar Rafn Ágústsson frá VAXA Technologies og Sigurður Steinar lesa af mælum þurrkarans.

Starfsemin þar mun felast í framleiðslu á matvælum, innihaldsefnum í matvæli og til fæðubótar, en einnig er þar aðstaða til vöruþróunar. Eigendur stöðvarinnar eru þau Hrafnhildur Árnadóttir og Sigurður Steinar Ásgeirsson og tildrög þess að þau ákváðu að fara þessa leið í fyrirtækjarekstri, segir Hrafnhildur að megi rekja til þeirra eigin tilraunastarfsemi með matvælaframleiðslu. „Við ætluðum að prófa okkur áfram í eigin framleiðslu en komumst að því að ekki var hægt að fá þjónustu við frostþurrkun hér á Íslandi.

Eini þurrkarinn sem okkur bauðst til afnota var hjá Matís, sem var mjög lítill þurrkari og eiginlega útilokaði þær hugmyndir sem við vorum með í matvælaframleiðslu.

Þetta hefur því þróast með þeim hætti að við höfum skapað okkur starfsvettvang í frostþurrkun en lagt til hliðar upprunalegu hugmyndirnar sem við höfðum um matvælaframleiðslu,“ segir Hrafnhildur, en getur þess að þau séu þó enn með ýmsar aðrar framleiðsluhugmyndir í vinnslu.

Blágrænir spirulina smáþörungar nýkomnir út úr þurrkaranum.

Helsta aðferðin við kryddframleiðslu

Hrafnhildur segir að frostþurrkun sé helsta aðferðin í heiminum við framleiðslu á þurrkuðu kryddi og reyndar mörgum örðum tegundum matvöru.

Upphaflega var hún þróuð til að framleiða matvöru fyrir geimfara og er auk þess mjög þekkt framleiðsluaðferð fyrir „instant kaffi“. „Síðan hefur hún mikið verið notuð til að framleiða matvörur fyrir lengri fjallaferðir. Kosturinn við hana – og það sem hún hefur umfram aðrar þurrkaðferðir – er að hún varðveitir svo vel næringarefni, lífvirk efni, litarefni og bragðið auðvitað. Hún er svo þægileg líka við framleiðslu á dufti, flögum og slíku sem margir leitast eftir við framleiðslu á ýmsum vörum,“ segir hún og bætir við að það sé eiginlega hægt að frostþurrka allt. En það sem er ríkt af fitu eða sykri sé kannski ekki eins auðvelt að þurrka og annað.

Grænmeti, kjöt, fiskur og sjávargróður henti þessari aðferð sérstaklega vel og þá stækki heilsu- og fæðubótarvörumarkaðurinn hratt – og þetta sé einmitt ein helsta framleiðsluaðferðin í þeim vöruflokkum þar sem varðveisla á tilteknum efnum í framleiðsluferlinu skiptir öllu máli.

Áform um mikla stækkun

Rekstur stöðvarinnar hefur farið frekar hljóðlega af stað, til dæmis hefur ekki enn verið mikið fjallað um starfsemina í fjölmiðlum. Segir Hrafnhildur það skýrast eiginlega af því að það hafi verið svo mikið að gera. „Við vorum bara tvö saman í þessu í upphafi og því gafst ekki mikill tími né beinlínis þörf á því að vekja athygli á okkur. Við þurftum í raun ekki að fá meiri athygli þar sem við vorum strax með það mikið að gera og náðum vart að hafa undan.

En nú erum við komin með starfs- fólk og stefnum á að margfalda afkastagetu okkar á næstunni en við erum einmitt þessa dagana að undirbúa kynningu fyrir tilvonandi fjárfesta.Við þurfum utanaðkomandi fjárfestingu til að ná markmiðum okkar og koma upp varanlegu atvinnuhúsnæði, en það sem við erum núna í er til bráðabirgða. Áætlanir okkar ganga út á að reisa stóra verksmiðju í Þorlákshöfn þar sem við höfum í hyggju að framleiða sjálf afurðir til útflutnings auk þess að sinna miðlægri þjónustu við aðra matvælaframleiðendur.“

Aðaláherslan á nýtingu hliðarafurða

Þegar hún er spurð hvað þau sjálf ætli sér að framleiða og fyrir hverja, segir hún að þau horfi að mestu leyti til nýtingar á hliðarafurðum. „Þá á ég við frá landbúnaði, sjávarútvegi og landeldi en áform eru uppi um stór verkefni á því sviði hér í Þorlákshöfn. Við höfum einmitt fengið nokkra styrki til að þróa afurðir úr ýmiss konar hliðarafurðum og erum komin vel á veg með þá þróun.

Við munum til dæmis vinna hráefni fyrir heilsuvöruframleiðendur, svo sem úr vannýttum innmat frá kjötafurðastöðvum, en við ætlum okkur ekki endilega að þróa endavörurnar sjálf.

Það verður í höndum kaupenda afurðanna. Síðan er það afskurður, beinagarður og slóg úr landeldinu og frá sjávarútvegsfyrirtækjum, sem getur nýst í ýmislegt. Svo er til dæmis líka hægt að fá gott verð fyrir vandað hráefni til fóðurgerðar fyrir gæludýr – sá markaður er orðinn nokkuð stór.

Á undanförnum misserum höfum við lagt talsverða vinnu í að kortleggja möguleikana á þessum sviðum, hvar henti okkur best að vera með tilliti til þess hráefnis sem er í boði og markaðsaðstæðna. Þá erum við bæði að tala um á Íslandi og í útlöndum.“

Samtalið við fjárfesta

Tækjabúnaðurinn sem Frostþurrkun ætlar að fjárfesta í er bæði dýr og svo er hann einnig nokkuð orkufrekur.

Hrafnhildur segir að þau séu komin af stað í þá vinnu að afla fjárfesta en þau Sigurður voru einmitt á leiðinni á fjárfestahátíð á Siglufirði þegar blaðamaður ræddi við hana. „Þar fá frumkvöðlar tækifæri til að kynna verkefni sem snerta orkuskipti, hringrásarhagkerfið eða fullnýtingu auðlinda fyrir væntanlegum fjárfestum. Þar verða samankomnir allir stærstu fjárfestar á landinu á þessu sviði.“

Hrafnhildur og Sigurður eru komin með starfsfólk í vinnu við þurrkunina og stefna á að margfalda afkastagetu þurrkunarinnar á næstunni.

Samstarfsaðilar í garðyrkju og bætiefnaframleiðslu

Hún segir að um virkilega spennandi framtíðarverkefni sé að ræða sem þau hafi trú á að geti leitt til verulegrar verðmætasköpunar og orðið verðmætur farvegur fyrir hliðarafurðir úr flestum eða öllum greinum íslenskrar matvælaframleiðslu.

„Samstarf okkar með öðrum fyrirtækjum, sem eru alls konar, bæði stærri fyrirtæki og smærri, hefur aðallega falist í að nýta hliðarafurðir af einhverri tiltekinni framleiðslu þeirra. Aðallega er þetta eitthvað sem hægt er nota vegna næringargildis, sem fæðubótarefni til dæmis sem hægt er að hylkja. Sem dæmi um samstarfsaðila má nefna fyrirtækin Pure Natura og Saga Natura sem bæði eru bætiefnaframleiðendur og Jörth , sem nýverið setti á markað sína fyrstu vöru sem unnin er úr frostþurrkaðri broddmjólk.“ 

VAXA Technologies:

Frostþurrkaðir smáþörungar

Þegar blaðamaður var á ferð hjá Frostþurrkun í Þorlákshöfn var starfsmaður frá fyrirtækinu Vaxa Technologies að taka á móti frost­ þurrkuðum smáþörungum, sem framleiddir eru við Hellisheiðar­ virkjun. „Þetta eru spirulina þör­ ungar, örsmáir blágrænir þörungar sem við erum að láta þurrka fyrir okkur,“ segir Ingimar Rafn Ágústs­ son. „Mest af þessari framleiðslu sem við erum að þurrka hér fer til Bandaríkjanna. Þar erum við að klára að græja vinnslulínu sem snýst um að ná þessum tæra nát­ túrulega bláa lit og þá erum við komin með þetta eftirsótta nát­ túrulega litarefni. Það gengur vel og erum við á lokametrunum þar áður en við sendum græjurnar hin­ gað í Þorlákshöfn þar sem við æt­ lum að setja upp vinnsluaðstöðu,“ bætir Ingimar við.

„Í dag erum við að framleiða tvo vöruflokka úr áðurnefndum smáþörungum. Omega­3 töflur og svo Immunity Boost munnsprey. Omega­3 töflurnar koma úr Nan­ nochloropsis smáþörungunum. Við ræktum smáþörunga og sækjum Omega fitusýrur beint til frumfram­ leiðandans og er þrisvar sinnum meiri virkni á Omega­3 fitusýrum okkar en til dæmis fiskiolíu. Því stóra málið er að fiskar framleiða ekki Omega­fitusýrur heldur ber­ ast þær í fiska úr Nannochlorop­ sis smáþörungum. Því til viðbótar má nefna að við nýtum 99 prósent minna landsvæði og vatn en þarf til að framleiða aðrar Omega­3 vörur,“ segir Ingimar enn fremur.

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...